Vitið þið
hvað orðið speki þýðir? Já, auðvitað hafið þið heyrt orðið og
líklega segið þið viska og fer það nærri. Sagt var hér áður að menn væru spakir
í merkingu þess að þeir hefðu visku en líka rósemd eða æðruleysi. Sá sem hefur
speki hefur lært margt um lífið og kann að takast á við nýja og gamla hluti.
Það er nefnilega jafnnauðsynlegt að kunna að «leggja» frá sér hið liðna eins og
að mæta því nýja.
«Enda þótt speki Guðs sé í heiminum gátu mennirnir
ekki þekkt Guð með sinni speki. Þess vegna ákvað Guð að boða það sem er heimska
í augum manna og frelsa þá sem trúa.» segir Páll postuli í pistli dagsins sem
lesinn var hér áðan. Til að setja það á skiljanlegra mál sem Páll er
að segja hér, Þá er hann að segja að mannkynið hafi ekki með
skynsemi sinni og hugsun getað komist nálægt Guði sínum eða þekkt hann. Þess
vegna hafi Guð ákveðið að finna nýja leið. Sú leið var í gegnum fæðingu sonar
Guðs, Jesú Krist, sem dó fyrir syndir allra manna á krossinum.
Að einhver deyi þannig er auðvitað
óskynsamlegt en um leið þá er það hin nýja leið Guðs til að bjarga mannkyninu
frá eigin illsku. Illskan var alltaf mjög fær í að nota skynsemina til að búa
til ýmis lög og reglur sem mátti síðan brjóta og beygja að eigin vild. En trú á
eitthvað sem er fagurt og gott er erfitt að afvegaleiða til illsku. Þannig
kemur trúin á Jesú í staðinn fyrir skynsemi okkar. Ekkert sem Jesús
sagði eða gerði ber í sér minnsta vott af illsku. Hann er hinn fullkomni
kærleikur. Jesús var líka fullkomlega saklaus þegar hann var negldur á krossinn
á páskunum.
Nú er ófriður í Evrópu. Einhverjir sem deyja á
þessu augnabliki af því öðrum fannst stríð vera nauðsynlegt. Eins og menn hafi
ekki lært af fyrri stríðum og hörmungum. Illskan er þannig
sístarfandi og virk á öllum tímum og líka í okkar samtíð. Kærleikur Jesú Krists
er það eins sem getur staðið gegn illskunni. Þau sem þekkja Jesú og eiga hann
sem lifandi frelsara geta aldrei farið í stríð gegn öðrum. Það er sannleikur!
Við vitum hver Jesús var og hver hann er í
dag. Við lesum um hann í Biblíunni og við þekkjum hann í gegnum
okkar persónulegu trú. Við erum á tíma í kirkjunni sem kallast
sunnudagur í föstuinngangi. Það er að koma tími sem
nefnist fasta. Það var reyndar góður tími fyrir okkur Íslendinga því
hér áður var venja að neita sér um að borða kjötmeti á föstu, 40 dögum fyrir
páska. En það mátti borða fisk og af honum áttu Íslendingar nóg og
gátu selt öðrum þjóðum. Nú er þessu reyndar aðeins öðru vísi farið. Sumir
Íslendingar eiga mikið af fiski og geta selt öðrum þjóðum, aðrir eiga engan
fisk. Og hvernig það varð þannig höfum við fengið að sjá í hinum fjörugu þáttum
Verbúðinni í sjónvarpinu. Þjóðirnar sem áður borðuðu mest fisk á
föstutímanum vilja alveg fisk á stórhátíðum líka. Fasta hefur ekki svo mikla
merkingu lengur og margir vita ekki hvað hún þýðir. Að fasta var það að neita
sér um eitthvað gott, eins og kjöt og borða einfaldari mat. Hugsunin var að það
væri verið að undirbúa sig fyrir páskahátíðina því þá yrði veisla. Við fögnum
því á páskum að Jesús er upprisinn!
«Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem
spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn.» segir Jesús við lærisveina sína
tólf. Það voru að koma páskar þegar þetta var sagt. Jesús var búinn að lifa og
starfa með fólkinu sínu. Hann var búinn að ferðaðist um í
Palestínu, búinn að kenna, lækna og gera ýmis máttarverk. En nú vissi hann
sjálfur að það líður að endalokum. Þó ekki
endalokum alls heldur tíma umbreytingarinnar. Jesús vissi að
dauðastundin var nærri. Páskar, hin mikla og forna hátíð þar sem Gyðingar
minntust flóttans frá Egiptalandi var að koma. Jesús ætlaði að halda hátíð með
vinum sínum í Jerúsalem. En hann vissi líka hvað beið hans. Það
sagði hann lærisveinunum. Að hann myndi verða framseldur heiðingjum er myndu
hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann og húðstrýkja og lífláta en
síðan á þriðja degi muni hann upp rísa. Lærisveinarnir skyldu ekkert
hvað Jesús var að tala um.
Við erum
stundum í þeim sporum að skilja ekki eitthvað sem við okkur er sagt. Skilja
ekki aðstæður og þvælast bara áfram einhvern veginn. Þannig voru líka
lærisveinarnir, þeir fylgdu Jesú en skildu oft ekki það sem hann sagði eða
gerði. Nú getum við hins vegar lesið um allt sem gerðist á þessum
páskum þegar Jesús dó og reis upp aftur. Við getum líka lesið um
allt sem gerðist eftir það. Um alla þá sem fóru að trúa á Jesú og orð hans. Við
getum lesið um kirkjuna sem varð til og hefur lifað af gegnum meira en tvö
þúsund ár. Það er langur tími satt að segja og honum er hvergi nærri
lokið, sagan heldur áfram. Þeir sem gengu með Jesú til Jerúsalem á þessum
páskum eru dánir en nýtt fólk bætist stöðugt í hóp þeirra sem ganga með hinum
upprisna Jesú til páskahátíðarinnar. Og af því að við þekkjum þessa
sögu þá ættum við líka að vera fær um að skilja hvað allt þetta hefur að segja
fyrir okkur í dag. Við dóum syndinni og illskunni en risum upp til nýs
lifs í kærleikanum fyrir trú á Jesú.
Áður en Jesús
var krossfestur, var hann pyntaður, hann var hæddur og það var hrækt á hann.
Hráki er einkennilegt fyrirbæri. Í gamla daga tuggðu karlar tóbak og
hræktu út úr sér brúnum leðjutaumum. Þá voru hafði hrákadallar til að
skyrpa í því enginn vildi hafa brúnar tóbaksklessur á gólfinu. Ég sé í íþróttum
fólk sem þarf að hrækja mikið, nánast allir knattspyrnumenn hrækja, kannski það
sé til merkis um að þeir séu fljótir að hlaupa eða sparki fast?
En hvað skyldi
hrákinn eiga að þýða. Hrákinn er tákn um „líkamlega ærumeiðingu“
sagði eitt sinn í dómi héraðsdómara. Þá hafði maður hrækt á
lögreglumann og fékk fyrir það refsingu og varð að borga sekt. Hráki
hefur frá fornu fari verið tákn um óvirðingu og dónaskap. Hráki hefur oft orðið
tilefni til rifrildis, slagsmála og jafnvel dauðsfalla. Í Afríku blessa konur
ungbörn með því að skyrpa munnvatni á þau. Fjöturinn Gleypnir sem batt Fenrisúlf í Eddukvæðum
var gerður m.a. úr hráka fiska og þess vegna er ekkert lengur til sem heitir
fiskihráki segir sagan.
