Jesús kom til Jeríkó og gekk gegnum borgina.En þar var maður, er Sakkeus hét. Hann var yfirtollheimtumaður og auðugur.Langaði hann að sjá, hver Jesús væri, en tókst það ekki fyrir mannfjöldanum, því hann var lítill vexti.Hann hljóp þá á undan og klifraði upp í mórberjatré til að sjá Jesú, en leið hans lá þar hjá.Og er Jesús kom þar að, leit hann upp og sagði við hann: Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu.Hann flýtti sér ofan og tók á móti honum glaður.Þeir er sáu þetta, létu allir illa við og sögðu: Hann fer til að gista hjá bersyndugum manni.
En Sakkeus sté fram og sagði við Drottin: Herra, helming eigna minna gef ég fátækum, og hafi ég haft nokkuð af nokkrum, gef ég honum ferfalt aftur.
Jesús sagði þá við hann: Í dag hefur hjálpræði hlotnast húsi þessu, enda er þessi maður líka Abrahams sonur. Því að Mannssonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það. Lk 19.1-10
Hvað er sannleikur? Ef ég ætti að velja prédikun minni hér í dag yfirskrift þá myndi ég nefna hana “að koma auga á Krist”. En hvernig komum við auga á Krist? Er hann hér á meðal okkar og er hægt að sjá hann? Er hann ekki stiginn upp til himna? Er tilfellið kannski það, að hann hafi aldrei verið til og því aldrei verið annað en hugarburður og skáldskapur? Þær eru margvíslegar spurningarnar sem upp í hugann koma þegar svona er spurt.
Einu sinni heyrði ég prófessor við guðfræðideildina varpa fram þeim efa í umræðum að loknum fyrirlestri að Jesús hefði hugsanlega aldrei verið til. Í framhaldi þeirra orða sagðist hann reyndar sjálfur halda að hann hefði verið til, en það lægi samt fyrir að heimildir okkar um hann væru ótraustar í þeirri merkingu að við gætum ekki vitað með vissu hvað hann raunverulega hefði sagt eða gert því vitnisburðurinn um hann væri trúarlegs eðlis. En er með þessu ekki verið að kasta rýrð á innihald ritningarinnar, kynni nú einhver að spyrja - eru frásagnir guðspjallanna ekki sannleikanum samkvæmar? Og með þessum spurningum erum við komin að spurningunni um sannleikann. Hvað er sannleikur? Þessi spurning er meira að segja borin upp á síðum guðspjallanna og lögð fyrir Jesú, en hann afræður að svara með þögninni einni. Já, hvað er sannleikur? Þó Jesús svari spurningunni um sannleikann ekki beint þegar hún er borin upp við hann, þá svarar hann henni eigi að síður, því á öðrum stað og í öðru samhengi segir hann: “Ég er sannleikurinn” – “Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.” Afdráttarlausara og skýrara getur það ekki verið! Kristur er sannleikurinn og þetta er forsenda okkar, sem kristin erum, og útgangspunktur, og því er það að við leitumst við að meta allt í ljósi hans og reisa líf okkar á þeim grundvelli sem hann er.
Það sem skyggir á Krist Ef við hins vegar erum í þeirri stöðu í lífinu að koma ekki auga á Krist, þá verður hann heldur aldrei sá grundvöllur, sem hægt er að reiða sig á eða byggja neitt ofan á og ef við ekki nemum raust hans, þá verður hann okkur lítils virði. Guðspjall dagsins í dag fjallar um mann sem kom ekki auga á Krist. Og hvers vegna kom hann ekki auga á Krist? Jú, hann var að vexti smár og mannfjöldinn skyggði á, svo hann gat ekki séð hann. Í þessu sambandi er margt að athuga, því er það ekki oft þannig, að það erum við, sem fylgjum Kristi, sem svo oft komum í veg fyrir að unnt sé að sjá hann? Við sem kristin erum eigum það nefnilega til að afbaka svo margt í sambandi við trúna og gerum það iðulega að verkum að margir þeir sem leita Krists, verða fráhverfir honum, því í einstrengingshætti okkar og umburðarleysi verðum við oft til þess að fæla fólk frá. Í þessu sambandi mætti auðvitað rifja ýmislegt upp úr sögu kristninnar, eins og t.d. það hvernig kristindómurinn hefur átt þátt í að réttlæta þrælahald og kúgun kvenna, auk þess sem ýmsar kristnar kirkjur - einkum í Bandaríkjunum - töluðu lengi vel fyrir aðskilnaði kynþáttanna og vörðu það háttalag sem best þær gátu. Saga kristninnar er því ekki bara saga fagnaðar og framfara, heldur einnig saga afturhalds og kúgunar. Það er einfaldlega staðreynd, sem kristnir menn hvarvetna í heiminum og á öllum tímum þurfa að horfast í augu við og gera upp við sig. Það þarf því engan að undra, þó margir séu fráhverfir kristindómi og finni honum margt til foráttu. Ég trúi hins vegar á Jesú Krist sem Son hins lifanda Guðs, og mín afstaða er sú, að ekkert sé betur til þess fallið að hjálpa okkur mönnunum til að takast á við skuggana og myrkrið í okkur sjálfum en trúin á hann.
