Frátekin jól?

Frátekin jól?

En þó að jólin séu okkur sannarlega kærkomin og mikilvæg og dýrmæt á svo margan hátt þá draga þau ekki heilagleika sinn af því. Og ekki heldur af nokkrum siðum og venjum sem við kunnum að skapa okkur og halda í heiðri og eru breytilegir frá einum stað og tíma til annars.
fullname - andlitsmynd Gunnar Jóhannesson
26. desember 2011
Flokkar

Náð sé með ykkur öllum og friður frá Guði föður okkar og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla. Megi algóður Guð blessa okkur og varðveita á þessari jólahátíð og hans heilagi andi opna hugi okkar og hjörtu svo að þau megi fyllast fögnuði og friði. Í Jesú nafni. Amen.

Jólin eru gengin í garð. Enn á ný fáum við að halda upp á jólin og upplifa kyrrðina sem frá þeim stafar. Og ég veit að þið finnið að það er eitthvað við þessa kyrrð sem jólin bera með sér; þessa kyrrð sem leggst yfir þegar við göngum til jólahaldsins, þegar við setjumst saman til borðhalds, þegar við gleðjumst og fögnum hvert með öðru; þegar við heyrum kirkjuklukkurnar hringja - hvort sem er í útvarpinu eða í kirkjunni sjálfri -, þegar jólaguðspjallið er lesið og jólasálmarnir eru sungnir. Þegar allt amstrið og allur undirbúningurinn, sem yfirleitt er ærinn, er að baki. Þá er eins og einhver hulinn strengur í brjóstum okkar er sleginn og einhver kennd sem alltof sjaldan fær að komast á yfirborðið er vakin upp. Við þekkjum þessa tilfinningu. Hún gerir að því er virðist eingöngu vart við sig á jólunum. Það er þessi barnslega tilhlökkun og eftirvænting sem vekur með okkur kærleika og gleði í svo ríkum mæli og ekki síst viljann til að gleðja aðra og sýna þeim kærleika. Og ég hef stundum velt því fyrir mér hvort það séu ekki englarnir sem hafa þessi áhrif á okkur. Englarnir sem tala til okkar og jólin gera okkur móttækileg fyrir.

En burtséð frá því held að hún rúmist öll í einu orði, þessi tilfinning sem jólin vekja: Það er orðið heilagt! Jólin eru heilög. Eins og segir í jólasálminum fallega, sem við syngjum hér í lok messunnar: „Heims um ból, helg eru jól.“ Á jólum leggst helgi og heilagleiki yfir samfélag manna og heimili þeirra, og á huga þeirra og hjörtu. Jólin bera með sér einhverja óræða og ómótstæðilega helgi sem lætur engan ósnortin, helgi sem nær út fyrir siði og venjur, viðhorf og trú. Í því eru töfrar og áhrifamáttur jólanna fólgin. Því jólin tala til okkar allra með sínum hætti og höfða til þess sem býr innst í hjarta sérhvers manns og vilja vekja það upp af dvala.

En að því sögðu er gott að velta því fyrir sér hvað það þýðir að eitthvað sé heilagt. Hvað er það sem gerir það að verkum að jólin eru heilög? Sjálfsagt hefur fólk ólík svör við því. Heilagleiki er kannski ekki umhugsunarefni margra almennt í dag. Og stundum hefur tal um heilagleika yfir sér neikvæðan blæ. Við segjum að eitt og annað sé heilagt og meinum ýmislegt með því. Það getur haft ólíka merkingu í hugum fólks hvað átt er við. En hvað sem því líður held ég að það sem er okkur heilagt er öllu jafna það sem er okkur dýrmætt og mikilvægt og hjartafólgið, það sem við viljum halda í og varðveita umfram annað og viljum ekki að breytist. Það getur auðvitað verið margt, umfram allt fjölskyldan, börnin okkar eða lífið almennt í stóru og smáu.

En þó að jólin séu okkur sannarlega kærkomin og mikilvæg og dýrmæt á svo margan hátt þá draga þau ekki heilagleika sinn af því. Og ekki heldur af nokkrum siðum og venjum sem við kunnum að skapa okkur og halda í heiðri og eru breytilegir frá einum stað og tíma til annars. Nei. Heilagleiki jólanna stafar af einhverju öðru – einhverju sem ekki breytist.

Og hann er fólgin í sjálfri merkingu jólanna, í tilgangi þeirra, tilurð og orsök: „Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ Í þeirri staðreynd, í komu Guðs sjálfs inn í þetta líf, inn í þennan heim, eru jólin fólgin. Af henni eru þau sprottin. Og af þeirri staðreynd draga jólin helgi sína og heilagleika. Þess vegna eru þau heilög. Vegna þess að þau eru frátekin fyrir Guð. Þau eru vettvangur og farvegur fyrir kærleika Guðs og náð hans í Jesú Kristi, barninu litla sem fæddist í Betlehem. Og þegar við höldum jólin í minningu þess, í þeirri vitund, í trausti til þess, í ljósi þeirrar trúar, þegar við tökum jólahald okkar frá fyrir Guð, og leyfum jólunum að vera, eins og þeim ber að vera, farvegur fyrir nálægð hans, kærleika hans og vilja í okkar eigin lífi, þá höldum við heilög jól. Ekki fyrr! Og þannig verður lífið allt í raun heilagt þegar við gerum það að vettvangi fyrir þjónustuna við Guð og leitumst við að bera vilja hans vitni í öllu því sem við hugsum, segjum og gerum.

