Og þeir fóru að metast um, hver þeirra væri talinn mestur. En Jesús sagði við þá: Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn. En eigi sé yður svo farið, heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn. Því hvort er sá meiri, sem situr til borðs, eða hinn, sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn.En þér eruð þeir sem hafið verið stöðugir með mér í freistingum mínum. Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér, að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.
Símon, Símon, Satan krafðist yðar að sælda yður eins og hveiti. En ég hef beðið fyrir þér, að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú bræður þína, þegar þú ert snúinn við. Lúk.22.24-32
Vertu, Guð faðir, faðir minn, í frelsarans Jesú nafni. Hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni. Amen.
* * *
Fastan er gengin í garð. Hún er tími endurmats og það kemur berlega í ljós í textum þessa dags, fyrsta sunnudags í föstu. Þar er fjallað um það hvað mestu varðar í lífinu, hver hin æðstu gæði eru. Það er reyndar nokkuð sem margir vilja segja okkur, hin æðstu gæði og hvaðeina sem mestu varðar er falboðið á markaði samtímans.
Aldrei í gjörvallri sögu sinni hefur mannkynið staðið andspænis eins mörgum kostum gæða og um þessar mundir, og okkur er talin trú um að nægtarbrunnarnir séu óþrjótandi, og allt sé falt fyrir fé. Okkur er sagt að lífið bjóði upp á endalausa kosti og æ styttri leiðir til lífsgæða.
Og þó virðist sem lífs-gæfan sé ekki auðfundin að sama skapi. Að minnsta kosti má víða sjá vísbendingar þess að firringin vaxi hröðum skrefum, afbrot, ofbeldi og yfirgangur alls konar setji mark sitt á líf æ fleiri, upplausn fjölskyldubanda, og óreiða og biturð á sviði siðgæðis og samfélags.
“Syndin liggur við dyrnar og hefur hug á þér, - en þú átt að drottna yfir henni” segir hin áhrifaríka lexía dagsins, úr frásögninni af Kain og Abel, bróðurmorðinu fyrsta.
Og pistillinn geymir þessi hollu orð: “Sæll er sá maður er stenst freistingar.” Og um það báðum við í versinu góða hér áðan: ”Hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni.”
Og þó er þetta sem örgustu öfugmælavísur í neysludansi samtímans, sem byggir á daðri og dekri við freistingar og girnd sem helsta aflvaka vaxtar og gróða. Fyrsta guðspjall dagsins er freistingarsagan alþekkta, um þá kosti sem blöstu við Jesú frá Nasaret við upphaf starfsferils hans, að nota mátt sinn til að ná áhrifum.
Jesús hafnaði þeim kosti, leið hans var ekki leið valdsins, heldur hins fórnandi kærleika. Dæmisögur hans og fordæmi benda til þeirrar áttar að sú leið sé hamingjuleiðin, og með vegi hans laukst upp fyrir okkar nýr möguleiki, nýr vegur lífs og heilla: Trúin, vonin og kærleikurinn.
* * *
Á vettvangi dagsins vantar ekki það sem undirstrikar sannleiksgildi þess sem Jesús heldur fram, og afhjúpar þau öngstræti sem menning okkar og samfélag er í, “í sjálfheldu sælunnar” eins og ritstjórinn og skáldið, Sigmundur Ernir Rúnarsson, orðaði það í merku erindi á dögunum.
Blinduð af glýju fyrirheitanna um fyrirhafnarlaust líf, föst í viðjum ágirndarinnar. Gróðafíknin, spennuáfergjan, ófyrirleitnin og oflátungshátturinn verður æ ríkari þáttur í menningu og lífsstíl. Stöðutáknin verða glæstari og kaupaukar fjármálajöfranna æðisgengnari, og við, venjulegt fólk sem horfir á þetta vitum vart hverjum er sé að treysta í þessum darraðardansi í kringum gullkálfinn.
