Netmessa tekun upp í Stóru Laugardalskirkju í Tálknafirði
Textar dagsins: Jes 65.:7-19, Róm 8.18-25 og Matt 25.31-46
Í dag er síðasti sunnudagur
kirkjuársins… og ritningartextar þessa dags leggja áherslu á fyrirheit Jesú
Krists. Næsta sunnudag byrjar svo aðventan og eftirvæntingin eftir helgustu
hátíð okkar… jólunum.
Eins og ég sagði í upphafi langar
mig að breyta aðeins út af í dag og flétta ritningartextunum inn í efnið jafnóðum en ekki lesa þá á undan…
Það þekkja allir barna ævintýrin um Mjallhvíti, Öskubusku og Þyrnirós… mig langar til að velta fyrir mér hvort það sé einhver samlíking með þessum ævintýrum og þemanu í kirkjuárinu. Í þessum ævintýrum er beðið eftir fæðingu barns sem fæddist síðan inn í velsæld og ríkidæmi og hefði átt að eiga góða og áhyggjulausa ævi… en ógæfa dundi yfir… og á tímabili áttu þessar ævintýra persónur mjög erfiða ævi. En með hjálp góðra manna og vegna góðsemi persónanna sjálfra snérist allt að lokum á betri veg, persónurnar endurheimtu konungdæmi sín og hinir vondu fengu makleg málagjöld eins og það er svo oft orðað í ævintýrum…
Kirkjuárið spannar aðventuna, síðan ævi Jesú, hver tilgangurinn var með komu hans og hvers við meigum vænta í framhaldinu… Á aðventunni fjalla ritningatextarnir um spádómana fyrir fæðingu Jesú…en þó fæðingu hans væri beðið með eftirvæntingu voru aðeins fáir sem fögnuðu syni Guðs… það voru foreldrarnir, nokkrir fjárhirðar og vitringarnir frá austurlöndum…
Himneskur englakór söng en áheyrendur voru líka fáir. Jesús Kristur hefði átt að vera borinn á höndum en líkt og í ævintýrunum var flótti eina leiðin til bjarga lífi hans. Fjölskyldan flúði til Egyptalands og var þar í nokkur ár. Ég efast ekki um að Guðs blessun hafi vakað yfir þeim en lífið hefur samt verið erfitt við nýjar aðstæður í ókunnu landi.
Ævintýrapersónurnar okkar þurftu einnig að sætta sig við nýjar aðstæður og þurftu að vinna verk sem þær hefðu ekki þurft að vinna heima… Það er aðeins ein frásögn af Jesú á barnsaldri því næstu frásagnir segja frá því þegar hann er að byrja starf sitt… þegar hann valdi sér lærisveina, venjulega menn af götum samfélagsins og byrjaði að kenna um Ríki Guðs… Ævintýrapersónurnar okkar voru einnig með almúgafólki…
Ekki tóku allir vel á móti Jesú og sumir sátu um líf hans… það sama gerðist í ævintýrunum, það var setið um líf þeirra en einlæg og trú góðsemi þeirra vann þeim hylli og velvild. Lærisveinar Jesú voru stöðugt að undra sig á hver hann væri! Hvernig mátti það vera að vatn og vindur hlýddu honum… að hann gæti læknað sjúkdóma sem enginn hafði getað læknað áður… hvernig gat hann fætt 5000 manns með nokkrum fiskum og brauðum! Hver var hann?
Kærleikurinn sem streymdi frá honum dró að sér svo mikinn mannfjölda að einu sinni þurfti hann að fara á báti út á vatn til að hvíla sig fyrir áganginum… og hvernig gat það svo gerst að hann væri krossfestur, deyddur og tekinn burt frá þeim… þeir voru nýbúnir að kynnast honum. En eftir að hafa gengið í gegnum dauðann, reis Jesús upp… og endurheimti konungstign sína. Hann sannaði að hann er sonur Guðs og á sitt hásæti á himnum… og á krossinum fyrirgaf hann þeim sem höfðu gert honum illt. Í ævintýrunum endurheimtu persónurnar okkar líka ríki sín… en hinir vondu fengu makleg málagjöld… Það þótti góður endir á ævintýri að hinum vondu væri vera refsað…
Hvað áttu ævintýrin að kenna okkur? Að það sé bæði gott og illt í heiminum? Að gott fólk geti líka upplifað erfiðleika og þjáningar? eða að örlögin snúist manni í hag að lokum ef maður er nógu þolinmóður? Þessi ævintýri snérust hvert og eitt um líf einnar persónu og enduðu með henni… Sagan um Jesú endaði ekki með dauða hans og upprisu… Fyrir okkur sem trúum á hann, byrjar sagan þar, þar sem upprisa hans er staðfesting á því fyrirheiti að við munum líka rísa upp.
Fyrri ritningarlestur
þessa dags er úr …. Jes (65.17-19
og hljóðar þannig: Sjá, ég skapa
nýjan himin og nýja jörð og hins fyrra verður ekki minnst framar og það skal
engum í hug koma.
Og í Rómv skrifar Páll…. Síðari ritningarlestur… Róm 8.18-25
Ég
lít svo á að þjáningar þessa tíma séu ekki neitt í samanburði við þá dýrð sem á
okkur mun opinberast....
Já, líkt og kona sem gleymir þrautunum um leið og barnið er fætt… þá taldi Páll postuli að allir þeir erfiðleikar sem við kunnum að lifa hér á jörðu verði eitthvað sem gleymist um leið og við fáum að líta dýrð Guðs í ríki hans… Kirkjuárið byrjar og endar á spádómum um komu Krists, á jólunum fögnum við fæðingarhátíð hans en í lok kirkjuársins beinir guðspjall dagsins úr Matteusi, augum okkar til fyrirheitsins um endurkomuna… en þar segir:
Guðspjall: Matt
25.31-46
Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og
allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir
munu safnast frammi fyrir honum og hann mun skilja þær að… eins og hirðir
skilur sauði frá höfrum.
Já, hann sagðist koma aftur… Vegna þessa fyrirheitis trúum við á Jesú… Ævintýrin í sögubókinni enda á síðustu blaðsíðu en við eigum að horfa til himins, því þar eigum við eftir að lifa ævintýrið okkar…
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem
var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen