Kæru vinir, hafið þið velt fyrir ykkur mætti snertingarinnar. Hvernig snertingin getur bæði líknað og meitt fólk. Máttur hinnar góðu snertingar er mikill. Það hef ég margoft séð og reynt á lífsleiðinni. Það eru til magnaðar sögur um gildi snertingarinnar í Biblíunni. Eins og þessar sem voru lesnar hér áðan, af Maríu í Betaníu sem tók aðeins örfáum dögum fyrir páska rándýr ilmsmyrsl og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu og húsið fylltist af ilmi smyrslanna. Einnig frásögnin af því er Jesús stóð upp frá síðustu kvöldmáltíðinni og hellti vatni í mundlaug og tók að þvo fætur lærisveinanna og þerra með líndúknum sem hann hafði um sig. Jesús snerti og læknaði og lýsti hreint það sem samfélag manna hafði lýst óhreint til að viðhalda fordómum og félagslegri einangrun einstaklinga. Líkamar okkar eru það sem gerir okkur sýnileg og það er því áhrifarík leið til að halda fólki niðri að hafna líkama þess. Guðfræði sem hafnar líkamanum, hafnar manneskjunni. Þannig var ekki guðfræði Jesú. Jesús snertir hið óhreina og gefur því gildi, færir því stöðu og ljær því tilgang. Kristin kirkja má ekki vera líkamshrædd. Boðskapur Krists fjallar um andleg gildi, en þar er svo sannarlega líkamsmiðuð guðfræði á ferðinni. Sjálf upprisufrásögnin er aðferð til að skila þeirri vitneskju að likaminn er góður. Ég man eftir þeim tíma þegar faðir minn lifði sín síðustu misseri með sjúkdóm sem heitir Levy body. Slík veikindi gera það að verkum að fólki býr við algjört mál-og verkstol og minnisleysi og getur ekki sinnt daglegum þörfum sínum. Í þjáningu hans fékk innihald og mikilvægi snertingarinnar miklu dýpra gildi í lífi okkar fjölskyldunnar. Snertingin er hluti af því að mæta fólki á heildrænan hátt. Hvað er eftir þegar ekki er lengur hægt að rifja upp minningar, segja sameiginlega sögu eða segja frá viðburðum líðandi stundar? Við fjölskyldan tókum þá ákvörðun að ganga inn í hjúkrunina á sjúkrahúsinu. Við fundum að snertingin og augnsambandið var það sem við gátum átt saman. Alveg eins og við önnumst börnin okkar í frumbernsku. Og af því að tilfinningarsambandið milli föður míns og fjölskyldunnar var byggt á svo miklu grundvallartrausti þá fann maður að snertingin minnti hann með einhverjum hætti á ástvini sína þó að hann myndi ekkert nafn síðustu mánuðina. Hvenær hefði ég trúað því að það gætu verið mér óendanlega dýrmætar stundir að baða föður minn, klæða hann, klippa neglurnar, greiða hárið hans, nudda fætur og mata hann? Og hvernær hefði ég trúað því að í slíkum aðstæðum hefði færst friður og öryggi yfir hann? Aldrei, fyrr en ég fékk að reyna það sjálf. Snertingin var það sem tengdi okkur fjölskylduna saman og við hann. Ég man einu sinni eftir því að koma á sjúkrahúsið þegar pabbi var orðinn mjög veikur og komin í hjólastól, þá kom vakthafandi hjúkrunarkona á móti mér og sagði mér andaktug frá því að hr. Sigurbjörn Einarsson biskup hefði komið í heimsókn, einn af góðum vinum pabba. Ég spurði hvort hann hefði staldrað lengi og hún játti því. Síðan spurði ég hvort Sigurbjörn hefði náð einhverju sambandi við hann. Þá sagði hún mér að þeir hefðu bara setið lengi og haldist í hendur. Málstol föður míns var þá algjört, en það kom ekki í veg fyrir að þeir gátu átt samfélag með því að sitja hlið við hlið og haldist í hendur og blessað þannig hvor annan. Já, snertingin er máttug og innihaldsrík. Þarna var sterkur vitnisburður um vináttu og traust. Í bók Vilborgar Davíðsdóttur sem kom út á dögunum og ber heitið Ástin, Drekinn og Dauðinn fjallar hún um sjúkdómsraunir eiginmanns síns Björgvins, en hann greindist með heilaæxli aðeins fertugur að aldri. Þetta er einstök bók sem lýsir samleið þeirra hjóna í gegnum veikindi og dauða. Þegar dauðastund hans nálgast á líknardeildinni í Kópavogi segir Vilborg svo frá: ,,Rúmin okkar hafa verið færð saman fyrir nóttina og ég hef höfuð mitt við öxl hans, legg arminn yfir breiða bringuna. Á náttborðinu stendur logandi kerti og vasi með blómum. Vegglampi ofan við rúmin varpa mildri birtu yfir rökkvaða sjúkrastofuna. Hendur hans liggja hreyfingarlausar ofan á hvítri dúnsænginni og ég strýk þær, renni fingurgómum mínum yfir handarbökin og fram eftir löngum fingrunum. Hörundið svalt viðkomu þrátt fyrir sótthitann. Man þegar ég leit hann augum í fyrsta sinn fyrir áratug og dáðist að þessum fallegu höndum.“ Þarna nær Vilborg ekki lengur sambandi við sálufélaga sinn og ástvin og þá er það snertingin ein, hún líknaði þeim báðum og við verðum þátttakendur í mætti ástarinnar þegar drekinn hefur lagt þennan fallega sterka mann að velli. Ekkert linar þjáningu betur en mannleg snerting. Þetta vissi María, þetta vissi Jesús, þetta vissi Vilborg og þetta vitum við. Einhvers staðar í sálu sinni vissi María hvað klukkan sló. Eitthvað sagði henni að fara og sækja þessi rándýru smyrsl. Hún skynjaði þjáninguna sem beið Jesú og hún fann einsemd hans í þjáningunni og þráði að líkna honum, mæta honum. Jesús andmælti skömmunum sem dundu á henni og sagði: ,,Lát hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns.“ Ítrekað greina guðspjöllin frá því hvernig Jesús reyndi að opna á samtal við vini sína um kvölina og dauðann sem beið hans, ein þeir gátu ekki skilið það sem hann sagði heldur lokuðu alltaf á samtalið. M.a.s. við síðustu kvöldmáltíðina, við allra síðustu næðisstundina sem Jesús átti í þessum heimi náði hann ekki að fá þá til að tala um hlutina. - Var hann ekki bara að nota ráð Maríu þegar hann tók sig til og þvoði fætur vina sinna svo að þeir mættu muna snertingu hans fyrst þeir gátu ekki staðnæmst við orð hans? En María var þarna handa honum. Á milli þeirra ríkti hlustandi nærvera og mannleg snerting. Ég bið ykkur að taka með ykkur þá hugsun að þegar Jesús nokkrum dögum síðar hékk á krossinum, nakinn og hrjáður þá hefur hann ilmað af þessum dýru smyrslum. Það var ekki lykt af blóði, ryki og óhreinindum sem fylltu vit hans, heldur ilmurinn af smyrslunum sem voru smurð á fætur hans í ást og kærleika. Og ilminum fylgdi minningin, reynslan af hinni góðu snertingu. Það er huggun þegar við hugsum til þeirrar hræðilegu þjáningar sem Jesús fór í gegnum á föstudeginum langa.
María, Jesús og Vilborg
Flokkar