Þú getur líka hlustað á ræðuna með því að smella hér.
Náð . . . Ofurvarlega tók ég hana í fangið. Augun dökk horfðu í spurn á þennan ókunna mann svo hvörfluðu þau til og frá og síðan aftur á andlit mitt og augu. Hver ert þú? Hvaðan ertu? Hvað býr að baki augum þínum? Þannig horfðu augu hennar á mig í spurn og ég til baka í sömu spurn þótt aldur og þroski væri annar. Fyrir tíu dögum hélt ég í fyrsta sinn á yngsta barnabarni mínu, Katrínu, sem fæddist fyrir nokkrum vikum. Hún er eins og önnur börn, háð umönnun og ástríki foreldra. Maðurinn er ósköp lítill og bjargarlaus í byrjun – og kannski alla ævina þó með ólíkum hætti sé frá einu aldursskeiði til annars.
Guð Ég er flöktandi ljós milli fingra þinna,segir skáldið Matthías Johannessen.
Lífið er undursamlegt. Það er mikið fagnaðarefni að fá að vera til, að hafa fæðst, vaxið og dafnað, sem ávöxtur ástar og unaðar foreldra sem elskuðu hvort annað og höfðu í sér þrá til að lifa og upplifa undrið að vera til. Við erum til! Þú ert til fyrir einstakt lán! Það mátti engu muna að þú hefði ekki orðið til. Fruman sem barðist áfram, synti og fann eggið hefði getað orðið undir í samkeppninni við aðrar frumur og annað egg og þú þar af leiðandi aldrei orðið til. Aldrei orðið til. Þú hefur líf þitt að láni og það er eina tækifærið sem þér er gefið. Þú verður aldrei til aftur og hefur aldrei verið til áður. Þú ert einstök manneskja. Og þess vegna er ástæða til að njóta lífsins og fagna tímamótum sem aldrei koma aftur.
Tímamót og skil, mæri og mörk. Í dag eru tímamót. Nýtt kirkjuár er runnið upp. Sjálfur hef ég gengið yfir mörk, upplifað tímamót, stór tímamót í liðinni viku. Tímamótin eru mörg. Hver dagur er í raun tímamót, nýtt tækifæri, náðargjöf. Hvert andartak er líka tímamót og ný gjöf. Það skiljum við vel sem oft á tíðum erum með fólki á mærum lífs og dauða. Og þegar ævin er gerð upp þá er farið í söguna og hún rakin til upprunans. Hvaðan ertu? Þannig er gjarnan spurt. Fæðingarstaður þinn og æskustöðvar skipta miklu máli. (Vestfirsku fjöllin sem ég fæddist undir þau eru hér í brjósti mínu og ég hef þau með mér hvert sem ég fer). Við eigum okkur uppruna á tilteknum stað – og enginn er eyland. Við erum af foreldrum komin og ætt okkar er þekkt og við getum sem Íslendingar rakið ættir okkar út og suður. Já, við þekkjum uppruna okkar og æviferil. En þar með er sagan ekki öll sögð því þessum spurningum er enn ósvarað: Hvaðan ertu? Hver er uppruni þinn? Hvar varst þú áður en þú varðst til í móðurkviði?
Hún er algeng sú afstaða að við höfum átt okkur fortilveru. En hvar vorum við þá? Þú varst ekki til áður nema sem hugmynd, möguleiki, „potens“, ímyndun, hugsanlegur möguleiki. Við erum öll afurð ímyndar, hugar sem sá okkur áður en við urðum til eða eins og segir í einum Davíðssálma:
„Augu þín sáu mig er ég enn var ómyndað efni, ævidagar mínir voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína áður en nokkur þeirra var til orðinn.“ (Sl 139)Þú ert afurð hins æðsta huga. Sá sem stýrir draumasmiðju alheimsins, dreymdi þig og sá draumur varð að veruleika. Þú ert draumur, algjör draumur, draumur Hans sem sá þig fyrir sér öldum og þúsöldum áður en þú varðst til hér á jörð. Þú ert draumur og veruleiki þess huga sem er að baki öllu sem er. Enginn hlutur er til eða hefur verið til eða mun verða til án draums, án ímyndunar, án hugsunar, án skáldskapar. Skáldskapurinn er að baki allri tilverunni, ímyndunin, vonin. Allt sem er til er afurð hugsunar. Án hugsunar og ímyndunar, drauma og þrár, verður ekkert til. Vísindi, menntir, menning, hönnun og uppfinningar eru allt afurðir hugsunar.
