Biblíudagur

Biblíudagur

Akurlendi orðsins er kirkjan. Það er kirkjan í tvöfaldri merkingu. Það er söfnuðurinn og og einstaklingarnir, bæði þeir sem þegar hafa valið að vera hluti af lærisveinahópi Jesú Krists og einnig þau sem eru það ekki en fá að heyra og fá að bregðast við, og það er kirkjan sem er hús og heimili Guðs orðs.

Biblíudagurinn 2010 Predikun í Langholtskirkju 7. febrúar 2010 Guðspjall:  Lúk 8.4-15 Nú var mikill fjöldi saman kominn og menn komu til Jesú úr hverri borg af annarri. Þá sagði hann þessa dæmisögu: „Sáðmaður gekk út að sá sæði sínu. Og þá er hann sáði féll sumt hjá götunni og varð fótum troðið og fuglar himins átu það upp. Sumt féll á klöpp. Það spratt en skrælnaði af því að það hafði ekki raka. Og sumt féll meðal þyrna og þyrnarnir spruttu einnig og kæfðu það. En sumt féll í góða jörð, óx upp og bar hundraðfaldan ávöxt.“ Að svo mæltu hrópaði Jesús: „Hver sem eyru hefur að heyra hann heyri.“ En lærisveinar hans spurðu Jesú hvað þessi dæmisaga þýddi. Hann sagði: „Ykkur er gefið að þekkja leynda dóma Guðs ríkis, hinir fá þá í dæmisögum að sjáandi sjái þeir ekki og heyrandi skilji þeir ekki. En dæmisagan þýðir þetta: Sæðið er Guðs orð. Það er féll hjá götunni merkir þá sem heyra orðið en síðan kemur djöfullinn og tekur það burt úr hjarta þeirra til þess að þeir trúi ekki og verði hólpnir. Það er féll á klöppina merkir þá sem taka orðinu með fögnuði er þeir heyra það en hafa enga rótfestu. Þeir trúa um stund en falla frá á reynslutíma. Það er féll meðal þyrna merkir þá er heyra en kafna síðan undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins og bera ekki þroskaðan ávöxt. En það er féll í góða jörð merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi. Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen. Í þennan helga Herrans sal úr heimsins solli ganga skal hinn ungi fram, svo festi eið, að finnast trúr í lífi' og deyð.

Og hér skal vígt hvert heilagt band til heilla fyrir þjóð og land, og hér skal tilreitt Herrans borð og hér skal boðað lífsins orð.

Það orð, sem græðir öll vor mein, það orð, sem vermir kaldan stein, það orð, sem kveikir kraft og móð og kallar líf í dauða þjóð. (Matthías Jochumson  Sb 269)

Heilagi Faðir, helga þú oss í sannleikanum. Þitt orð er líf, andi og sannleikur. Amen. Kæri söfnuður.

Á hverju ári, á Biblíudaginn, fáum við að heyra í guðspjallinu,annað hvort þessu sem við heyrðum núna, eða öðru áþekku, eins og reyndar miklu víðar í hinu nýja Testamenti, um raunveruleika kirkjunnar og heimsins gagnvart erindi Guðs. Það er erindið sem frelsarinn Jesús Kristur var sendur með , bæði sem hann sjálfur og í ritningartextunum sem fyrir voru í ritum gyðinganna við fæðingu hans og nært höfðu trú þjóðar hans til þess tíma. Hið Gamla Testamenti.

Þar er að finna sálma Davíðs, sem kallaðir hafa verið bænabók Jesús Krists og hafa þjónað kynslóðunum og gera enn. Í þeim mætast testamenntin, sáttmálarnir, hinn gamli og hinn nýi og þegar best er mætast þar líka gyðingar og kristnir menn í einingu sem fátíð er annars. Við heyrum hér í dag þrjá sálma Davíðs sungna við lög eftir tékkneska tónskáldið Antonin Dvorřàk sem með tónmáli sínu laðar fram hinn djúpa boðskap hinna fornu texta í samtali við nútímann.

Það er annar sunnudagur í níuviknaföstu. Föstutímabilið einkennist af þeim áföngum sem sunnudagarnir afmarka með textum sínum og yfirskriftum. Áður en lagt er af stað inn í hina eiginlegu föstu sem hefst á öskudaginn, erum við minnt á Orð Guðs og viðtekt þess, orðið sem er Jeús Kristur og orðið sem er skráð og bundið á spjöldum heilagrar ritningar. Þjóðkirkjan hefur gert daginn að sérstökum Biblíudegi, og einskonar afmælisdegi Biblíufélagsins sem í dag heldur sinn ársfund.

