Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim, sem sendi mig, hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms, heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sú stund kemur og er þegar komin, að hinir dauðu munu heyra raust Guðs sonarins, og þeir, sem heyra, munu lifa. Eins og faðirinn hefur líf í sjálfum sér, þannig hefur hann og veitt syninum að hafa líf í sjálfum sér. Og hann hefur veitt honum vald til að halda dóm, því að hann er Mannssonur. Jh.5.24–27
Um þessar mundir eru áramót í kirkjunni, en algengast er að gera meira úr fyrsta sunnudegi í aðventu sem upphafi kirkjuárs, heldur en síðasta sunnudegi kirkjuársins, deginum í dag, sem markar lok kirkjuársins. Dagurinn í dag er til þess fallinn að líta til baka, en á næsta sunnudag horfa vonandi allir fram á veginn til nýs kirkjuárs með von og trú og gleði.
Það er fagnaðarefni að þessu kirkjuári skuli nú vera að ljúka, því það hefur verið afar erfitt fyrir söfnuðinn og alla sem hér starfa.
Eigi að síður er rík ástæða til að þakka söfnuðinum fyrir ótal margar góðar stundir hér í kirkjunni og í safnaðarstarfinu á þessu liðna ári.
Ég er sérstaklega þakklátur fyrir þann afgerandi stuðning sem söfnuðurinn sýndi sitjandi sóknarnefnd á aðalsafnaðarfundinum í ágústlok.
Eins þakka ég gleðistundir með fjölskyldum skírnarbarna og stundir með fjölskyldum syrgjenda, sem óhjákvæmilega fylgja starfinu. Þá má einnig minna á gott samstarf við heilan árgang unglinga, sem gekk fyrir gafl á vordögum og ég veit að mörg hver og vonandi öll, minnast fermingarinnar með gleði. Oftar en ekki tóku kór og organisti og annað starfsfólk safnaðarins þátt í þessu starfi og vil ég enganveginn láta hjá líða að þakka þeim samstarfið.
Ég vek athygli á því að litur þessa dags er grænn. Í dag lýkur hinu svokallaða hátíðarlausa tímabili kirkjuársins sem einkennist af græna litnum. Hann táknar vöxt og þroska og hefur í sér fólgna von. Það er óendanlega mikilvægt að tapa ekki voninni.
Fyrir fáum árum var textum þessa dags breytt. Áður var fjallað um ummyndun Krists þennan dag, þá heyrði hvíti liturinn til, en nú eru allir textar dagsins tengdir dómnum. Það má kallast rökrétt að fjalla um dóminn á síðasta sunnudegi kirkjuársins. Dómurinn er vissulega það sem við öll eigum í vændum að lokum.
Guðspjall dagsins er þó langt frá því að vera án vonar, þótt það fjalli um dóminn, því að réttlátur dómur felur í sér von.
Í guðspjallinu segir: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim, sem sendi mig, hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms, heldur er hann stiginn frá dauðanum til lífsins." Jóh. 5:24. Eins og þið heyrið, þá er kveðið skýrt á um það að dómurinn mun verða. En það er algjörlega óljóst hvenær af því muni verða. Við getum vissulega þakkað Guði fyrir það langlundargeð og þolinmæði sem hann hefur þegar sýnt okkur í þeim efnum. Það getum við nefnt náð. Það að standa undir náðinni þýðir einnig að sérhver maður verður að vera þess búinn á hverjum tíma að mæta örlögum sínum.
Áramót kirkjuáranna og textar dagsins, ásamt því sem framundan er, minna okkur vissulega á mikilvægi trúarinnar og mikilvægi þess að taka afstöðu til hennar. Í textanum kemur það skírt fram að: ..sá sem trúir.. hefur eilíft líf.. og kemur ekki til dóms… Hann er stiginn frá dauðanum til lífsins!
Þannig boðar textinn bæði vonina og þann sannleik að við stöndum undir náðinni. Vegna þess að Guð er góður þá munum við fá réttlátan dóm. Þeir sem trúa, munu fá að lifa. Að standa undir náðinni þýðir samt ekki að það sé óhætt að syndga upp á náðina, eins og kallað er.
* * *
Sá dómur sem textinn talar um er í flestum greinum frábrugðinn mannlegu dómþingi. Það er vandasamt hlutskipti að fella dóma, en oft hættir okkur mönnum til að vera fljótir til og kynna okkur ekki mál til hlýtar áður en dómar eru felldir um menn og málefni. Er slíkt stundum nefnt “dómsýki”. Einnig hef ég veitt því athygli hversu oft það kemur fyrir í kappleikjum að dómararnir eru bornir óhróðri og kennt um ef úrslit kappleikjanna eru mönnum ekki þóknanleg. Verða þeir jafnvel fyrir aðkasti af þeim sökum.
Til marks um mikilvægi dómstólanna og réttlætisins sem þeir þurfa að gæta, bendi ég á að hvern einasta sunnudag er í almennu kirkjubæninni beðið fyrir dómendum og/eða dómstólum landsins. Við biðjum þess og ætlumst til þess að þeir stuðli að því í dómum sínum að réttlæti ríki.
