Nýja Ísland og aðventan

Nýja Ísland og aðventan

Jesús segir: Í dag hefur ræst þessi ritningargrein. Allt mun snúast til hins betra. Vegna trúar og kærleika. Aðeins með þjónustu lifirðu. Það virðist vera lögmál, a.m.k. regla: Þegar þú hættir að hugsa um eigin ávinning, lætur af persónulegum metnaði, en lætur önnur gildi ráð, þá ferðu að lifa almennilegu lífi.
fullname - andlitsmynd Hjálmar Jónsson
30. nóvember 2008
Flokkar

En Jesús sneri aftur til Galíleu fylltur krafti andans og fóru fregnir af honum um allt nágrennið. Hann kenndi í samkundum þeirra og lofuðu hann allir.

Jesús kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa. Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn þar sem ritað er:

Andi Drottins er yfir mér af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.

Síðan lukti Jesús aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. 21Hann tók þá að tala til þeirra: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“

Og allir lofuðu hann og undruðust þau hugnæmu orð sem fram gengu af munni hans og sögðu: „Er hann ekki sonur Jósefs?“ Lúk. 4:14–22

Jesús er á bernskuslóðum sínum, í Nazaret. Hann er búinn að fara víða á stuttum tíma, hann er orðinn frægur fyrir kraftaverk. Búinn að lækna son hundraðshöfðingjans í Kapernaum, gefa lömuðum manni fulla heilsu – og ekki síst hefur hann kallað litla stúlku aftur til lífsins, dóttur Jaírusar.

Nú er hann kominn í messu í gamla heimabænum sínum. Hann sem hafði farið um allt og gert kraftaverk, boðað nýtt ríki með nýjum og endurnýjuðum gildum, hann er kominn í guðsþjónustu og les 5 - 700 ára gamlan texta frá Jesaja spámanni. Oft var búið að þylja þennan texta í Nazaret, textann þar sem Jesaja spámaður segir: Drottinn hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn.

Svo lagði hann út af textanum og sagði að nú væri hann að rætast; nýir tímar væru runnir upp.

Það tengir hann við sérstakt „náðarár Drottins“. Skýringin á því er svolítið stærðfræðileg. Talan 7 er sérstaklega heilög tala – og 7 sinnum 7 margfalt heilagri. 7x7 eru 49. Þess vegna skyldi 50. árið vera sérstakt náðarár, jubil-ár. Það átti að vera náðar- og náðunarár. Ef einhver væri í kröggum þá skyldi hann njóta náðar, nágrannarnir skyldu koma honum til hjálpar, Ef áföll yrðu skyldu allir hjálpast að við að bæta tjónið.

Já, vel á minnst, á náðarárinu mátti ekki lána peninga og ekki taka vexti af fé. Enginn mátti nýta sér neyð náungans. Skuldafangelsi, yfirtökur, nauðasamningar, nauðungaruppboð, gjaldþrot. Ekkert af þessu skyldi gerast á náðarári Drottins.

Þess vegna hét það náðarár, þess vegna ár fagnaðar og friðar. En þegar Jesús er búinn að lesa textann þá er enginn sérstakur fögnuður meðal áheyrenda. Hann móðgaði áheyrendur af því að hann talaði vel um útlendinga og útskúfaða. Hann hélt bara ræðu, en læknaði engan, gerði engin kraftaverk.

Hvernig víkur þessu við í okkar ranni? Má ég kynna sérstakt náðarár af stóli dómkirkjunnar í dag? Við upphaf nýs kirkjuárs? Annað hefur verið fyrirferðarmeira í þjóðfélaginu heldur en náðin og fögnuðurinn.

Íslenski draumurinn og íslenski veruleikinn. Hvernig stendur þetta allt saman í dag? Á morgun er 1. desember. Sjálfstæði Íslands er 90 ára, fullvalda ríkið Ísland hefur þó enn ekki náð meðalaldri Íslendings.

Ef við myndum missa sjálfstæðið, yrðum kannski hluti af danska ríkinu aftur, hvað segði þá í sögubókunum um Ísland og Íslendinga í framtíðinni? Þar gæti e.t.v. að líta þessa setningu: „Íslendingar hafa verið undir stjórn Dana, nánast óslitið síðan á miðöldum“.

Við þurfum ekki að fyllast neinu ofdrambi um það að við höfum eitthvert ofurhlutverk á vettvangi þjóðanna. Hógværð er góð. Hroki, ofmetnaður og oflátungsháttur hefur leikið margan manninn illa. Dramb er falli næst.

