Hið heilaga, trúin og hátíðin

Hið heilaga, trúin og hátíðin

Trúin lagar sig ekki að forskriftum eða játningum. Hún lagar sig að Jesúbarninu, að honum sem liggur í jötunni, þessu litlabarni heimsins. Sú þrá býr með okkur að verja málstað þess, að gera þennan heim betri, að gera okkar eigið líf betra, innihaldsríkara, auðugra að dýpt og merkingu.
fullname - andlitsmynd Gunnar Kristjánsson
25. desember 2011
Flokkar

Gunnar Kristjánsson, Reynivöllum: Prédikun í Brautarholtskirkju jóladag 2011, útvarpsmessa Náð sé með yður og friður.

I. Hið heilaga Eftirminnilegt atvik, sem Lúther og Katarína kona hans héldu til haga og rifjuðu upp á góðum stundum, gerðist á heimili þeirra í Wittenberg þegar drepsótt gekk yfir borgina. Meðal margra sem höfðu leitað skjóls og lækninga hjá þeim voru þrjár nunnur, langt að komnar.

Minningin varðveitti óvænta og ólýsanlega gleðistund þegar Katarína ól annað barn sitt í skugga þessara aðstæðna, dóttur sem hlaut nafnið Elísabet. Þegar hún leyfði nunnunum ungu að halda á barninu kom í ljós að þær höfðu aldrei séð nýfætt barn nema á myndum af jesúbarninu í Betlehem. Það barn var í þeirra augum eina litlabarn heimsins. Þegar þær héldu á barni í fyrsta sinn gagntók undrið þær, ný reynsla sem varð ekki lýst með orðum. Siðbótarmaðurinn festi sér þetta atvik í minni, þetta var heilög stund í minningu hans um skamma ævi dótturinnar, sem lést hálfu ári síðar. Ef til vill hefur enginn náð að túlka í mynd þessa orðlausu upplifun hins heilaga við jötuna betur en meistari Rembrandt. Á einni myndinni standa hirðarnir við jötuna. Ekkert annað kemst að í huga þeirra en jatan og sá óvænti gestur sem þar er. Óttinn sem greip þá þegar engillinn birtist þeim skyndilega er horfinn, nú læðist kyrrðin í spor hans og innri fögnuður.

Þetta er nóttin eftirminnilega sem sveipar sig um hirðana, þegar ljósið skín inn í heim þeirra. Hér er einn af hornsteinum biblíulegrar trúar: í myrkri nætur gerist kraftaverkið. Hinn huldi Guð nálgast manninn. Hann kemur ekki í birtu sólarinnar heldur í leyndardómsfullu húmi næturinnar, hér er ekki – eins og margir hafa löngum talið – hátíð hinnar ósigrandi sólar Rómverjanna, hér er annar trúarheimur: Hinn huldi Guð opinberar sig í reynslu mannsins, í myrkri næturinnar. Einnig í óeiginlegri merkingu: í lífi hinna fátæku hirða, í sögu hinna ungu foreldra í allsleysi þessa heims, í þjáningu mannsins, í sorg lífsins, hvarvetna er hann nálægur, ekki baðaður ljósi hinnar ósigrandi sólar heldur hulinn, þannig kemur hann inn í reynslu mannsins og snertir innstu vitund hans.

Myrkrið í grafíkmynd Rembrandts hörfar fyrir ljósinu, við sjáum móta fyrir móðurinni og barninu, ljósið skín ekki á þau heldur frá þeim og berst síðan til þeirra sem standa í kring, einnig til Jósefs, föðurins. Hér hefur tíminn numið staðar, hið eilífa nú hefur sigrað hinn líðandi, forgengilega tíma, hér er allt upp hafið til annarra gilda: hið lægsta og aumasta fær nýjan svip, nýtt inntak, handan jötunnar eru skepnurnar, einnig þær eru þátttakendur, sköpunarverkið allt er sveipað rökkri dulúðar og leyndardóms. Raunar er eins og þetta litlabarn heimsins sé ekki lengur barn heldur ljós sem flæðir til viðstaddra og skín svo úr augum þeirra. Þetta er mynd um hinn heilaga leyndardóm Guðs. Stjarnan er tákn þessarar trúar miklu heldur en sólin. Ljós heimsins kemur til mannsins í myrkrinu. Allt verður nýtt, allt verður fagurt, allt verður gott.

