Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Það er skelfilegt að rumska En vita sig hafa vakað Allan tímann.
Hrista af sér svefninn En finna hann gegnsýra auma vitundina.
Leita í örvæntingu til æðri máttar En finna hvergi rödd sína Láta ekki að eigin stjórn.
Vilja stóla á það sem innvortis er En hanga á hinu ytra Hrasa um tómið.
Hlaupa í örvæntingu til baka Horfa á sjálfið gráta undir feldi Átta sig og rumska.
Heyra harmahvein svefnrofans og Sálina ljóða til Guðs Sem svarar:
Himinn og jörð munu líða undir lok En orð mín munu aldrei Undir lok líða. Finna samhljóm sálarinnar og Guðs, og vakna.
Já, það er skelfilegt að finna sig í þeim sporum að vakna eftir langan andlegan svefn. Vakna og átta sig á því að hafa einhvers staðar á leiðinni týnt tilgangi sínum og jafnvel sjálfum sér. En finna um leið fyrir hinni ósviknu þrá að mega safna sér saman á ný, tengja sig innri friði og hlaða sig Guðlegri ást, uppbyggjast á sálu og sinni, og ganga þannig keik og hnarreist út í rökkvað frostið.
Öll hin vestræna heimsbyggð er um þessar mundir að rumska og vakna upp af værum og feitum blundi. Og hún rumskar með látum, reynir að rísa úr rekkjunni og tekst kannski að lokum með erfiðsmunum, því rassinn er orðinn þungur af rjómaáti. Og hún finnur bragðið, þessi fallega heimsbyggð, af storknuðum rjómanum á efrivörinni, en man sig ekki hafa notið þess að sitja í gær á silkináttfötum, sötrandi á súkkulaði með rjóma.
Fyrir framan spegilinn opnar heimsbyggðin augun og sér... ekki sjálfa sig heldur einkennilegt og úfið hismið. ,,Hvað er fyrir innan?” - Spyr hún sjálfa sig um leið og hún gónir í spegilmynd augans. ,, Já, hvað er þarna fyrir innan?” Hvað er ,,alvöru” í tilveru hennar og hvað er ,,hismið eitt.”
Guðspjall dagsins reynir að opna augu okkar fyrir hættum heimsins, sem leynast líkt og ósýnilegar snörur á vegi okkar... hér og nú í daglega lífinu. Jesús vissi strax á hans dögum, að hann þurfti að vara lærisveina sína við og sagði, með þunga og af alvöru: ,,Gætið ykkar, vakið!”
Við getum sofið á svo margvíslegan máta. Við getum verið í einhvers konar andlegum doða um langt skeið, sem einkennst getur af því að morgundagurinn renni bara upp með öll sín krefjandi verkefni.
Eða hver kannast ekki við þá tilfinningu að upplifa sama hlutinn aftur og aftur. Dagar koma og dagar fara en hversdagurinn er samt næstum því alltaf eins. Við leitum og eltum, hlaupum og grípum hitt og þetta, en sjáum löngu seinna að við vorum bara á leiðinni að detta. Og það sem við gripum var aldrei neitt. Þess vegna höldum við áfram að leita og hlaupa, frá einum stað til annars, án þess að vita hvers vegna.
Vekjaraklukkan hringir, morgunverður, börnin græuð inn í daginn, skólinn, vinnan, keyra í tómstundir, kaupa inn, sækja börnin, elda mat, þvo þvott – reyna að ná fréttum!!! Hátta, baða, svæfa – ná tíufréttum!!! Sofna við sjónvarpið, drattast inn í rúm um miðnætti... vekjaraklukkan hringir...
...allt prógrammið upp á nýtt, enn einn hringurinn í iðunni og ekkert annað að gera en að láta sogast með. Standa sína pligt og reyna svo þarna einhvers staðar inn í milli að hlaupa á bretti eða setjast niður á kaffihúsi og fá sér súkkulaði með rjóma... reyna að vera til.
Og auðvitað skorumst við ekki undan, við erum sterkar manneskjur og látum ekki trufla okkur þótt vekjaraklukkan gargi freklega á okkur hvern nýjan dag. Við þekkjumst hvorki af leti né slugsahætti og kunnum því ágætlega við okkur þarna mitt í hringiðunni –einmitt þar er gott að halda á sér hita yfir langa vertarmánuði, með því að vinna og hlaupa og vinna ennþá meira.
En hvað þá með þau sem misst hafa vinnuna... já, hvað með þau? Hvernig upplifun er það að horfa á fjölskylduna hlaupa út úr húsi í morgunsárið, af stað út í hringiðuna og hamaganginn? Sitja eftir heima og horfa á þessa sömu klukku fara fetið þangað til fjölskyldan safnast saman á ný eftir daginn. Finna sig annars staðar en allir hinir, vera ekki með. Hvernig er það? Það er önnur tilvera, fyrir suma þakkarvert hlé frá amstri daganna, en fyrir flesta örvænting og ótti og þegar verst lætur... vonleysi og uppgjöf.
Og kannski finnur hún sig einmitt þar í dag, fröken vestræn heimsbyggð, þegar hún áttar sig á því að súkkulaðið er búið heima hjá henni. Nú situr hún upp með sjálfa sig, þarna fyrir framan spegilinn, horfir fast inn fyrir eigin sjáöldur og leitar. Kannski langaði hana ekki einu sinni í súkkulaðið, hún hafði bara slegið til, því allir hinir fengu sér.
Hver kannast ekki við þá tilfinningu að láta leiðast út í hitt og þetta? Barnið spyr föður sinn: ,,Pabbi, má ég vera úti til kl. 10 í kvöld? Allir hinir megaða!
Eða þegar þessi sami pabbi segir við konu sína: Við verðum að fara að drífa okkur í sólarlandaferð, dóttir okkar er sú eina í bekknum sínum sem ekki hefur farið. Það halda örugglega allir að við séum eitthvað fátæk.”
Já, jafnvel foreldrarnir týnast í iðunni og leiða fjölskylduna áfram eftir því hvernig hinir gera. Og hvað situr eftir hjá þeim sem halda að gæði lífsins séu að finna í því sem aðrir gera?
Gætum okkar á þessu viðhorfi heimsins sem segir okkur að við séum ekki nóg nema við eigum eitthvað eða gerum eitthvað sem aðrir eiga og gera. Hættum að mæla virði okkar í veraldlegum gæðum eða í hegðun fjöldans.
Stöldrum við og skoðum vel líf okkar og það mynstur sem við lifum. Eru áherslur okkar til lífs eða ekki. Hvenær eru ákvarðanir mínar fjölskyldunni til uppbyggingar? Hvenær geri ég eða segi eitthvað sem er maka mínum til lífs og til vaxtar, hvenær uppbyggir þú sjálfa þig?
Lærisveinarnir fengu þau skilaboð frá Jesú að halda vöku sinni á myrkum tíma í sögunni. Þar sem ógn steðjaði að þeim við hvert fótmál. Þar var ekki í boði að fara í málamiðlanir þegar krossinn var annars vegar. Annað hvort varstu með eða ekki.
En við lifum ekki í fullkomnum heimi og jafnvel lærisveinar Jesú sváfu þegar hann virkilega þurfti á þeim að halda. Já og gengu svo langt að afneita honum á erfiðum augnablikum. En þrátt fyrir það sýndi Jesú enga uppgjöf gagnvart þeim. Hann sendi þá ekki heim með skottið milli lappanna, heldur hjálpaði hann þeim að styrkjast í anda. Hann lagði mikið á sig fyrir þá, gekk alla leið í dauðann... líka fyrir þá sem sváfu adlegum svefni.
Og seinna gengu þeir fram veginn með þá fullvissu í brjóstinu að Jesús væri upp risinn, að hann væri með þeim alla daga og myndi birtast þeim á ný við endalok tímans. Sú sannfæring kostaði þá hugrekki og festu og í mörgum tilfellum dauðann.
Jesús krafði þá um að halda vöku sinni. Á sama hátt hrópar hann að þér og mér, að við sofnum ekki andlegum svefni. Það er allt í lagi að leika sér í lífinu, að eltast við skemmtan og ævintýr, ef við bara hengjum ekki hamingju okkar á þau stundlegu gæði.
Líkt og okkar fagra sögupersóna, vestræn heimsbyggð gerði, er hún skálmaði freklega um jarðargæðin svo að hún sá hvorki né heyrði ámátlegt ákall hins þjakaða þriðja heims. Í því samhengi er vert að minna á að þótt tíðarandinn hafi átt til eigingirni og sjálfbirgingshátt, þá er að sjálfsögðu til fólk sem heldur vöku sinni og hrópar á okkur hin að vera með og taka höndum saman um dreifingu lífsgæða í veröldinni. Hjálparstofnun kirkjunnar réttir nú fram hendur fyrir þau sem minna mega sín. Söfnunarbaukarnir eru þessi útrétta hönd fátækra í heiminum. Munum því eftir baukunum góðu á aðventunni.
