Flutt 20. ágúst 2017
Ég stóð við Lynghagann og fagnaði hlaupafólki í Reykjavíkurmaraþoninu. Rúmlega fjórtán þúsund manns hlupu mislangar vegalengdir. Stemmingin var stórkostleg. Bros voru á flestum andlitum, gleðin hríslaðist um hlauparahópinn. Hvatningarköll hljómuðu frá þeim sem stóðu á gangstéttum og hlátrar ómuðu. Tónlistarfólk spilaði og kröftug, taktþung músík hljómaði úr hátölurum. Krafturinn var mikill. Gaman alla leið, áfram.
Ég hef farið niður á Lynghaga í mörg ár til að hvetja ættingja mína og vini. Það er gaman að vera með í þessum samheldna gleðihópi. Og svo var sérstaklega gaman í gær því drengirnir mínir – ellefu ára - hlupu 10 kílómetra í fyrsta sinn. Við foreldrarnir fögnuðum þegar þeir komu hlaupandi, léttstígir. Svo hjóluðum við vestur á Grandaveg til að hvetja þá áfram þar og furðuðum okkur á hve fjaðurmagnaðir þeir voru eftir átta kílómetra. Svo urðum við hjóla hratt til að komast á undan þeim í Lækjargötuna. Þetta var dásamlegt að taka þátt í þessari miklu hlaupagleði. Reykjavíkurmaraþon er uppskeruhátíð æfinga sem hafa staðið vikur, mánuði og jafnvel mörg ár. Mörg sem voru hlaupa tóku ákvörðun í vetur að vinna að hlaupinu. Árangur í lífinu sprettur ekki af sjálfu sér heldur er ávöxtur vilja og vinnu. Hamingjan í lífinu er líka árangur ástundunar.
Áheitin
Þegar við hjóluðum í átt að Grandanum sá ég stórt skilti. Við það var
hvetjandi hópur sem aldeilis lagði sitt til. „Áfram, áfram“ kölluðu þau.
Þetta var áheitahópur og það sem stóð á skiltinu þeirra var fallegt: Þú
ert frábær. Þegar ég hjólaði svo í gegnum gamla vesturbæinn hugsaði ég
um hve góð skilaboð þetta eru: Þú ert frábær. Þetta voru auðvitað
skilaboð til allra þeirra sem hlupu, þau væru dýrmæt, frábær. En þetta
er líka boðskapur af himnum til okkar manna. Við erum frábær, dýrmæt og
öll einstök.
Og allir vita sem hafa kynnt sér Reykjavíkurmaraþonið að mörg hlaupa í áheitaskyni - til að láta gott af sér leiða. Þúsundir hlaupa til að styðja Ljósið, Píeta, Hjálparstarf kirkjunnar, Krabbameinsfélagið eða önnur mannræktarmálefni. Svo er safnað fyrir fólki sem hefur veikst eða slasast. Mörg voru að safna fyrir unga konu sem lenti í alvarlegu hjólaslysi á dögunum og lamaðist. Stuðingurinn er á grundvelli þess að allir eru mikilvægir og við megum og þurfum að standa saman.
Þú ert frábær. Það eru mikilvæg skilaboð sem allir þurfa að heyra margoft í lífinu, þarfnast þess að finna fyrir þeim jákvæðnisanda í uppeldi og fjölskyldulífi. Enginn kemst til manns nema hafa notið þess að einhverjum þyki hann eða hún frábær. Og þau sem hafa ekki mikinn stuðning heima fá stundum að heyra þetta mikilvæga hjá kennaranum í skólanum, í kirkjunni eða vinunum sem kunna að hrósa. Þú ert frábær.
