Sá sem tortímir heimum

Sá sem tortímir heimum

Þegar glóandi skýið reis til himins var nýr kafli skráður í mannkynssöguna og í orðum vísindamannsins Oppenheimers hafði þessi kafli guðfræðilega skírskotun. Hann vísaði til þess hvernig mannkyn tekst á við hverfulleikann, horfir upp á lífverur deyja, byggingar hrynja, heimsveldi eyðast og mögulega það mikilvægasta af því öllu – heimsmyndir hverfa. Og á síðustu áratugum hefur líf og framtíð lífsins stundum hangið á bláþræði eins og sagan um Petrov ber vott um.

„Nú er ég dauðinn, sá sem tortímir heimum.“

 

Þessi orð voru á vörum Oppenheimers þegar hann varð vitni að afrakstri hugvits síns, forystu og þrotlausrar vinnu á sléttum Nýju Mexíkó.

 

Þrenning

 

Fyrsta kjarnorkusprengjan lýsti upp himininn og nafn hennar tengist orði sem við nefnum hér við bróðurpart allra sunnudaga í kirkjunni. Hún var kölluð Trinity eða þrenning. Vart þarf mikið ímyndunarafl til að tengja þessi ógnaröfl við sjálft almættið. Var mannkyn ekki komið með sama mátt og við lesum um í heimslitatextum trúarbragðanna?

 

Og já, orðin sótti Oppenheimer í indverska helgitexta sem nefnast Bhagavad Gitwa og lýsa stórbrotnum átökum guðlegra vera. Þekking hans á því sviði mun hafa verið ein ástæða þess að honum var falin forysta í þessu stórbrotna verkefni. Hann var ekki eingöngu fremstur meðal jafningja á sviði raunvísinda, hann hafði líka brennandi áhuga á trúarbrögðum og framandi menningarheimum. Þetta þótti vera til marks um það að hann gæti útskýrt þennan margslungna veruleika fyrir yfirvöldum og almenningi.

 

Endalok þekkjum við úr ýmsum trúarbrögðum. Í Biblíunni lesum við um slíka atburði og sagnfræðingar hafa bent á að þar hafi legið ein ástæða þess að kristnir menn sættu ofsóknum í Rómaveldi. Róm var jú borgin eilífa og ríkið sjálft átti engan endi að taka. Forspá þessa litla samfélags um hina efstu daga þótti því vera vanvirðing í garð þessa heimsveldis.

 

Endalok eru stef dagsins. Mannkynssagan eftir að Þrenning sprakk í eyðimörkinni geymir frásagnir af því að oft hafi hurð skollið nærri hælum ef svo klisjulega má tala um jafn ógurlega atburði sem kjarnorkustrið eru.


Nafn Stanislav Petrovs er ekki á vörum okkar á hverjum degi en heimildir herma að sennilega eigum við líf okkar og tilvist honum að þakka. Hann sat við skjáina í einni af árásarmiðstöðvum gamla Sovétsins og skyndilega fóru öll rauðu ljósin að blikka. Ekki bar á öðru en að óvinurinn í vestri hefði sent langdrægar flaugar á loft og samkvæmt handbókum hefði hann átt að ræsa allar kanónurnar. Þá væri plánetan okkar núna lítið annað en hrjóstrug og geislavirk auðn. En hann beitti hyggjuvitinu og lét vera að ýta á takkana. Fljótlega kom í ljós að þetta reyndist þetta vera bilun í tölvukerfinu og út um allan heim hélt fólk áfram sinni daglegu rútínu grunlaust um það hversu hætt það var komið.

 

Passía

 

„Vei þér Kórasín! Kapernáum mun steypast í dýpstu myrkur!“ Jesús telur upp borgirnar í dómi sínum, og það gerum við líka þessa dagana. Textar dagsins eru óður til þessa forgengileika og það er sjálfsagt engin tilviljun að þá ber upp á þeim tíma þegar við minnumst þess þegar eldhnettirnir teygðu sig til himins yfir borgunum í Japan, 6. ágúst yfir Hiroshima og þann 9. yfir Nagasaki.

 

Já, stef þessa daga er reiðin og dómurinn. Ekki er það nú endilega það skemmtilegasta að hlýða á, daginn eftir litríka gleðigöngu um stræti miðbæjarins. Hver vill hlýða á slíka neikvæðni?

 

Áður en lengra er haldið er rétt að hugleiða það að Biblían birtir okkur kenndir sem rúma allt litróf tilfinninganna. Þar kynnumst við gleði, kærleika, leitina að tilgangi, eftirvæntingu, þrá, djúpri sorg og dauða og svo hér er það sjálf reiðin, vonbrigðin og dómurinn sem einkenna samskipti Guðs við manninn. Guð Biblíunnar er að sama skapi margbreytilegur og ríkur að tilfinningum.

 

Hin kristna Guðsmynd lýsir ekki almætti sem ríkir í fjarskanum, óbreytanlegt og stöðugt í alveldi sínu. Slíkur Guð er auðvitað svo fullkominn, að þar breytist ekki. Allar breytingar á því sem er algott hljóta jú að vera til óþurftar.

