En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi.
En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“
Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu:
Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum. Lúk 2.1-14
Bænin
Í kyrrðinni er stjarna, leið að lýsa að litlu barni, sem að veg mun vísa. Á himni fagrar englaraddir óma: Um eilífð eruð leyst úr jarðardróma! María, þú ævadrottning æðsta, undir belti barstu ljósið stærsta bið þinn son að lýsa hverju hjarta heim til þín á vegu ljóssins bjarta
Jólanótt, hin sanna, sæla,fríða, snjóhvítt línið má þig fegurst prýða. Um veröld alla jólaklukkur klingja í kvöld má feginsljóð hver maður syngja.
Þökk þér lífsins ljósið er þú sendir. Lít ég móti geislanum sem bendir hér til mín og myrkið hverfur kalda. Þér mikli Guð sé lof um aldir alda. (Eyvör Pálsdóttir/ Kristján Valur Ingólfsson)
Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.
Kæri Þingvallasöfnuður, gleðilega jólahátíð.
Bæn þessa jóladags er sálmur sem Eyvör Pálsdóttir, samdi á færeysku fyrir jólasöngva Langholtskirkju, fyrir sex árum. Miðað við gæði hefur farið ótrúlega lítið fyrir þessum fallega sálmi og hugljúfa lagi. Það er sjaldgæft að framúrskarandi og víðþekkt tónlistarfólk eins og Eyvör taki svona afdráttarlausa afstöðu með grundvallarboðskap kristninnar, eins og hér er gert. Og þó að hér sé búið að færa hugsun Eyvarar uppá íslenskan búning, þá eru vitni að því að engu er tilhnikað í boðskapnum og að Eyvör var sjálf sátt við búninginn.
Sá andblær jóla sem hér leikur um ber með sér fegurð, kyrrð og frið. Geisli Guðs náðar sem beinist að hverjum þeim sem lýtur undri jólanna í trú lætur allt myrkur hverfa. Og þar er ekki átt við myrkur skammdegisnæturinnar, heldur myrkur sálarinnar og myrkur mannlífsins. Við syngjum feginsljóð. Fögnuður sálarinnar er djúpur og hljóðlátur og hreinsandi.Hann er annarskonar en hinn ytri fögnuður og birtingamynd hans af allt öðrum toga. Það er fögnuður sálarinnar sem einkennir jólahátíðina og upptök hans eru í móðurkviði Maríu.
Guð er fæddur. Hann sem á á öllu ráð á jörðu og á himni gerist maður, gerist manns barn.
Kærleikur Guðs tekur á sig mynd í Jesú Kristi.
Guð er kærleikur. Ekki bara á jólunum eða á hátíðum, heldur mjög hversdagslega, alla daga.
Samuel Glad ferðaðist um landið hér fyrr á árum og seldi kristilegt efni fyrir Hvítasunnukirkjuna. Hann kom til Raufarhafnar fyrsta veturinn minn þar og árlega eftir það. Hann var sænskumælandi Finni. Ég sauð handa honum saltað hreindýrakjöt og hann skrifaði í gestabókina á sænsku, finnsku og íslensku: Guð er kærleikur. Því að Guð birtist í gistivináttunni.
Kæri söfnuður, það er vegna gistivináttunnar og vináttunnar yfirleitt sem ég hef fengið að vera áfram sóknarprestur hér í Þingvallasókn þrátt fyrir breyttar kringumstæður mínar. Ég vona að um það verði góð sátt, og að með nýjum reglum um sérstaka Þingvallakirkjunefnd verði auðveldara að halda utan um starfsemina í þessari kirkju og rekstur hennar svo að fólkið hér við vatnið þurfi aldrei að leita annað ef það vill á annað borð þiggja kirkjuþjónustu hér í Þingvallakirkju. Ég get heldur ekki látið vera að nefna að óskir okkar um að vígslubiskupinn í Skálholti predikaði hér á afmælisdegi og afmælisári Þingvallakirkju, sem ekki gengu eftir vegna þeirra alvarlegu veikinda sem leiddu til burtfarar þáverandi vígslubiskups af þessum heimi, þær hafa nú fengið nýtt innihald. Mér þykir í hæsta máta vel viðeigandi að það sé einmitt embættisskylda vígslubiskups í Skálholti, hver sem hann er, að bera ábyrgð á helgihaldi Þingvallakirkju, og mun það ef vel er á haldið auka hróður beggja.