Við heyrum Jesús segja þessa dæmisögu um sáðkornið og jarðveginn sem það fellur í, og er ætlað að hugleiða hana, með honum, í ljósi þess að í dag er Biblíudagurinn og leitað er stuðnings við útbreiðslu Guðs Orðs um allan heim. Einn ágætur Biblíutúlkandi og predikari Wilhelm Stählin setti fram kjarna guðspjallsins eitthvað á þessa leið:

Hversu miklar sálarkvalir hlýtur ekki Jesús, sjálfur sáðmaður his guðlega Orðs að hafa liðið þangað til hann fann huggun í hlutskipti bóndans sem sáir sáðkorninu á land sitt og gat gefið lærisveinunum hlutdeild í þeirri huggun. Jesús fór sjálfur ekki á mis við þá reynslu að sáðkornið oftlega fellur á ófrjósamt land eða það sem er þakið illgresi, en hann veit líka hitt að góða moldin ber hundraðfaldan ávöxt. Samt snýr hann ræðu sinni til allra, til fólksins alls sem heyrði til hans, því enginn getur afsakað sig með því að hann tilheyri þessari eða hinni moldinni. Sérhver er fullkomlega gerður ábyrgur fyrir því að hann hefur heyrt og tekið á móti orðinu. Þessi sama dæmisaga er okkur mikil huggun þegar hellast yfir okkur áhyggjurnar af því að öll okkar vinna, allt okkar erfiði sé til einskis, og sérhvert sáðkorn sem kirkjan sáir falli á troðna götu, á klettinn eða meðal þyrna, því að sumt féll og fellur sannarlega í góða jörð. Valdimar Briem, sem ekki er aðeins mikið sálmaskáld heldur líka mikill guðfræðingur, hann var líka mikill bóndi. Þó ýmsir séu sóðarnir er bóndi sæmdarheiti.

Búsakaparhættir og jarðyrkja eru sem kunnugt er með ólíku sniði í Galileu og Gnúpverjahreppi. Þess vegna varð saga sáðmannsins aldrei nema táknræn saga og er ekki enn. Valdimar orti marga sálma út frá þessu guðspjalli og sáðmannshlutverkinu. Einn þeirra, og ekki sá ómerkasti er ekki lengur í sálmabókinni. Líkast til er það af því að lagið hefur ekki þótt nógu gott, því textinn er afbragðs góður. Hann er svo góð útlegging og hugleiðing um guðspjallið að ég vil gjarna deila honum með söfnuðinum til þess að auka vægi þessarar predikunar .

Af himni drýpur döggin tær, og dýrðar geislum sólin skær á stein sem jörðu stráir. Í veröld eins með orð Guðs fer, í akurinn er Kristur hér því góða sæði sáir að sáluhjálp þú fáir.

Sjá nokkuð fellur veginn við, og verður óðum fóttroðið af þeim sem síst það þekkja. Þeir ganga dýru gulli á og Guðs ei skírar perlur sjá, því sjálfa sig þeir blekkja og sinni farsæld hnekkja.

Og nokkuð grýtta fer í fold og finnur litla gróðurmold og fær ei fest þar rætur, af því það vantar vökva sinn, það vantar tár á syndugs kinn. Hann sína synd ei grætur og sér ei snúa lætur.

Og meðal þyrna er sumu sáð, það sýnist geta þroska náð og sig mót sólu hefja. En þyrnir vex og þrýstir að, svo þroska náð ei getur það, því geystar girndir tefja og góða sæðið kefja.

Þótt margt sé að við akur vorn og ónýtt verði margt eitt korn, þess lát oss Guð, ei gjalda. Lát geymast sumt í góðri jörð, svo gefi blessun þinni hjörð, ó, Herra, hundraðfalda á himni um aldir alda. (Sb 1945, 119)

Ég held við getum alveg leyft okkur að segja að Valdimar Briem hafi verið trúr lærisveinn frelsarans og einn af þeim sem hann sendi út til að sinna sáðmannshlutverkinu, í samfélagi þeirra karla og kvenna sem Jesús kallar til að bera sér vitni hvert á sínum akri. Það er jú ekki spurt um víðlendi akursins, né heldur hvort rannsóknarstofnun landbúnaðarins hafi vottað um gæði moldarinnar. Flest höfum við ekki mjög stóran reit. Kannski einungis eigið líf, eða lítillar fjölskyldu. En raunverulegt umfang og víðlendi er engum manni fært að meta. Eitt andartak, eitt orð, ein bæn, getur orðið upphaf og orsök ótrúlegra atburða og breytt lífi kynslóðanna og haldið lífi í kirkjusöfnuðinum.

