Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón. Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn? Og hví eruð þér áhyggjufullir um klæði? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins, sem í dag stendur, en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlitlir! Segið því ekki áhyggjufullir: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir, og yðar himneski faðir veit, að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning. Mt. 6: 24 - 34
Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Við lifum í heimi mikillar misskiptingar, misskiptingar milli þjóða, kynja og ýmissa annarra þjóðfélagshópa. Á meðan margar þjóðir lifa við sáran skort og hafa jafnvel ekki ráð á fæðu eða klæðum, lifum við íbúar í vestrænum heimi við mikinn munað. Við kaupum jafnvel flíkur fyrir tugi þúsunda og förum heldur á veitingastaði til að borða ef okkur sýnist svo. Og opinberar tölur sína það svo ekki verði um villst að við Íslendingar erum ein af ríkustu og hamingjusömustu þjóðum heims . Hér virðist allt vera í lukkunnar velstandi.
En samfélagið hér í norðri gerir miklar kröfur til okkar, ekki síst til barna og unglinga. Þessar kröfur felast yfirleitt í því að geta sýnt fram á að við séum menn með mönnum, unglingar þurfa að vera í tískunni svo að þeir einfaldlega falli inn í hópinn og hjá þeim sem eldri eru, er nauðsynlegt að eiga fín heimili, bíla já og öll hugsanleg tæki og tól, sem við fullvissum okkur um að séu svo nauðsynleg, en notum svo sjaldan eða aldrei eftir að þau eru komin inn á heimilið.
Flest kvöld vikunnar eru sjónvarpsþættir bæði íslenskir og erlendir sem segja okkur hvernig við eigum að vera, hvað við eigum að gera og hvað við eigum að kaupa til að geta talist 'normal' - og margir hlaupa á eftir þeim duttlungum, horfa á umbúðirnar frekar en innihald, horfa á veraldlegan auð frekar en andlegt ríkidæmi. Það virðist því hafa verið þannig um alllangt skeið að það eru peningarnir sem stjórna manninum en ekki maðurinn peningnum.
* * *
Þrátt fyrir að Jesús hafi framkvæmt mörg tákn og sýnt með þeim hvers hann var máttugur, skiptir ekki síður máli sá boðskapur sem hann flutti í mæltu máli. Það er boðskapur sem hefur staðist tímans tönn og gefur okkur leiðbeiningar um gott og hamingjuríkt líf. Guðspjall dagsins er tekið úr fjallræðu Jesú sem er skráð í 5. - 7. kafla hjá Matteusi guðspjallamanni. Fjallræðan er þekkt öllum kristnum mönnum, þar er til að mynda að finna sæluboðin og bænina sem Kristur kenndi, Faðir vor. Guðspjallstextinn sem við heyrðum áðan er ekki síður þekktur og hefur oft verið vitnað til í ræðu og riti í gegnum allar aldir kristninnar.
Það var mikill mannfjöldi sem hlýddi á Jesú er hann flutti ræðuna, og fólkið sem þar hlustaði hafði ólíkan bakgrunn og mismunandi stétt og stöðu, efnamiklir menn sem og þeir sem þekktu fátæktina á eigin skinni, þeir vissu jafnvel ekki hvort og hvenær þeir fengju næstu máltíð. En allir þeir sem þar voru komnir, voru þar í sömu erindagjörðum að hlýða á þennan merka mann. Þó hann hafði lítið sagt frá sjálfum sér áttaði fólk sig á því að hann var sérstakur, hann kenndi þeim eins og sá er vald hefur, en ekki eins og fræðimenn þeirra. Í guðspjallstexta dagsins krefur Jesús menn um að taka grundvallarafstöðu í lífinu, velja á milli Guðs og Mammon. Það er ekki hægt að þjóna þeim báðum. Gríska sögnin sem liggur að baki sögninni að þjóna er duleo - sem þýðir einnig að vera einhverjum skuldbundinn. Maður getur ekki bundið sig við tvo ólíka aðila og ætlað að þjóna þeim báðum af fullri trú og heiðarleika, það er augljós staðreynd . Öfugt við það sem margir halda er Jesús ekki að tala gegn peningum sem slíkum í ræðu sinni. Hann mótmælir því hins vegar, sem vel var þekkt þá og við þekkjum vel í dag, að efnishyggjan skuli sett í forgrunn og það séu peningarnir og áhrif þeirra sem stjórna öllum verkum og gjörðum manna. Hann bendir fólki á leiðina, leitið fyrst ríkis föðurins og réttlætis og þá mun allt veitast yður að auki. Jesús vísar því hér til forgangsröðunar. Okkur ber að horfa til vilja Föðurins á himnum, þess er hefur komið skikkan á sköpunina og sett manninn ábyrgan yfir henni. Vilji föður okkar leiðir til hinna góðu verka, leiðir til áhyggjulauss lífs. Í Fillippíbréfinu leggur Páll ennfrekari áherslu á líf með Guði, leysi okkur undan áhyggjum: "Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð".
Í ræðu sinni notar Jesús líkingar sem fólkið þekkti vel til. Salómón konungur var sem tákn fyrir mikinn glæsileika og velgengni enda var sagan úr fyrri kongungabók vel kunnug er drottningin af Saba sótti Salómón heim. Þar er því lýst nákvæmlega að hann bjó yfir mikilli visku og auði og var yfirburðarmaður á öllum sviðum, hann var þó ekkert í samanburði við liljur vallarins sem hvorki vinna eða spinna.
* * *
Í vikunni kynnti Unicef, Barnahjálp sameinuðu þjóðanna nýútgefna skýrslu um ástand barna í heiminum. Þar segir að heimsbyggðin hafi brugðist börnum jarðar með því að tryggja þeim ekki nægan mat. Um þessar mundir búa 146 milljónir barna í heiminum undir fimm ára aldri við hungur, það er fjórða hvert barn í heiminum. Auk þess er svo ástatt að einungis þriðja hvert barn í þróunarlöndunum er alið á brjóstamjólk fyrsta hálfa árið . Það sem er ekki síður sorglegt við þessa skýrslu er sú staðreynd að þrátt fyrir fín fyrirheiti og nákvæmar áætlanir um róttækar breytingar, þá hefur lítið þokast í rétta átt síðustu 15 árin.
Oftar en ekki þegar slíkar fréttir birtast hér á versturlöndum, þá kippum við okkur lítið upp við þær, við erum orðin næstum ónæm fyrir slíkum fréttum. Þessar aðstæður eru líka framandi, við þekkjum þær illa. Við horfum framhjá vandamálinu, já, heimsbyggðin hefur brugðist.
Það var kaldhæðnislegt að næsta frétt á undan þessari sagði frá því að íslensku bankarnir hefðu hagnast um 61 milljarð á aðeins fyrstu þremur mánuðum þessa árs, sem þýðir hagnað upp á tæpar 680 milljónir á degi hverjum. Því ber að fagna þegar mönnum gengur vel, hvort sem það er á sviði viðskipta eða öðrum, og vöxtur bankastofnanna hérlendis hlýtur að bera stjórnendum og starfsfólki góðan vitnisburð. En því hlýtur að fylgja samfélagsleg ábyrgð þegar einstakir aðilar hafa yfir svo miklum auðæfum að ráða.
Jesús áminnir okkur um að styrkja þá sem eru þurfandi og leitast við að leiðrétta misskiptingu í heiminum. Þrátt fyrir velsæld í íslensku samfélagi, já meiri velsæld en á flestum öðrum stöðum, þá leggur Ísland minnst af öllum norðurlöndunum til þróunaraðstoðar í fátækari hlutum heimsins. Aðeins 0,22% af vergri þjóðarframleiðslu landsins fer til þróunaraðstoðar. Til samanburðar má nefna að nágrannar okkar Norðmenn gáfu 0,93% af sínum tekjum til þróunarhjálpar. Við höfum týnt ábyrgðarhlutverki okkar - gleymt þeirri staðreynd að við eigum að styðja við þá sem veikari eru.
Söngvarinn, Bono sem hefur lagt mikið fé til þróunaraðstoðar og vakið jafnframt máls á erfiðleikum íbúa fátækari landa sagði eitt sinn: "Margir segja: Eftir hverju er Guð að bíða? Af hverju grípur Guð ekki inn í? Ég held að Guð bíði eftir því að við grípum inn í. Ég held að hann falli á kné frammi fyrir fólkinu, kirkju sinni: Að við látum af þessu aðgerðaleysi. Við verðum að sjá að við erum náungar hvers annars. Orðin "elska skaltu náungann" eru ekki heilræði. Þau eru skipun".
Fuglar himinsins sinna verkum sem þeim er falið af kostgæfni, búa til hreiður og finna ungum sínum fæðu. Á sama hátt er gerð krafa til okkar manna, að við sinnum þeirri ábyrgð sem Guð hefur falið okkur er hann skapaði okkur í sinni mynd af sömu kostgæfni og myndugleik. Við berum ábyrgð gagnvart náunganum, hvar svo sem hann er staddur í þessari veröld. Við eigum ekki að vera áhorfendur í fjarlægð og vonast eftir breytingum. Nóbelsverðlaunaskáldið Elie Wiesel sem lifði af helför nasista á hendur gyðingum, sagði eitt sinn: ,,það er ekki hatrið sem er andstæða kærleikans, nei það er afskiptaleysið".
Það er ekki hægt að þjóna tveimur herrum, við þjónum aðeins einum. Guð býður okkur að leita ríkis hans, og þeirri leit á ekki að fresta til morgundagsins. Í öllu okkar lífi eigum við að leita Guðs ríkis það á að hafa áhrif á huga okkar og hönd í daglegu lífi. Ef við leitum eftir efnishyggjunni í öllu því sem við gerum, spyrjum okkur sífellt hver ávinningurinn er af öllum verkum okkar verður takmarkinu aldrei náð, kröfurnar verða meiri, samkeppnin harðari og áhyggjurnar þyngri. Það þekkja þeir sem reynt hafa. Sífelld þrá eftir auknum auðæfum og meiri völdum eru ekki þeir þættir sem veita sanna hamingju og leiða til góðra hluta.
Þegar Jesús talar um áhyggjulaust líf fjallar hann um þá náð sem Guð gefur á hverjum degi og ort var út af í sálminum sem sunginn var hér áðan. "Það er nóg að Drottinn segir mér: náðin mín mun nægja hverjum degi, nú í dag ég styð og hjálpa þér."
Náðin er okkur gefin en hvetur okkur til skuldbindingar og þjónustu, hvetur okkur til fylgdar við Guð og boðskap hans í öllu okkar lífi, setja Guðs ríki í forgang. Þegar við þjónum náunganum, þjónum við Guði, þegar við þjónum Guði, þjónum við náunganum.
Dýrði sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.