Rembrandt fylgdi viðhorfum kalvínistanna enda sjálfur sannfærður fylgjandi svissneska siðbótarmannsins Jóhannesar Kalvíns, sem sagði að menn skyldu ekki gera sér myndir af hinu guðlega, slíkt leiddi fyrr en varði út í skurðgoðadýrkun, málarinn ætti að láta sér nægja að fást við þann veruleika sem hann þekkti. Í hinu hversdagslega væri Guð einnig nærri. Þess vegna gerði meistarinn myndir af hinu hversdagslega, lítið barn minnti á jesúbarnið, fátækir bændur vísuðu til hirðanna, bóndakonan María og bóndinn Jósef til bændanna í hinu blauta Hollandi.

Skyldi meistarinn ekki hafa verið gripinn af hinu heilaga sjálfur, þannig hlýtur áhorfandinn að hugsa þegar hann horfir á myndir Rembrandts af hinni helgu nótt, fjölmargar, hann kemur frumlægri tilfinningu til skila af því að hann þekkti hana sjálfur. Fyrir honum er barnið komið úr eilífð Guðs, líkt og öll börn. Öll kalla þau til gleðinnar og seiða fram það besta sem býr í hverjum manni. Öll voru börnin í verkum meistarans eftirmyndir þessa litlabarns heimsins í Betlehem.

Það á við um söguhetju jólaleikrits Þjóðleikhússins, hinn sorglega skáldsnilling og jesúgerving Ólaf Kárason Ljósvíking, eina eftirminnilegustu persónu íslenska bókmennta, í eigin augum var hann „ljós heimsins“. Einnig hann er eftirmynd barnsins í Betlehem og upplifði návist þess líkt og hirðarnir á völlunum. Kannski tók hann söguna enn nær sér og varð einn og samur með henni. Í það minnsta þegar hugsunum hans er lýst á þessa leið: „... [Honum] stóð stuggur af litlum börnum og fanst hann sjálfur í raun réttri vera það eitt litlabarn heimsins sem nokkru máli skifti...“ (s. 246). Hann er líka jólabarn.

Textafræðingar hafa hins vegar frætt okkur á því að fæðing Jesúbarnsins hafi að öllum líkindum gerst að vori, hirðar áttu lítið erindi út í hagana að vetri. Og þar að auki sé talsverð óvissa um fæðingarárið. Loks sé með öllu óvíst að fæðingu Jesúbarnsins hafi borið að með þeim hætti sem Lúkas guðspjallamaður segir.

II. Trúin En hvernig sem fæðingu þessa litlabarns heimsins bar að og hvar, þá er eitt víst: Frásögn Lúkasar er eitt af meistaraverkum frásagnarlistarinnar. Því hefur verið haldið fram að frásögn hans sé þekktasta verk heimsbókmenntanna og bækur og ritverk um þessa litlu sögu eina myndu fylla mörg bókasöfn. Kannski gerðist þetta ekki svona, en endanlegur trúverðugleiki hennar ræðst í hjarta mannsins, opnar hún einhverjar dyr að mesta leyndardómi lífsins?

Sagan varðveitir frummyndir sem Lúkas þekkti af eigin raun. Þar er meginástæðan fyrir áhrifum þessarar frásagnar. Hér verður frásögn af reynslu manna til að vekja tilfinningu sem tekur manninn á sitt vald, tilfinningin fyrir hinu heilaga, það er hún sem vekur trú mannsins og um leið spurningar hans um eigin tilvist.