Og við stöndum á tímamótum, á mærum, og í textum dagsins erum við kölluð til að taka til í lífi okkar, ryðja grjóti úr vegi þjóðar, (tókuð þið eftir því, leggja nýjan veg) vakna af svefni og takast á við nýjan dag, í nýju samhengi, samhengi hans sem stýrir draumasmiðjunni miklu og dreymdi þig til lífs og tilgangs.
„Liðið er á nóttina og dagurinn í nánd. Leggjum því af verk myrkursins og klæðumst hertygjum ljóssins. Lifum svo að sæmd sé að, því nú er dagur kominn, en hvorki í ofáti né ofdrykkju, hvorki saurlífi né svalli, ekki með þrætum eða öfund.“Hér leggur postulinn fyrri tíðar fólki lífsreglur hamingjuleiðarinnar og orð hans eiga enn fullt erindi til samtímans.
Myrkur og ljós. Við urðum til í myrkri og svo litum við dagsins ljós. Ljósmóðir, það er fallegt orð, þrungið merkingu, táknrænt og gegnsætt. Ljósmóðir.
Hver leiðir okkur nú út úr myrkri og til ljóssins heima? Hvar er ljósmóðir samtímans? Við erum ljósmæður þegar við leitumst við að skilja og skilgreina heiminn og gerum það á ljósan og hreinan hátt, án þrætu og öfundar, illvilja og haturs og sköpum birtu í kringum okkur með góðvild og góðverkum. Kirkjan er líka ljósmóðir. Hún leitast við að koma okkur frá myrkri til ljóss, fá okkur til að sjá veröldina, lífið í nýju ljósi, í ljósi kærleika Guðs, miskunnar og náðar, réttlætis og friðar. (Innskot: Hann sagði í útvarpinu í morgun, hann Páll Skúlason, fyrrum háskólarektor og heimspekingur, að sammerkt öllum siðakerfum og trúarbrögðum væri að kæreikurinn væri ofar öllu.)
Postulinn heldur áfram að tala og gerir það áfram í andstæðum. Nú er að hið fyrr og hið nýja. Við eigum val.
„Íklæðist heldur Drottni Jesú Kristi og leggið ekki þann hug á jarðnesk efni að það veki girndir.“Hér er áfram talað um hamingjuveginn. Það er annars alveg ótrúlegt með hvaða hætti textar kirkjuársins hafa á liðnum misserum talað inn í aðstæður okkar Íslendinga. Ég hef prédikað í þrjátíu ár en aldrei upplifað það með eins sterkum hætti og nú hversu nýir og freskir þessir gömlu textar eru í raun. Það er vegna þess að í þeim býr frjómagn eilífðarinnar, speki aldanna, speki sem er frá örófi alda, frá fortíðardögum, frá því áður en jörðin og heimurinn urðu til.
