Textar: Jesaja 2:11-17 og Lúkasarguðspjall 18:9-14.
Komið þið sæl og blessuð og takk fyrir að taka svona vel á móti mér! Ég hlakka mikið til að þjóna sem einn af prestum ykkar hér í Glerárkirkju og til að vinna með ykkur að því góða safnaðarstarfi sem Lögmannshlíðarsókn stendur fyrir. Kristur hefur verið kallað okkur til þess að vera vitnisburður og farvegur fyrir blessun og kærleika Guðs. Ég hlakka til samstarfsins við ykkur öll og ég er þakklátur fyrir að fá að þjóna með ykkur í sókninni. Við fjölskyldan stöndum þessa dagana í flutningum á milli landa og landshluta og þá koma ýmisir veikleikar í ljós, í mínu tifelli varð ljóst hve áttavilltur ég er. En þegar við fjölskyldan fluttum til Bandaríkjanna síðastliðið sumar og ég glataði öllum hefðbundnum kennileitum tapaði ég áttum, norður, suður, vestur og austur glöðuði þeirri litlu merkingu sem þau höfðu áður haft. Mig langar því að hefja þessi kynni okkar hér í dag með örlítilli játningu, en þannig er að áttirnar eru ekki mín sterka hlið og án kennileita veit ég ekki hvað snýr upp eða niður. Vissulega veit ég að ég er á norðurlandi, en í hvaða átt ég sný eða stefni veit ég sjaldnast. Fyrir mér eru áttirnar ekki norður, suður, austur og vestur, heldur þangað, til hægri eða til vinstri. Í Bandaríkjunum kom reglulega fyrir að ratvísi mín, eða réttara sagt algjör skortur minn á henni, breytti áætlunum fjölskyldunnar til þess verra. Kvöldmatur á góðum veitingastað gat hvenær sem er orðið að kvöldmat seint um kvöld á McDonalds eða Burger King. Þannig að ef þið heyrið af presti sem hefur villst af leið og leitar að Menntaskólanum á Akureyri á Dalvík þá megið þið koma að sækja mig. Ég er þó ekki einn um þetta, ég las í vefriti að hátt í helmingur mannkyns ætti við það vandamál að stríða að rata ekki alltaf rétta veginn. Eins og kona ein sem var á leið frá Frakklandi til Pakistan með Air France. Hún steig um borð í flugvél snemma morguns í París, en að kveldi var hún enn þá í París, en þar vaknaði hún út hvíld eftir að hafa sofið af sér lendingu og flugtak í Pakistan. Eða maðurinn sem langaði til höfuðborgar Bandaríkjanna, Washington D.C. og keypti sér flugmiða til Seattle í Washingtonfylki á vesturströnd Bandaríkjanna. Okkur mannfólkinu reynist auðvelt að villast af leið á ferðum okkar um haf og lönd. Við beygjum af réttri leið og missum sjónar af kennileitunum sem áttu að leiða okkur rétta leið. Við heyrum reglulega sögur af ferðafólki sem villist af leið á hálendi Íslands í slæmum veðrum og lélegu skyggni. Skip og flugvélar hafa beygt af réttri leið með hrikalegum afleiðingum. Það er auðvelt að beygja af réttri leið og líklega höfum við mörg beygt af réttri leið á lífsgöngunni og misst sjónar af gildum okkar eða markmiðum og þannig leitt okkur sjálf eða jafnvel aðra í ógöngur með misalvarlegum afleiðinugum.
Þjóðverjinn Albert Speer, var á sínum tíma einn efnilegasti arkítekt Þýskalands. Hann lauk námi sínu í arkitektúr á krepputímum og ekki úr mörgum starfstækfærum að velja. En yfirvöld komu auga á hæfileika hans og vildu nýta sér þá fyrir hræðilegan málstað sinn. Leiðtogar nassista heilluðust af hæfileikum hins efnilega Albert Speers var Adolf Hitler og Speer varð arkitekt Hitlers og síðar ráðherra í ríkisstjórn hans. En hvernig fékkst maður eins og Albert Speer til þess að fylgja nassistum að málum? Hann sem langaði aðeins að hanna mikilfenglegar og fallegar byggingar? En hann lét blekkjast, villtist af leið og fórnaði öllu í von um skjótan frama. Hitler freistaði hans og veitti honum tækifæri til þess að hanna glæsilegar byggingar sem áttu að standa því sem næst að eilífu. Þegar stríðið skall á lagði Speer hönnun glæsilegra bygginga á hilluna og skipulagði byggingarframkvæmdir í þágu stríðsreksturssins. Hann er m.a. takinn hafa hannað hina hræðilegu gasklefa. Albert Speer hafði meiri hæfileika en flestir, en hann beygði af leið og valdi rangt. Hann kaus að þjóna illskunni, hann kaus að treysta á auð og völd. Albert Speer valdi að vera farvegur illskunnar fremur en farvegur blessunar og kærleika Guðs. Í hroka sínum villtist hann af leið og missti sjónar af tilgangi lífs síns og fall hans var mikið. Hans verður ekki minnst fyrir stórfenglegar byggingar, heldur aðeins sem arkítekt Hitlers.