 

Hinn tilfinningaríki Guð Biblíunnar er þvert á móti kærleikurinn uppmálaður og kærleikurinn er ekki alltaf ljúfur og mildur. Nei, enginn reiðist meira en sá sem  elskar, aldrei nísta vonbrigðin meira en í sálu þess sem horfir upp á ástvini sína fara villur vega og engar sorgir eru dýpri en ástarsorgir.

 

Hvergi skynjum við þetta sterkar en á lokaskeiðinu í hjálpræðissögunni þegar vinir Jesú, lærisveinarnir svíkja hann og bregðast honum hver af öðrum. Þeir sem höfðu útvaldir verið, gerðust hvikulir og þeir urðu um leið eins og fulltrúar mannkyns. Þeir birta okkur ekki myndina af Júdasi og Pétri, heldur okkur sjálfum, hverju og einu okkar sem villast oft af veginum.

 

Ástarkvæðið

 

Í textum dagsins er einmitt fjallað um brostnar vonir til mannsins. Ástarkvæðið um víngarð ástvinarins, er texti Jesaja: ,,Hann vonaði að garðurinn bæri vínber en hann bar muðlinga”. Í reiði sinni, reif hann allt til grunna. Hann skyldi verða troðinn niður. ,,Hann vænti réttlætis en sá blóði úthellt, vænti réttvísi en neyðaróp kváðu við.”

 

Þetta ljóð er um hinn útvalda lýð, Ísraelsmenn og dómur Drottins er harður, heiftin sem hann sýnir er reiði þess sem hefur ekki fengið endurgolda ást sína. Boðskapurinn er óvæginn en hann samræmist engu að síður vel þeirri mynd sem við höfum af mannkyni og sögu þess.

  

Dómur byggir alltaf á einhverri forsendu. Hún kann að vera skráð í lögbækur, réttarkerfi, siðareglur. Þar eru orðaðar þær hugsjónir sem mannlegt samfélag á að lifa eftir. Sá er einmitt útgangspunkturinn í því áfelli sem hér er flutt. Að baki þeim myrka tóni sem einkennir texta þessa dags er björt sýn á eðli mannsins og þau tækifæri sem honum eru búin.

 

Óðurinn í Jesaja heitir einmitt, Ástarkvæði um víngarðinn og þótt það leiði til eyðileggingar er engu að síður kvæði um það sem stendur hjartanu nærri. Ástaróður er svolítið misvísandi. Og þó, ástríðan er tvíeggjuð. Passía eða paþos merkir í senn funheita ást og sára þjáningu.

 

Ljós um hábjartan dag

 

Jú, við erum ekki óbreytanleg fremur en sá Guð sem við játum trú á. Við erum á sífelldri vegferð þar sem við endurskoðum breytni okkar og boðun frá einum tíma til annars. Þessi sjálfsrýni er innbyggð í störf kirkjunnar.

 

Við sáum einn afrakstur hennar í gleðigöngunni í gær. Það var sannarlega dæmi um það hvernig samfélag tekur stakkaskiptum - fer frá einum stað til annars, lítur í eigin barm og skynjar að rétt hefði verið, og já í anda kærleikans, að breyta á annan hátt en gert hefur verið. Þjóðkirkjan flykkir sér nú að baki þeim sem hún hafði áður snúið bakinu við. Í sumum tilvikum má tengja það við þær viðhorfsbreytingar sem hafa orðið í samfélaginu á síðustu árum.

 

Þar er þó ekki öll sagan sögð.

 

Í nokkra áratugi höfðu einstaklingar innan kirkjunnar unnið að því að efla tengslin við samkynhneigða og breyta þankagangi á því sviði innan sinna vébanda. Kærleikurinn í garð þeirra sem áttu þá undir högg að sækja, mæltist ekki alltaf vel fyrir. Nú má sjá regnbogafánann út um stræti og torg og það er sannarlega gott. En það svo svolítið eins og að kveikja á kerti um hábjartan dag. Sú iðja ber ekki þann sama vott um vilja til breytinga eins og þegar ljósið er tendrað í myrkrinu.

 

Sá sem eyðir heimum

 

Þegar glóandi skýið reis til himins var nýr kafli skráður í mannkynssöguna og í orðum vísindamannsins Oppenheimers hafði þessi kafli guðfræðilega skírskotun. Hann vísaði til þess hvernig mannkyn tekst á við hverfulleikann, horfir upp á lífverur deyja, byggingar hrynja, heimsveldi eyðast og mögulega það mikilvægasta af því öllu – heimsmyndir hverfa. Og á síðustu áratugum hefur líf og framtíð lífsins stundum hangið á bláþræði eins og sagan um Petrov ber vott um.

 

En í meðförum hinna biblíulegu texta er þetta engu að síður ástaróður – Guðs til mannkyns og lífríkis. Þar mætir okkur kærleikurinn sem á sér sannarlega beittar og skarpar hliðar. Að endingu verður það þó kærleikurinn sem ríkir ofar öllu, fyrirgefandi, umberandi og fagnandi hverju því sem gerir sköpunarverkið margbreytilegra. Sú hugsun ætti að fylgja okkur í gegnum tímaskeið lífsins.