„Ég bið fyrir þeim. Ég bið ekki fyrir heiminum heldur fyrir þeim sem þú hefur gefið mér því að þeir eru þínir og allt mitt er þitt og þitt er mitt.Í þeim er ég dýrlegur orðinn. Ég er ekki lengur í heiminum. Þeir eru í heiminum en ég kem til þín. Heilagi faðir, varðveit þá í þínu nafni, því nafni sem þú hefur gefið mér, svo að þeir verði eitt eins og við. Meðan ég var hjá þeim varðveitti ég þá í nafni þínu sem þú hefur gefið mér, og gætti þeirra og enginn þeirra glataðist nema sonur glötunarinnar svo að ritningin rættist.
Nú kem ég til þín. Þetta tala ég í heiminum til þess að þeir eigi í sjálfum sér fögnuð minn fullkominn. Ég hef gefið þeim orð þitt og heimurinn hataði þá af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. Ég bið ekki að þú takir þá úr heiminum heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa. Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.
Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur.“
Jóh 17.9-17
Mörg okkar flykktumst út í sólina í vikunni til að njóta einstakrar veðurblíðu. Á slíkum góðviðrisdögum lyftist brúnin á okkur og við fyllumst bjartsýni, gleymum um stund því sem íþyngir og verðum jákvæðari. Góð frétt í vikunni var um góðan árangur kræklingaræktar í Hrísey og þann vitnisburð að hráefnið þar sé eitt það besta sinnar tegundar í veröldinni. Átta ára tilraunavinnu er lokið og nú á að ráða fólk til framleiðslu á verðmætri útflutningsvöru sem mun afla okkur bráðnauðsynlegra útflutningstekna og gjaldeyris. Framtíð fyrirtækisins er björt. Okkur veitir ekki af ljósi og von í tilveruna nú þegar myrkur grúfir yfir efnahagslífi þjóðarinnar og hvert stórfyrirtækið á fætur öðru missir fótanna með tilheyrandi atvinnuleysi. Mörgum heimilum blæðir og sumir missa móðinn við að sjá eignir sínar verða að engu og skuldir hrannast upp í slíkum mæli að þeir sjá ekki fram á að geta greitt þær í fyrirsjáanlegri framtíð að öllu óbreyttu.
Strand
Mikil umræða hefur verið um það siðrof sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu, hvernig græðgi varð til þess að umhyggja fyrir náunganum vék fyrir eftirsókn eftir efnilegum verðmætum og leiddi okkur út í þær ógöngur sem við erum nú stödd í. Við erum vonsvikin og reið. Við krefjumst réttlætis og að sannleikurinn um hvað gerðist verði leiddur fram í dagsljósið. Við viljum byggja nýtt Ísland á gildum þar sem heiðarleiki og umhyggja fyrir náunganum er haft að leiðarljósi, hinum svo kölluðu gömlu gildum sem hafa reynst þjóðinni vel. Þau byggja á kenningu Jesú Krists um að sérhver maður sé óendanlega dýrmætur og að allir eigi að njóta sömu tækifæra til að öðlast frama óháð kyni og þjóðfélagsstöðu. Á þessum grunni hvílir íslenskt velferðarkerfi, löggjöf, heilbrigðiskerfi, skólakerfi og hugmyndir um jafnrétti.
Fyrirmyndarríkið
Stjórnmál snúast um að skapa umgjörð um mannlífið, setja því reglur, skilgreina hvað sé leyfilegt og hvað ekki og hygla þeim gildum sem samfélagið byggir á. Draumurinn um hið góða og réttláta samfélag hefur ávallt lifað með manninum og margir hugsjónamenn hafa komið fram á svið sögunnar til að reyna að gera hann að veruleika. Jesúítar reyndu að byggja upp fyrirmyndarsamfélag í S-Ameríku á 17. öld er byggði á manngæsku og jöfnuði. Það var lagt í rúst af ágjörnum mönnum. Kommúnistar vildu byggja ríki sitt á svipuðum gildum en réttlætið og jöfnuðurinn var hvorki fullkomið í Sovétríkjunum né Kína. Sumir voru jafnari en aðrir. Kapítalismi byggir á vinnusemi einstaklingsins, að fólk beri úr býtum í samræmi við vinnu sína. En það þarf sífellt að setja honum skorður svo að framgangur eins verði ekki kúgun annars. Það var einmitt óheft frjálshyggja sem varð okkur að falli á Íslandi sl. haust. Og nú spyrjum við um gömlu gildin. Ungur maður sagði við mig í vikunni að þrátt fyrir allar hörmungar efnahagshrunsins hefði það verið það besta sem fyrir okkur gat komið svo að við næmum staðar og næðum áttum. Alla vega gerði hann það.
