Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð.Hann var í upphafi hjá Guði.Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er.Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna.Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því.Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes.Hann kom til vitnisburðar, til að vitna um ljósið, svo að allir skyldu trúa fyrir hann.Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.
Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.Hann var í heiminum, og heimurinn var orðinn til fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki.Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum.En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans.Þeir eru ekki af blóði bornir, ekki að holds vild né manns vilja, heldur af Guði fæddir.
Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum. Jóh 1.1-14
Biðjum
Dimmt er í heimi hér, hættur er vegurinn, ljósið þitt lýsi mér, lifandi Jesú minn. Amen.
Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól.
Það er svart skammdegið, og kalt. Mér líkar það ekki. Við bíðum þess að birti. Við fögnum við sólhvörf og bíðum vorsins með óþreyju, birtunnar, lífsins.
Þegar að því kom að frumkirkjunni þótti mikilvægt að halda hátíð, til að minnast þess að Guð gerðist maður, þótti þeim einsýnt að gefa fornri sólhvarfahátíð Rómverja nýtt innihald. Fyrr var sólinni ósigrandi fagnað, nú skyldi honum fagnað sem er ljós heimsins, honum sem sigrar myrkrið, illskuna og dauðann.
Í upphafi var orðið. Þannig hefur Jóhannes guðspjall sitt. Í upphafi skapaði Guð... Og Guð sagði. Þannig hefst ritningin.
Það fer ekki milli mála hvert Jóhannes guðspjallamaður er að fara með þessari tengingu.
Orðið var hjá Guði. Orðið var Guð. Orðið varð hold. Í honum var líf og lífið er ljós mannanna.
Guð sagði: Verði ljós, og það varð ljós. Í ljósinu fæddist líf af því að Guð talaði orð sköpunarinnar..
Ljós og líf. Myrkur og dauði.
Myrkravöldin drepa, eyða lífi, spilla mannorði, sundra, skapa ófrið, ala af sér skeytingarleysi. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því.
Orðið sem varð hold, felur í sér líf og ljós, gerir myrkrið útlægt, skapar líf, sameinar, boðar frið, fæðir af sér umhyggju, fyrirgefningu, virðingu.
Og orðið varð hold, og hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika.
Við þurfum ekki að velkjast í vafa um hvaða boðskap Jóhannes guðspjallamaður er að flytja okkur. Guð sköpunarinnar, Guð ljóssins og lífsins, hann bjó með oss, settist að meðal manna til að birta dýrð Guðs.
Ljósið skín í myrkrinu. Myrkrið ógnar sköpuninni, ógnar manninum, ógnar mér, og þér.
Dimmt er í heimi hér, hættur er vegurinn, Ljósið þitt lýsi mér, lifandi Jesú minn.
Þannig kvað Hallgrímur. Þótt við lifum við velsæld og frið, sjáum við hvarvetna í þessum heimi myrkur ofbeldis, sem tortímir lífi, niðurlægir, sundrar. Við þörfnumst þessarar bænar vegna þess og vegna sjálfra okkar. Myrkrið leynist víða.
Borgin okkar er upplýst, heimili okkar eru upplýst. Ljósin gleðja, ljósin ylja, ljósin lífga.
En ljósið hefur einnig önnur áhrif. Ljósið afhjúpar. Ég veit að húsmæðurnar og húslegir karlar hér á kirkjubekkjunum þekkja viðbrögðin þegar sólin skín inn um gluggana okkar eftir margra daga dimmu og dumbung og afhjúpar rykið á húsgögnunum. Og við rjúkum upp með afþurrkunarklútinn. _ Ljósið afhjúpar það sem við viljum helst ekki að sjáist.
Hið sanna ljós sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.
