Flutt 9. júlí 2017 · Selskógur á Egilsstöðum
Náð sé með yður og friður frá Guði, föður vorum, og Drottni Jesú Kristi.
Fyrir nokkrum árum birtist í Sunnudagsmogganum viðtal við konu á Akureyri sem er fædd í gömlu Júgóslavíu og hefur starfað í ferðageiranum í hartnær hálfa öld, þar af í áratugi hér á Íslandi. Í viðtalinu rifjaði hún upp fyrstu kynni sín af Íslendingum. Þá starfaði hún sem fararstjóri fyrir enskumælandi ferðamenn í heimalandi sínu og voru menntaskólanemar frá Akureyri fyrstu landar okkar sem hún kynntist. Þeir voru semsagt í útskriftarferð í gömlu Júgóslavíu. Í viðtalinu segir hún: „Það var heldur betur reynsla, ég hafði aldrei séð fólk drekka svona mikið! Einu sinni var hringt til mín og sagt að einn þeirra væri dauður í lyftunni. Ég sá fyrir mér að ég yrði að útvega kistu … og koma líkinu til Íslands. En þegar ég kom á staðinn var maðurinn alls ekki dauður, heldur dauðadrukkinn. Mér létti mjög!“
Að sjálfsögðu ganga utanlandsferðir Íslendinga misjafnlega fyrir sig og flestar bara ósköp vel. Samt mun óhætt að fullyrða að þetta hafi ekki verið síðasta útskriftarferð íslenskra menntskælinga þar sem áfengisneysla hefur farið úr böndunum. Og ekki þarf ungt fólk til. Frægt er að bjórinn í Leifsstöð og um borð í flugvélunum freistaði margra hér áður fyrr, og gerir e.t.v. enn. Frelsistilfinningin sem getur fylgt því að fara af landi brott, frá hversdagslegum skyldum og kunnuglegum andlitum, hún kann að losa um einhverjar hömlur. Líklega þekkjum við flest sögur af Íslendingum sem hafa orðið sjálfum sér eða löndum sínum til skammar erlendis, höfum orðið vitni að slíkum atvikum – eða jafnvel átt sök á þeim.
Ég hef sennilega sagt mörgum ykkar frá því að um tvítugt fékk ég að fara með hópi ungs fólks í eftirminnilega heimsókn á kristniboðsstöðvar Íslendinga í Eþíópíu. Ég segi sjaldnar frá atviki sem átti sér stað þegar við vorum búin að kynna okkur kristniboðið og hvíldum okkur örfáa daga á sólríkum ferðamannastað áður en leiðin lá aftur heim. Hópurinn fór saman út að borða en eitthvað virtist pöntunin hafa farið í handaskolunum á veitingastaðnum og þegar reikningurinn kom fannst okkur allt of mikið rukkað. Sennilega áttu tungumálaerfiðleikar og ólík menning sinn þátt í misskilningnum. Flestir vildu ekki gera neitt veður út af þessu, enda var maturinn hræódýr í íslenskum krónum talið, en ég reiddist þessu ógurlega, reifst og skammaðist í þjóninum sem mótmælti í örvæntingu, baðaði út höndunum og sótti eigandann – sem alls ekki vildi gefa sig. Úr þessu varð stórmál, en að lokum borguðu flestir sinn hlut, en ekki ég, og okkur var hleypt út. Þegar ég hafði loks jafnað mig sagði íslenski fararstjórinn mér varlega, en hann hafði verið við kristniboðsstörf í landinu um árabil, að það sem ekki væri greitt í svona tilfellum yrði dregið af launum þjónsins, sem ekki hafa nú verið há fyrir. Ég blóðroðnaði af skömm yfir að hafa gert aumingja manninum þennan grikk, en hafði þó ekki manndóm til að snúa aftur og gera upp.
Hvers vegna er ég nú að dvelja við þessar misgjörðir mínar og landa okkar erlendis?
Ef eitthvað eitt hefur einkennt samfélagsumræðuna undanfarnar vikur, einkum hér á landsbyggðinni, hlýtur það að vera þreyta okkar landsmanna gagnvart erlendum ferðamönnum og framkomu margra þeirra. Sjálfur tek ég fullan þátt í þeirri umræðu. Ég bý hér rétt hjá skóginum og er afar ósáttur við að sjá húsbílum og öðrum svefnvögnum lagt hér á bílastæðinu, að ekki sé minnst á ummerki í skóginum okkar um að ferðafólk gangi hér örna sinna. Steininn tók líklega úr í liðinni viku þegar bandarískir ferðamenn í Breiðdalnum gerðust sekir um alvarlegt athæfi gagnvart lambi og um leið auðvitað eiganda þess.
