Gagnrýni til góðs

Gagnrýni til góðs

Það er dýrmætt að lifa í samfélagi sem þolir gagnrýni á sjálft sig, leyfir hana og notar hana til að breyta sér til góðs. Það er heldur ekki sjálfsagt. Það eru ótal dæmi um stjórnvöld, trúarleiðtoga og hreyfingar sem umbera ekki gagnrýni og bregðast hart við henni.

Við hvað á ég að líkja þessari kynslóð? Lík er hún börnum sem á torgum sitja og kallast á: Vér lékum fyrir yður á flautu og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð og ekki vilduð þér syrgja. Jóhannes kom, át hvorki né drakk, og menn segja: Hann hefur illan anda. Mannssonurinn kom, át og drakk, og menn segja: Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra! En spekin sannast af verkum sínum.“ Þá tók Jesús að ávíta borgirnar, þar sem hann hafði gert flest kraftaverk sín, fyrir að hafa ekki tekið sinnaskiptum. „Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gerst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gerðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku. En ég segi ykkur: Týrus og Sídon mun bærilegra á dómsdegi en ykkur. Og þú, Kapernaúm. Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Ef gerst hefðu í Sódómu kraftaverkin, sem gerðust í þér, þá stæði hún enn í dag. En ég segi yður: Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér.“

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Sjálfsmynd þjóðar Hvert liggur straumurinn? Hvar er besta veðrið? Hvar eru bestu tilboðin? Og hvar er besta stemningin?

Þessar spurningar hafa hljómað í aðdraganda helgarinnar, og enginn komist hjá því að taka meðvitaða afstöðu til þess hvort leggja eigi land undir fót eða halda kyrru fyrir. Verslunarmannahelgin er ein af þjóðarhátíðum Íslendinga - hátíðum sem fólk heldur upp á með fótunum og hjörtunum, með því að mæta og taka þátt. Mig langar að dvelja aðeins við það hvort þessar þjóðarhátíðir segja eitthvað um okkur sem þjóð og sem samfélag - og þá hvað?

Þjóðarhátíðir eru ekki endilega það sama og þjóðhátíð. Á formlegum þjóðhátíðum, eins og 17. júní, eru gjarnan fluttar ræður sem tjá hátíðarsjálfsmynd íslenskrar þjóðar sem unir grandvör, farsæl, fróð og frjáls við ysta haf. Sjálfsmyndin okkar kemur hins vegar ekki síður fram í aðdraganda og upplifun af þjóðarhátíðunum sem sumar spretta upp úr grasrótinni og hefðum í heimabyggð. Þannig er því til að mynda farið með Fiskidaginn mikla á Dalvík, Síldarævintýrið á Siglufirði og Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Aðrar þjóðarhátíðir eiga rætur sínar til réttindabaráttu minnihlutahópa, eins og Gleðigangan í Reykjavík þar sem tugir þúsunda safnast saman til að fagna fjölbreytileikanum í samfélaginu okkar. Menningarnóttin er líka þjóðarhátíð, það eru aðventan og jólin líka.

Það er manneskjunni eðlislægt að halda hátíð og gera sér glaðan dag. Hátíðirnar geta haft trúarlega vídd, skírskotun í sögu þjóðar, þær gera persónulegum áföngum skil, svo sem afmælum, brúðkaupum og útskriftum. Félagsfræðin útskýrir hvernig hátíðir þjóna þörf okkar til að gera okkur dagamun, rjúfa hversdaginn, skipta um umhverfi og hegða okkur öðruvísi. Hátíðir tjá og móta það hver við erum og hvað við viljum.

Þess vegna er það áhugavert að skoða þessar hátíðir - því þótt lærdóm megi draga af því sem kemur fram í ræðu og riti á formlegum þjóðhátíðum, kemur sjálfsmyndin okkar miklu betur fram í lífinu sjálfu.

Verslunarmannahelgi Hvað er sagt um Verslunarmannahelgina? Guðmundur Andri Thorsson póstaði þessari stöðu á facebook síðu sinni í aðdraganda helgarinnar, þegar umræðan um húkkaraballið í Eyjum reis sem hæst: "Guð, gefðu mér æðruleysi til að lifa með fréttum af Gilz, kjark til að umbera fréttir af Þjóðhátíð í Eyjum og vit til að greina þarna á milli."