Hið fullkomna samfélag
Í æðstu draumum manna um hið fullkomna samfélag ríkir réttlæti og jöfnuður fyrir alla. Þar býr fólk við heilbrigði og velsæld og auðsýnir hvert öðru kærleika og umhyggju. Samtímamenn Jesú áttu sér slíkan draum sem var á þá leið að fljót með heilnæmu vatni rynni frá musterinu í Jerúsalem niður til Dauðahafsins og lífgaði það við en eins og kunnugt er er það svo salt að ekkert líf fær þrifist þar. Dauðahafið átti að fyllast af fiski. Á bökkum fljótsins áttu að vaxa aldintré sem bæru ávexti mánaðarlega og nota átti laufblöð þeirra til lækningar fyrir þjóðirnar. Þessa mynd er líka að finna í lok síðustu bókar Biblíunnar þar sem talað er um móðu lífsvatnsins. Þar segir enn fremur: „Engin bölvun mun framar til vera.“ Þetta er ein af mörgum myndum Nýja testamentisins sem gefa okkur örlitla innsýn í eilífa lífið, veruleika sem er ofvaxinn skilningi okkar, en er samt hin mikla von okkar kristinna manna um það þegar vilji Guðs verður á himni og jörðu og mannlífið verður eins og hann hafði hugsað sér það. Farsæld þess er fólgin í því að þá mun Guð búa mitt á meðal okkar og við fáum að sjá hann augliti til auglitis. Þetta verður við endurkomu Jesú Krists, er hann ryður úr vegi öllu sem stendur í vegi fyrir áformum hans um sköpun sína.
En Jesús var raunsær varðandi jarðlífið þangað til og sagði að það yrði alltaf ófullkomið, mótað af syndugu eðli okkar og að sjúkdómar og þjáning yrðu órjúfanlegur hluti af tilverunni.
Eilífðin er hér
Það einstaka við boðskap kristinnar trúar er að við þurfum ekki að bíða eftir eilífðinni. Hún er komin til okkar, inn í samtíð okkar, eins og lífgefandi á. Guð kom inn mannlega sögu í Jesú Kristi. Hann kom með ríki sitt sem birtist í lífi hans, kraftaverkum og háleitari kærleiksboðskap en mannkynið hefur nokkurn tíma heyrt þar sem hver einstaklingur er óendanlega dýrmætur. Það birtist í fyrirheiti hans um að sigur hans yfir dauðanum geti orðið hlutskipti allra sem það vilja þiggja. En guðsríkið birtist líka í lífi samferðamanna okkar sem mótast að nærveru þess, þegar sá sem hatar sleppir takinu og nær að fyrirgefa, er fólk auðsýnir elsku og umhyggju og veitir blessun og yl inn í líf annarra. Fólk eins og Móðir Theresa, Sigurbjörn Einarsson biskup og margir aðrir eru dæmi um fólk sem mótaðist af nærveru guðsríkisins. Það hafði gömlu gildin að leiðarljósi í lífi sínu og er okkur góðar fyrirmyndir. Guðsríkið er nálægt okkur núna.
Ríki Guðs
Jesús sagði: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi“ og við annað tilefni: „Guðs ríki er hið innra með yður.“ Enginn veraldlegur fursti fær ráðið yfir því. Í því gilda önnur lögmál en í hinu veraldlega. Þar er sá mikill sem þjónar og hinn auðugi fær enga sérmeðferð. Jesús sagði að sá finndi lífið sem lifði því á hans forsendum.