Akurlendi orðsins er kirkjan. Það er kirkjan í tvöfaldri merkingu. Það er söfnuðurinn og og einstaklingarnir, bæði þeir sem þegar hafa valið að vera hluti af lærisveinahópi Jesú Krists og einnig þau sem eru það ekki en fá að heyra og fá að bregðast við, og það er  kirkjan sem er hús og heimili Guðs orðs. Enginn akur Guðs er auðþekkjanlegri en kirkjan, sjálft hús Guðs, vígt og frátekið fyrir Guð og þjónustuna við hann og þjónustu hans við börn síns, eins og Matthías Jochumson undirstrikar svo ákveðið og fagurlega í kirkjuvígslusálminum sem hér var vísað til. Í kirkjunni fer fram boðun og túlkun Guðs orðs með margvíslegum hætti, bæði beint og óbeint. Þar eru mörkin viljandi höfð breytileg . Það er eiginlega hægt að segja sem svo að aðeins það sem stríðir beinlínis og viljandi gegn Guðs orði og heilagri trú og kirkju sé óheimilt að iðka í vígðri kirkju.

Við getum ekki breytt kirkju í mosku eða búddamusteri eftir geðþótta og látið sem hún sé samt kirkja. Rétt eins og við getum ekki sett hér í predikunarstólinn fulltrúa og trúboða annarrar trúar en kristinnar, vegna þess að söfnuðurinn á rétt á því að mega treysta því að hér sé Guði helgað hús, og héðan sé boðað Orð Guðs og ekki annað.

Hins vegar gerði þessi söfnuður og aðrir söfnuðir vel í því að kynna sér viðhorf og trúariðkun annarra trúarbragða til að styrkja samskiptin og samfélagið við fulltrúa þeirra. Það væri til dæmis hægt að gera með samtali og sýnishornum í öðrum salarkynnum safnaðarins en hér í helgidóminum sjálfum. 

Við höfum alist upp við mikið umburðarlyndi í trúarefnum, íslendingar, og það er vel. En það er fyrst og fremst vegna þess að við höfum aldrei átt í neinum erfiðleikum í samskiptum trúarbragðanna. Það er mjög auðvelt að vera umburðurlyndur og víðsýnn í einsleitu samfélagi. Þá verða til heimagerðar kenningar sem taka eingöngu mið af þeim sem talar, en alls ekki viðhorfum þeirra sem talað er um. Við gætum litið svo á að það væri alveg sjálfsagt að sýna fulltrúum annarra trúarbragða þá gestrisni að biðja þá um innlegg í okkar trúarathafnir og tilbeiðslu, og jafnvel að taka undir með þeim er þeir tilbiðja með sínum hætti. En þetta er nú ekki alveg svona einfalt. Þannig gæti múslimi til dæmis túlkað það svo að ef kristinn maður les með honum fyrstu súru Kóransins, sem hann byrjar bænahald sitt á, þá fælist í því yfirlýsing um að hinn kristni vilji verða múslimi. Þegar svo kemur í ljós að svo er ekki, þá er hann brotamaður gagnvart Islam og í raun guðlastari. Það er ekki nóg að meint umburðarlyndi sé aðeins á eina hlið. Þá hefur það annað nafn. Nú er uppi mikil deila í Malasíu þar sem kristnir minnihlutahópar og raunar einnig aðrir trúarhópar hafa viljað í sínu helgihaldi og í tilkynningum um trúariðkun nota nafnið Allah í ákalli sínu til Guðs, til þess að sýna með því að Guð er sannarlega einn. En það gengur ekki. Það er eins og að skvetta olíu á eld og eykur ofsóknir og eflir deilur. 15.janúar síðastliðinn stóð í fréttaskeyti frá Singapore sem dreift var af Alkirkjuráðinu eftirfarandi í lauslegri þýðingu:

Fleiri samkomustaðir til trúariðkunar minnihlutahópa í Malasíu hafa orðið fyrir árásum í viðvarandi deilum um notkun nafnsins Allah af öðrum trúarbrögðum en Islam. Alkirkjuráðið hefur lýst yfir miklum áhyggjum sínum af kringumstæðunum í landinu þar sem múslimar eru í miklum meirihluta. Árásirnar á kristnar kirkjur fylgdu í kjölfarið á dómsúrskurði sem gegn vilja harðlínu múslíma opnaði þann möguleika að kristnir menn og aðrir sem ekki eru múslimar mættu nota orðið Allah í bænum sínum og opinberum textum.