Jesús hrækti ekki á nokkurn mann enda vitum við að hann var góður við
alla og líklega hefur hann heldur ekki spilað fótbolta. En það gerðist einu
sinni að hann hrækti á jörðina og hrærði hrákanum saman við mold og bar svo
leðjuna í augun á blindum manni. Sá læknaðist og fékk aftur fulla sjón. Það
getur sem sé verið lækningamáttur í hrákanum. Stundum hrækjum við að
öðru fólki. Kannski ekki bókstaflega heldur fremur þegar við sýnum öðrum
lítilsvirðingu. Þegar við baktölum einhverja og skyrpum út úr okkur vondum
orðum sem illar hugsanir okkar hafa sett saman. Þá erum við ekki
ólík þeim sem hræktu á Jesú! Við erum alla vega ekki eins og mæðurnar í Afríku sem vilja
blessa börn sín með hráka á enni. Það er í góðum tilgangi. Vatn þvær burtu
óhreinindi, hráki móður á enni barnsins getur að mati þeirra bægt illu frá.
Við sem hér
erum fáum bráðum páskana í heimsókn. Það er kærkomin hátíð sem minnir okkur á
að vorið fer að koma. Það hressir okkur í þessum erfiðu vetrarstormum sem
nú geisa. Páskaliljur og páskaegg eru tákn um líf. Þau minna á gleðina sem
því fylgir þegar líf kviknar. Liljurnar þrýsta sér upp úr kaldri
jörðinni. Þar liggur laukurinn eða fræið í dvala uns hentugur tími kemur.
Fyrsti «hráki» vorsins, þegar jörðin þiðnar aðeins, vekur líf. Grænn stilkur,
græn blöð og gul blóm eru ávöxtur páskaliljanna. Þá kemur vorið sjálft líka
fljótlega. Og með vorinu koma litirnir inn í líf okkar aftur. Við erum að
nálgast betri og bjartari tíma.
Regnbogi
himinsins er mikið undur. Hann er einskonar litabrú sem tengir saman tvo staði.
Hann er sýnilegur og raunverulegur okkur í allri sinni dýrð þar sem hann myndar
háan boga yfir okkur. Mörg okkar hafa trúað á gullkistu sem geymd væri undir
rót regnbogans. Kannski er það satt því fjársjóði er víða að finna. Eins og til
dæmis hjá þeim sem eiga allan fiskinn í sjónum á meðan við flest eigum ekki
einu sinni fiskibein, hvað þá fiskhráka. Vandi okkar flestra er hins
vegar sá að við náum aldrei þeim stað þar sem jörð og regnbogi mætast. Mörg
okkar eignast því enga fjársjóði. Kannski snýst sá vandi um hæfni okkar
til að finna fremur en að það sem við leitum að sé ekki til
staðar. Kannski á þetta líka við um trú. Trúin er fjársjóður. Trúin
er eins og regnboginn, sýnileg hjá þeim sem eiga hana.
Regnboginn er
tákn um sáttmála í Biblíunni. Sáttmála milli Guðs og mannkyns um ást og
kærleika. Þannig er regnboginn tákn um eitthvað sem við erum að leita að.
Kannski er hann áminning um að vegurinn ætti að liggja til okkar eigin
Jerúsalem. Þegar ég tala hér um Jerúsalem þá vísa ég til
þeirrar borgar sem Jesús stefndi til. Staðarins þar sem hann fékk að upplifa
sína mestu niðurlægingu en líka stærsta sigur. Jerúsalem er borg upprisunnar
þar sem gjöf trúarinnar er gefin, - krossfestingin. Þar undir regnboganum er
hinn sanni fjársjóður. Jesús sem sigraði dauðann á krossinum og reis
upp á páskadegi. Jesús er hinn sanni og lifandi frelsari okkar.
Jesús sem vill ekki stríð, enga hráka eða slæm orð, heldur aðeins
kærleika og gæsku í samskiptum okkar allra.
Dýrð sé Guði,
föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir
alda. Amen.
Takið postullegri
kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags
anda, sé og veri með yður öllum. Amen.
Prédikun í Selfosskirkju sunnudag í föstuinngangi, 27.
febrúar 2022.