Gleðilega hátíð.
Nú færa fagnandi hjörtu þakkargjörðina dýrð í hæstum hæðum. Um það vitnar fallegur söngurinn hér í kirkjunni okkar, lofgjörð sem göfgar og yljar. Mikil menning er það og upplyfting fyrir samfélagið okkar að eiga góðan kór í kirkjunni og njóta starfskrafta frábærs organista eins og við gerum. Kirkjukórinn er svo dýrmætt félag í byggðarlaginu okkar og ekki tjaldað til einnar nætur, heldur skapandi starf sem staðið hefur árum saman, þjónað við kirkjuna af trúfesti og við biðjum að haldi áfram ár eftir ár. Og þar ríkir listrænn metnaður hjá fólki sem leggur sig fram um að gera vel með þrotlausum æfingum. Þau eru mörg sem sagt hafa við mig eftir athafnir hér í kirkjunni hve kórinn syngur lista vel.
En tónlistarlífið í kirkjunni er ekki sjálfgefið, hvorki fagur kórsöngur eða listræn stjórnun. Það verður af því að fólk er reiðubúið til að leggja mikið að mörkum í sjálfboðnum störfum og með aðild heimafólks að Þjóðkirkjunni sem gerir sóknarnefndinni kleift að hafa organista í föstu starfi við kirkjuna. Það gildir um allt starf kirkjunnar því sóknargjöldin renna til kirkjunnar í heimabyggð. Það munar því um hvern einsta mann. Þetta finnum við vel sem störfum í kirkjunni og sóknarnefndarfólkið í þjónandi sjálfboðastarfi sem ber hita og þunga af umhirðu og rekstri kirkjunnar. Fyrir allt þetta vil ég þakka, þakka fyrir hönd safnaðarins öll hin fórnfúsu störf sem í kirkjunni okkar eru unnin. Þar er vel að verki staðið.
Ég vil einnig þakka sóknarbörnum mínum fyrir trúfesti við kirkjuna á erfiðum tímum þegar hún stóð andspænis skefjalausri gagnrýni og stöðugri hvatningu í fjölmiðlum um að fólk segði sig úr Þjóðkirkjunni sem myndi fyrst og fremst bitna á starfi kirkjunnar í heimabyggð. Á aðventu og jólum finnum við sérstaklega hve kirkjan er þjóðlífinu dýrmæt og alltaf er gengið útfrá að kirkjan sé til þjónustu reiðubúin þar sem allir eru hjartanlega velkomnir.
Á helgri jólahátíð verður okkur svo ljóst hve mikið við eigum og þá vaknar löngun til að þakka. Barnið í jötunni, frelsari fæddur, er óverðskulduð gjöf. Guð er stöðugt að biðja manninn um að þiggja gjafir sínar, en oft fyrir daufum eyrum. Sígjörn græðgin í þjóðlífinu blindar augun á margt hið góða sem er framborið og heftir hugsun til að njóta og þakka. Nóg er framboðið af neikvæðri gagnrýni og háværum kröfum, en oft fer minna fyrir þakklæti. Stundum er sagt að enginn veit hvað átt hefur, fyrr en misst hefur.
Nýlega var viðtal í sjónvarpinu við lamaðan ungan mann í hjólastól sem dúxaði á stúdentsprófi í Fjölbruatarskólanum á Selfossi. Hann hlaut hæstu einkunnir við skólann. Þar geislaði lífsgleðin og vonin. Ekki reiði og gremja yfir óverðskulduðu og fjötruðu hlutskipti sínu að vera upp á aðra kominn um allar sínar grunnþarfir, heldur vongleði þrátt fyrir aðstæður sem mannsins máttur getur ekki breytt, en býr yfir frelsi og þreki sem nýtt er til frumkvæðis og skapandi mennta. Það kostar mikla baráttu, en skilar árangri. Hversu mikið megum við þakka sem njótum góðrar heilsu, höfum til hnífs og skeiðar og bjóðast svo mörg tækifærin. Og hvernig nýtir hin heilbrigða og skapandi æska nútímans tækifærin öll sem henni bjóðast?