Það er óhætt að segja að við fáum bæði jákvæða og neikvæða mynd af hátíðahöldunum þessa helgi. Það jákvæða er að fólk kemur saman á fallegu stöðum og upplifir dulmagn náttúrunnar og gleðina yfir hvert öðru. Maður er manns gaman. Staðir lifna við. Ungt fólk tengist og kynnist. Við heyrum líka af því sem aflaga fer. Fréttamat almennt virðist hneigjast að því sem er neikvætt og fjölmiðlar taka stundum að sér að vera eins og hneykslunargjörn frænka sem leggur sig eftir því smæsta sem fer úrskeiðis, og sér ofsjónum yfir öllu sem er gert og sagt, öllu sem er étið og drukkið, keypt og eytt.

En stundum eru fjölmiðlar farvegur fyrir gagnrýni sem er nauðsynleg og bjargar lífum. Fjölmiðlar hafa gegnt gríðarlega mikilvægu hlutverki í að vekja til vitundar um áhrif og afleiðingar nauðgana og annars ofbeldis, sem þrífst í skjóli glaums og hömluleysis helgarinnar. Það gera þeir meðal annars með því að segja sögur þeirra einstaklinga sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og ljá rödd þeim sem benda á hvað má betur fara í undirbúningi, viðbrögðum og orðræðu í kringum útihátíðir helgarinnar.

Við vitum ekki enn hvort þessi Verslunarmannahelgi muni líða án þess að einhverjum hafi verið nauðgað. Nauðgun yfirskyggir gleðina og skemmir hátíðina. Og hún er engum að kenna - öðrum en þeim sem nauðgar.

Drottinn miskunna þú oss.

Það er dýrmætt að lifa í samfélagi sem þolir gagnrýni á sjálft sig, leyfir hana og notar hana til að breyta sér til góðs. Það er heldur ekki sjálfsagt. Það eru ótal dæmi um stjórnvöld, trúarleiðtoga og hreyfingar sem umbera ekki gagnrýni og bregðast hart við henni.

Pussy Riot Þessa dagana er verið að sýna í Bíó Paradís heimildarkvikmynd um Rússnesku pönksveitina Pussy Riot og gjörninginn í Frelsarakirkjunni miklu sem varð til þess að þrír meðlimir hennar voru fangelsaðir og dæmdir. Myndin er áhugaverð fyrir margra hluta sakir og tengist stórum spurningum sem samtíminn fæst við. Til að mynda um mannréttindi, spillingu og samkrull stjórnvalda, trúarbragða og dómstóla.

Sigríðar Guðmarsdóttur prestur skrifar um pönkbænina á knúz.is: "21. febrúar 2012 reyndist ekki venjulegur dagur í dómkirkju Krists frelsara...... Fjórar ungar konur sem allar eru meðlimir í femínísku pönkhljómsveitinni Pussy Riot réðust inn í helgidóminn í skærum kjólum og með lambhúshettur fyrir andlitinu. Þær stilltu sér upp á tröppurnar fyrir framan íkonostasinn (helgimyndahliðið þar sem almenningur má ekki koma), fjórar konur á yfirráðasvæði vígðra karlmanna. Þær signdu sig, krupu í bænastellingu, fluttu frumsamda pönkbæn og ákölluðu heilaga guðsmóður." Tilvitnun lýkur.

Bænaákall kvennanna til Maríu guðsmóður var um að gerast feministi og berjast gegn sitjandi valdhöfum og kirkjuleiðtogum sem styddu þá. Þessari pólitísku, trúarlegu og feminísku gagnrýni var mætt af hörku af yfirvöldum sem og framámönnum rétttrúnaðarkirkjunnar og fyrir hana voru konurnar dregnar fyrir dóm og dæmdar til fangelsisvistar.