Lestrarnir úr Biblíunni sem voru lesnir hér frá altarinu áðan fjalla á einn eða annan hátt um fólk sem hafði beygt af leið og orðið drambsemi og hroka að bráð. Í lestri okkar úr Gamla Testamentinu flytur Jesaja, fólki sem hafði villst af leið, þungbærar fréttir frá Guði um yfirvofandi hrun. Fólkið sem Jesaja ávarpar eru Guðs útvöldu, Ísraelsþjóð og hann boðar þeim að „…hroki mannanna verði beygður og dramb þeirra lægt.“ (Jes. 2.17). Ísrael, Guðs útvalda þjóð gegndi sérstöku hlutverki í heiminum, köllun hennar var að vera farvegur fyrir blessun Guðs í heiminum. En Ísrael hafði beygt af leið og misst sjónar af hlutverki sínu. Í stað þess að vera öðrum þjóðum ljós, í stað þess að vera farvegur blessunar Guðs hafði Ísrael orðið eins og aðrar þjóðir, sem lögðu traust sitt alfarið á auð, völd og sjálfa sig, en alls ekki á Guð. Fólkið sem átti að vera öðrum til blessunar hafði brugðist þeim vonum sem bundnar voru við það og lagt traust sitt á það sem ekki getur staðist og í Orðskviðum Biblíunnar erum við minnt á að:
„Dramb er falli næst, hroki veit á hrun.“
Í guðspjallstexta dagsins lesum við um tvo menn, farísea og tollheimtumann. Sá fyrri er á beinu brautinni, hann hefur að því er virðist ekki villst af leið eða misst sjónar af markmiðum lífs síns. Hann vissi að hann átti að treysta Guði og hlýða boðum hans. Tollheimtumaðurinn hafði beygt af, hann var engan veginn á beinu brautinni og líf hans hafði algjörlega misst marks. Á tímum Jesú voru farísear fyrirmynd í trúrækni og trúarlífi. Tollheimtumenn voru fyrirlitnir, því þeir höfðu svikið þjóð sína og gengið í lið með kúgunarafli Rómverja, þeir voru álitnir fégráðugir og miskunnarlausir. Þeir voru taldir hafa svikið Guð sinn, þjóð sína og brugðist öllum þeim vonum sem bundnar voru við þá. Engu að síður segir Jesús að tollheimtumaðurinn fari heim sáttur við Guð, en ekki faríseinn.
Og hvers vegna? Hvað með trúrækni og hlýðni faríseans við boðorð Guðs? Hvað hafði tollheimtumaðurinn gert annað en að svíkja og pretta þjóð sína? Var ekki faríseinn langt um Var það ekki faríseinn sem gerði það sem var rétt í augum Guðs, eða hvað? Vissulega fylgir hann reglunum og gott betur, en hann er hrokafullur og dramblátur gangvart samferðafólki sínu sem hafði beygt af viljandi eða óviljandi:
„Guð ég þakka þér fyrir að ég er ekki eins og aðrir menn ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður.“
Dómurinn sem Jesaja spámaður flutti fólkinu byggði ekki bara á trausti þess á auð og völd heldur á afstöðu þess til náunga síns og Guðs. Fólkið hafði orðið hrokafullt og dramblátt í ásókn sinni eftir meiri auð, meiri völd og meiri mátt. Það treysti ekki Guði og það skeytti engu um náunga sinn. Faríseinn með viðhorfi sínu til tollheimtumannsins og með fullvissu sinni um að hann sé miklu betri en aðrir beygir af leið, því „...dramb er falli næst, hroki veit á hrun.“
Finnur þú sjálfa/n þig í dæmusögu Jesú? Hver ertu þar? Ertu þú farísei eða tollheimtumaður?
Faríseinn í dæmisögu Jesús er tollheimtumanninum fremri á flestum sviðum, engu að síður fer tollheimtumaðurinn heim sáttur við Guð. Tollheimtumaðurinn veit að hann er dramblátur, hann þekkir hroka sinn og hann veit hve mikið traust hann leggur á auð og völd. Það er einmitt þess vegna sem hann biður í einlægni:
„Guð, vertu mér syndugum líknsamur!“
Þessi bæn ber vitni um manneskju sem þekkir þörf sína. Hann veit hann er háður Guði og þarf á blessun hans og kærleika að halda. Bæn faríseans ber vitni um þann sem ekkert skortir. Guð getur ekkert gefið honum og að reyna það væri að bera í bakkafullan lækinn. Í bæn sinni lýsir hann því yfir að hann sé sjálfum sér nógur og þarf ekki á Guði að halda. Hann viðurkennir ekki þörf sína og fyrirlítur þörf tollheimtumannsins. Faríseinn og tollheimtumaðurinn höfðu báðir beygt af leið, tollheimtumaðurinn með lífsstarfi sínu og faríseinn með afstöðu sinni til náungans og Guðs.
Hversu oft erum við í hlutverki faríseans? Höfum við beygt af leið og litið á samferðafólk okkar af fyrirlitningu. Getur verið að við séum dramblát og hrokafull? Eigum við jafnvel á hættu að villast svo af leið að við skeytum engu um náunga okkar í viðleitni okkar til þess að öðlast frægð og eða frama? Þessi stutta dæmisaga Jesú úr Lúkasarguðspjalli og dómsorðin úr Jesaja sýna okkur að þegar öllu er á botninn hvolft sitjum við öll við sama borð og þörfnumst Guðs, bæði farísear og tollheimtumenn. Við þörfnumst blessunar Guðs inn í líf okkar og þeirrar lífsfyllingar sem Guð getur veitt.
Í Jesú Kristi uppfyllir Guð þörf okkar. Jesús kemur til þess að vera öllum líknsamur, bæði faríseum og tollheimtumönnum. Vegna Jesú Krists megum við snúa heim á réttri leið, sátt við Guð og menn. Kristur kallar okkur til þess að vera farvegur fyrir blessun og kærleika Guðs í heiminum í dag. Minnumst þess þegar við göngum í hlutverk faríseans og teljum okkur betri en alla aðra. Minnumst þess einnig þegar við göngum í hlutverk tollheimtumannsins og leggjum allt traust okkar á auð og völd. Við skulum minnast þess þegar við heyrum kallið og fylgjum frelsaranum Jesú einlægni.