[Innskot: Gamansaga sögð sem er á hljóðupptökunni]
Og svo er það hann sem kemur til okkar úr þessari sömu firrð og fjarska, hinn eilífi í hylki tímans, Immanúel, Guð á meðal manna. Hann kom hógvær til borgarinnar Jerúsalem sem er meðal kristinna manna tákn um hina himnesku borg sem kirkjan er endurskin af. Kirkjan er Jerúsalem og hún er höfuðborg okkar kristinna manna. Hann kemur enn til sinnar borgar. Hann kemur til mín og þín, hann sem er án upphafs og endis og birtist á jörðu sem maðurinn Jesús Kristur frá Nasaret. Hann boðar tímamót, hann mælir tímann, telur dagana okkar, af-mælir ævina. En hann hefur ekki takmarkað tilveru okkar við þetta líf frá getnaði til grafar. Hann hefur búið okkur stað í ríki sínu sem er eilíft ríki. „Til komi þitt ríki“, segjum við í bæninni góðu. Þar með köllum við eftir réttlæti og sannleika, elsku og friði á meðal manna. Að segja, til komi þitt ríki, er í raun pólitísk yfirlýsing um réttlátt samfélag. [Innskot: sjá hljóðupptöku)Guð hefur heitið okkur því að sú bæn verði uppfyllt. Hvenær það verður vitum við ekki. Hann mun leiða ríki sitt fram í fyllingu tímans. Þess vegna getum við fagnað vegna þess að draumur hans mun rætast. Og þegar maður veit að lífið er í réttum farvegi og allt mun ganga upp þá er ástæða til að fagna. Við fögnum á tímamótum, höldum afmælisveislur og mannfagnaði af ýmsu tagi. Nú er veisludagur. Messan er veisla. Miðja messunnar er veisluborðið þar sem reidd er fram einföld máltíð brauðs og víns – vínberjasafa eins og við notum hér í Neskirkju. Okkur er boðið til borðs, til að þiggja fæðu sem er himnesk og táknræn. Í máltíðinni er hinn himneski Kristur með kærleika sinn og kraft, með hugsjónir sínar og drauma um betri heim. Hann bíður þér að þiggja skerf af þeim hugsjónum, þeim draumum, sem hafa bætt þennan heim betur en nokkuð annað. Hann hugsaði hærra, skyggndist dýpra, sá lengra en aðrir hafa séð, bæði fyrr og síðar. Veisla messunnar er öllum opin á sama hátt og í fermingarveislu, brúðkaupi, afmæli, fá allir aðgang að veisluborðinu og þiggja að sjálfsögðu veitingar. Með því að ganga til altaris ertu að segja: Ég vil vera með í því að breiða út kærleikann.
Við erum í veislu hans, veislu hins vitrasta meistara, sem til hefur verið. Messan er veisla og boðskapur kirkjunnar er fagnaðarerindi, gleðitíðindi um að draumar Guðs rætist. Og veislan mun halda áfram í Safnaðarheimilinu á eftir. Þar munum við halda áfram að eiga samfélag við hvert annað og við Guð. Lífið er veisla. Jesús var veislumaður. Lestu guðspjöllin og sjáðu að hann kunni svo sannarlega að fagna með fólki. Hann verður við veisluborðið í dag. Við fáum að vera við sama borð og hann. Hann gerir engan greinarmun á fólki. Við erum öll við sama borð, fátæk og rík, ung og gömul, vinnandi eða leitandi að vinnu, konur og karlar, með honum sem stýrir draumasmiðju himins og jarðar. Hann lagði áherslu á þjónustu við þau sem voru á jaðri samfélagsins. Áherslurnar eru enn þær sömu. Við sem neytum af nægtaborði messunnar og lífsins erum kölluð til að láta gott af okkur leiða. Í frumkristni kom fólk saman til máltíðarsamfélags þar sem fátækum var gefinn sérstakur gaumur. Í dag hvet ég ykkur til að gefa til fátækra. Ég bið ykkur að láta eitthvað af hendi rakna til Hjálparstarfs kirkjunnar í dag sem mætir neyð fólks eins og gert hefur verið um árabil. Þú mátt gjarnan hugsa gjöfina sem afmælisgjöf til mín ef þú vilt, fyrst ég tók upp á þessum furðulegheitum að halda afmælisveislu í kjölfar messunnar, en hún er og verður fyrst og síðast gjöf okkar til Guðs, sem tekur á móti gjöf þinni í útréttri hönd fátækrar móður, föður, aldraðs einstaklings, einstaklings sem er hamlaður á einhvern hátt og er upp á aðra kominn.