Það er nú einu sinni þannig að dómstólum veitist erfitt að úrskurða um trúarefni. Það sem ætlunin var að yrði til að jafna rétt og draga úr mismunun, fór í þessu tilfelli í þveröfuga átt. Þetta leiðir athyglina að okkur sjálfum. Kannski höfum við aldrei lært að taka tillit til annarra. Kannski er umburðarlyndi okkar ekkert umburðarlyndi heldur óþolinmæði gagnvart skilningsleysi annarra á því að við séum umburðarlynd og víðsýn.

Einungis samtal milli ólíkra skoðanahópa leiðir til skilnings. Skortur á samtali og samneyti styður fáfræði og fordóma og í versta falli einnig vanþekkingu á því fyrir hvað maður sendur sjálfur, og hvaða gildi það eru sem maður vill sjálfur ekki glata.

Hin bjartsýna von um að þekkingin og skynsemin myndu sigrast á öllu böli í heimi mannanna, og gaf frelsisbaráttu íslendinga á 19. öld vængi, og varð eins konar trúarbragðaígildi, beið skipbrot þegar braust út heimstyrjöld og ekki einu sinni heldur tvisvar á nýliðinni öld.

Kæri söfnuður.

Eitthvert albesta brauð sem bakað er á mínu heimili samanstendur úr mörgum gerðum af korni og mjöli. Þó að mikið hafi verið fiktað með erfðavísa í ræktun ýmiskonar (og um það fikt sem aðallega þjónar ríkum fyrirtækjum sem arðræna smábændur má tala í annan tíma) þá sýnir reynslan að til þess að fá gott mjöl í brauð verður að leyfa hverri korntegund að vaxa fyrir sig, annars þroskast það ekki eða mjög misjafnlega.

Við skulum með sama hætti halda okkur við það útsæði sem okkur er falið í Guðs Orði og næra með því söfnuðinn, börnin sem alast hér upp og okkur sjálf . Og við skulum ekki blanda óskyldum efnum inn í boðunina, úr því verður aldrei gott brauð. En ef við etum treyst því að svo sé, þá getum við með Biblíuna undir hendinni, líka lagt mikið af mörkum til gagnkvæms skilnings trúarbragðanna, inbyrðis skilnings hinna kristnu kirkjudeilda og ekki síst beitt þeim verkfærum sem við höfum völ á til þess að opna þeim leið til hins kristna veruleika sem ekki þekkja hann, eða aðeins af afspurn.

Jákvæðni af þessu tagi var alltaf aðalsmerki þessa safnaðar. Einkenni hans var hið mikla söng- og tónlistarlíf sem hér er og var og vonandi verður. Hversu margur hefur ekki komist til dýpri skilnings á inntaki trúarinnar, eða eignast kröftugt trúarlíf í gegnum það að syngja í kór. Og hversu margur sem annars sækir ekki kirkju og ræktar ekki sinn eigin garð að þessu leyti hefur orðið fyrir trúarupplifun á tónleikum, þar sem orðið er boðað með kröftugum og hljómmiklum hætti þó að það sé ekki trúariðkun í sjálfu sér.

Kirkjan er akur. Einkenni alls þess starfs sem hér fer fram er þjónustan við Guðs Orð, og við hann sem sjálfur er Orð Guðs sent til jarðar, Jesús Kristur. Það er þjónusta við altari og orgel, í stól og á stéttum. Dag eftir dag. Ár eftir ár. Og Orðið ber ávöxt með stöðuglyndi. Þess vegna segir Matthías Jochumson í kirkjuvígslusálmi sínum sem fyrr var vitnað til:

Svo kom þú hingað kristin sál ó, kom með heilög lofsöngsmál kom hingað klökk og hjartans fús í heimi finnst ei betra hús. (269,6)

Dýrð sé Guði Föður og Syni og Heilögum Anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen