Hvar?

Hvar?

Spurningin um hvarið er oft þjáningarfull, vegna þess að hún gerir okkur óánægð með það sem við höfum áorkað af veraldlegum gæðum og þroska. Þau spyrja, er þetta allt og sumt? Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað?

Matt. 2.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Mig langar til að byrja þessa prédikun á upphafsorðum kvæðisins “Söknuður” eftir Jóhann Jónsson.

Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað? Og ljóðin er þutu´um þitt blóð frá draumi til draums, hvar urðu þau veðrinu að bráð, ó barn er þig hugðir borið með undursamleikans eigin þrotlausan brunn þér í brjósti! Hvar…?
Í ljóðinu lítur skáldið í kringum sig og finnur enga von, enga framtíð. Gleðin og ljóðin sem áður höfðu flætt fram úr hjartanu eru allt í einu þorrin. Þau hafa orðið veðrum að bráð. Kvæðið allt rennur fram eins og hvísl í kringum þessa einu spurn lífsins, hvar?
Við svofelld annarleg orð, sem einhver rödd lætur falla á vorn veg- eða að því er virðist, vindurinn blæs gegnum strætin, dettur oss svefngöngum vanans, oft drykklanga stund dofinn úr stirðnuðum limum, Og spunahljóð tómleikans lætur í eyrum vor lægra. Og leiðindin virðast í úrvinda hug vorum sefast. Og eitthvað, er svefnrofum líkist, á augnlok vor anda, vér áttum oss snöggvast til hálfs, og skilningi lostin hrópar í allsgáðri vitund vor sál: Hvar?
Hún er undarleg spurning þessi hvar-spurning. Hún vitjar okkar eins og annarlegt orð, hristir okkur af svefni og drunga Hún spyr ekki hvað og hví hún biður okkur ekki að leysa og útskýra tilgang tilverunnar eða hvort líf okkar hafi merkingu Hún spyr hvar lífið sé að finna, hvar tilgangurinn sé og hvar sé hjálpin.

Jóhann Jónsson, sem greindist með berkla áður en hann orti kvæðið og vissi að hann átti skammt eftir ólifað, orðar þessa spurningu. Hvar? Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað? Við henni á hann ekkert svar, aðeins hvísl og endurvarp hinnar eilífu leitar að því sem gefur dögum og lífi lit sinn.

II. Hvar? „Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Við sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu.“

Hér eru komnir vísir menn úr Austurlöndum, sem fylgt hafa stjörnu. Og rétt eins og íslenskt skáld á árunum milli stríða, þá spyrja þeir ekki hvað eða hví heldur hvar. Þeir hafa lagt á sig mikið ferðalag á þeirra tíma mælikvarða. Þeir hafa lesið í himintunglin og rekið augun í stjörnu sem hegðar sér andstætt náttúrulögmálum. Hún hreyfist til vesturs, gegn möndulsnúningi jarðar og síðan suðvesturs. Það er aðeins eitt sem rekur vitringana áfram í þessa för, það er óljós hvar-spurning, um nýfæddan konung annarrar þjóðar, sem þeir vilja finna og krjúpa fyrir. Þeir byrja leit sína að hinu konungslega barni sem þeir höfðu lesið úr stjörnunum á augljósasta staðnum, konungshöllinni í Jerúsalem. Hvar spyrja þeir, og Heródes konungur, svarar með öðru hvari. Hann kallar á presta og fræðimenn og spyr þá:  „Hvar á Kristur að fæðast?“

Heródes virðir fyrir sér þessa menn. Fjölda þeirra vitum við ekki, því að hvergi kemur fram í guðspjallinu að þeir hafi verið þrír. Það er seinni tíma viðbót við söguna og dregin af hinum þremur gjöfum vitringanna til barnsins helga, gulli, reykelsi og myrru. Heródes er slægvitur og grimmur og fullur skinhelgi. Hann biður vitringana endilega um að koma við á leið sinni til baka, svo að hann geti líka tekið þátt í að veita barninu lotningu. 