Við þurfum hvatningu, jákvæða nálgun, hrós. En við höfum ekki gagn af því að fá aldrei gagnrýni eða jákvæða greiningu á veikleikum. Einfeldningslegt „þú ert æðisleg eða sjúklega flottur“ er ekki það sem skapar hamingjusamt fólk heldur fremur sjálfhverft og vanrækt fólk. Við þörfnumst þess að heyra og finna að við séum metin og svo mikið elskuð að við erum alin upp með aga, vinnu, hlýrri gagnrýni, kennt að reyna á okkur, þekkja mörkin, hvenær við særum aðra og hvernig við getum verið sjálfstæð en samt ábyrg gagnvart öðru fólki. Í textum dagsins eru tjáðar skuggahliðar mannlífs og við þurfum að temja okkur raunsæji Ritningarinnar. Þar sem er ljós verða skuggar. Enginn er fullkominn þó köllun okkar sé að nýta alla okkar hæfni og gáfur til góðs og hamingju. Stefnumark manna verður ekki til af engu heldur við þjálfun og ræktun hið innra og ytra.
Ekki ástandsskoðun heldur ástartjáning
Þú ert frábær. Svo var það sálmafossinn í kirkjunni í gær. Á þriðja
tímanum var fjöldi kominn í kirkjuna til að njóta söngs nýrra sálma,
hrífandi tónlistar, dásemda Klaisorgelsins og almenns sálmasöngs. Sex
kórar sungu, á annað hundrað manns veitti okkur af sönggleði sinni.
Fjöldi tónlistarmanna lék á hljóðfæri sín, sex nýir sálmar, lög og ljóð,
voru frumfluttir. Þúsundir komu í kirkjuna til að njóta, syngja og úr
varð fyssandi dásemd tilbeiðslu og lífs.
Þú ert frábær. Það voru skilaboðin sem ég kom með úr Reyjavíkurmaraþoni inn í sálmafossinn. Hinn mikli boðskapur sem ég greindi í textum, hljómum, undrum tónlistarinnar var hinn djúpi boðskapur Jesú Krists: Þú ert frábær. Guð kristninnar er ekki smáguð heldur Guð hins stærsta og mesta. Allt sem Guð gerir er af því að sá Guð er jákvæð elska, sem kallar fram efni af hreinni ást, kallar fram greinar lífsins í gleði skapandi iðju. Og þegar áföllin dynja yfir, reiðhjólaslys, óðir menn keyra í morðæði inn í hópa saklauss fólks eða stinga hnífum sínum í grandalausa vegfarendur er Guð ekki áhorfandi. Guð er þar. Guð kom, kemur og mun koma. Guð birtist í setningu á Grandavegi: Þú ert frábær. Og Guð kom og kemur í Jesú Kristi og öllum þeim sem gera gott. Sá Guð sem ég trúi á og þekki var í miðju hópsins á hlaupum í dag. Sá Guð á sér samverkafólk í lífinu sem safnar fé til góðs og tjáir að það er frábært. Og sá Guð talar til okkar allra í helgum textum og sálmum lífsins: Þú ert frábær og ég vil að þú fáir að njóta hamingju.
En sá Guð segir líka: Það er margt í þessari veröld sem er hræðilegt og spillir lífi, geði, freistar og afvegaleiðir. Eins frábærir og mennirnir eru læðist sýkin, syndin, tortýmingin líka meðal okkar og smeygir sér inn í okkur. Og því er vei líka tjáð í öllum heilbrigðum átrúnaði. Við erum ekki frábær af okkur sjálfum heldur af því Guð hefur skapað okkur sem frábær og vill styrkja okkur að vera slík. Við erum ekki frábær af því að það sé niðurstaðan á ástandsskoðun á okkur. Við erum frábær af því Guð metur okkur mikils þrátt fyrir vitleysur okkar og klúður. Okkur tekst að óhreinka okkur og gera margt sem miður fer. Við erum kölluð til að vera frábær og erum það þegar við lifum í raunsæi um okkur sjálf, veröldina, mannfólkið, lífið og Guð.
Þú ert frábær. Það er yfirlýsingin sem Guð gaf þér í fæðingargjöf. Við erum öll svo elskuð að þegar við hlaupum lífshlaup okkar er Guð nærri, hleypur við hlið okkar, hvetur okkur áfram, já og ber áfram þegar við dettum. Það er söngur lífsins. Viltu vera frábær?
Amen.
Hugvekja í Hallgrímskirkju, 20. ágúst, 2017, sunnudag eftir menningarnótt.