Ég hélt á nýfæddu barnabarni sem horfði í augu mín í spurn. Katrín litla er og verður algjörlega upp á aðra komin á næstu misserum og árum. Hún er heppin því hún á hendur móður, föður, fjölskyldu, sem í reynd eru framlengdar hendur Guðs. Við erum börn í örmum Guðs sem birtist á jörðu, kom hógvær og af hjarta lítillátur, ríðandi ösnu. Fólkið fagnaði honum og breiddi klæði sín á veginn, veifaði pálmagreinum sem eru sigurtákn. Fáir ef nokkur vissi þá hver þessi maður var. Hann var í augum sumra, maður nýrra viðhorfa, byltingarmaður og pólitísk hetja. Síðar varð nánustu fylgjendum hans ljóst að þar hafði farið, um rykug stræti Palestínu og steinlögð stræti Jerúsalem, sá hugur, sem var og er að baki öllu lifi, öllum heimi. Þessi sami hugur er hér í dag. Hann fer um götur og vegi landsins, um stræti Reykjavíkur, hann er á heimilum fátækra og ríkra og talar í fylgsnum hjartnanna um hið hinsta og dýpsta. Rödd hans heyrist þegar við kyrrum huga og sál og leggjum við hlustir með innri eyrum og skynjun. Þá kemur hann til okkar og gefur okkur von í vonlausum aðstæðum, trú þegar efinn sækir að, nýjan kraft þegar við erum að gefast upp og nýtt líf þegar þetta jarðneska líf okkar fjarar út. Hann er hér og hann er í þér – og mér – og við í honum. Guð er allstaðar og hann heldur utan um þig, mælir tímann þinn – daga og ár – og stefnir þér, tímans barni, til vistar þar sem tíminn verður ekki lengur til heldur eilífðin ein. Hann heldur þér í faðmi sínum og þú ert draumur hans – eða eins og skáldið segir sem ég vitnaði í fyrrum og talar þess vegna í orðastað Guðs:
Ein í öruggu skjóliLexía: Jes 62.10-12draumi mínum. (M.Joh)
Gangið út, já, gangið út um hliðin, greiðið götu þjóðarinnar. Leggið, leggið braut, ryðjið grjótinu burt, reisið merki fyrir þjóðirnar. Sjá, Drottinn hefur kunngjört allt til endimarka jarðar: „Segið dótturinni Síon, sjá, hjálpræði þitt kemur. Sjá, sigurlaun hans fylgja honum og fengur hans fer fyrir honum.“ Þeir verða nefndir heilagur lýður, hinir endurleystu Drottins, og þú kölluð Hin eftirsótta, Borgin sem aldrei verður yfirgefin.Pistill: Róm 13.11-14
Gerið þetta því heldur sem þið vitið hvað tímanum líður, að ykkur er mál að rísa af svefni. Nú er okkur hjálpræðið nær en þá er við tókum trú. Liðið er á nóttina og dagurinn í nánd. Leggjum því af verk myrkursins og klæðumst hertygjum ljóssins. Lifum svo að sæmd sé að, því nú er dagur kominn, en hvorki í ofáti né ofdrykkju, hvorki saurlífi né svalli, ekki með þrætum eða öfund. Íklæðist heldur Drottni Jesú Kristi og leggið ekki þann hug á jarðnesk efni að það veki girndir.Guðspjall: Matt 21.1-9
Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið sendi Jesús tvo lærisveina og sagði við þá: „Farið í þorpið hér fram undan ykkur og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér. Ef einhver hefur orð um, þá svarið: Drottinn þarf þeirra við, og mun hann jafnskjótt senda þau.“ Þetta varð svo að rættist það sem spámaðurinn sagði fyrir um: Segið dótturinni Síon: Konungur þinn kemur til þín, hógvær er hann og ríður asna, fola undan áburðargrip. Lærisveinarnir fóru og gerðu sem Jesús hafði boðið þeim, komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín en Jesús steig á bak. Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn en aðrir hjuggu greinar af trjánum og lögðu á veginn. Og múgur sá sem á undan fór og eftir fylgdi hrópaði: „Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!“