Hinsta stund og kærleikurinn

Hinsta stund og kærleikurinn

Ræða flutt í Glerárkirkju á síðasta degi kirkjuársins 2016 þann 20. nóvember. Texti dagsins var Mt.25.31-46, Dæmisagan um Mannsoninn og dóminn á efsta degi. Jesús fer fram á að við gerum miskunnarverkið, kærleikurinn er ekki orðin tóm heldur samstaða með þeim smæstu. Kærleikurinn er að taka sér stöðu með þeim, vera í þeirra hópi, eins og konungur konunganna. Þannig birtist Guð í kærleikanum.

Ræða flutt í Glerárkirkju á síðasta degi kirkjuársins 2016 þann 20. nóvember. Texti dagsins var Mt.25.31-46, Dæmisagan um Mannsoninn og dóminn á efsta degi. Jesús fer fram á að við gerum miskunnarverkið, kærleikurinn er ekki orðin tóm heldur samstaða með þeim smæstu. Kærleikurinn er að taka sér stöðu með þeim, vera í þeirra hópi, eins og konungur konunganna. Þannig birtist Guð í kærleikanum.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

1.

Efsti dagur og kærleikurinn! Hvað eiga endalokin og elskan sameiginlegt? Þau augnablik lífsins þegar við stöndum frammi fyrir tímanleika okkar, að líf okkar varir aðeins stutta stund, eins og þegar við hugsum um efsta dag, síðasta daginn, verðum við sérstaklega skýr varðandi það sem skiptir máli. Þá er það kærleikurinn sem stendur upp úr. Kærleikurinn er uppspretta lífsins og markmið.

Faðir martin stofnandi SAM að ræað við börn sem höfðu verið leyst úr vinnuþrælkun á Indlandi Faðir Martin stofnandi SAM að ræða við börn sem höfðu verið leyst úr vinnuþrælkun á Indlandi

Nú gengur í hönd tími þegar samvera með ástvinum er okkur ofarlega í huga. Kærleikurinn er óhugsandi nema með einhverjum. Einn og sér getur maður hvorki gefið né þegið kærleika. Þessar viðkvæmu tilfinningar sem við köllum kærleika manna á milli eru líklega sterkari en nokkuð annað í lífinu.

Í Biblíunni er eitt magnaðasta ljóð um kærleikann sem ég veit um, Óðurinn um kærleikann:

„Þótt ég talaði tungum manna og engla en hefði ekki kærleika væri ég hljómandi málmur og hvellandi bjalla...

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki... Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp... leitar ekki síns eigin

Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ 1. Kor. 13

Kærleikurinn er settur æðstur og nefndur miklu ágætari leið í raun en allt annað. Hvers vegna skyldi það vera?

Biblían orðar það þannig: Guð er kærleikur. Það skyldi þó ekki vera þannig að þegar við reynum kærleika manna á milli þá erum við að fást við Guð, mæta honum, reyna hann? Við vitum það að kærleiksskortur leiðir til tómleika og einsemdin étur mann að innanverðu. Það er ekki að undra að þjóðfundurinn 2009 nefndi kærleikann og fjölskylduna með mikilvægustu gildunum, orðarunan, draumurinn um betra Íslands hljómar eitthvað á þessa leið: Heiðarleiki, jafnrétti, virðing, réttlæti, kærleikur, ábyrgð, frelsi, sjálfbærni, lýðræði, fjölskylda, jöfnuður og traust. Þetta gæti verið úr Biblíunni. Páll postuli gæti hafa skrifað þetta.

Í bók sinni Þjóðgildin stillir Gunnar Hersveinn saman þessu tvennu endalokunum og kærleikanum, eins og við erum að gera í dag, í lítilli dæmisögu um feðga, dapurleg saga, þar sem kærleikurinn er öllum horfinn nema lítilli smáveru. Drengurinn er sá eini sem finnur til með öðrum. Dæmið er gott til íhugunar:

„Við síðustu andvörp lífsins á jörðinni mættu feðgar gömlum manni á veginum. Aska huldi jörð, dauð tré voru fallin, dýrin útdauð og fátt eftir nema nokkrar mannverur sem sjaldnast hittust nema til að berjast um matarleifar. Mannúð var óþekkt. Feðgarnir áttu fæði til næstu tveggja eða þriggja daga en svo ekki meir, þegar þeir mættu aldurhnignum manni sem þraukaði þrátt fyrir enga von í þessum grimma heimi. Maðurinn var lítill, hokinn, hungraður og óttaðist barsmiðar. Faðirinn vildi greikka sporið. Hver sá um sjálfan sig. Hann bar aðeins ábyrgð á syni sínum. Drengurinn einn bar eldinn í brjósti og sagði: „Kannski gætum við gefið honum eitthvað að borða.“ Faðirinn horfði á drenginn og hugsaði: „Ef hann er ekki orð Guðs hefur Guð aldrei talað.“ (Þjóðgildin, bls. 16)

Það er í kærleiksverkunum sem við sjáum Guð að verki, finnum fyrir honum, umfram í annan tíma. Þegar á reynir verður okkur þetta ljóst. Þá verða dæmin sem við okkur blasa mikils virði, sannfæra um eitthvað meira en þessa grimmu veröld. Þá skín í gegnum allt mannlegt mistur mynd sem vekur von og trú, Kristur, frummynd allrar gæsku, ljós lífsins, kærleikurinn, eins og hann hefur skinið skærastur í mannlegri tilveru. Dauðleg augu okkar sjá í honum og öllum þeim sem vinna kærleiksverk ljósið eilífa í gegnum kynslóðirnar.