Uppstigningardagur er liðinn er Jesús sagði lærisveinum sínum að gera allar þjóðir að lærisveinum. Hvítasunna, stundum kölluð stofndagur kirkjunnar, er á sunnudaginn kemur þegar við minnumst þess að Heilögum anda var úthellt yfir alla menn og þúsundir tóku kristna trú á einum degi og kirkjan varð til. Á þeim degi breyttust lærisveinar Jesú úr óttaslegnum mönnum sem höfðust við í felum í djarfa er óttuðust hvorki fangelsi né dauða. Andinn gaf þeim skilning á boðskap Jesú og þeir fundu fyrir nálægð hins upprisna Jesú og óumræðilegum kærleika hans sem gaf þeim kraft og djörfung til að vitna um trú sína. Líf þeirra snerist upp frá því um að miðla henni til annarra. Þeir guldu flestir fyrir það með lífi sínu. En þeir höfðu eignast málstað sem var miklu stærri en þeir sjálfir. Við höfum erft hann.
Gömlu gildin
Í guðspjallinu í dag lesum við um síðustu samveru Jesú með lærisveinum sínum. Þeir eru í loftstofunni þar sem heilög kvöldmáltíð var stofnuð. Þar földu lærisveinarnir sig síðar meir eftir að Jesús hafði verið krossfestur sem landráðamaður og þar birtist hann þeim eftir upprisuna. Þetta er heilög stund og Jesús fer yfir það sem hann hafði kennt þeim á undanförnum árum og hnykkir á nokkrum atriðum. Þeir áttu að auðsýna kærleika og auðmýkt, rækta trú sína til að vera í nánu sambandi við Guð sem gefur þeim fullkominn fögnuð og styrk til að miðla trúnni með öðrum. Hann biður Guð um að varðveita þá frá heiminum, þ.e. verðmætamati samtímans sem mótast af eigingirni og sérgæsku. Íslensk þjóð spyr um gömlu gildin og merkingu þeirra. Jesús sýndi samferðamönnum sínum hver þau eru og hvernig þau birtast í lifuðu lífi. Þau eru fyrst og fremst óeigingjarn og fölskvalaus kærleikur til náungans sem nærist í samfélaginu við Guð. Þetta er leiðarljós okkar kristinna manna. Með því að lifa eftir þessum gildum flytjum við nærveru og blessun Guðs inn í umhverfi okkar og íslenskt samfélag.
Ekki af þessum heimi
Ríki Jesú Krists er ofar mannlegu skipulagi. Það er ekki af þessum heimi. Þess vegna verður kristin trú aldrei flokkspólitísk og kristna menn er að finna í öllum stjórnmálaflokkum sem allir vilja gera sitt besta til að skapa farsælt þjóðfélag eftir sinni sannfæringu. Kristin trú er hins vegar hápólitísk því að henni er ekkert mannlegt óviðkomandi og kirkjunni ber að benda á óréttlæti og óheiðarleika og standa með þeim sem minna mega sín. Réttlátu og farsælu þjóðfélagi verður ekki komið á fót sé það ekki byggt á gildum kristinnar trúar hvaða leið sem menn kjósa að fara til að gera það að veruleika.
Lækir lifandi vatns
Flest eigum við okkur draum um gott þjóðfélag. En við þurfum ekki að bíða eftir framtíðinni og á með heilnæmu vatni. Hún er hér og nú. Jesús sagði: „Frá hjarta þess sem trúir á mig munu renna lækir lifandi vatns.“ Með því að lifa trú okkar í orði og verki tökum við þátt í að flytja eilífðina inn í veruleika okkar og samferðamanna okkar. Þá verðum við ljós og salt. Kraftinn og djörfungina fáum við frá Guði í samfélagi okkar við hann. Framtíð íslenskrar þjóðar veltur á því að gildi Jesú Krists verði höfð að leiðarljósi. Viljum við það? Látum það verða að veruleika í umhverfi okkar. „Ég bið ekki að þú takir þá úr heiminum heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa. … Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur.“