Í húsi föðurins - í skugga Drottins

Í húsi föðurins - í skugga Drottins

Yfir jóladagana skoðum við atburði sem snerta fæðingu og bernsku Jesú. Jesús fæddist í skugga yfirvalds sem sat um líf hans. Jólin eru ekki öll einn lofsöngur og gleði í kirkjunni. Stutt er í myrkrið, ofsóknir og erfiðleika. Öll heimsbyggðin hefur lifað síðast liðið ár í skugga sameiginlegs óvinar, sem er bæði ósýnilegur og skæður. Við lifum í mismunandi skugga. Við höfum það gott Íslendingar. Hjá okkur er trúfrelsi, skoðanafrelsi og tjáningarfrelsi. Við höfum tækifæri til þess að taka sömu afstöðu og Jesús tólf ára. Það er mikilvægt að þekkja stöðu sína sem Guðs barn.

Sunnudagur milli nýárs og þrettánda 2020

Sunnudagur milli nýárs og þrettánda - Í vernd Guðs / Guðs hús



Prédikunartexti: Lúk 2.41-52

Í húsi föðurins - í skugga Drottins

Jólin eru brátt liðin. Þau hafa verið um margt sérstök, því við höfum lifað í skugga kórónuveiru og náttúruhamfara, sem hafa skekið líf eintaklinga og fjölskyldna, já allra landsins barna. Hugur okkar er hjá Seyðfirðingum og öðrum sem hafa farið illa út úr þeim hörmungum sem gengið hafa yfir okkar þjóð.

Boðskapur jólanna er að konungur konunganna, ljós heimsins, hafi fæðst sem lítið barn og verið lagt í jötu.

Yfir jóladagana skoðum við atburði sem snerta fæðingu og bernsku Jesú.

Englar og menn koma við sögu sjálfrar fæðingarinnar. Guðspjallamennirnir Lúkas og Mattheus rekja atburðina hvor með sínum hætti. Eftir atburðina sem tengdust fæðingu Jesú, var hann færður í musterið á sjöunda degi og umskorinn.  

Jesús fæddist í skugga yfirvalds sem sat um líf hans. Rétt eftir fæðinguna urðu foreldrar hans að flýja undan Heródesi konungi. Þau flýðu til Egyptalands. Þegar Heródes áttaði sig á því að vitringarnir hefðu ekki komið til hans skilaboðum um hvar barnið væri, lét hann myrða öll sveinbörn tveggja vetra og yngri í nágrenni Betlehems. Í Egyptalandi bjuggu þau þar til Heródes var allur. Þá fluttu þau á ný til Ísraelslands. En vegna þess að Arkelás sonur Heródesar hafði tekið við af honum, þorðu þau ekki öðru en að setjast að í Nasaret sem var í öðru konungdæmi. Þar ólst Jesús upp.

Jólin eru ekki öll einn lofsöngur og gleði í kirkjunni. Stutt er í myrkrið, ofsóknir og erfiðleika. Þannig er annar dagur jóla helgaður píslarvottinum Stefáni. Hann lét lífið vegna trúarinnar á Jesú. Hann játaði trú á Jesú Krist og var grýttur til bana. Barnadagurinn, fjórði dagur jóla, segir frá barnamorðunum í Betlehem. Þannig vitna textar jólanna bæði um gleðina sem tengist komu Krists í heiminn, en einnig um þær ofsóknir og dauða sem tengdust honum. Börnin liðu saklaus og Stefán var grýttur vegna trúar sinnar.

Í skugga

Öll heimsbyggðin hefur lifað síðast liðið ár í skugga sameiginlegs óvinar, sem er bæði ósýnilegur og skæður. Við þökkum Guði fyrir, að nú þegar er byrjað að bólusetja fyrir veirunni. Smám saman mun lífið færast í eðlilegt horf. Þá mun vera gott að geta komið saman á ný, án ótta við að smitast eða vera völd að smiti.

Við lifum í mismunandi skugga. Sumir lifa í skugga fátæktar eða ofsókna, aðrir fjalla, sem hafa svikið þau. En þannig komst ungur Seyðfirðingur að orði um fjallið, sem hann hafði alist upp undir. Skuggi ógnar er skelfilegur. Þess vegna er svo mikilvægt að eiga mynd af annars konar skugga, sem gefur öryggi og frið.