Ljósið sem skín í myrkrinu, ljósið sem skín inn í myrkur hugskots míns afhjúpar það sem þar er hulið og engum er ætlað að sjá. Fyrir ljósi heimsins er ekkert hulið. Frammi fyrir því á ég tveggja kosta völ. Að flýja undan ljósinu inn í myrkrið og veslast þar upp. Eða horfast í augu við óhreinindin í hugarfylgsnunum og láta ljósið hjálpa mér að taka til og kveikja líf þar sem áður var myrkur og dauði. Hið sanna ljós getur það, hið skapandi orð Guðs, Jesús Kristur, getur það.
Hið sanna ljós sem upplýsir hvern mann.
Að upplýsa getur einnig merkt að veita þekkingu.
Við þekkjum hugtakið upplýsingaöld um það skeið mannkynssögunnar þegar þekkingu og vísindum fleygði fram. Sums staðar urðu menn svo drukknir af þekkingu sinni og vísindalegri hæfni að þeir töldu sig vera búna að skáka Guði og skákuðu honum út í horn eða hentu honum hreinlega út. Vitsmunahrokinn lifir enn góðu lífi, því miður. En þekkingin og vitsmunirnir eru Guðs gjöf sem ber að þiggja í auðmðýkt og þakka fyrir, því þekkingin leiðir í ljós marga leyndardóma sköpunar Guðs.
En upplýsingin á sér enn einn flöt:
Hið sanna ljós sem upplýsir hvern mann kom nú í heiminn, til að lýsa upp með speki Guðs sem geymir lögmál lífsins, sannleikann um Guð og sannleikann um manninn. Hið sanna ljós, Jesús Kristur, er speki Guðs holdi klædd og sú speki einkennist af náð og sannleika. Myrkravöldunum finnst sú speki heimska.
Hið sanna ljós sem upplýsir hvern mann.
Ég er ljós heimsins, hver sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.
Hver sem fylgir mér.
Lífsgangan er eins og óvissuferð. Stundum göngum við veg gleðinnar og velgengninnar, en fyrr en varir getum við gengið inn í myrkur þjáningar, vonleysis og dauða. Hver sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkrinu. Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér.
Ég hef lengi furðað mig á öðrum orðum Jesú er hann segir við fylgjendur sína: Þér eruð ljós heimsins. Þannig lýsi ljós yðar mönnunum...
Þetta vafðist lengi fyrir mér. Hvernig gat ég, sem varla týrði á verið ljós heimsins?
Þetta vafðist fyrir mér, þar til ég heyrði þetta skýrt út með líkingu. Við vitum að tunglið er kaldur og dimmur hnöttur. Samt lýsir hann í myrkrinu. Hann endurvarpar sólarljósinu. Jesús hvetur sína til þess að endurvarpa ljósi hans inn í myrkrið. Sú upplýsing er ekki háð ágæti okkar heldur birtunni sem við stöndum í. Og það er með okkur eins og tunglið, stundum er eitthvað sem skyggir á ljósið svo það daprast, stundum er eitthvað sem skyggir fullkomlega á ljósið. En ljósið er samt á sínum stað tilbúið að skína á okkur að nýju, svo við getum verið öðrum ljós.
Jólin eru til að minna okkur á ljósið sem kom í heiminn með lífið. Jólin eru til að minna okkur á að Guð tók sér bústað meðal okkar og kynnti sjálfan sig fyrir okkur. Með því að líta til Krists, með því að hlýða á Jesú Krist, höfum við verið upplýst um Guð.
Sú þekking getur aldrei verið hlutlaus vitneskja. Annað hvort er staðið í þessu ljósi, sem skapar líf og upplýsir um Guð og um manninn. Eða staðið er í myrkrinu án upplýsingar um Guð og manninn, í myrkrinu þar sem ekkert líf þrífst.
Jólin eru til að við getum glaðst yfir ljósinu sem kom og skín í myrkrinu til að lýsa okkur á lífsgöngunni og inn í ljósið eilífa þar sem myrkrið hefur verð gert útlægt og dauðinn brottrækur.
Guð gefi okkur að ganga í birtunni frá ljósi Guðs.
Sigurður Pálsson er sóknarprestur í Hallgrímskirkju. Flutt á jóladag 2004. Guðspjall: Jóh. 1. 1-14.