Auglýsingarnar setja mark sitt á flest og enginn er óhultur fyrir lævísi þeirra. Það er mun meiri fjármunum varið til auglýsinga á Vesturlöndum en til menntamála. Þar sitja freistingarnar vissulega við dyr. Auglýsingarnar beita nánast öllum þeim brellum og brögðum sem á mannlegu valdi eru til að setja okkur valkosti sem tengja inn á eðlishvatir ótta og öryggisleysis, öfundar og einsemdar, langana og þrár, fýsna, losta og græðgi.
Ógnvænlegt er að sjá hvernig auglýsingaiðnaðurinn beinir athygli sinni í sívaxandi mæli að börnum. Auglýsingar sem setja sakleysingjann inn í stöðu neytandandans, tæla hann inn í viðjar tískumerkjanna, neysluþrælkunarinnar og kyntáknsins, ginningar sem barnið hefur litlar forsendur til að vinna úr og standast gegn. Og yfir og allt um kring eru táknmyndir og ímyndir, undurfagrar og lævíslegar í senn sem innræta ómótaðri sál að hlutir og tæki og réttu merkin séu nauðsynleg til að gera mann aðlaðandi og eftirsóknarverðan í augum annarra, jafnvel áður en barnið hefur hugmynd um eðli þess sem sóst er eftir þá lærist atferlið og tungutakið.
Þetta má sjá í klæðaburði og látæði barna,- ekki síst stúlkna- til dæmis í hæfileikakeppnum grunnskólanna, þar sem kynferðislegar táknmyndir og klámfengið látæði er óspart notað, og oft af svo grófu tagi að með ólíkindum er, en þeir foreldrar sem er ekki sama finna sig vanmáttug við að sporna gegn.
Blygðunarkenndinni er gjarna ofboðið og mörk hins sæmilega verða óljós. Það er alvörumál, vegna þess að blygðunarkenndin er ein sterkasta vörn sjálfsvirðingar og mannhelgi. Og svo horfum við upp á skelfilega aukningu kynferðisglæpa. Skyldi það vera tilviljun?
Hér er brýnt að foreldrar og kennarar og samfélagið allt vakni til meðvitundar og samstöðu um aðgerðir til að stemma stigu við klámvæðingunni í öllum hennar myndum. Og stuðla að skaphöfn og dómgreind sem getur séð gegnum ginningar og staðist freistingar, forðast hið illa, laðast að hinu góða, og miðla þeirri trú sem finnur sig örugga í mildri föðurhendi. “Hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni.”
* * *
Guðspjall dagsins segir frá því er lærisveinar meistarans frá Nasaret voru að metast um það hver væri þeirra mestur. Þeir fóru að metast þarna þegar þeir sátu til borðs á skírdagskvöld, nóttina sem hann svikinn var. Jafnvel þá kom upp metingurinn um hver væri mestur. Það minnir okkur óþyrmilega á að trú og kirkja er ekki sjálfkrafa vörn gegn synd drambsins og hrokans.
En þetta er ótrúlegt að á örlagastundinni stóru þegar óvinirnir voru að safna liði til að ráðast til atlögu gegn meistara þeirra og Drottni. Hann hafði rétt þeim brauðið og bikarinn og haft yfir orðin háu, djúpu um nýjan sáttmála, fórnardauða, um fyrirgefningu syndanna. Þá fóru þeir að tala um metorð um forystu, um völd. Eins og þeir hefðu ekkert heyrt og ekkert skilið. Þetta er mannlegt, vissulega. “Syndin liggur við dyr og hefur hug á þér ...”
EN, segir Jesús: “Eigi sé yður svo farið,” Í guðsríki er öllum stöðlum og metorðastigum velt um koll og umsnúið. Hinn lægsti hlýtur mestu virðingu. Jesús heldur fram barninu: Þeirra er himnaríki, segir hann. Og hann lyftir upp hlut konunnar og annarra sem troðið var á í samtíð hans, og leggur megináherslu á hina hljóðlátu, auðmjúku þjónustu. Vegna þess að Guð kom sjálfur á jörðu, ekki til að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa, gefa líf sitt heiminum til lífs. Og ef til vill var það að þessum orðum slepptum að Jesús stóð upp, eins og Jóhannes segir frá og tók þvottaskálina og handklæðið og tók að þvo fætur þeirra, fór að inna af hendi hlutverk hins lægst setta, - hann, meistarinn. Sú frásögn er að mínu mati einhver sterkasta frásaga guðspjallanna, sterkasta mynd þess sem Jesús Kristur er og gefur. Endurmat allra gilda í ljósi kærleikans. Þar eru hin æðstu verðmæti að finna og hina æðstu tign manneskjunnar, svo og vörn sem dugar.