Kæri söfnuður. Jólin eru fjölskylduhátíð.
Fjölskyldur safnast saman undir jólatrénu, og í jólaboðunum. Þau sem eru manni næst eru kölluð saman, þau sem eru manni fjær fá jólakort eða jafnvel jólagjöf. Og það getur bara reynst býsna þungbært þegar börnin verða stór og mynda sína eigin fjölskylduhefð, svo ég tali nú bara frá sjálfum mér.
Kaþólska kirkjan hefur þá hefð að á sunnudaginn milli jóla og nýárs, sem reyndar fellur niður þetta árið, eigi að tala um fjölskylduna, út frá hinni helgu fjölskyldu, og þá eigi alveg sérstaklega að muna eftir Jósef. Við eigum engan svona dag og erum ekkert dugleg að muna eftir Jósef, sem þó er settur í erfiðar aðstæður eins og ákveðinn hluti nútímafólks er í sinni fjölskyldu, þar sem hin hefðbundna vísitölufjölskylda er ekki hið almenna viðmið, heldur blóðforeldrar, kjörforeldrar og fósturforeldrar eigin barna, annarra barna og stjúpbarna. Það getur orðið snúið að halda slíkum fjölskyldum saman, en ótvíræður vilji til þess og rík löngun eru þó hið algenga, sérstaklega þegar kemur að jólum. Það er auðvitað nokkuð víst að þegar sonur Guðs fæðist í heiminn borinn undir belti venjulegrar jarðneskrar móður, þá er það ekki venjuleg fjölskylda, og hlutverk Jósefs og hlutskipti hans ekki auðvelt. En mikið hlýtur það samt að vera mörgum huggun sem búa við sérkennileg fjölskyldumynstur að sjálfur Guðs sonur skyldi þekkja það svona vel. Um leið og við getum verið glöð yfir því að stærstur hluti fjölskyldna er jafn hversdagslega hamingjusamur í sínu hefðbundna munstri og þessi efnilegu fermingarbörn safnaðarins sem hér lásu jólaguðspjallið þekkja vel, getum við líka glaðst og jafnvel enn frekar yfir öllum þeim sem tekst að iðka gott fjölskyldulíf við margskonar erfiðar og flóknar aðstæður.
Þegar Jesúbarnið fæddist var sjálfur kærleikurinn vafinn reifum og lagður í jötu. Í langflestum tilvikum eru börn bæði getin og fædd í kærleika, og mega búa við hann til fullorðinsára, og halda svo áfram að skapa þann heim sem mótaður er af kærleika til barna og til fjölskyldu.
Um leið og við gleðjumst yfir því skulum við einnig minnast þess að ekki eru öll börn getin og fædd í kærleika. Síður en svo. Þeirra skulum við minnast sérstaklega við jötu Jesúbarnsins.
Stundum eru þessi börn gefin til nýrra foreldra sem ala þau upp eins og sín eigin, og eignast þannig það ástríki sem þeim er nauðsynlegt til eðlilegs þroska. Það er dásamlegt þegar fólk sem ekki getur eignast börn á þess kost að ættleiða börn sem annars færu líkast til á mis við foreldraást og kærleiksríkt uppeldi. En ef það er gott að foreldrar sem þrá að eignast barn en geta það ekki eiga þess kost að ættleiða barn hvað á þá að segja við öðrum úrræðum sem fólk í sömu stöðu leitar eftir, eins og til dæmis staðgöngumæðrun? Í ljósi nútímatækni við barngetnað verður sjálfsagt erfitt að amast við því að móðir gangi með barn fyrir aðra konu, en það skapar sannarlega önnur og ný vandamál, sem ekki eru öll fædd af kærleikanum. Aðalatriðið í því efni sem öðru er að fyrst kemur réttur barna til að eiga foreldra, svo kemur réttur foreldra til að eiga börn. Í staðgöngumæðrun kemur því til viðbótar réttur móður yfir eigin líkama og virðing fyrir því tilfinningasambandi sem verður milli móður og barns á því hulda og leyndardómsfulla tímabili í ævi sérhvers einstaklings í móðurkviði. Hér verður að fara með mikilli gát.