Af þessum sökum vakti sérstaka athygli mína lesendabréf sem birtist í Morgunblaðinu á föstudaginn var undir yfirskriftinni “Bæn fyrir dómstólum og lögmönnum sem flytja mál.” Greinin er skrifuð af Sigurbirni Þorkelssyni, sem er framkvæmdastjóri og meðhjálpari í Laugarneskirkju. Hafi hann heila þökk fyrir. (Mbl. 18.11.05 bls. 43.)
Sigurbjörn biður almáttugan, sanngjarnan og miskunnsaman Guð að blessa dómstóla landsins og dómarana alla í þeirra mikilvægu, vandasömu og ábyrgðarmiklu störfum. Hann biður þess að þeir megi öðlast dómgreind og visku, að þeir geti dæmt af sanngirni í hverju máli fyrir sig. Þetta er að mínu mati falleg bæn og til fyrirmyndar.
Sigurbjörn bendir réttilega á hversu vandasöm störf dómaranna eru og sýnir mikla næmi er hann biður einnig fyrir fjölskyldum þeirra, sem jafnvel verða fyrir áreiti eða ofsóknum samborgaranna. Það sem er þó enn óvanalegra, en er vissulega mjög mikilvægt, það er að hann bætir við bæn fyrir lögmönnum landsins og öllum sem flytja mál. Í því samhengi nefnir hannn “samviskusemi og einlægni, en festu með sanngirni og heiðarleika að leiðarljósi.” Hann biður Guð að hjálpa þeim “að ganga til starfa sinna af áhuga og metnaði fyrir manngæsku, sannleika og réttlæti en mildi.”
Sigurbjörn þakkar jafnframt fyrir þá ómissandi liðveislu sem lögmennirnir hafa veitt fjölmörgum, en biður þeim uppörvunar og auðmýktar fyrir verkefnum sínum og þjónustu - og að þeir séu studdir sjálfstrausti, en forðist freistingar og það að hrokast upp. Fjölskyldum þeirra er einnig beðið verndar, sem og að þeir sjálfir megi forðast óheiðarleika, siðleysi og illar freistingar.
Þessari innihaldsríku og ágætu bæn mætti sem best snúa upp á alla embættismenn, allar stéttir og alla menn. Einnig upp á alla dóma sem menn fella.
Það er býsna algengt að heyra fólk fella þunga dóma um kirkjuna. Sumir þeirra dóma litast af því að þessir sjálfskipuðu dómarar eru beinlínis á móti kirkjunni og kristinni trú. Aðrir dómar, aftur á móti, bera það mjög með sér að dómararnir hafa takmarkaða þekkingu á því sem í kirkjunni fer fram, en eru þess albúnir að segja til um það hvernig starf kirkjunnar á að vera eða á ekki að vera. Á þetta jafnt við sóknarbörnin hér sem aðra landsmenn.
Þeir dómar sem falla innan kirkjunnar eru heldur ekki allir réttlátir.
Hvort tveggja stafar vafalaust að því að kirkjan er samsafn af fólki. Þar af leiðandi getur kirkjan, sem slík, hvorki orðið betri né verri heldur en sú hjörð sem henni til heyrir. Á þetta einnig bæði við um söfnuðinn hér, sem aðra söfnuði landsins.
Kirkjan er samansett af föllnu fólki. Leiðarvísirinn er samt klár og skýr. Orð og breytni Jesú Krists. Þess vegna höfum við enga afsökun fyrir því að fella illa grundaða dóma og kasta höndunum til verka okkar.
Það er ekki nýtt að fjallað sé um dómara og dóma í kirkjunni. Hallgrímur Pétursson var barn síns tíma. Hann nefnir til dómara með eftirminnilegum hætti í Passíusálmum sínum. Þar skírskotar hann reyndar til þess dóms sem felldur var á mannlegu dómþingi yfir Jesú Kristi. Hann nefnir í sama sálmi hótanir þær sem hafðar voru uppi við Pílatus, en ekki er örgrannt um að jafnvel lögmenn beiti fyrir sig hótunum í málflutningi sínum. Hallgrímur segir:
Vei þeim dómara, er veit og sér, víst hvað um málið réttast er, vinnur það þó fyrir vinskap manns að víkja af götu sannleikans. (Pss. 27:5)
Af þessu má ljóst vera að áfram er þörf á að biðja fyrir dómstólunum. Megi þeir fella réttláta dóma. Við þá bæn skulum við einnig bæta bón um að lögmenn landsins noti fag sitt, en hvorki fjölmiðlana né heldur háð og hótanir til að ná fram niðurstöðu.
Það er von mín og bæn á þröskuldi áramóta að starf safnaðarins á nýju kirkjuári megi blómgast og blessast og marka nýtt upphaf í sögu safnaðarins.
Í altarissakramentinu mætum við Jesú Kristi – dómara okkar og frelsara – með sérstökum hætti. Þar mætast hið jarðneska og hið himneska.
Á jólum mætast einnig hið jarðneska og hið himneska. Þá sendir Guð okkur son sinn, Jesú Krist, bróður okkar og lausnara. Við hann er gott að eiga samfélag.
Ég horfi fram til þess að aðventan, með vonarríkum boðskap sínum, hjálpi okkur að undirbúa okkur fyrir komu Krists og það að taka á móti honum og öllum gjöfum hans með gleði, - vel undirbúin á sál og líkama.
Amen.