Í guðspjalli dagsins má finna tvær hvarspurningar. Önnur spurningin er spurning vitringanna hún leitar eftir hinu æðsta og besta sem stígur upp af brjóstinu, þegar við látum hversdaginn ekki nægja okkur, lögmál himintunglanna sem renna sitt skeið dag eftir dag og viku eftir viku. Hún spyr hvar okkur hefur villst af leið. Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað? Hún leitar að stað í tíma og rúmi þar sem dagarnir fá lit og lífið merkingu þar sem brunnana þrýtur ekki og gleðin vellur fram. Hún gefst ekki upp og sættir sig ekki við þá fánýtu speki hversdagsins að það sé ekkert til utan hans. Þangað ætla vitringarnir. Ástin eftir visku og þekkingu á hinu æðsta rekur hina austurlensku vísindamenn áfram í spurningum þeirra. Þeir hafa komið um langan veg til þess að sjá þetta litla barn.

Hin hvarspurningin er öllu lítilmótlegri. Heródes hefur engan áhuga á að verða vitur og lotningarfullur. Hvarið hans, leitin hans er ekki knúin áfram af sannleiksást heldur hræðslu og valdgræðgi. Heródes vill ekki samkeppni engin annarleg orð eða skrítna menn frá Austurlöndum. Hann vill varðveita sitt öryggi, sína skjaldborg, allt það sem hann hefur hrúgað í kringum sig og telur að veiti sér hamingju. Hann á heima í höll sem er full af stöðnun, ótta, vélarbrögðum og leiðindum. Heródes vill engan konung Gyðinga, hvorki barn né fullorðna manneskju.

Þegar við lesum guðspjall Matteusar um vitringana þá er undarleg skírskotun milli hins litla barns sem veldur Heródesi mikla svo miklum ótta og hins fullvaxta manns, sem Heródes Antipas, sonur Heródesar mikla átti síðar eftir að taka þátt í að krossfesta. Þegar vitringarnir varpa fram hvar-spurningu sinni í höllu Heródesar þá segir guðspjallið að allri Jerúsalem hafi orðið órótt. Saman eru kallaðir helstu trúarleiðtogar Gyðinga valdhafanum til stuðnings. Þeir vitna í spámanninn Míka og benda á Betlehem. Síðustu dagar Jesú jafn og þeir fyrstu voru markaðir Heródesum, faríseum, fræðimönnum og skelkuðu fólki, sem hugsaði meira um eigið öryggi eigin varnargirðingar eigið pot heldur en kærleikann og lífið. Þessa samhverfu milli hinna fyrstu jóla og hinna síðustu páska orðar Jóhannes guðspjallamaður í jólaguðspjalli sínu, þegar hann segir: Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því.

III. Hvar? Hverjar eru ykkar hvar-spurningar á nýju ári, kæru Krists vinir? Heyrið þið spunahljóð tómleikans sem Jóhann talar um í kvæði sínu? Þekkið þið leiðindin Er stundum andað á svefnlok ykkar þessari spurningu, sem spyr um meira líf og meiri lit? Kvæði Jóhanns bendir okkur í engar áttir í leit okkar. Það hvíslar aðeins hvar? en finnur ekkert svar, enga von, enga framtíð. Spurningin um hvarið er oft þjáningarfull, vegna þess að hún gerir okkur óánægð með það sem við höfum áorkað af veraldlegum gæðum og þroska. Þau spyrja, er þetta allt og sumt? Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað?

Og þetta hvar þetta vitringshvar leitar sannleikans og kærleikans og ljóssins sem gerir líf okkar ríkulegt sem gerir okkur að góðum manneskjum og glöðum einstaklingum í Jesú Kristi. Þetta hvar sem elskar og leggur niður vopnin og gefur gull, reykelsi og myrru af því að það þekkir barn og veitir því lotningu rekur okkur til að reima á okkur skóna og halda í vesturátt eftir stjörnu sem bendir á hið sanna líf sem er ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því.

Hin hvar-spurningin þekkir enga skó og hefur aldrei séð stjörnu. Það er fullt af myrkri og hræðslu og berst gegn öllu því sem breytt gæti stöðunni ruggað bátnum hent okkur af stað í ferð sem er full af fyrirheitum um daga og lit og líf. Það fer ekki neitt þroskast ekki neitt og gefur ekki neitt.

Hvert verður okkar hvar á nýju ári?

Guð gefi okkur skó og stjörnu, Guð gefi okkur nýtt ár 2008 fyllt af andans ferðum í vesturátt.  Hvar, ó hvar!

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.