Við getum ekki skilist við þessa hugsun um rétt án þess að nefna rétt foreldra til að ala upp börn sín og búa þeim lífvænleg skilyrði. Það er líka hluti af jólaguðspjallinu. María og Jósef þurftu að flýja með barnið til Egyptalands. Á þessum dögum þegar Ísland hefur fyrir sitt leyti samþykkt fullveldi Palestínu tryggir sá velgjörningur ekki frið né lífsöryggi barna og foreldra, og alls ekki þeirra sem eru á leið til Betlehem, þó að Ísraelsmenn hafi í gær lokið upp stóra hliðinu sem annars er notað fyrir herinn, svo að rúturnar frá Jerúsalem ættu greiðari aðgang. Það er hægt að messa í Betlehem þessi jól. Þúsundir hlustuðu í gærkveldi á Fouad Twal kaþólska biskupinn, patríarka landsins helga, sem er hreint ekki þekktur af því að tala um pólitík, hvetja alla kristna menn að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að styrkja og vernda fólkið í Palestínu. Margt hefur gerst að undanförnu en leiðin er löng framundan og torsótt hverju barni og hverri fjölskyldu. Inn í þann veruleika talar ljóð Snorri Hjartarsonar sem hann samdi 3.apríl 1957 því það er jafn ferskt nú og þá og um aldir.
Ég heyrði þau nálgast í húminu, beið á veginum rykgráum veginumHann gengur með hestinum höndin kreppt um tauminn gróinn við tauminn
Hún hlúir að barninu horfir föl fram á nóttina stjarnlausa nóttina
Og ég sagði: þið eruð þá enn sem fyrr á veginum flóttamannaveginum
en hvar er nú friðland hvar fáið þið leynst með von ykkar von okkar allra?
Þau horfðu á mig þögul og hurfu mér sýn inn í nóttina myrkrið og nóttina Snorri Hjartarson
Kæri söfnuður. Við megum aldrei gleyma þessari hlið á túlkun jólaguðspjallsins. Við megum heldur ekki horfa framhjá því að hver sá sem gengur að jötunni vitandi vits og með opinn huga og hjarta, eignats vitund um veröldina alla og verður hluttakandi í öllu lífi, öllum heimi, öllu fólki. Hann og hún eignast allan heiminn, alla menn, allt fólk að fjölskyldu, þar sem enginn er neitt annað en bróðir þinn og systir þín, og bak við allar grímur og alla titla og öll verkefni og öll hlutverk er manneskja eins og þú með kjark og kvíða, ótta og einurð, jafn viðkvæm fyrir smámunum eins og þú og ég.
Fermingarbörnunum er falið að læra regluna: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.
Þannig eru orð Jesú skráð í helgri bók. En orðin : Elska skaltu náungann eins og sjálfan þig, þau merkja hið sama og að segja : elska skaltu náungann af því að hann er, hún er, eins og þú.
Fæðing Jesúbarnsins í þennan heim táknar samsömun Guðs með mönnum. Öllum mönnum. Þess vegna skulum við umgangast hvert annað samkvæmt því. Eins og börn Guðs og þar með hann sjálfan. Að þessu leyti eru öll börn Guðs eins og jöfn. En gjörðir þeirra eru ekki eins og ekki jöfn og við megum alls ekki samsama okkur þeim, né telja að allsstaðar sé Guð að verki.
Guð sem frelsar, er merking Jesú nafns. Það er Guð sem frelsar bæði frá og til. Í kærleika. Í fullkomnum kærleika.
Guð gefi ykkur að dvelja í þeim kærleika og nærast af honum og þjóna hvert öðru í honum og með honum. Það er kjarninn í jólahaldinu.
Dýrð sé Guði, Föður og Syni og Heilögum Anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.