I Ég er gras. Og ég græ yfir spor ykkar.
Um daginn átti ég samtal við mæta konu sem margt hefur reynt og ber þunga sorg í hjarta þessi jól vegna fráfalls ástvinar. Hún spurði mig hvort ég tryði á eilíft líf en lét þess getið að henni væri það lífsins ómögulegt. Þetta er lífsreynd og sterk kona og eitthvað í fari hennar og sem veldur því að mér finnast orð vand með farin. Það eru svo mörg orð notuð. Og þau eru svo misskilin, teygð og toguð þessa daga og vont að eiga við þau. Þessi kona ber mikla umhyggju og þungar áhyggjur með sorg sinni, ég finn til vegna alls sem hún hefur misst og finnst þjáning hennar ósanngjörn. Og þegar hún spurði mig hvort ég tryði á eilíft líf þótti mér ódýrt að segja bara já. Þessi jólaræða er til hennar og allra annara sem í alvöru spyrja. Trúir þú á eilíft líf?
Ég er gras. Og ég græ yfir spor ykkar.
Sá dagur mun sennilega koma að sól roðar Esjuhlíðar á björtum blíðviðrismorgni. Hversu hátt sjávarborð verður þá er erfitt að geta sér til um en kjarr mun spretta og fuglar byggja hreiður að vori, fiskar synda í sjó en engar verða mannaferðir. Þá mun maðurinn, þessi þrjóska, stríðandi tegund hafa kvatt þessa jörð. Krunk hrafnsins mun bergmála í hlíðum, tófugagg berast um urðir og þrestir syngja og ekkert í gjörvallri náttúrunni mun nokkurs sakna.
Skreytið hendur og eyru með glitrandi gimsteinum. Haldið dansleiki og veislur undir vorbláum himni. Hrópið afreksverk ykkar og hetjudáðir af húsþökunum.
Ég er gras. Og ég græ yfir spor ykkar.
Það er undarlegt til þess að hugsa, svo mjög sem við reynum að gera okkur óháð náttúrunni, hefja okkur yfir hana, hemja hana og temja á allan handar máta, að á meðan mannkyn dregur andann á þessari jörð mun það náttúrunni háð, en náttúran þarf ekki hið minnsta á manninum að halda.
Byggið hallir og musteri úr drifhvítum marmara. Leggið götur og stræti úr gulum og rauðum sandsteini. Reisið turna og vígi, sem enginn kemst yfir nema fuglar himinsins.
Ég er gras. Og ég græ yfir spor ykkar.
Þannig orti góðskáldið Steinn Steinarr sem aldrei var nefndur þjóðskáld af því hann skapaði ekki stemmningu heldur spurði tilvistarspurninga sem enn ögra og trufla værð þessarar þjóðar.
Já, dag einn mun þetta hrjáða og hnusandi mannkyn vera horfið af yfirborði hnattarins en bein okkar hvíla í jörðu, hús okkar og mannvirki hrunin, hulin mosa og grasi.
Hvað þá?
„Ég er gras. Og ég græ yfir spor ykkar.” svarar skáldið „Í upphafi var Orðið” ansar Guðspjallið.
Hér mætast hin veraldlega og trúarlega heimsmynd og horfast hugsandi í augu. Hvort skyldi nú vera upphaf og endir alls, grasið eða Orðið?
II Sú trú að upphaf alls sé í Orði er hvorki hlutlaus afstaða né afdrifalaus.
Sagan af barninu sem fæddist í Betlehem er í búningi helgisagnar. Hún er uppá færð og ilmandi. Svo rík af táknum og tilvísunum að hvert barnshjarta opnast fyrir henni líkt og blóm fyrir sólarbirtu. Þar er ástin og óttinn um ótryggð, þar eru húsnæðisáhyggjur og hjartakuldi í samfélagi manna, þar eru yfirvöld og alþýða, stjörnur himins og búfé á beit, englar Guðs og fulltrúar fjarlægra þjóða. Þar eru barnamorðin hræðilegu í Betlehem, mjúkur móðurbarmur og föðurarmur og í þessu miðju nýfætt nakið mannslíf með fálmandi hendur.
Þetta er sagan um allt það sem þú óttast, undrast og elskar nær og fjær. Hún er tjáning á von og ótta hins varnarlausa lífs og kallar fram sterk viðbrögð í hverri mannlegri sál. Þessi saga er ekki um það að Jesús hafi endilega fæðst í Betlehem í sögulegum skilningi. Hún er þykk og djúp og forn og ber í sér núið. Hún gerðist síðast í gær og er í dag og hún ber skilaboð sem öllu varða um hið eilífa líf.
Þegar stórir atburðir gerast er alltaf eins og ekkert hafi gerst. Þegar barn fæðist eða fólk deyr heldur umferðin bara áfram. Það er eitthvert ósvífið skeytingarleysi innbyggt í lífið. Ferðamannaiðnaðurin í Betlehem var miklu stærri en atburðurinn í fjárhúsinu. Þegar englarnir sungu á Betlehemsvöllum var enn fremur sungið á kránum í borginni. Og dag einn verður eins og ekkert hafi gerst, mannkynssögunni verður lokið og gagg tófunnar berst út í frjálst vorið sem einskis saknar.
Hvað þá? Og hvað nú hjá þeim sem lifa jól án ástvinar? Er kannske öllum og öllu sama? Er það e.t.v. bara sannleikurinn?