Ritningartextar dagsins minna okkur á hinn kristna boðskap: „Dæmdu ekki aðra, öðruvísi en að halda sjálf eða sjálfur uppi spegli – og líta fast í hann!“
Í guðspjallinu sem við heyrðum, fáum við að ganga inn í eina mögnuðustu frásögn Nýja testamentisins. Þar erum við stödd í miðjum hópi fólks sem hefur safnast saman dag nokkurn, skömmu eftir sólarupprás, til að hlusta á kennslu og boðskap Jesú. Skyndilega gengur mikið á. Við sjáum að þeir sem fara með andlegt vald í samfélaginu og vilja vera fyrirmyndir annarra á því sviði, teyma konu nokkra nauðuga viljuga fram fyrir Jesú. Um nóttina hefur konan verið gripin við það sem nefnt er hórdómur. Líklega hélt hún framhjá manni sínum, eða var með giftum manni, eða bauð blíðu sína fala upp úr neyð. Karlmaðurinn í dæminu þarf ekki að taka neinum afleiðingum af verknaðinum en sé lögmáli Gyðinga framfylgt á að grýta konuna til bana. Andlegu leiðtogarnir eru heiftúðugir en það hlakkar líka í þeim yfir því snjallræði að láta Jesú dæma í máli konunnar og koma honum þannig í klípu. Þeir vilja nýta ógæfu hennar sjálfum sér til framdráttar, gegn Jesú.
Við stöndum í mannfjöldanum og fylgjumst í ofvæni með. Við erum þegar komin með stein í hendi; erum tilbúin svo við missum ekki af að taka þátt í aftökunni. Hvað mun lærimeistarinn frá Nasaret segja um málið? Hann flýtir sér ekki að svara þó að lagt sé að honum. Hann situr á jörðinni, lýtur niður og krotar í sandinn. Síðan reisir hann sig upp og horfir fast í augu ákærendanna um leið og hann segir, lágt en ákveðið:
Sá ykkar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana.
Hann þarf ekki að segja meira. Þessi orð stinga, hæfa okkur í hjartastað. Við finnum hvernig lófarnir verða þvalir og við látum grjótið falla og hröðum okkur í burtu.
Það er merkilegt að sérfræðingarnir, sem hafa rannsakað hinar helgu bækur, segja að þessa frásögn sé ekki að finna í eldri handritum Jóhannesarguðspjalls, þrátt fyrir að hún sé án vafa eldforn, heldur hafi hún varðveist í munnlegri geymd áratugum saman áður en hún komst inn í helgiritasafnið. Með öðrum orðum: Þessi saga er svo róttæk og hefur svo sterkan brodd í boðskap sínum að þau sem vildu fylgja Jesú hvísluðu henni að hvert öðru í nokkrar kynslóðir áður en þau áræddu að skrásetja hana í sjálfum guðspjöllunum.
Dæmdu ekki aðra, öðruvísi en að halda sjálfur uppi spegli – og líta fast í hann!
Það þýðir ekki að kristið fólk samþykki hvaða hegðun sem er. Jesús er mjög skýr með það enda segir hann hórseku konunni að „syndga ekki framar“ (8.11). Og auðvitað samþykkjum við ekki að fólk noti rjóðrin í Selskógi sem salerni, hvað þá að það aflífi lamb í Breiðdalnum. Slíka hegðun þarf að stöðva. En boðskapur Jesú knýr okkur til þess að halda á sama tíma á lofti spegli, sem einstaklingar eða sem samfélag. Kannski sjáum við í þessum spegli dauðadrukkinn mann í lyftu í Júgóslavíu eða prestnema sem með reiði sinni lækkar launin hjá fátækum þjóni í Eþíópíu.
Við samþykkjum ekki það sem rangt er, en um leið gerir spegillinn okkur auðmjúk. Ef spegillinn segir satt, þá minnir hann okkur á að við þurfum á fyrirgefningu, gæsku og þolinmæði Guðs að halda. Sem betur fer er nóg til af henni fyrir okkur öll.
Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.