Hjónaband homma og lesbía Í dag stendur kirkjan svo frammi fyrir nýjum vandamálum og nýjum ögrunum. Að þessu sinni er það réttindabarátta samkynhneigðra, eða homma og lesbía eins og þeir kjósa að kalla sig, og spurningin sem margir spyrja sig að nú um stundir er hvernig kirkjan ætli að bregðast við þeirri baráttu. Sú spurning sem við stöndum frammi fyrir núna sem kirkja – og ætlum að takast á við á þessu ári, sem nú er nýgengið í garð - er hvort við ætlum að heimila hommum og lesbíum að ganga í hjónaband eða ekki. Umræðan á vettvangi kirkjunnar hefur í rauninni staðið yfir undanfarin ár, og í henni hefur margt áunnist. Nú er t.d. svo komið að flestir virðast þeirrar skoðunar að kærleikssamband tveggja karla eða tveggja kvenna, stríði ekki gegn vilja Guðs. En þá vaknar spurningin, á að leyfa hommum og lesbíum að ganga í hjónaband? Þetta er sú spurning sem við þurfum að glíma við. Hver niðurstaðan verður er ekki gott að segja, því um þetta eru mjög skiptar skoðanir. Kannski verður niðurstaðan sú, að kærleikur okkar til hinna samkynhneigðu muni stranda á einni skilgreiningu – þeirri skilgreiningu að hjónaband sé einungis stofnun karls og konu og geti aldrei orðið neitt annað en það. Verði niðurstaðan sú, getum við svo spurt okkur að því hvort sú niðurstaða muni leiða til þess, að fleiri koma auga á Krist, eða verður hún kannski til að fæla fólk frá Kristi. Að koma auga á Krist í samtímanum er allt annað en auðvelt, því það er svo margt sem skyggir á. Höfum við ekki allt til alls, og ef eitthvað bjátar á, getum við þá ekki alltaf leitað til einhverra, sem eru þess umkomnir að greiða úr vanda okkar? Þurfum við nokkuð á Kristi að halda?
Vinaleiðin Þetta eru m.a. þær spurningar, sem upp hafa komið í tengslum við umræðuna um hina svokölluðu Vinaleið, sem svo mjög hefur verið deilt um í fjölmiðlum að undanförnu, en Vinaleiðin byggir á fastri viðveru prests eða djákna í grunnskóla, og eru allir frjálsir að því að notfæra sér þjónustu hans. Þar er það t.a.m. sjónarmið þeirra, sem gagnrýnt hafa Vinaleiðina að nóg sé til af sálfræðingum og öðrum fagstéttum, til að taka á vanda skólabarna. Að þeirra dómi þarf enginn í skólanum á Kristi að halda, og þar á hann ekki að vera og þar má hann ekki vera. Samt liggur fyrir að þeir prestar og djáknar sem að Vinaleiðinni starfa, hafa átt stóran þátt í að hjálpa grunnskólabörnum að ná aftur áttum, eftir að hafa glímt við brogaða sjálfsmynd, brotnar heimilisaðstæður og aðra erfiðleika. En hvað getum við sagt um þá sem gagnrýna Vinaleiðina. Hvers vegna er hún þeim þyrnir í augum? Það liggur auðvitað fyrir að gagnrýni þeirra byggir á því, að grunnskólinn eigi ekki að vera trúboðsakur og að þar eigi allir að hafa jafna stöðu og jöfn tækifæri. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að með Vinaleiðinni sé ekki verið að rýra hlut nokkurs barns, eða skerða réttindi þess. Þá liggur einnig fyrir að grundvöllur skólastarfs í landinu á að byggja á kristnu siðgæði. Hér er því ekki verið að taka nokkurn hlut frá öðrum, og það er ekki verið að mismuna, eða koma í veg fyrir að aðrir geti sinnt trú sinni þó þeir séu annarar trúar. Vinaleiðin er einungis viðbót, sem engum ætti að standa ógn af, rétt eins og hjónabandinu eins og við þekkjum það í dag, þarf ekki að standa ógn af því, þó kirkjan viðurkenni kærleikssamband homma og lesbía að fullu og heimili þeim að ganga í heilagt hjónaband. Vinaleiðin og hjónaband homma og lesbía eiga það sameiginlegt að þar er byggt á sama grundvellinum að því leytinu til, að um er að ræða tilboð öllum þeim til handa, sem vilja takast á við líf sitt af ábyrgð og heilindum, og vilja verða heilar manneskjur. Hvorugt er til þess fallið að taka eitthvað frá öðrum eða gengisfella trú eða hjónaband annarra, heldur er einungis um að ræða tæki sem eru til þess fallin að stuðla að heill okkar og hamingju.
Að hlýða köllun sinni En hvers vegna þá öll þessi gagnrýni? Getur verið að hún stafi af því að menn hafi ekki komið auga á Krist? Er það kannski vegna þess, að við sem trúum og leitumst við að fylgja honum eftir skyggjum á hann? Hefur kannski einstrengingsleg framsetning okkar á trúnni, og sú tilhneiging okkar að láta alltaf sem við höfum alltaf allan sannleikann okkar megin, orðið þess valdandi að aðrir hafa orðið afhuga Kristi og sjá fyrir vikið engan tilgang í því að reyna að koma auga á hann? Ég held að þetta séu spurningar sem við sem kristin erum þurfum að velta fyrir okkur af alvöru. Guðspjall dagsins minnir okkur hins vegar á það, að það er alltaf mannfjöldi í kringum Krist, sem gerir það að verkum að aðrir koma ekki auga á hann. Við megum hins vegar ekki láta það aftra okkur, og skulum vera minnug þess, að maðurinn í guðspjallinu, hann Sakkeus, dó ekki ráðalaus heldur afréð hann að klifra upp í tré, til að koma auga á Krist. Það má eiginlega segja að hann hafi afráðið að skipta um sjónarhorn, en það getur oft skipt sköpum fyrir þann sem hefur verið fastur lengi í sama farinu, að rífa sig upp úr því og taka til við að hugsa allt upp á nýtt. Nýtt sjónarhorn hefur hins vegar í för með sér nýja sýn, og ný sýn getur kallað fram nýja vitund og nýjan skilning. Það þarf nefnilega oft að hafa fyrir því að koma auga á Krist, því það er svo margt sem skyggir á, glepur og afvegaleiðir, og það er oft svo erfitt að taka til við að hugsa allt upp á nýtt. Sá sem hins vegar hefur einlægan áhuga á því að koma auga á Krist, lætur ekkert aftra sér. Að því leytinu til er Sakkeus góð fyrirmynd. Þegar við því stöndum frammi fyrir því, að okkur finnst margir þeir sem hvað ákafast nudda sér utan í Krist koma í veg fyrir að við sjáum hann, þá skulum við hugsa til Sakkeusar, sem lét ekkert aftra sér frá því að hlýða köllun sinni, en sá sem hlýðir köllun sinni, mun eins og hann uppskera sigurlaunin, sem eru þau að Kristur kemur og segir: “Í dag ber mér að vera í húsi þínu”. Það eru sigurlaun þess, sem gefst ekki upp á leitinni í fullvissu þess að hann muni finna, biður í trausti þess að hann verði bænheyrður, og lætur ekki af að knýja á, því innst í hjarta sínu veit hann að fyrir honum muni upp lokið verða.