Óvíða í heiminum eru haldin jafn glæsileg jól eins og á Íslandi ef marka má ytri umbúðir og umfang undirbúnings. Og virðist litlu breyta þó þjóðin hafi orðið fyrir efnahagshruni. Þá ríkja hér á landi mannréttindi, frelsi og öryggi og við búum við tæknivæðingu og heibrigðisþjónustu eins og best gerist í heiminum. Og við eigum skólakerfi á hástigi með öflugri kennarastétt í þóðfélagi sem virðir menntun í fyrirrúmi. Hér er mikið að þakka með því að njóta og virða. Með rækt við þakklæti leggjum við samt ekki árar í bát og látum þar við sitja, heldur horfum fram á veg, byggjum upp, njótum reynslunnar og ræktum vonina. Þakklæti felur ekki í sér stöðnun, heldur metur að verðleikum lífsins gæði.
En við gleymum ekki þeim sem búa við erfiðar aðstæður. Við hugsum til þeirra sem líða og syrgja, stríða við veikindi og þeirra sem áhyggjur þjaka, búa við atvinnuleysi, glíma við skuldavandræði og bág kjör. Samkennd og samstaða um velferð í þágu allra hefur verið aðalsmerki íslenskrar siðvitundar og á rætur að rekja í kristna trú. Fagnaðarerindi jólanna minnir okkur á það og glæðir von.
Jólin er því svo kærkomin og fallegur vitnisburður um að kristin trú mótar enn gildismat og lífshætti. Það yrði mikið skarð fyrir skildi ef þjóðin glatar sambandi sínu við trúna og menningararfinn sem tengir saman reynslu aldanna við skapandi framtíðarsýn. Og þar skiptir svo miklu máli að kirkjan blómgist í störfum sínum. Kirkjan er samfélag, ekki stofnun eða skipulag sem ríkið stendur fyrir, heldur fólkið með frjálsu vali, ekki einungis með formlegri aðild, heldur með þátttöku í helgihaldi og starfi í kirkjuhúsi sem söfnuðurinn á.
Mikil er þörfin á menningar-og félagsstarfi í lífsháttum nútímans. Þar hefur Þjóðkirkjan verið þungamiðja og kjölfesta í þjóðlífinu um aldir um allt land, frá ystu nesjum inn í innstu dali, eins og jólin sem snerta okkur svo innilega, hvort sem maður er trúar eða vantrúar. Og þá er ekki spurt um útlit eða umbúðir. Hamingja og gleði jólanna verður aldrei metin útfrá efnislegum mælikvörðum eða veraldarstöðu. Sr. Einar Sigurðsson, sálmaskáldið okkar, orti um það:
Umbúð verður engin hér, önnur en sú þú færðir mér, hreina trúna að höfði þér, fyrir hægan koddan færi. Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.
Hér vísar sálmaskáldið í gjöfina helgu, heilaga trú, af Guði gefin og geislar af nýfæddu barni í jötu, sem er frelsari heimsins. Um þann umbúnað vitna hin fyrstu jól í gripahúsi í Betlehem. Fjárhirðarnir komu með tómar hendur að jötunni, en með fangið fullt af fögnuði og þakklæti sem streymdi frá innstu hjartans rótum. Þeir komu í lofgjörð trúar sem englarnir á Betlehemsvöllum bárum þeim í fagnaðaróðnum: “Sjá ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum. Yður er í dag frelsari fæddur”. Enn ómar lofsöngurinn og nær hæstu hæðum hér í kirkjunni. Mikil er sú dýrð, menning, blessun. Eins og yndæl heilsubót sem auðgar og nærir andans líf. Það er gott að koma hér saman í kirkjunni, njóta og þakka, finna frið í hjarta og rækta gleðileg jól. Amen