Siðun og menning á grundvelli kristinnar trúar

Siðun og menning á grundvelli kristinnar trúar

fullname - andlitsmynd Stefán Einar Stefánsson
01. desember 2007
Flokkar

Biðjum bænar Hallgríms:

Ó, Jesús, það er játning mín, ég mun um síðir njóta þín, þegar þú, dýrðar Drottinn minn, dómstól í skýjum setur þinn.

Náð sé með oss og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Konungurinn kemur Í guðspjallstextanum sem lesinn var uppi við altarið áðan vitnar Matteus guðspjallamaður til spádóms sem varðveittur er í spádómsbók Sakaría. Öldum fyrir atburðina sem áttu sér stað er Jesús kom til Jerúsalem, ríðandi asna, hafði spámaður í sama landi greint frá því að sá konungur er þjóðin vænti og hafði um langan aldur þráð að eignast, kæmi með þeim sama hætti og Jesús gerði þennan gleðiríka dag. Þennan dag fagnaði fólkið, því óskir þess virtust ætla að rætast, konungurinn, hinn réttláti meistari, nálgaðist borgarmúrana og ekkert virtist koma í veg fyrir það að nú yrði breyting á stjórnarfari og stjórnarháttum ríkisins. Fólkið var þjakað af óréttlátum stjórnarherrum og eilífum væringum í landi sínu. Fólkið þráði stöðugleika, frið og réttlæti. Jesús var réttlátur, orðin hans hljómuðu með öðrum hætti en annarra samtímamanna hans og í þeim fann fólkið sannleika sem braut á bak aftur hið illa, það myrkur og það vonleysi sem löngum hefur fylgt mannlegu samfélagi. Jesús kom til þeirra, en krýning hans varð með öðrum hætti en þjóðina hafði grunað. Fyrr en varði hafði hún snúið baki við honum og í stað gullinsleginnar kórónu var Jesús leiddur upp á Golgata, krýndur þyrnikórónu, særður, hæddur og lægður. Hann hlaut ekki hásæti í höllu konungsins, þar var annar á fleti fyrir. Hann var negldur á kross, þannig krýndi fólkið sinn mann, þann er kom í nafni Drottins. Vegna þeirra myrkraverka er áttu sér stað á föstudaginn langa, brustu vonir og þrár, fylgismenn og fylgiskonur Jesú töldu sig svikin. Meistari þeirra hafði lotið í lægra haldi og Drottinn virtist svo víðsfjarri. En þá gerðist það sem öllu breytti, öllu snéri á hvolf, það er olli því að svipmót heimsins breyttist. Fyrstur allra hafði Jesús sigur yfir dauðanum og í þeim sigri var hann krýndur þeim sveig sem ekki er undirorpinn valdi og vilja veraldlegra herra, né heldur því valdi er allir konungar lúta, dauðanum sjálfum. Þar með var hann krýndur þeirri kórónu, herradómi er gerir tilkall til alls heimsins, allra manna og af þeim sökum sagði Jesús við lærisveina sína: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu, farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum.“ (Matteus 28.18-20.)

Koma Hans til Íslands Þetta boð meistarans var tekið alvarlega af þeim sem á hann hlýddu. Konur og menn hófu upp raust sína og deildu með öðrum því er þau höfðu fengið að kynnast af orðum og gjörðum Jesú frá Nasaret. Fleiri tóku trú og þrátt fyrir ofsóknir og ofbeldi í garð hinna kristnu, hélt kirkjan, söfnuður Guðs, velli. Svo kom að því, tæpum áttahundruð árum eftir dauða og upprisu Krists að svonefndir papar lentu kænum sínum við strendur Íslands. Írskir munkar litu þessa jörð, landið helguðu þeir Guði sínum og ætluðu það góðan stað til bænaiðkunar og einlífis. Þeir hopuðu reyndar, hvort sem það gerðist vegna veðurfars eða ágangs víkinga, en hinir síðarnefndu tóku sér bólfestu hér og hófu að yrkja landið. Meðal þeirra voru kristnir landnámsmenn, Auður djúpúðga, Örlygur gamli, Helgi bjóla og fleiri. Enn fleiri voru þeir þó sem aðhylltust hinn heiðna, forna norræna sið. En boð og skipun Jesú, er hann hafði látið lærisveinum sínum í té var enn í fullu gildi, og svo kom að því að Ísland varð áfangastaður þeirra er fylgdu boðum meistarans. Árangur þess kristniboðs var staðfestur er Alþingi tók þá veigamestu ákvöðrun sem sú stofnun hefur tekið fyrr og síðar, þá ákvörðun að hér skyldi kristin þjóð halda kristinn sið. Þá hófst innreið Jesú til Íslands, hún var reyndar með nokkuð öðrum hætti en sú í Jerúsalem, en markmið hennar var hið sama. Og allar götur síðan hefur kirkjan átt samleið með þjóðinni og saga hennar er saga þeirra beggja.