Í Davíðssálmi 17 segir: „Drottinn, Varðveit mig sem sjáaldur augans, fel mig í skugga vængja þinna" (Ds 17:8). Drottinn er beðinn um að vernda og skýla eins og ungamóðir sem safnar ungum sínum undir vængi sína.

----- 

Jesús fékk að fara til Jerúsalem og í musterið vegna þess að foreldrar hans töldu sig örugg um líf hans. Skuggi þeirra sem ofsóttu hann vofði ekki lengur yfir honum.

Hér í Breiðholtskirkju er Alþjóðlegi söfnuðurinn til húsa ásamt heimasöfnuðinum. Hann tilheyrir þjóðkirkjunni og byggir á lútherskum grunni. Margir sem koma til okkar hafa gengið í gegnum ofsóknir og sumir pyntingar vegna þess að þau eru kristin eða iðka trú sem ekki er stjórnvöldum þóknanleg. Aðrir eru á flótta undan styrjaldarátökum í heimalandi sínu. Fleira mætti nefna. Þetta fólk þráir friðsamt líf. Þráir að fá að koma til kirkju, koma til Guðs nákvæmlega eins og þau eru. Orð Guðs í pistli dagsins eru handa þeim og okkur öllum: „ Áður en grunnur heimsins var lagður útvaldi hann oss í Kristi að hann hefði oss fyrir augum sér heilög og lýtalaus í kærleika.“ Guð lítur á hjarta mannsins en ekki það sem maðurinn sér hið ytra (1. Sam. 16.7,8). Það eru forréttindi að fá tækifæri til að aðstoða fólk á flótta við að eignast betri framtíð, framtíð í öryggi og frelsi. Við höfum það gott Íslendingar. Hjá okkur er trúfrelsi, skoðanafrelsi og tjáningarfrelsi. Ég held að við áttum okkur ekki alltaf á þeim miklu lífsgæðum, sem fólgin eru í þeim mannréttindum sem við njótum. Þau eru okkur svo sjálf sögð. Fyrir þau megum við þakka.

Í húsi Guðs

Fyrir ári síðan var Breiðholssöfnuður í skugga kvíða, því kirkjuhúsið lá undir miklum skemmdum og við áttum ekki fé til viðgerða. En nú getum við glaðst á ný. Viðgerðum á Breiðholtskirkju lauk fyrir nokkrum vikum. Musteri Guðs, Breiðholtskirkja, lekur ekki meir. Við fögnum og höfum helgihald á nýjan leik hér á efri hæð kirkjunnar. Þó verður enn meiri gleði og fögnuður er við getum komið fleiri saman og átt samfélag eftir að sóttvarnarreglum verður aflétt. Við erum þakklát stjórn Jöfnunarsjóðs kirkjunnar fyrir stuðninginn. Án fjár úr honum hefðum við ekki getað lagfært kirkjuna. Einnig koma endurgreiðslur á virðisauka af allri vinnu sér einkar vel. Fyrir gjafafé vina höfum við getað sett pípuorgelið upp á nýjan leik, hreint og tært, en það þurfti að taka stóran hluta þess ofan í viðgerðunum. Kirkjan á sér marga vildarvini. Þeim viljum við þakka. Það er ekki sjálfgefið að eiga slíka vini.

Margt hefur verið rætt um aðskilnað ríkis og kirkju, aðskilnað trú- og lífsskoðunarfélaga og ríkisins. Margir vilja að sem minnst samband sé þar á milli. Undir það get ég tekið. Hvert trúfélag og lífsskoðunarfélag á að ráða málum sínum sjálft, sé það gert innan lögmæltra marka. En þrátt fyrir þetta hefur ríkissjóður öll þessi félög í greip sinni gegnum sóknargjöldin. Þjóðkirkjan er elsta trúfélag á Íslandi og það lang fjölmennasta. Með lögum um sóknargjöld tók ríkið að sér innheimtu og útdeilingu þeirra. Þau gjöld eru reiknuð samkvæmt lögum sem hlutdeild af tekjuskatti ár hvert. Það sorglega og óréttláta er, að ríkissjóður hefur haldið eftir stórum hluta af sóknargjöldunum frá því fyrir hrun. Þjóðkirkjan hefur alla tíð haldið því fram að sóknargjöld séu félagsgjöld, en ríkið ætíð farið með þau sem nefskatt sem það getur útdeilt að eigin vild. Erfiðleikar fámennrar sóknar eins og Breiðholtssóknar eru miklir, því sóknargjöldin duga ekki fyrir rekstri og safnaðarstarfi án aðstoðar. Það er því réttlætismál að stjórnvöld leiðrétti sóknargjöldin. Það er söfnuðinum okkar lífs nauðsyn. Við það myndum við geta haldið úti okkar góða safnaðarstarfi, rekið kirkjuna og haldið henni við. Öll trúfélög og lífsskoðunarfélög í landinu myndu njóta góðs af þeirri leiðréttingu.

Í húsi föðurins

Hann varð eftir í musterinu. Þegar foreldrar hans loksins fundu hann, svaraði hann þeim: "Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?" Jesús virðist stein hissa á foreldrum sínum. Ef við lítum fram hjá ótta foreldra hans og kvíða, undrun og harmi, yfir því að hann skilaði sér ekki áleiðis heim, þá er þessi frásögn af Jesú í musterinu mjög upplýsandi fyrir þroskaferil hans. Tólf ára gamall er hann fullviss um stöðu sína. "Mér ber að vera í húsi föður míns."

Það er annað sem er eftirtektarvert. María móðir hans segir: "Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin." Jesús svarar: "Mér ber að vera í húsi föður míns." Hann áréttar það sem hann átti eftir að kenna okkur síðar, að Guð er faðir hans. Það er hjá honum sem Jesús á að vera. Hann vill vera í nærveru hans, í skugga vængja hans. Fyrstu orðin sem höfð eru eftir Jesú eru þau að Guð sé faðir hans.  

Við höfum tækifæri til þess að taka sömu afstöðu og Jesús tólf ára. Það er mikilvægt að þekkja stöðu sína sem Guðs barn. Í Jesú Kristi, í trúnni á hann, erum við Guðs börn. Það er vilji hans.

Drengurinn Jesús, veit hverjum hann tilheyrir. Hann tilheyrir föður sínum og ákvað að dveljast sem lengst í nærveru hans fyrst hann var á annað borð kominn til Jerúsalem. Þar er einnig okkar staður. Í fangi Guðs, í nærveru hans, hjá honum. Eitt í honum, en ekki endilega eins.

Það er manneskjunni eðlislægt að leita að tilgangi og merkingu í lífinu. Kristin trú leiðir okkur í gegnum lífið með Jesú okkur við hönd. Hún er lykill á túlkun á því sem fyrir kemur. Þó er afar mörgum spurningum ósvarað. Sérstaklega í glímunni við hamfarir, sjúkdóma og hörmungar.

Eitt er þó víst að traust á nærveru Guðs, kærleika Jesú Krists, mitt í erfiðleikunum er lykill að merkingu. Bænin um handleiðslu og fullvissan um kærleiksríka hönd skipta sköpum. Guð er með okkur í veikindum og erfiðleikum. Jesús gengur við hlið okkar og ber okkur uppi er við erum veikust. Þegar við deyjum tekur hann á móti okkur. Hann er Orðið sem varð hold, sá sem allt vald hefur á himni og jörðu. En um leið sá sem þjáist og deyr á krossi, til að rísa upp til nýs lífs. Í anda sínum er hann hjá okkur, innra með okkur. Við erum musteri hans.

Sr. Valdimar Briem orðar leitina á þennan hátt:

 Vér leitum að Jesú, en hann er hér

í húsi síns föður kæra.

Í helgidóm bent oss hingað er

með hljóminum klukkna skæra.

Hér lýsir hans orð, hans blessað borð

hér blessun oss hefu'r að færa.

 

Vort hjarta sé musteri heilagt það,

er Herrann í bústað eigi,

og hvenær sem leitum honum að,

þar hann ætíð finna megi,

svo viskan og náð þar verði sáð,

er vaxi með hverjum degi.

 (Sálmur 112, Sb. 1886 - Valdimar Briem)

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.