Hjá Jesú er kærleikur ekki bara orðin ein, orð Guðs og boð ekki aðeins orð, heldur líka verk, viðmót, framkoma. Þetta sem ekkert kostar, og aldrei verður verði keypt, en er dýrmætara en allt annað. Þegar Jesús var spurður að því hvað væri æðst allra boðorða svaraði hann með því að segja söguna um miskunnsama Samverjann. Lífið, manneskjan er ekki ópersónulegt viðfang. Kærleikur er eitthvað sem birtist í verki. Og eins er um trúna. Og þetta tvennt, ásamt voninni, er það sem mest er alls, án þess er lífið einskis virði, og allur heimsins auður og völd.
* * *
Ég var barn þegar ég heyrði fyrst söguna um konunginn á Krít. Ég gleymi aldrei þegar kalt vatnið rann mér milli skinns og hörunds. Manstu eftir þeirri sögu? Hann var auðugur, voldugur og ágjarn. Og varð fyrir því böli að hitta á óskastund. Hann óskaði sér þess að allt sem hann snerti yrði að gulli. Sú ósk rættist. Hann snerti stólinn sinn, sem varð þegar í stað að gulli, hann snerti borðið, stjakana, borðbúnaðinn, allt varð að gulli.
Ölvaður af gleði yfir þessu öllu snerti hann húsgögnin, veggi og gólf og gluggatjöld. Allt varð að glitrandi, glampandi, skíragulli. Svo tók hann brauð og vildi seðja hungur sitt, en það varð að gulli. Vínið sem hann bar að vörum sér varð að gulli. Skelfingin skall á honum eins og landskjálfti. Hann hljóðaði af harmi. Dyrnar opnuðust og litla dóttir hans, augasteinn og eftirlæti, hljóp til hans og upp um háls honum til að hugga hann. Og hún varð að gulli. Skíra gulli.
Hvað er mikilvægast? Og hvert leiðir ágirndin, gullþorstinn og græðgin? Hún hlutgerir allt, fólk, náttúru og dýr. Og leiðir til einsemdar og dauða. Það er gömul saga og ný.
Hvað er stærst og mest? Hver er mestur?
Kærleikurinn, fyrirgefning, umhyggjan, það er æðst í ríki Krists. Það er ekki gullið heldur góðvildin, ekki ágirndin heldur ástin, ekki valdið heldur þjónustan sem mestu varðar. Ef við myndum, ef við skildum! Og ef við létum það ráða forgangsröðun og verðmætamati okkar.
“Syndin liggur við dyrnar og hefur hug á þér,- en þú átt að drottna yfir henni.” Það er hægara sagt en gert, við þekkjum það hvert og eitt. En hér á eftir fáum við að krjúpa við borðið hans þar sem hann réttir okkur pant návistar sinnar og fyrirgefningar. Frelsarinn krossfesti og upprisni er hér okkur hjá. Hann ber burt synd heimsins. Krossinn hans, fyrirgefning syndanna, hylur misgjörð manns. Og máttur upprisu hans veitir styrk í stríði og líkn í neyð. Og hann biður fyrir þér að trú þín þrjóti ekki. Það er mest og mikilvægast alls. Það er hin æðsta vegsemd að vera í þeim bænarörmum.
Vertu, Guð faðir, faðir minn, í frelsarans Jesú nafni. Hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni.
Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda. Amen.
Karl Sigurbjörnsson er biskup Íslands. Flutt í Dómkirkjunni á 1. sunnudegi í föstu, 9.mars 2003.