Gagnrýni Jesú Önnur saga af samfélagi og valdhöfum sem ekki höndla gagnrýni kemur til okkar í Nýja testamentinu. Jesús frá Nasaret helgaði líf sitt þjónustunni við náungann, leysti, læknaði og lífgaði. Hann gekk á undan að breyta samfélaginu til mannúðar og mannvirðingar og þurfti í því skyni að ganga gegn viðteknum gildum og lögum. Það gerði hann með því að samneyta og umgangast fólk sem naut engrar virðingar og engra réttinda. Sú ganga endaði á krossi. Baráttan fyrir mannúð kostar hugrekki og sannfæringu. Hún leyfir engan afslátt en kallar fram hin hörðustu viðbrögð.

Hið óárennilega guðspjall dagsins kallast á vissan hátt á við óvægna umræðu dagsins í dag. Oft tölum við eins og illt umtal og rangfærslur séu fyrst tilkomnar með bloggi og samfélagsmiðlum - en hér fáum við innsýn inn í það hvernig umhverfið afgreiðir þá sem stíga inn í það með erindi og til að láta til sín taka, löngu fyrir þann tíma:

"Jóhannes kom, át hvorki né drakk, og menn segja: Hann hefur illan anda. Mannssonurinn kom, át og drakk, og menn segja: Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra!"

Viðbrögðin eru hörð. Þau - eins og krossinn - eru þess vegna áminning um að hið góða er hvorki ókeypis né létt - og hvatning um að leggja okkar af mörkum til þess að gera heiminn betri. Krossinn er gagnrýni á það sem miður fer og tákn um frelsi okkar til að breytast sjálf og breyta heiminum. Við tökum þeirri gagnrýni eins og þroskaðar manneskjur - förum ekki í vörn og lokum á það sem okkur er bent á heldur göngum í okkur og breytum til hins betra.

Hugsum okkur breytinguna sem hefur orðið í samfélaginu okkar á stöðu samkynhneigðra sem hafa á stuttum tíma stigið af jaðri samfélags og því að vera óhreinu börnin okkar, yfir til þess að leiða eina fjölmennustu þjóðarhátíð landsins sem er Gay Pride, sem er flaggskip fjölbreytileikans á Íslandi í dag.

Korasín og Betsaída - Ísafjörður og Heimaey Guðspjallið kallast einnig á við fréttaflutning helgarinnar, sem einkennist jú svo mjög af staðarheitum og lastalistum þeim tengdum:

"Þá tók Jesús að ávíta borgirnar, þar sem hann hafði gert flest kraftaverk sín, fyrir að hafa ekki tekið sinnaskiptum. „Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gerst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gerðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku. En ég segi ykkur: Týrus og Sídon mun bærilegra á dómsdegi en ykkur. Og þú, Kapernaúm. Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. "

Hér hljómar Jesús eins og fjölmiðlarnir gera stundum - gagnrýninn og neikvæður, jafnvel refsandi. En hvað gagnrýndi hann? Hvað átti sér stað í þessum borgum sem kallaði fram þetta óþol í þeirra garð. Var það nauðgunarmenning þess tíma, ofdrykkja og ofbeldisdýrkun? Spilling og ranglæti? Erum við nógu þroskuð til að taka á móti þessari gagnrýni þegar henni er beint að okkur sjálfum eða pökkum við í vörn og höfnum henni sem öfgum og óviðeigandi?

Stundum þarf að gagnrýna. Stundum á gagnrýnin rétt á sér. Líka þegar hún beinist að okkur sem þjóð og því hvernig við höldum hátíð. Líka þegar hún beinist að okkur sem kirkju og hvernig við stöndum okkur í köllun okkar til að lifa í þágu heimsins. Þá getum við brugðist við eins og þroskaðar manneskjur sem taka málefnalegri gagnrýni og breyta til hins betra.

Við skulum þiggja sjálfsmynd okkar frá honum sem setti mannúð og mannvirðingu efst á blað, þótt það kostaði hann lífið.

Látum þjóðarhátíðirnar okkar, hvar sem við erum, spegla veruleika sem færist nær því að virða og elska náunga okkar. Mættu þær verða vörður sem við stöldrum við, íhugum hver við erum og hvernig við erum sem þjóð, rýnum til gagns og leggjum grunn að betra samfélagi mannúðar og mannvirðingar allra.

Dýrð sé Guði föður syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.