Og spurningin sem vaknar og við þurfum öll að svara fyrir okkar leyti er sú hvort jólin séu heilög fyrir okkur? Höldum við heilög jól? Heldur þú heilög jól? Þeirri spurningu getur þú auðvitað aðeins svarað. En hvað sem því svari líður er alveg víst að það sem er heilagt fær æ minna rými í nútímasamfélagi og hjá fólki almennt. Það nýtur æ minni skilnings og virðingar, og ekki síst ef það hefur eitthvað með kristna trú að gera. Það sjáum við og vitum ef við viljum sjá það og vita. Þolmörk samfélagsins gagnvart kristinni trú virðast verða æ minni. Það er auðvitað gömul saga og ný. Það var jú hvergi rými fyrir hina helgu fjölskyldu í Betlehem. Hún fékk hvergi gistipláss. Hún þurfti að láta fyrirberast í fjárhúsi á meðal dýra – sem þó er alls ekki sísti staðurinn til að vera á þegar ekki er í önnur hús að venda. En hún fékk hvergi inni á meðal manna. Þannig voru móttökurnar. Það var eins og Jóhannes guðspjallamaður minnir okkur á: „Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum.“ Og þannig er það líka víða í dag. Það er líka gengið gegn kristinni trú og kristnu fólki í dag, hér á Íslandi líkt og svo víða annars staðar í heiminum. Það mætir ekki alls staðar skilningi eða opnum dyrum og hallar heldur undan fæti í þeim efnum ef eitthvað er. Það er þrengt að kristinni trú. Það er þrengt að kristnu fólki. Og markmiðið virðist ekki síst vera sá að draga úr sýnileika kristinnar trúar og gera hann sem minnstan. Og því verður auðvitað að mæta. Því þurfum við að mæta – við sem komum í kirkju, við sem viljum kenna okkur við nafn Krists, við sem viljum trúa. Í þeim efnum verðum við að horfa til okkar sjálfra. Við þurfum að horfa inn á við, inn í eigið hjarta og eigin huga. Því mun verra en þetta er það þegar við gerum okkur sek um það sama gagnvart okkur sjálfum; þegar við gleymum að taka frá rými fyrir Guð á vettvangi okkar eigin lífs. Og það gerum við öll einhvern tíma, meira eða minna. Oftar en vera ber. Þar erum við öll á sama báti.

En höfum þá líka það í huga, þar sem við sitjum hér í þessari kirkju og fögnum jólunum í sameiningu, að jólin eru heimboð og marka alltaf fyrir sitt leyti nýtt upphaf. Því þau minna okkur á að Guð er að kalla á okkur og leita okkar. Hann vill eiga sér stað í okkar lífi, þínu og mínu. Hann vill fá þar pláss til athafna og áhrifa og til þess gengur hann inn í líf okkar bókstaflega og beinlínis. Hann gerist maður! Hann kemur sjálfur! Hann tekur sjálfan sig frá fyrir okkur.

Og leyfum okkar þessi jól að gera það sama. Tökum á móti honum þessi jól. Tökum þau frá fyrir hann. Tökum okkur frá fyrir hann, huga okkar og hjarta. Höldum heilög jól. Því það að halda heilög jól er fyrst og síðast að þiggja þá gjöf sem okkur er gefin, sem er Guð sjálfur, skapari okkar, eilífur og almáttugur, sem stígur út úr eilífðinni inn í þetta líf, líf þitt og líf mitt, í frelsaranum Jesú Kristi, honum sem er hingað komin til þess að gefa okkur öllum mynd af hinu sanna lífi og leiða okkur á vit þess, okkur sem viljum leyfa honum að gera það.

Og tökum líka helgi jólanna með okkur áfram og leyfum henni að hafa áhrif á allt okkar líf, dag frá degi. Tökum trú okkar lengra en nemur einstaka dögum og hátíðum, siðum og venjum. Berum henni vitni alla daga og öllum stundum, hvar sem við erum og hvenær sem við erum, með því að gera líf okkar allt að guðsþjónustu, þjónustu við hann. Tökum það frá fyrir hann og ljáum þannig lífi okkar þann heilagleik sem því er ætlað að bera frá hendi skapara okkar, honum sem er uppspretta lífsins og ljóssins og allt er runnið frá.

Honum einum sé dýrð, Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Í Jesú blessaða nafni. Amen.

* * * *

Ritningarlestrar:

Lexía: Jes 62.10-12

Gangið út, já, gangið út um hliðin, greiðið götu þjóðarinnar. Leggið, leggið braut, ryðjið grjótinu burt, reisið merki fyrir þjóðirnar. Sjá, Drottinn hefur kunngjört allt til endimarka jarðar: „Segið dótturinni Síon, sjá, hjálpræði þitt kemur. Sjá, sigurlaun hans fylgja honum og fengur hans fer fyrir honum.“ Þeir verða nefndir heilagur lýður, hinir endurleystu Drottins, og þú kölluð Hin eftirsótta, Borgin sem aldrei verður yfirgefin.

Pistill: Tít 3.4-7

En er gæska Guðs, frelsara vors, birtist og elska hans til mannanna, þá frelsaði hann okkur, ekki vegna réttlætisverkanna, sem við höfðum unnið, heldur frelsaði hann okkur af miskunn sinni. Það gerði hann í þeirri laug endurfæðingar og endurnýjunar heilags anda sem hann lét ríkulega yfir okkur streyma sakir Jesú Krists, frelsara vors. Þannig erum við réttlætt fyrir náð hans og urðum í voninni erfingjar eilífs lífs.

Guðspjall: Jóh 1.1-14

Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því.

Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. Hann kom til vitnisburðar, að vitna um ljósið og vekja alla til trúar á það. Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.

Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd.

Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.