Saga jólanna fjallar um val. Allar persónur og leikendur eiga val. (Nema kannski englarnir. Þeir fara að sínu hreina eðli.) María kaus að taka við hlutskiptinu sem henni var boðið og ganga með barnið. Jósef valdi að gerast fósturfaðir þess. Keisarinn ákvað að skattleggja með þeim hætti sem hann gerði, eigendur gistihúsanna í Betlehem réðu sínun vistarverum og fjárhirðarnir tóku stefnuna eftir orðum engilsins. Loks bruggaði Heródes sín köldu ráð. Allir höfðu val og allan tímann var í raun tvennt að gerast. Annars vegar mannlífið með sín yfirvöld ríkis og bæjar, búfjárhald og annan rekstur þar sem ungt par eigandi barn á hrakhólum er engin frétt. Og hins vegar Guð að fæðast inn í sögu heimsins. Guð að gerast einn af okkur og taka afstöðu með fólki. Þau sem sáu og heyrðu skilaboð englanna gerðu það í frelsi og völdu að standa vörð um barnið, verja lífið.
III Trúi ég á eilíft líf? Ég þori ekki að svara þér, en þegar þú stóðst og horfðir á umferðina líða hjá eins og ekkert hefði í skorist vitandi það að líf þitt og ástvina þinna var varanlega breytt og hið ósvífna skeytingarleysi lífsins smaug um hverja taug þá áttir þú val í þeim skilningi sem hér er verið að lýsa. Þú veist hvað þú valdir.
Guðspjöllin lýsa ekki tilfinningalífi Jesú mjög náið. Þau eru kurteis og fara spart með orð en stíllin þykknar ögn og mýkist er kemur að þjáningu Jesú og dauða. Í 17. kafla Jóhannesarguðspjalls er skráð bæn sem Jesús bað þegar hann vissi dauða sinn fyrir og sat og var að syrgja með ástvinum sínum. Þessi bæn tekur allan kaflann og hefur verið nefnd æðstaprests bænin. Þar eru margar háleitar myndir, sterkar tilfinningar og djúpar hugsanir en mitt á milli þessa alls er ein setning sem alltaf situr í mér vegna þess að hún er svo yfirmáta mannleg. Í sinni sorgar- og kveðjubæn segir Jesús allt í einu bara svona: „Faðir, ég vil að þeir sem þú gafst mér séu hjá mér, þar sem ég er...” (Jóh. 17.24)
Þau láta lítið yfir sér þessi orð. - Faðir, ég vil að þeir sem þú gafst mér séu hjá mér. - En algerlega formálalaust á sömu sekúndunni heyrum við öll það sama og skiljum það sem hann meinar. Við heyrum strax að hér er átt við ástvini og ekkert annað, þótt það sé ekki sagt. ‘Ég vil að þeir sem þú gafst mér séu hjá mér’, segir hann. Sérðu hér sammennsku okkar með Jesú Kristi? ‘Þau sem okkur eru gefin’, eru ástvinir og um þau höfum við það að segja að við viljum hafa þau hjá okkur, þar sem við erum. Sú staðreynd að ástvinir eru gjöf er sammannleg vitneskja sem hvert hjarta og hugur hefur aðgang að á sekúndubroti.
„Ég er gras. Og ég græ yfir spor ykkar.” segir skáldið „Í upphafi var Orðið” ansar Guðspjallið.
Ég trúi því að hér mæli af vörum deyjandi manns sá hugur sem í upphafi sagði Verði ljós! ‘Ég vil að þau sem þú gafst mér séu hjá mér’ – ég vil að ástvinatengslin haldi. Líka í dauðanum! Því er það ekki tómt mál í mínum huga þegar við segjum í trú að Guð bjargi og blessi og sameini alla sem unnast í eilífu ríki kærleika síns. Það er ekki tómt mál. ‘Ég vil það’ segir Jesús Kristur. Ég hef ekki séð neitt af hans orðum falla dautt niður. Ég trúi því sem hann segir og treysti því sem hann ætlar.
Orð eru gjaldfallin og einhvern veginn búið að skipta um skrá á þeim svo mörgum, en ég vona að það skiljist sem ég er að reyna að segja. Líf og dauði er okkur öllum ráðgáta og erfiðast er að skilja þjáninguna. „Nú sjáum við svo sem í skuggsjá, í ráðgátu” segir Páll postuli í óðnum til kærleikans og hefur lög að mæla. Við sjáum eiginlega bara flöktandi skuggann af tilverunni. Maður skilur ekki sjálfan sig og hvað þá annað fólk. En Páll lýkur ekki setningunni þarna heldur segir hann: „Nú sjáum við svo sem í skuggsjá, í ráðgátu en þá munum við sjá augliti til auglitis. Nú er þekking mín í molum en þá mun ég gjörþekkja eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn.” (1. Kor. 13.12)
Jólasagan er um þetta. Hún er um fólk sem veit eiginlega ekki hvaða stefnu líf þess er að taka. Fólk sem upplifir ráðgátur lífsins á eigin skinni og skeytingarleysi í umhverfinu en einhversstaðar í þessu öllu velja þau að opna augun. Þau velja að heyra og breiða sig yfir lífið. Það er svo í þessu vali, í hinni frjálsu ákvörðun sem undrið gerist, skilaboð englanna berast og eilífðin snertir tímann. Í ljós koma löngu ráðin ráð, leyndardómar Guðs sem gjörþekkir allt sem lifir og lætur keisara heimsins, geyp harðstjóranna og illar tilviljanir engu breyta heldur leiðir lífið fram til sigurs. Því er það mín trú, þótt þér þyki lífsins ómögulegt að trúa, að Guð hafi trú á fólki eins og þér og öllum hinum heilögu persónunum í guðspjalli dagsins. Og það er mín trú að öll þín umhyggja og ást fyrir fólkinu þínu sé liður í svari Guðs við þjáningu heimsins. Þess vegna trúi ég á eilíft líf þér og þínum til handa. Amen.