Yfirskrift Alþjóðlegs bænadags kvenna er: Upplýst bæn, bæn í verki (Informed prayer, prayer in action). Ár hvert aukum við þekkingu okkar á einu ákveðnu landi svo að við getum beðið á markvissan hátt inn í aðstæður kvenna, barna og karla og veitt hagnýta hjálp þegar því er að skipta. Kristnar konur á Kúbu senda okkur fyrirbænir sínar og frásagnir þetta árið. Þær leggja áherslu á börnin sem fyrirmyndir okkar og gleðigjafa sem okkur ber að hlú sérstaklega að. Þrátt fyrir viðskiptabannið sem Bandaríkin settu á eyríkið fyrir rúmri hálfri öld eru aðstæður barna á Kúbu nokkuð góðar, enda er menntun þeirra og heilbrigði sett í forgang. Ömmur á Kúbu hafa viðhaldið kristinni trú eins og fram kemur í frásögu einnar þeirra, Juönu:
Ég hef, eins og margar kristnar konur af minni kynslóð, varðveitt trúna þrátt fyrir að okkur hafi verið mismunað fyrir að trúa á Guð og fyrir að koma saman til að lofa hann. Við höfum gefið Orð Guðs áfram til barnabarnanna okkar. [...] Við höfðum kirkjurnar opnar þótt fáir hafi stundum komið í messurnar. [...] Við erum konur sem þekkjum andstöðu og þjáningu en einnig gleði af því að við sjáum hvernig sannleikurinn dafnar og fólkið okkar tekur með gleði á móti Orði Guðs.Þar sem karlkyns prestar voru iðulega kallaðir í herinn til að leggja stein í götu kristilegs starfs á Kúbu - sumir flúðu til Bandaríkjanna - hafa konur lengi verið í lykilhlutverki í kirkjunum. Sama gildir um þátttöku í atvinnulífi og stjórnmálum þó enn sé brotið á rétti kvenna víða, einkum ómenntaðra, þeldökkra kvenna. Samkvæmt heimasíðu Interparliamentary Union hlutu konur á Kúbu 48.9% sæta þjóðþingsins þegar kosið var árið 2013 og eru þar með í þriðja sæti á heimsvísu (á eftir Rúanda og Bólivíu). Ísland er í 11. sæti með 41.3% kvenkyns þingmanna (ásamt Namibíu og Níkaragva). Þess má geta að Kúba er svipað að stærð og Ísland en íbúar þessa stærsta karabíska eyjasvæðis við inngang Mexíkóflóa eru 11 milljónir. Vegna landfræðilegrar legu og ílangrar lögunar eyjaklasans eru fellibyljir tíðir. Til dæmis olli fellibylurinn Sandy alvarlegu tjóni árið 2012 í borginni Santiago de Cuba og öllum austurhluta landsins.
Plöntu- og dýralíf á Kúbu bera merki hægfara hnignunar ýmissa tegunda, sértaklega fugla, skordýra og lindýra, eins og til dæmis Polymita (fjölranda) landsnigilsins. Engu að síður er fjölbreytni fuglalífsins mikil og nefna má sérstaklega kúbverska Trogon eða tocororo, sem er þjóðarfugl Kúbu og litur fjaðra hans, rauðar, bláar og hvítar, speglast í fánanum. Í munnvatni einnar tegundar innlendra sporðdreka hefur fundist efni sem vinnur gegn krabbameini og er notað á áhrifaríkan hátt í kúbverskri og alþjóðlegri lyfjagerð. Viðskiptabannið er þó þrándur í götu lyfjaframleiðslu og framþróunar almennt.
Orðið Kúba merkir á máli innfæddra „ræktað land.“ Plöntulíf er ríkt og fjölbreytt eins og loftslagið gefur tilefni til. Konunglegi pálminn sem gnægð er af í landinu öllu er þjóðartré Kúbu og er sýnilegur í skjaldarmerkinu sem tákn um frjósemi landsins. Þjóðarblómið er hvít fiðrildajasmín, Butterfly Jasmine. Kúbverskar konur nýttur þetta blóm áður fyrr, ekki aðeins til að skreyta hár sitt heldur einnig að flytja boð á milli á tímum frelsisstríða og sem tákn um sinn kúbverska uppruna.
Það var fyrir meðalgöngu Bandaríkjanna sem Kúba öðlaðist sjálfsstæði frá Spáni um aldamótin 1900 en árið 1934 var gengið frá nýjum samningi milli ríkisstjórnanna tveggja sem felldi niður rétt BNA til að grípa inn í aðstæður á Kúbu. Yfirráðaréttur BNA yfir Guantánamo flotastöðinni hélt sér þó á grundvelli leigusamnings. Enn í dag er þetta landsvæði undir stjórn Bandaríkjastjórnar þrátt fyrir endurteknar kröfur kúbverkra stjórnvalda með stuðningi margra landa að svæðinu sé skilað til kúbversku þjóðarinnar. Guantánamo stöðin, stærsta flotastöð í Karabíska hafinu, er meðal þeirra fangelsa í heiminum þar sem mannréttindi eru mest fótum troðin.
Sigur byltingarinnar undir forystu Fidels Castro árið 1959 varð upphaf nýrra tíma fyrir þau sem áttu mest undir högg að sækja, að mati kúbversku kvennanna: bændur, verkafólk, börn, konur og fátæka. Meðal annars var ólæsi útrýmt og heilsugæsla stóð öllum íbúum til boða. Eftir að Berlínarmúrinn féll nýtur Kúba ekki lengur fjárhagslegrar samstöðu ráðsstjórnarríkjanna og efnahagurinn fór stórum versnandi. Með nýlegri stefnubreytingu í hagkerfi Kúbu eru mikilvægustu stoðir efnahagins nú alþjóðleg ferðamennska, samvinnuhreyfingin og lítil einkafyrirtæki. Útflutningur á kaffi, nikkel og tóbaki ásamt samvinnubúskap í landbúnaði og litlum sprotafyrirtækjum hefur mikið að segja. Á tíunda áratug síðustu aldar var trúfrelsi tryggt.
Páfar hafa heimsótt Kúbu, Franz páfi í september í fyrra og Benedikt páfi fyrir fjórum árum. Árið 1998 heimsótti Jóhannes Páll II páfi Kúbu. Hann gerði sér ljósa grein fyrir þeirri kreppu sem kúbanska þjóðin var að ganga í gegn um og lagði áherslu á mikilvægi þess að „Kúba opni sig fyrir heiminum og heimurinn opni sig fyrir Kúbu.“ Þessi staðhæfing varð smám saman að veruleika og í dag nýtur Kúba virðingar og samstöðu flestallra þjóða í heimshlutanum. Þjóðin skipar mikilvægan sess meðal þjóðanna sem myndar bandalag þjóða Suður-Ameríku og Karabíska hafsins og nýtur stuðnings Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna þar sem 98% atkvæða hafa fallið til stuðnings því að viðskiptabann Bandaríkjanna yrði fellt úr gildi. Heimsókn Barak og Michele Obama í liðinni viku er skref í rétta átt að margra mati en þau hjón hittu Raúl Castro Ruz sem hefur gengt forsetaembættinu frá árinu 2008.
Byggt á efni sem kristnar konur á Kúbu sendu frá sér í tilefni af Alþjóðlegum bænadegi kvenna 2016.