En það er óþarfi að missa móðinn. Við erum hluti af ríki Guðs á jörð. Því ríki sem er reist á kærleikanum. Þar höfum við hlutverk, þar getum við svolitlu ráðið um það hvort árið er náðarár t.a.m. í lífi þeirra sem við höfum einhver áhrif á.

Jesús segir: Í dag hefur ræst þessi ritningargrein. Allt mun snúast til hins betra. Vegna trúar og kærleika. Aðeins með þjónustu lifirðu. Það virðist vera lögmál, a.m.k. regla: Þegar þú hættir að hugsa um eigin ávinning, lætur af persónulegum metnaði, en lætur önnur gildi ráð, þá ferðu að lifa almennilegu lífi.

Að ávaxta sitt pund, það var líking í munni Jesú Krists, sem við höfum kannski tekið of bókstaflega undanfarið. Einn varð hræddur um að tapa hæfileikum sínum, lét þá ekki koma í ljós, notaði þá ekki í lífinu. Þeir nýttust honum ekki – og engum. Mikilleiki fólks felst í þjónustunni.

Með lífsreynslu og þroska, sem við vonandi öflum okkur smám saman í þessu lífi, komumst við að raun um það að þessi þverstæða, um að finna lífið með því að týna því, er ekki annað en sjálfsagt mál. Það viðhorf er partur af almennri lífsvisku. Móðir eða faðir sem fær bauga undir augun ef oft þarf að vaka yfir litlu barni. Foreldri er ekki að hugsa um það, það gleymir sjálfu sér. Til þess er lifað og þannig líður tíminn okkar. Þar sem fjársjóður þinn er þar mun og hjarta þitt vera. Allt eru þetta almenn sannindi. Hver sem vill bjarga lífi sínu mun týna því, en hver sem týnir lífi sínu mín vegna og fagnaðarerindisins mun finna það.

Til hvers verjum við lífinu? Hvað er nógu mikilvægt til þess að nota dagana sína til? Hver er lífshugsjónin dýpst skoðað?

Er eitthvað meira virði en lifandi fólk? Fjölskyldan, fólkið sem þú umgengst í vinnunni, í tómstundastarfinu? Vissulega er hægt að hafa ýmis baráttumál og metnaðarmál. Það er hægt að hugsa í sífellu um það að eignast meira af einhverju, betra hús, innbú, bíl. Það er svosem alveg hægt að týna lífinu við það að vera upptekinn af þessu. En ég held enginn vilji í rauninni týna markmiði lífsins í því.

Boðskapur jólanna framundan, boðskapur kristninnar og kirkjunnar er tær, einfaldur og auðskilinn. Mennirnir skulu vera góðir en ekki vondir, tala vel og af sanngirni hver um annan og færa allt til betri vegar. Þeir skulu fylla hugann af góðsemi og ætla náunganum slíkt hið sama. Með því að taka þessum einfalda, gegnheila og sanna boðskap Drottins verður lífið betra og bjartara. Með því að opna hugann fyrir jólabirtunni sjáum við jafnframt hvert annað í réttara ljósi. Mennirnir eru samþegnar í heimi sem Guð hefur gefið en ekki andstæðingar í hörðum heimi. Kristur stofnaði nýtt ríki á jörð, annars eðlis en heimsríkin, en því er ætlað að hafa áhrif til góðs á ríki og ráðslag mannanna. Vald þess og umboð byggist á kærleikanum og ríki þetta, sem heitir einu nafni kristin kirkja er sameiginlegt öllum sem vilja tilheyra því og telja sig kristinnar trúar. Inntökuskilyrðin eru ekki flókin, skírn. Og í framhaldinu ræðst það af sjálfum þér hvað þú þiggur mikla blessun lífi þínu. Til þess að rækta sjálfan sig og láta gott af sér leiða þarf vilja.

Krafturinn á bak við heiminn er kærleikskraftur sem vinnur að heilbrigðu lífi, hamingju okkar og allra. Þannig er það besta sem þjóðfélagið er byggt upp með. Það er kærleikur Krists sem hefur verið lifandi með þjóðinni frá upphafi. Og hann svarar til sterkustu og dýpstu tilfinninganna í mannlegu félagi. Kristin trú segir að Guð sé eilífur kærleikur til dauðlegra manna. Í lífinu eigum við þess kost að gera hans markmið að okkar. Lifa trúna á hann, og afurð þess er hamingjusamara, fyllra og fegurra líf. Ávextir þess segir Nýja testamentið að séu: Góðvild, trúmennska, hógværð, hófsemi, gleði, friður og kærleikur. Með tileinkun þessa verður lífið betra í kringum okkur.

AMEN.