Helgistund frá Grensáskirkju 26.4.20: Góði hirðirinn
Náð sé með ykkur og friður frá Guði sem gefur okkur lífið og Jesú Kristi sem er góði hirðirinn okkar. Amen. Gleðilegan fyrsta sunnudag í sumri.
Á kirkjan.is finnum við ritningarlestra, sálma og bænir fyrir hvern helgidag ársins með því að smella á kirkjuklukkuna sem merkt er Kirkjuárið. Þar er líka að finna vers vikunnar. Fyrir vikuna sem hefst sunnudaginn 26. apríl, annan sunnudag eftir páska, eru orð Jesú úr tíunda kafla Jóhannesarguðspjalls gefin sem vers vikunnar:
Jesús segir: „Ég er góði hirðirinn. Mínir sauðir heyra raust mína og ég þekki þá og þeir fylgja mér. Ég gef þeim eilíft líf og þeir skulu aldrei að eilífu glatast.“ (Jóh 10.11a, 27-28a)
Góði hirðirinn. Hvað segir það þér? Við þekkjum líklega fæst fjárhirða úr raunveruleikanum en við sem ólumst upp í sveit höfum kannski einhverja mynd innra með okkur sem tengist íslenskum fjárbúskap. Ég veit ekki með ykkur en upp í huga minn koma tvær ólíkar myndir. Annars vegar lætin og vesenið í kring um fjárrag að hausti, göngur og réttir, jarm og hundgá, hróp og köll og allt á fullu og oft svo gaman. Hins vegar hljóðlát mynd af konu með fíngerðar hendur að draga lamb úr kind að vori, konu með næmni ljósmóðurinnar þegar einhver fyrirstaða er í burðinum. Tengd þeirri mynd er umhyggja bændanna sem gefa á garðann, væntumþykja hans og hennar sem þekkir hverja kind, jafnvel með nafni, og veit hvers hún þarfnast og sér um leið ef eitthvað bjátar á.
Þannig geta íslenskir fjárbændur líka verið mynd góða hirðisins, ekki bara þessir austrænu sem ganga á undan hjörðinni með stafinn sinn og kalla á vegvillt fé og verja það gegn rándýrum eyðimerkurinnar. Þá mynd þekkjum við mörg af Jesúmyndunum góðu og úr barnasöngvunum, Jesús með lamb á herðum sér, Jesús sem leitar uppi þau sem týnast.
Hjá Esekíel spámanni er þessi fallega lýsing á hirðishlutverki Guðs (Esk 34):
Því að svo segir Drottinn Guð: Nú ætla ég sjálfur að leita sauða minna og líta eftir þeim. Eins og hirðir lítur eftir hjörð sinni þegar hún er á dreif í kringum hann mun ég fylgjast með mínu fé. Ég mun bjarga sauðum mínum frá öllum þeim stöðum sem þeir dreifðust til á hinum dimma og drungalega degi. Ég mun halda þeim í haga... Ég mun sjálfur halda fé mínu til beitar og sjá því fyrir hvíldarstað, segir Drottinn Guð. Ég mun leita þess sem villist og sækja hið hrakta, binda um hið limlesta og styrkja hið veikburða. Ég mun gæta hins feita og þróttmikla og halda því í haga eins og rétt er. Þið eruð hjörð mín sem ég held í haga. Ég er Guð ykkar, segir Drottinn Guð.
Guð lítur eftir okkur, Guð fylgist með sínu fé eins og góðir bændur gera. Guð fylgist með þér, lítur eftir þér, líka á hinum dimma og drungalega degi þegar þér finnst þú vera heillum horfin. Guð heldur þér til haga, Guð sér þér fyrir hvíldarstað, þú sem ert hrakin og veikburða. Og Guð gætir líka þín sem er kröftug og sjálfri þér nóg, að því er virðist. Þú og þú og þú og við öll tilheyrum þessari hjörð sem góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir.
Umhyggja er aðalsmerki góða hirðisins sem þekkir okkur hvert og eitt með nafni, já jafnvel tölu háranna á höfðinu á okkur (Matt 10.30). Guð þekkir þig og gefur þér líf sitt, einn andardrátt í einu. Hlustaðu eftir rödd Guðs sem kallar þig, rödd Guðs sem hljómar ef til vill í einhverju sem þú mætir í dag eða einhverjum, rödd Guðs innra með þér þegar þú gefur þér tóm til að finna hvíldarstað Guðs í hjarta þér, þegar þú leyfir Guði að annast um þig. Og þá finnur þú að þú ert ekki ein, ert ekki einn, þú tilheyrir hjörð Guðs sem er ein, þú tilheyrir og þekkir og nýtur fylgdar Guðs. Megi svo verða í þínu lífi og mínu.
Friður Guðs
sem er æðri öllum skilningi varðveiti hjörtu okkar og hugsanir fyrir Jesú Krist
sem er góði hirðirinn okkar. Amen.
Guðspjall: Jóh 10.11-16
Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina.
Sá sem er leigður og hvorki er hirðir né á sauðina, hann flýr og yfirgefur
sauðina þegar hann sér úlfinn koma og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim.
Enda gætir hann sauðanna aðeins fyrir borgun og er ekkert annt um þá. Ég er
góði hirðirinn og þekki mína og mínir þekkja mig eins og faðirinn þekkir mig og
ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina. Ég á líka aðra
sauði sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu
heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.