Á þriðja degi var brúðkaup í Kana í Galíleu. Móðir Jesú var þar. Jesú var og boðið til brúðkaupsins og lærisveinum hans. En er vín þraut segir móðir Jesú við hann: Þeir hafa ekki vín.Jesús svarar: Hvað varðar það mig og þig, kona? Minn tími er ekki enn kominn.
Móðir hans sagði þá við þjónana: Gjörið það, sem hann kann að segja yður. Nú voru þar sex vatnsker úr steini samkvæmt reglum Gyðinga um hreinsun, og tók hvert þeirra tvo mæla eða þrjá.
Jesús segir við þá: Fyllið kerin vatni. Þeir fylltu þau á barma. Síðan segir hann: Ausið nú af og færið veislustjóra. Þeir gjörðu svo. Veislustjóri bragðaði vatnið, sem var orðið vín, og vissi ekki, hvaðan það var, en þjónarnir, sem vatnið höfðu ausið, vissu það. Þá kallaði veislustjóri á brúðgumann og sagði: Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara, er menn gjörast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú.
Þetta fyrsta tákn sitt gjörði Jesús í Kana í Galíleu og opinberaði dýrð sína, og lærisveinar hans trúðu á hann. Jóh. 2. 1-11
Á þriðja degi var brúðkaup í Kana. Móðir Jesú var þar. Mig grunar hvað Jóhannes er að segja. Á þriðja degi reis Jesús af dauðum. Þess vegna kemur kirkjan saman til hátíðar, brúðkaups, í minningu upprisu hins krossfesta. Móðir Jesú er þar, trúin er þar, samfélag kirkjunnar er þar. Og þar er Jesús.
Er vín þraut … Þetta segir Jóhannes eins og ekkert sé sjálfsagðara, hann veit auðvitað, og við vitum, að þar kemur að við komumst í þrot, að allt sem við höfum reitt okkur á, þrýtur. Þetta er dæmisaga, þetta er skrítla, fáránleg, fráleit, en samt sönn, heilagur sannleikur, tjáður í táknmáli, stundum fráleitu. En oft áleitnu. Steinkerin, td. sex vatnsker úr steini, samkvæmt reglum Gyðinga um hreinsun, segir Jóhannes. Sex tóm ker, bíða þess að verða fyllt. Sex dagar sköpunarinnar. Dagar, einn af öðrum, samkvæmt lífsins reglum, lögmáli tímans og forgengileikans. Sex tóm ker. - - - Lífið mitt. Hve oft hef ég ekki séð lífið, tímann, sem eitthvað sem framhjá fer, rennur úr greipum, eyðist, tæmist? Hvernig væri að líta það sem svona ker, sem bíður þess að fyllast - - - gæðum? Sex vatnsker úr steini. Tilboð trúarinnar á Krist er að þiggja lífið, þetta líf, þessa daga, sem gjöf: Þetta er þér gefið til góðs. Þiggðu það, og láttu gott af þér leiða.
Fyllið þau af vatni! Segir Jesús. Líf mitt var líka ausið vatni. Lífið þitt líka, væntanlega. Ausið vatni skírnarinnar, að boði Jesú. Svo að þú gætir af því daglega ausið víni gleði, vonar, framtíðar, dagana alla hér á jörðu, - sjálfum þér og öðrum til blessunar og Guði til dýrðar. Þú eyst þar af er þú biður í Jesú nafni, er þú lest í Biblíunni í bæn til hans, þegar þú sækir kirkju, þegar þú tekur við Kristi í altarisgöngunni.
Á þriðja degi var brúðkaup í Kana. Á þriðja degi reis Jesús, hinn krossfesti upp frá dauðum. Við fáum að mæta lífinu, dögunum, viðfangsefnum í ljósi þeirrar dýrðar sem upprisa Krists leiddi í ljós. Við þurfum ekki að horfa á tímann, stundir, daga, renna okkur úr greipum. Við fáum að byrja upp á nýtt í eftirvæntingu þess að hann, hinn krossfesti og upprisni Kristur kemur og blessar, og geymir hið besta þar til síðast.
Á þriðja degi reis Kristur upp. Gleðin, ljósið, lífið sigraði dauðans nótt og dimmar grafir allar. Upprisudagur Krists, það er sunnudagurinn, fyrsti dagur hverrar viku, upprisudagur og endurnýjunar. Hvað svo sem almanökin eru að segja okkur, með því að setja sunnudaginn síðast. Vinnuvika kirkjunnar, lífshrynjandi trúarlífsins, hefst með upprisunni, þegar vonleysi, sorg og tómleiki okkar snauða, sjúka lífs mætir nægtum hans, nægtum Krists að við mættum sjá dýrð hans og trúa á hann.
“Gjörið það sem hann segir!” það er orð Maríu, orð kirkjunnar sem mætir okkur í hátíð, brúðkaupsgleði helgidagsins, helgidómsins. Já, við skulum horfa til hans, og fara eftir því sem María segir og kirkjan tekur undir: Gjörið það sem hann segir! Hvað segir hann? Trúið á Guð og trúið á mig! Elskaðu Drottin af öllu hjarta og náungann eins og sjálfan þig. Kröfur? Nei, gjöf. Af henni sprettur sú sálarsjón er sér framundan hina eilífu upprisugleði er við fáum að leiðarlokum að segja við Drottin með undrun og mikilli gleði: "Þú hefur geymt góða vínið þar til nú."Þér sé lof og dýrð um aldir alda.