Það á einnig við um okkur sem lesum og heyrum söguna á þessum jólum þótt hún fjalli ekki um okkar reynslu heldur fólks fyrir tvö þúsund árum. Við speglum okkur þar sjálf eins og menn hafa gert á öllum tímum, í frumtáknum sem sagan býr yfir sem eru meðal annars: fæðingin, barnið, ljósið, nóttin, jatan, lotningin. Hér er samspil frumtákna sem tala skýru máli til mannlegra tilfinninga og mannlegrar reynslu, þar eru engin landamæri, hvorki í tíma né rúmi.

Um leið og frásagan kallar okkur til hins upprunalega í mennsku okkar vekur hún nýjar skapandi hugsanir og nýjar spurningar, og þar víkur spurningin um sannleiksgildi frásagnarinnar fyrir spurningum um okkur sjálf: hver er ég? Vitund mannsins um hið heilaga setur trúna á dagskrá nú sem fyrr, trúna sem er tæki mannsins til að fást við dýpstu spurningarnar sem bærast innra með honum.

Eins og endranær finnum við slíka glímu í daglegu lífi mannsins, í bókmenntum og listum líðandi stundar. Í því efni hefur ekkert breyst nema ef vera skyldi sjónarhornið. Það á við um nýja skáldsögu um jesúgervinginn eftir Martin Walser, einn þekktasta höfund þýska bókmenntaheimsins, þetta er skáldsaga um litríka sögupersónu, Anton Percy að nafni, þrítugan sjúkraliða á geðsjúkrahúsi við Bodenvatnið. Sagan ber það frumlega heiti „Móðursonurinn“. Percy er sonur Jósefínu sem segist hafa átt hann án aðkomu karlmanns og því trúir sonur hennar. Þá vitum við hvert skáldið stefnir.

Þýskir bókmenntagagnrýnendur, sem eru þekktir fyrir flest annað en að fara silkihönskum um nýjar bækur, hafa lokið lofsorði á söguna, kallað hana meistaraverk, og rakið þar margt til lífsferils höfundarins og sagt að við skyggnumst hér inn í vinnustofu þessa grand old man þýska bókmenntaheimsins.

Skáldsöguna mætti lesa sem frumlega hugleiðingu um trúna í lífi fólks á líðandi stund, hér er skáldið orðið að skapandi guðfræðingi sem hugsar út frá eigin brjósti um sígilda hluti. Trúnni er lýst sem eiginleika sem búi með manninum til að fást við innri kröfu, sem lætur hann aldrei í friði, þar sem spurt er um tilgang, um djúpa merkingu lífsins. Hann kannast við að honum nægir ekki uppfylling á þörfum neytandans því að honum er ljóst að það er borið uppi af miklu sterkari þörf, sem er þrá hans til að lifa innihaldsríku lífi.