Heimsbyggðin öll stendur á sérkennilegum og sögulegum tíma, þar sem ákveðin gildi hafa misst trúverðugleikann og í staðinn leitar fólk í gömul andleg gildi sem nú knýja dyra. Marga hef ég heyrt tala um að horfa af tilhlökkun til þess verkefnis, að einfalda líf sitt, að hægja á, og snúa sér að hinu dýrmæta en oft á tíðum, smáa, í tilverunni.
Orðið ,,Lífsgæði” fær hér algerlega nýja merkingu. Hin veraldlegu lífsgæði falla í skuggann á hinum andlegu lífsgæðum. Við erum að tala um muninn á auglýsingajólum og jólum sem snúast um holdtekju Drottins. Það eru tvenn gríðarlega ólík jól.
Þetta er stríð milli hins efnislega og hins andlega. Verða jólin enn ein markaðsvaran á færibandi vestrænnar velmegunnar, eða verða þau andlegt fóður úr austri, nýtt upphaf fyrir fjölskylduna, nýtt líf fyrir þig? Hvað ætlar þú að gera á meðan þú bíður komu frelsarans? Ertu undir það búin(n) að mæta honum í dag?
Aðventan er tími hins andlega undirbúnings. Jólafastan kennir okkur ekki aðeins að draga úr kjötneyslu eða halda í við okkur í mat, heldur kennir hún okkur einnig að líta í eigin barm. Og undirbúningur okkar getur verið á svo marga vegu, en best af öllu er að rannsaka Ritninguna.
Við getum æft okkur í að praktísera kristið líferni eftir uppskrift sem okkur er gefin af munni Jesú. Þetta er ákaflega einföld uppskrift, en krefst um leið mikils af okkur, krefst þess að við höldum vöku okkar og rækjum trú okkar í samfélagi við aðra trúaða. Og það ætti að vera okkur svo lítið mál, því hvarvetna um sveitir landsins, í hverjum kaupstað og öllum hverfum borgarinnar finnum við helgidóm sem bíður þess að við stígum þar inn, úr erli dagsins, til fundar við Guð.
Kirkjan okkar er lifandi kirkja, hún er marglit hjörð guðsbarna sem koma saman í nafni Jesú Krists, til að uppbyggjast í anda fyrir komandi vinnuviku. Hún vex og dafnar dag hvern og það er afar ánægjulegt að segja frá því að í dag kl. 14 verður Guðríðarkirkja í Grafarholti, hér í Reykjavík, vígð af biskupi okkar hr. Karli Sigurbjörnssyni og næstkomandi sunnudag verður safnaðarheimili Lindakirkju í Kópavogi einnig vígt af hr. Karli Sigurbjörnssyni. Tveir nýir helgidómar vígðir til þjónustunnar hér á íslenskum akri. Ég óska þjóðinni innilega til hamingju með það.
En þá að uppskriftinni sem ég minntist á hér áðan. Hana er að finna í 22. kafla hjá Matteusi og hljóðar einhvern veginn svona:
1. Fyrst af öllu, skaltu elska Drottinn Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Það gerirðu með því að viðurkenna með munni þínum og hjarta að Jesús sé sonur Guðs og að frá Guði skapara okkar sé allt líf komið, að án Guðs væri ekki kærleikur, enginn andardráttur, enginn vöxtur. Svo skaltu hlusta eftir heilögum anda, hvernig hann starfar innra með þér og hjálpar þér að vaxa í trúnni.
Þegar þú hefur æft þig í þessu í nokkra daga, ættirðu að vera farin(n) að finna til árangurs. Þá tekur við næsta þrep, sem Jesús segir að sé þessu líkt, þ.e.a.s. álíka mikilvægt og að elska Guð. Og það er:
2. Þú skalt elska náungann eins og sjálfan þig. Því þegar þér hefur lærst að frá Guði þiggur þú allt, þá hefurðu um leið áttað þig á hversu stórkostleg gjöf guðs þú ert, þú finnur hversu heitt Guð elskar þig og þú fyllist sjálfsöryggi og sjálfselsku. Ekki slíkri sem upphefur sjálfa sig, heldur slíkri sem ber virðingu fyrir sjálfri sér og fyrir lífinu. Þegar þessu er náð, skaltu gefa það áfram. Elska hina með sama hætti og láta uppskriftina ganga til allra sem hlusta vilja.
Afraksturinn lætur ekki á sér standa, líkt og segir í ritningarlestri dagsins, við munum finna himnaríki á jörð og sjá hvað þau græða sem þekkja Jesú.
Vakið! Því þið vitið ekki hvenær hann kemur!