Munur siðunar og menningar Ekki er það ætlun mín í dag að rekja í smáatriðum þá samfylgd kirkju og þjóðar er speglast í sögu landsins og forfeðra okkar. Hitt langar mig heldur að gera að umtalsefni, þ.e. þær stoðir sem þjóðlífið, fullveldið og sjálfskilningur okkar byggir á og á allt sitt undir. Það gerði Gylfi Þ. Gíslason, prófessor og ráðherra einnig er hann veitti þjóðargersemum okkar, handritunum fornu, viðtöku árið 1971. Þar benti hann af djúpu innsæi á þá staðreynd að grundvöllur þjóðarinnar, og raunar allra þjóða, er fólginn í menningu hennar og siðun. Fljótt á litið mætti ætla að um sama hlutinn sé að ræða. En svo er þó ekki. Siðun læra þjóðir hver af annarri og sækja í smiðju hver annarrar og afsprengi siðunar er tækni og framþróun, verkaskipting og hagkvæmni. Um menninguna gegnir þó öðru máli og um eðli hennar segir Gylfi m.a.: „Menning er annars eðlis. Menningu lærir engin þjóð af annarri. Hún er ekki háð fjölmenni þjóðar eða stærð þjóðfélags. Menning þjóðar sprettur af innstu rót hennar sjálfrar og dafnar vegna þeirrar orku sem býr í gömlum jarðvegi hennar.“

Hlutdeild kristni og kirkju í mótun siðunar og menningar Óhætt er að taka undir þessi orð Gylfa. Þá vaknar aftur sú spurning hvar siðunin á sér grundvöll og hverjar uppsprettulindir menningarinnar eru. Víst er með það að framfarir okkar litlu þjóðar byggja hvorttveggja í senn á atorku fólksins í landinu og þeim tækniframförum sem rekja má til þeirra tæknibyltinga á Vesturlöndum sem átt hafa sér stað á umliðnum öldum. Þar fara kristnar þjóðir fremstar í flokki og hafa raunar gert allt frá lokum miðalda. Um það þarf ekki að fjölyrða. Menningin sem Gylfi segir spretta „af innstu rót“ þjóðarinnar sjálfrar er hins vegar flókið samspil hefða, hugvits og þeirra hugmynda er þjóðin hefur um sig sjálfa. Þar hefur kristindómurinn og kristin kirkja haft mikið að segja og íslensk þjóð væri í engu lík því sem hún er í dag, hefði Jesús ekki helgað sér landið og fólkið með á fyrstu öldum byggðar. Þá má í þessu sambandi nefna að íslensk tunga hefði að öllum líkindum ekki varðveist í sinni fögru mynd, hefðu stórhuga menn við biskupsstólana íslensku ekki unnið að útgáfu Biblíunnar og annarra guðsorðabóka á móðurmáli okkar. Af heilum huga hljótum við að þakka þeirra starf, þeirra hugsjón sem reynst hefur okkar dýrasti arfur. Skólahaldið á einnig rætur sínar að rekja til kirkjunnar. Skólar voru stofnsettir, jafnt í Skálholti sem og á Hólum og þangað sóttu ungir menn uppfræðslu og æðri menntun um aldir. Sú menntun gaf þeim útsýn er reyndist afskekktri og afskiptri þjóð betri en engin þegar ráðskast var með heill og hamingju hennar af erlendum valdsherrum.

Læsi á umhverfi menningar og siðunar Þennan arf og þessa menningu okkar verðum við að skilja og skynja. Að öðrum kosti þekkjum við ekki þá þætti í tilveru okkar sem gera okkur að íslendingum, gera okkur að sjálfstæðri þjóð sem með raun réttri getur haldið fullveldisdag sinn hátíðlegan. Ef við greinum ekki þær stoðir sögunnar sem tengja okkur Jesú Kristi og boðskap hans erum við í vonlausri stöðu; því sá sem ekki er læs á menningu þjóðar sinnar og sögu er í langt um verri stöðu en ferðalangur í framandi landi. Ferðalangurinn á sér heimahöfn en hinn ólæsi er líkastur skipi sem aldrei landi nær og þekkir ekkert hlé undan stormum heimsins. Um mikilvægi þessa læsis segir dr. Sigurbjörn Einarsson:

„Því er sá illa læs á letur íslenskrar sögu, sem skilur ekki kristið mál. Ennþá síður er unnt að skynja æðaslátt hins innsta lífs, undirsog dýpstu kennda sælu og sorgar, í lífi og dauða, ef maður er ónæmur á kristna hugsun, kristin áhrif, lífsmið, hugarmótun og eilífðarútsýn.“ (Um landið hér, 2001, s. 237).

Þarna talar maður sem þekkir íslenska þjóð og hefur lifað lengri sögu en flestir aðrir Íslendingar núlifandi. Í raun eru orð hans varnaðarorð og þau orð er tekið undir hér í dag. Þau fela í sér þá ósk að íslensk þjóð, íslensk æska haldi læsi sínu á sögu og menningu. Gerist það ekki er öllu því sem okkur er kærast stefnt í voða.