Trúin snýr að þeirri þörf, hún á sér rætur í manninum sjálfum. Hún snýst ekki um trúarinnihald eða trúarkenningar heldur um dýpri, þýðingarmeiri og einstaklingsbundnari þætti í tilvist mannsins, raunar tilvist hans alla, merkingu hennar og túlkun, inntak þess að vera manneskja. Hér er tilvist mannsins öll undirlögð, trúin horfir á manninn í heild, hún er afgerandi afstaða til eigin tilvistar, mótar hana og skilgreinir hana. Þekkingin dugar manninum skammt í þessari leit, það er skoðun höfundar. Glíma við gildi þekkingarinnar í tilvist mannsins er svo sannarlega á dagskrá í bókinni. Þar segir að margir virðist aðeins geta lifað í heimi þar sem allt er eins og reikningsdæmi þar sem allt gengur upp, en raunveruleikinn sé afturámóti sá að lífið líkist miklu frekar reikningsdæmi sem gangi ekki upp. Hvernig fær trúin svo þrifist í heimi sem er ofurupptekinn af upplýsingum og þekkingu? „Þekkinguna“, segir Percy jesúgervingur, „þiggjum við ávallt frá öðrum. Við getum vísað á þann stað þar sem við fengum hana. Sá sem trúir getur aðeins vísað á sjálfan sig.“ Með öðrum orðum er trúin sá vettvangur í mannlegri tilvist þar sem fengist er við það sem skiptir manninn mestu máli, því að þar fer skilgreining mannsins á eigin tilvist fram og mótun lífs hans. Þarna slær höfundur vissulega á gamla strengi. Skáld og listamenn frumrómantísku stefnunnar, á hinum björtu tímum í upphafi nítjándu aldar, óttuðust hið mikla ljós þekkingarinnar, ekki vegna þess að þeir óttuðust þekkinguna heldur vegna þess að þeir töldu að maðurinn kynni að missa hæfileika sinn til að skynja hið leyndardómsfulla við lífið sjálft, hann kynni að verða ofbirtu þekkingarinnar að bráð og hún kynni að blinda hann fyrir því sem er og verður leyndardómur í veröld mannsins, það er veruleiki Guðs.

Martin Walser lítur á trúna sem meðfæddan eiginleika til þess að finna lífi sínu merkingu, eiginleiki sem er borinn saman við tónlistina á þessa leið þegar Feinlein yfirlæknir lætur hugann reika: “Tónlist væri ekki til ef hún væri ekki búin til. Trúðu því sem ekki er til svo að það verði... Trú og vantrú – heldur hann áfram – eru ekki andstæður heldur ferli, hreyfing, sem má ekki stöðvast. Sú óstöðvandi togstreita milli þess að vilja trúa og þess að geta ekki trúað er á valdi og ábyrgð þess sem á þar hlut að máli.“ Þannig linnir ekki hugleiðingum um trúna í skáldsögunni um jesúgervinginn Anton Percy.

Með öðrum orðum: þekkingin og trúin snerta hvort sitt svið í tilvist mannsins, þekkingin er góð þótt maðurinn hafi ekki alltaf borið gæfu til að beita henni af skynsemi. En þekkingin er ekki allt. Þar getum við valið og hafnað. Trúin er hið innsta í tilvist mannsins, þar sem upplýst samviska hans á rætur, vitund hans um mannúð og mennsku, sannfæring hans um rétt og rangt og um merkingu eigin lífs. Þangað sækir hann hugrekki til að fóta sig í heimi þar sem fæst gengur upp.

III. Hátíðin

Jólin svara spurningunni um trúna á sinn hátt, þar snýst hvaðeina um tákn og sögur sem vísa ekki aðeins til trúar almennt heldur til málstaðar Jesú. Hann miðlaði boðskap sínum í svipmyndum og dæmsögum og oftar en ekki beindist ræða hans að ríki Guðs. Þar er kjarni málsins í málefni Jesú, Guðs ríki. En hvað er það? Hvernig lítur það út? Jesús svaraði slíkum spurningum ávallt með myndum og svipmyndum úr daglegu lífi. Og með sinni eigin sögu sýndi hann hvernig mennska mannsins lítur út og þá um leið hvernig ríki Guðs kemur til mannsins.

Allar þessar svipmyndir, frásagnir og dæmisögur eru undirstaða kristinnar trúarmenningar, hvar í heiminum sem hún hefur fest rætur og þróast. Við þekkjum þessar sögur, þar eru persónur og leikendur sem gera málstað Jesú nánast áþreifanlegan. Hlutverk þeirra allra er þetta: Guð kemur til heimsins með margvíslegum hætti, ekki yfirnáttúrlegum í hefðbundnum skilningi heldur í reynslu mannsins, í mannlegum samskiptum, í sögum. Þannig verður Guðs ríki að veruleika.

