Núvitundaríhugun, annar hluti: Ég er

Núvitundaríhugun, annar hluti: Ég er

Loks skynjum við líkama okkar sem heild. Við erum hér, frá toppi til táar, hér í þessu rými, hér á þessu andartaki. Og Guð sem er, Guð í Jesú Kristi segir við okkur: „Ég er sá sem ég er“
Mynd

Streymi frá núvitundarstund 2 í Grensáskirkju

Við erum hér í Grensáskirkju á fimmtudegi til að eiga okkar núvitundarstund á grunni kristinnar trúar. Í síðustu viku vorum við minnt á andardráttinn sem er uppspretta lífsins, já lífið sjálft, gjöf frá Guði, lífsins anda eins og segir í Jobsbók: „Andi Guðs skapaði mig og lífsandi Hins almáttka gefur mér líf“ (Job 33.4).

Andi Guðs skapaði mig og lífsandi Hins almáttka gefur mér líf. Ég er hér vegna lífsandans í brjóstinu, vegna súrefnisins sem streymir út til allra vefja líkamans með blóðinu. Það er blóðinu, æðunum og hjartanu að þakka að allar frumur líkamans fá súrefni og næringarefni og losna við koltvíoxíð og önnur úrgangsefni. „Í gegn um lífsins æðar allar, fer ástargeisli Drottinn, þinn“ sagði séra Matthías. Ég er – vegna ástar Guðs, vegna anda Guðs sem streymir um æðar mér. Ég er - vegna Guðs sem er.

Við komum okkur þægilega fyrir með báðar iljar í gólfi, höfuð til himins, hendur í skauti, augun mjúklega lokuð ef við viljum. Förum saman með einföldu játninguna okkar sem byggir á nærveru Guðs í hjartanu, nærveru Guðs sem veitir nærveru við okkur sjálf, okkar innsta kjarna. Við gætum tengt orðin við andardráttinn, þannig að við öndum að okkur um leið og við förum með orðin Ég er og öndum frá okkur um leið og við segjum eða hugsum Ég er hér.

Ég er – Ég er hér

Ég er – Ég er hér

Ég er – Ég er hér    

Í annarri Mósebók lesum við (2Mós 3.13-14):

Móse sagði við Guð: „Ef ég kem til Ísraelsmanna og segi við þá: Guð feðra ykkar hefur sent mig til ykkar, og þeir spyrja mig: Hvert er nafn hans? hverju á ég þá að svara þeim?“ Guð svaraði Móse: „Ég er sá sem ég er.“ Og hann bætti við: „Svo skaltu segja við Ísraelsmenn: „Ég er“ sendi mig til ykkar.“

Guð er. Ég er. Nú sitjum við hér og leyfum okkur að finna fyrir okkar eigin tilveru einmitt á þessu augnabliki, frá hvirfli til ilja. Byrjum á því að beina athyglinni upp í höfuð. Finnum hvernig súrefnið berst til efsta hluta höfuðs, hvirfilsins. Skynjum það sem þar er að finna, hita eða kulda í húðinni, örlítinn náladofa eða spennu. Færum athyglina niður hnakkann og að hægra eyra. Verum forvitin. Hver er tilfinningin í eyranu, á bak við eyrað? Finnum næst fyrir kjálkanum hægra megin. Veitum honum blíða, rannsakandi athygli. Færum hugann upp kinnina hægra megin, upp að gagnauga. Skynjum það sem þar er að finna. Því næst einbeitum við okkur að hægra auga. Getum við fundið fyrir auganu? Og svo förum við upp í enni, hægra megin fyrst og síðan vinstra megin. Finnum við hita eða kulda, spennu eða slökun? Ef við finnum spennu er það bara gott. Hún er þarna og þá vitum við það. Kannski slaknar á okkur við að finna spennuna, kannski ekki. Það er þá þannig.

Kannski finnum við ekki neitt. Það er bara allt í lagi. Það tekur tíma að venja athyglina á að vera kyrr á sama stað stundarkorn. Það tekur tíma að leyfa sér að finna fyrir líkama sínum, skynja líðan og beina huga að einum stað í einu. Eðli hugsana er að flakka til og frá. Hugurinn hvarflar hingað og þangað. Það er allt í lagi. Þegar við finnum að við erum komin út um víðan völl dæmum við okkur ekki heldur snúum við blíðlega til baka að andardrættinum og síðan að þeim stað líkamans sem við erum að einbeita okkur að.

Við vorum komin upp í enni. Færum núna athyglina að vinstra auga, augnumgjörð, gagnauga. Dveljum þar eitt andartak. Næst leiðum við skynjunina niður kinnina, niður í kjálka. Hvað finnum við þar? Svo er það munnurinn, varir, tennur, tunga. Hvar er tungan staðsett? Erum við með samanbitnar tennur eða er örlítið bil á milli? Við gætum prófað að finna muninn til að gá hvernig okkur líður með það. Og svo er komið að nefinu. Við finnum loftið leika um nasirnar og nú fylgjum við því eftir, niður í kok, niður hálsinn, niður í lungu og finnum kviðinn þenjast út og dragast saman. Og við leyfum okkur að finna áhrif andardráttarins niður í iljar, fram í fingurgóma.

Loks skynjum við líkama okkar sem heild. Við erum hér, frá toppi til táar, hér í þessu rými, hér á þessu andartaki. Og Guð sem er, Guð í Jesú Kristi segir við okkur: „Ég er sá sem ég er“ (Jóh 8.28, 13.19). Ljúkum stundinni með játningunni okkar og síðan heyrum við ljúfan orgelleik.

Ég er – Ég er hér

Ég er – Ég er hér

Ég er – Ég er hér                                                                           

Þríeinn Guð, Guð, ljós þitt, friður og líf,  blessi þig og varðveiti á þessari stundu og um ókomna tíð. Góðar stundir.