Einkennileg skilaboð menntamálaráðherra Því miður virðast sumir glámskyggnir gagnvart þessari staðreynd og telja boðskap kristinnar trúar eiga lítið skylt við upplýst fólk og uppfræðslu ungmenna samtíðarinnar. Fara þar fremst í flokki samtök er nefnast Siðmennt. Tala þau fyrir hugsjón guðlauss húmanisma, þeirri stefnu er telur trúnna á manninn hið dýrasta gildi tilverunnar. Í þeirri heimsmynd er ekkert rúm fyrir Jesú Krist og boðskapur hans þá oftast úthrópaður sem hindurvitni og tímaskekkja. Vilja þeir kristin viðhorf út úr skólakerfinu og hefur varaformaður samtakanna m.a. lýst því yfir að litlu jólin eigi ekkert erindi inn í grunnskóla landsins. Þar á víst að tala á almennum nótum um almennt siðgæði. En hvað er það? Þessi fámenni hópur hefur þó haft töluverð áhrif og hlotið mikinn hljómgrunn að undanförnu og svo bar við hinn þrettánda nóvember síðastliðinn að menntamálaráðuneytið kom þeim skilaboðum til skólastjóra og skólastjórna íslenskra grunnskóla að það bryti í bága við yfirlýst markmið grunnskólalaga og aðalnámskrá grunnskólanna að veita áttundu bekkingum leyfi til þess að sækja fermingarnámskeið á vegum kirkju sinnar á skólatíma. Foreldrar, skólastjórar og fulltrúar kirkjunnar hafa tjáð sig um bréf ráðuneytisins og hefur ráðherra lýst því yfir að um misskilning sé að ræða. Er það von mín að það reynist satt og rétt, að þær hugmyndir hljóti ekki hljómgrunn í sölum Alþingis sem hefja manninn upp og setja í hásæti Drottins, slíkar skoðanir og framgangur þeirra hefur aldrei boðað gott og ætíð valdið firringu í mannlegu samfélagi eins og öfgakennd saga 20. aldarinnar birtir okkur skýrt.. Á umliðnum árum hef ég notið þeirra forréttinda að leiðbeina börnum á fermingarnámskeiðum. Það hef ég m.a. gert í Skálholti. Í þessum ferðum eru krakkarnir leiddir um staðinn og þeim sagt frá hinum fornu menningarmiðstöðvum, biskupsstólunum og starfsemi þeirra sett í samhengi við þróun mála í sögu landsins. Einhverju sinni er hópurinn hlýddi á rektor Skálholtsskóla segja sögu staðarins leyfði ég mér að semja 20 spurningar upp úr þeirri frásögn og í lok ferðar stofnaði ég til spurningakeppni milli krakkanna með þessar spurningar að vopni. Svör komu við átján þeirra, tvær reyndust of þungar; þau mundu ekki nákvæmlega nafn biskupsins er tók við af Þorláki helga! Mér kæmi mjög á óvart ef ein einstök kennslustund innan veggja grunnskólans skilaði jafn miklum þekkingarauka og þessi ákveðni áðurnefndi fyrirlestur um sögu Skálholts. Þá fullyrðingu mína má ekki misskilja og með henni geri ég alls ekki lítið úr mikilvægi grunnskólans og þess starfs sem þar er unnið. Með þessu er ég aðeins að árétta þau miklu áhrif og það dýrmæti sem fólgið er í fermingarferðum áttundu bekkinga. Það er einlæg von mín að boðskapur menntamálaráðherra og embættismanna hennar verði í framtíðinni sá að hrófla ekki við því mikilvæga starfi sem kirkjan stendur að með fermingarfræðslu sinni. Sé kirkjunni gert erfitt fyrir í þeirri viðleitni að uppfræða þá einstaklinga sem kosið hafa að staðfesta skírnarheiti sín, er ekki aðeins vegið að trúnni, heldur einnig hlutverki ráðuneytisins.

Síðasti dagur kirkjuársins Í dag fögnum við fullveldi þjóðar okkar. Í dag fögnum við einnig hinsta degi kirkjuársins. Á morgun gengur aðventan í garð og jólin eru á næsta leyti. Nýtt kirkjuár hefst og kirkjan mun áfram halda sínu öfluga starfi. Það munu kennarar, starfsmenn og nemendur guðfræðideildar eins og annarra deilda Háskólans einnig gera. Megi almáttugur Guð gefa að það starf allt, beri ávöxt, þjóðinni allri og framtíð hennar til heilla. Innreið Jesú á sér stað í dag, rétt einsog fyrir 2000 árum í Jerúsalem. Sú innreið á sér birtingarmynd í framgangi og ávöxtun menningar og siðunar undir gunnfána hans sjálfs, þess er öllu ræður.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda.

Amen

Stefán Einar Stefánsson