Hátíð er ávallt einnig leikur, hún kallar á sviðsetningu, mikinn undirbúning. Á trúarhátíðinni snýst málið um hlutverk okkar sem manneskjur. Þegar hátíðin gengur í garð leggjum við flest af þau hversdagslegu hlutverk sem við leikum og skilgreinum okkur oftast út frá. Í daglega lífinu erum við feður eða mæður, afar eða ömmur, nemendur og neytendur, blaðamenn og bílstjórar, kokkar og kirkjuverðir. Á hátíðinni fáum við nýtt hlutverk, þá leikum við öll sama hlutverk, þá erum við einfaldlega manneskjur. Hvernig sem það gengur fyrir sig í einstökum tilvikum þá leggjum við af leikbúninga hversdagsins og förum í hátíðarbúninginn. En til hvers?

Hátíðin er hafin yfir líðandi stund, há-tíð er helguð hinu eilífa núi: tími Guðs líður ekki, hans tími er okkar tími þegar við leikum hið nýja hlutverk. Í sviðsetningu hátíðarinnar búum við um okkur skamma stund í nýjum og framandi heimi, en samt heimi sem við finnum okkur í og eigum heima í, í heimi Guðs, við erum að búa til sviðsmynd af ríki Guðs.

Við erum þátttakendur, við viljum taka þátt í leiknum líkt og hirðarnir, englarnir, vitringarnir, María, Jósef og jesúbarnið. Við gefum sögunni líf og hún gefur okkur líf. Í leiknum kemur Guðs ríki einnig til okkar, eitt dýrmætt andartak finnum við návist hins heilaga líkt og hirðarnir. Allur ótti og kvíði hörfa en friður og gleði koma í staðinn, eins og hjá hirðunum. Við upplifum einnig hið heilaga.

Hversu margir hafa ekki leikið hirðana og vitringana í huga sínum, ýmist tómhentir eða með dýrar gjafir: Dostojewsky með Myskin fursta, Martin Walser með Anton Percy, Nóbelsskáldið okkar með Ljósvíkinginn Ólaf Kárson, Rafael og Rembrandt með madonnur og meistarverk, Bach með óratoríur, passíur, og kantötur, við sjálf, hikandi og tortryggin, en samt tilbúin á einhverjum forsendum, hvert með sínum hætti.

Trúin lagar sig ekki að forskriftum eða játningum. Hún lagar sig að Jesúbarninu, að honum sem liggur í jötunni, þessu litlabarni heimsins. Sú þrá býr með okkur að verja málstað þess, að gera þennan heim betri, að gera okkar eigið líf betra, innihaldsríkara, auðugra að dýpt og merkingu.

Táknið sem blasir við um málstað Jesú á þessari hátíð er miklu heldur stjarnan en sólin, stjarnan skín í myrkri næturinnar og gefur manninum nýjan kraft til að lifa, nýtt hugrekki til að trúa, nýja löngun til að vera manneskja þótt á móti blási. Þetta er nóttin helga, nótt hins hulda Guðs sem er samt aldrei fjarri. Þess vegna rennur hátíðin upp aftur og aftur, á hverju ári, hún er gefandi og stillir hug okkar og hjarta að nýju inn á bylgjulengd þeirrar mennsku sem við sjáum í sögum Jesú, í sögu hans sjálfs, í sögum þeirra sem hafa varið málstað hans með öllu sem þeir áttu.

Návist hins heilaga, sem gefur lífi okkar og starfi, sögu okkar og samskiptum við aðra, við menn og skepnur, við landið, fjöllin, við birtu dagsins, nýja dýpt, nýja merkingu, dýpri tilgang. Þetta er hið trúarlega í lífi okkar, þetta er trúin í lífi okkar.

Er það ekki hún sem ber okkur áfram frá degi til dags með nýrri von fyrir hverjum degi, með nýju hugrekki til að lifa, með nýrri löngun til að láta gott af okkur leiða?

Amen.