Að afklæðast fermingarkyrtlinum

Að afklæðast fermingarkyrtlinum

Fermingarmessan var afstaðin - hópmyndatakan - og við prestarnir gengum í fararbroddi á undan björtum og myndarlegum í fyllstu orðsins merkingu fermingarbörnunum. Svona eins og þið eruð núna.
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
06. apríl 2014
Flokkar

Það er sönn saga, sem ég ætla að segja ykkur kæru fermingarbörn. Sögusviðið er ekki á fjarlægum stað og í fjarlægum tíma heldur innan veggja kirkjunnar hér í anddyri safnaðarheimilisins ekki fyrir nokkrum árum síðan. Þetta er saga raunveruleika. Vegna þess að hún eignar sér stað og stund í ýmsum myndum. Hún er ekki klippt og skorin og sögð þannig að hún gæti litið út fyrir að vera sem raunverulegust. Því raunverulegri getur hún ekki verið. Hún á ekkert skylt við hæfileikaþátt eins og „Iceland got talent“ ef eitthvað er, þá miklu frekar sver hún sig í ætt við raunveruleikaþáttinn “Amacing Race” eða “Kapphlaupið mikla” munurinn er sá að þessi saga eða atburður sem átti sér stað er bara miklu raunverulegri, en nokkuð það sem í daglegu tali nefnist raunveruleikaþáttur í sjónvarpi. Þættirnir eru oftar en ekki klipptir og skornir. Það læðist nefnilega að mér sá grunur þegar horft er á þætti “raun-veruleikans” að einhverju er sleppt og öðru bætt í til að gera þá meira raunverulegri eða spennandi í hversdagslegri tilveru okkar.

Það er gengið út frá því að hversdagurinn er ekki nógu spennandi til þess að við veitum honum athygli. Það er aldrei að vita hvað hið hversdagslega getur tekið upp á. Það varð nefnilega raunin um árið að það sem átti ekki að gerast gerðist hér niðri í safnaðarheimilinu – árum síðan.

Fermingarmessan var afstaðin - hópmyndatakan - og við prestarnir gengum í fararbroddi á undan björtum og myndarlegum í fyllstu orðsins merkingu fermingarbörnunum. Svona eins og þið eruð núna. Við prestarnir gengum að anddyri kirkjunnar albúin þess að samfagna börnunum og fjölskyldum þeirra þegar þau gengu saman út í nýfermda veröldina. Fermingarbörnin fóru niður í safnaðarheimili að afklæðast hvítum kyrtlunum. Leið smá stund og svo fóru þau að koma upp eitt af öðru í opin faðm fjölskyldu sinnar.

En það var ekki allt með felldu.

Bros og knús, sem er viðeigandi á þeirri stundu að fermdur drengurinn og eða stúlkan taki á móti á augnabliki samfunda breyttist í undrunarsvip nánustu aðstandenda. Það kom nefnilega í ljós að sum fermingarbörnin mættu í faðm fjölskyldunnar í öðrum jökkum og eða yfirhöfnum, en þau höfðu mætt í kirkjuna. Þegar farið var í að leita skýringar á þessu kom í ljós að blessuðum börnunum lá svo á að komast í faðm foreldra og aðstandenda að þau rétt komin niður í safnaðarheimilið sviptu sig úr kyrtlunum og gripu það sem hendi var næst af jökkum og öðrum yfirhöfnum og þustu upp hringstigann eins og hann væri síðasti viðkomustaður í “kapphlaupinu mikla” eða hjá Ödda Blö áður en stigið væri inná stórasviðið og fögnuður fjölskyldumeðlima tæki við. Í framhaldinu varð heilmikið fát að fá réttu fötin til baka og það sem verra var að einhverjir nýfermdir voru farnir að máta sig í veröldinni í „röngum“ fötum.

Þessi atburður eða mynd af sögu vil ég meina að tali til ykkar fermingarbarna á þessum hátíðisdegi ykkar og ekki aðeins ykkar heldur og til okkar allra sem hér erum. Kann að vera að einhverjum ykkar þætti svolítið djúpt á því á hvern hátt hún geti talað til okkar og eruð þegar búin að ýta á rauða takkann og exa út.

Ég er ekki að segja ykkur þetta svo að þið munið allveg örugglega fara í réttum fötum í allt um faðmandi fjölskyldu ykkar hér á eftir og uppskera bros og knús frá foreldrum, systkinum, öfum, ömmum frænkum og frændum og vinum og vinkonum - Ég er að segja ykkur þessa sögu vegna þess að ég treysti á skynsemi ykkar, eftir hafa fengið að fylgjast með ykkur sem af er vetri. Ég er líka að segja ykkur frá þessum atburði til að skerpa á þeirri athygli sem þið eigið og þurfið að hafa á umhverfið ykkar allt. Því ef þið haldið að umhverfið og það skemmtilega sé það sem gerist annarsstaðar – einhverstaðar í fjarlægri veröld - þá skjátlast ykkur! Hún er hér núna! ekki á morgun heldur akkúrat núna!

Það sem gerist hvort heldur við viljum kalla það ómerkilegt eða merkilegt skulið þið gefa ykkur tíma til að staldra við. Leyfa skynseminni að hvísla í eyru ykkar – flýtið ykkur hægt! Íklæðist þeirri vissu að þið eruð að gera rétt. Mamma og pabbi verða ekki alltaf nálægt til að hafa augu á og redda málum og skipta á því sem þið tölduð vera ykkar yfir í það sem er í raun og sann er ykkar.

Við getum sagt að þessi saga sem ég sagði og er sönn og gerðist hér í kirkjunni í Árbænum sé nútíma dæmisaga. Þetta er ekki saga sem gerðist og dagar og ár sem liðin eru síðan hafa fótum troðið hana því hún er að gerast í dag.

Hún er að gerast á þessu augnabliki í lífi einhvers þarna úti í veröldinni sem þið senn heilsið sem fermdir einstaklingar. Hún er að gerast í lífi einhvers sem einhverra hluta vegna var að flýta sér á stundu sem engin nálægur, engin sem lét sig varða af kærleika að koma auga á og segja að þú hefur íklæðst – ekki þínu eigin.

Þegar það gerist er voðin vís og bjargir þeirra sem hafa augun hjá sér í kærleika kunna oftar en ekki vera fjarri á þeirri stundu. Hvað þá að leggja við hlustir og hlýða á þann sem þið senn játist sem leiðtoga lífs ykkar.

Þegar þig afklæðist fermingarkyrtlunum hér á eftir í safnaðarheimilinu kæru fermingarbörn gætið þess að taka með og skilja ekki eftir í þeim æsku ykkar og þrótt í einhverjum tilbúnum “raunveruleika” flýti.

Það er beðið eftir ykkur bæði af þeim sem þykir vænt um ykkur og lengra úti af þeim sem láta sig ykkur engu varða. Aðeins að hafa not af ykkur.

Þeim sem þykir vænt um ykkur og elska eru tilbúin að bíða eftir ykkur hvort heldur að þið komið íklædd sátt við sjálf ykkar og tilveruna alla eða ekki. Það er sönn saga lífsins. Amen