2.

Hugsaði um kærleikann sem þú hefur notið í lífinu, kærleikann, sem hefur gert þig að þeirri manneskju sem þú ert. Kannski er það ný hugsun fyrir þér að sjá það allt sem Guð að snerta þig, að vekja vilja til góðs í þér. Þá ertu farinn að nema vilja hans, Guðs, sem er gæskan, lífið og ljósið. Þannig talar orðið, hans helga mál, er að segja þér þetta. Þú nýtur náðar Guðs. Guði er annt um þig, hann vill þér vel, það hefur hann sýnt þér í sinni helgustu mynd, í Jesú Kristi. Festu þessa hugsun í huga þér. Það er ljósgeisli himinsins að skína þér. Að skynja Guð með þeim hætti vekur djúpt þakklæti og lof til Guðs. Guð er góður, uppspretta kærleikans, lífsins og gleðinnar.

3. Þetta er dæmisagan að segja okkur um efsta dag. Þar birtist okkur Kristur í annarri mynd en þó þeirri sömu kærleiksmynd veraldar. Við erum kölluð til að vera hún. Alvaran er mikil eins og það er alvara að lifa, ábyrgð er það að vera frjáls maður, á augabragði getur líf okkar tekið óheillastefnu. Á augabragði bregst ég við með orði við náunga minn sem nagar mig að innan, orð, sem drepa niður kærleikann, vekja hatur og beiskju. Enga stund tekur að loka hjarta sínu fyrir þeim sem leitar þurfandi til manns eða verður á vegi manns. Siðferði kristninnar er ekki yfirborðsmennska, heldur skilyrðislaus sannleikur, vegna þess að Guð er sannleikur. Þannig lifi ég hinn efsta dóm hverja stund lífs míns meðan ég geng um meðal minna minnstu bræðra og systra. Og þegar ég uppgötva að ég er ekki dómarinn heldur einn af þeim smæstu finn ég til samstöðu. Og með einhverjum hætti er það forsenda þess að elska eins og Kristur gerði.

Það er eitthvað harmsögulegt við kristnina eins og þessa dæmisögu. En það eru ekki um nein leikræn tilþrif að ræða heldur að lífið er með þessum hætti í raun og sannleika. Að elska einhvern annan en sjálfan sig í mannheimi felur í sér þjáningu, fyrr eða síðar reynir svo á ástina, að valið stendur milli þess að skuldbinda sig ást sinni eða loka hjarta sínu vegna þess að þjáningin er óhjákvæmileg.

Það er frelsið sem trúuðum manni er gefið að velja að elska, binda sig og lifa fyrir aðra. Það er kærleikurinn sem græðir og styrkir.

4.

„Allt sem þér gerður einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér“, segir konungurinn í dæmisögunni. „Mannsoninn“ nefnir Jesús hann í dæmisögunni. Allir munu safnast saman frammi fyrir honum, allar þjóðir, það hlýtur að fela í sér að Íslendingar verða þar einnig. Það hefur staðið yfir tími uppgjörs, allt frá hruni, í nær áratug, rannsóknir hafa farið fram og dómar fallið. Það ætti að vera auðvelt fyrir okkur að skilja þessa sögu út frá aðstæðum okkar. Við spyrjum um grunngildi samfélagsins. Jesús gefur okkur mælikvarðann eins og vænta má af hans munni. Það nægir ekki að þykjast heldur verður að framkvæma: „Allt sem þið gerðuð einum minna minnstu bræðra“, sagði hann. Og aðferðin sem hann vísar okkur á er að setja sig í spor hinna minnstu, „ho mikros“, kallaði Jesús þá og tók sér stöðu með þeim, hann, konungur konunganna. Við eigum að auðmýkja okkur og verða eins og barnið, verða í hópi þeirra smæstu, samsama okkur þeim, þá lærum við að umgangast hvert annað í kærleika.

Jesús lýsir þá sæla sem eru fátækir í anda á þennan hátt. Þeirra er himnaríki. Getur verið að himnaríki sé að elska sína nánustu, þá á ég við að elska í merkingunni að skuldbinda sig þeim til eilífðar, elska náunga sinn, mannkynið allt? Þá fær þessi dæmisaga ýtrustu þýðingu – segir okkur hver tilgangur lífsins er. Til þess var sagan sögð.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.