Í dag er dómsdagur! Biblíutextarnir eru um dóm og heimsendi. Af hverju dómsdagur í dag? Eigum við að hræðast og fara í keng. Eða kemur dómsdagur Biblíunnar okkur ekkert við? Eru þessir textar kannski bara tjáning á fornum heimsslitakvíða, áhugaverð en þó úrelt hugmyndafræði, sem við geymum best á menningarminjasafni eða bókasafni?
Allar kynslóðir manna búa sér til sínar dómsdagsmyndir. Í Þjóðminjasafninu er t.d. sýning á dómsdagsmyndverki, sem líklega var sett upp í Hóladómkirkju á 11. öld. Við berum öll í okkur einhvern endakvíða. Loftslagshópur Sameinuðu þjóðanna lagði fram lokaskýrslu sína fyrir skömmu, sem er doðrantur á lóðarskálar dómsins (krísuskýrsla) og draumaverksmiðjur Hollywood búa á hverju ári til einhverar hryllingsmyndir um dómsdag, þræða kunnáttusamlega saman óttaefni fólks. Nú svo hefur mannkynið auðvitað verið alveg fullfært að búa til skelfileg eyðingartól og menga veröldina svo margir telja, að heimsendaklukkan sé að tifa ansi nærri endalokum lífs á jörðinni.
Kirkjuárið og tímamót Fræðilega vel unnar skýrslur eiga erindi við okkur, en hvað með hinn biblíulega dómsdag? Sunnudagurinn í dag er síðasti sunnudagur kirkjuársins. Þetta er n.k. gamlársdagur kirkjuársins. Við tímaskil er ráð að efna til réttarhalds eigin sálar og lífs. Hallaðu þér því aftur, láttu fara vel um þig og spyrðu þig: Hvað hefur reynst þér erfiðast á liðnum dögum, liðnum mánuðum, liðnu ári? Hvernig hefur þér liðið? Hvað var þér erfiðast í vinnunni? Hvað sleit þér mest í tengslunum við ástvini þína, foreldra, börn, maka, vini? Hvað hafði dýpst og sterkust áhrif á tilfinningar þínar og líðan? Og þá getum við spurt meginspurningar á dómsdegi kirkjuársins: Hver er krísan í lífinu? Krísan í lífi þínu og hvernig bregstu við henni?
Krísa og dómur Merking orða skiptir máli og saga orða er oft sláandi og til skilningsauka. Í flestum vestrænum málum er orðið krísa notað og vísar til áfalla og erfiðleika. Á enskunni er það orðið crisis, á þýskunni og norðurlandamálunum Krise. Orðið er notað í margs konar samhengi. Við tölum stundum um “krísu-stjórnun.” Og þegar allt er í volli hjá okkur erum við í krísu. Til eru peningakrísur, sálfræðilegar krísur, pólitískar krísur og heilsufarskrísur. Enginn hörgull á krísum. Enginn sleppur víst alveg við áföll og sum þeirra eru raunverulegar krísur, sem kreista okkur og reyna.
Eitt mikilvægasta orðið, sem er notað í Nýja testamentinu um dóm og að dæma er krisis og vegna hins biblíulega upphafs hefur það borist um allan hinn “kristna” heim. Merking orðsins er fjölbreytileg og áhugaverð. Krisis merkir ekki aðeins að fella dóm, heldur einnig að velja á milli valkosta og að horfast í augu við þá kosti, snúa við og taka jafnvel u-beygju í lífinu!
Í dómssal er ekki til siðs, að dómarinn fari í eitthvert Pollyönnukast og segi við hinn dæmda: “Já, ég sé að þú hefur gert upp þín mál, hefur tekið út mikinn þroska síðan þú framdir glæp þinn. Ég sleppi þér við fangelsisvistina og gef þér tækifæri til að byrja upp á nýtt og bæta fyrir brot þín.” Þannig réttarfar búum við ekki við í köldum heimi skilvirks réttarríkis. Eftir málaferli er dómur felldur í venjulegum réttarhöldum. Þar er ekkert á milli, þar er annað hvort sýkna eða sekt, en dómarinn getur auðvitað metið eitthvað til refsilækkunar. Dómarinn hefur þó ekki siðbótarhlutverki að gegna, heldur ber aðeins að dæma í ljósi þess, sem fram hefur komið í réttinum og á grundvelli gildandi laga.
Guð er ekki ofurdómari sem í fullkominni réttvísi sinni bíður aðgerðalaus eftir þér við lok tíma og dæmir þig sekan eða sýkn saka. Guð heldur ekki á þessum frægu vogarskálum réttarfarsins og vegur hvort þú ert nægilega góður eða ekki. Réttur Guðs er annar en manna. Guð bíður ekki heldur sýnir frumkvæði, er pró-aktívur. Að vita margt um Héraðsdóm Reykjavíkur og Hæstarétt er því ekki til skilningsauka um dómsdag og hlutverk Guðs.
Messuhópar starfa orðið við Neskirkju og undirbúa messurnar. Á fundi messuhópsins nú í vikunni ræddum við um guðspjall dagsins. Lögfræðingurinn Benedikt Sigurðsson benti okkur á að það væri eins og það væru tvenns konar dómar í kristninni. Annars vegar væri talað um dómsdag, en svo væri í texta dagsins í fimmta kafla Jóhannesarguðspjalls talað um að sumir kæmu ekki til dóms, heldur slyppu algerlega við hann. Mikið rétt, þetta blasti við þegar við fórum að skoða. Jesús segir í texta dagsins, að við göngum frá dauðanum til lífsins og komum ekki til dóms. Eru þá í Biblíunni tvenns konar dómar eða skýrist málið þegar við skoðum betur Guð sem dómarann? Þarna er skilningurinn á krísuorðinu hjálplegur. Krísa, þ.e. dómur Guðs er ekki aðeins það að dæma í eilífðarmálum, heldur ekki síður að hjálpa okkur núna, aðstoða okkur til að taka okkur á, ákveða að taka sinnaskiptum og reyna að gera gott úr krísu okkar.
Við skiljum líkinguna af Guði sem dómara best þegar við hugsum um, að Guð hjálpi okkur til góðs í raunverulegum aðstæðum lífsins, leiðbeini okkur, styðji okkur þegar við brjótum af okkur, erum að skilja eða lendum í fjárhagsklúðri og krísu í vinnunni. Jesús talar um dóm, sem endurnýjun fólks og í tengslum við hann sjálfan.
Dómsdagur er þegar menn viðurkenna að Jesús sé lífgjafari þeirra, þegar menn taka skrefið frá dauðanum til lífsins. Dómsdagur er þá ekki aðeins eitthvað sem varðar atburð í framtíð, heldur núna, á þessum degi. Dómsdagur í Jesúsamhengi merkir, að í tengslum við hann verður öllum okkar krísum snúið til góðs, ef við viljum horfast í augu við vanda okkar og að Guð kallar okkur til góðra viðbragða. Allt sem áður þrúgaði og íþyngdi er leitt til betri vegar. Það sem við gerðum og sáum eftir er fyrirgefið. Það sem við botnuðum ekki í og var okkur til ills er endurunnið til góðs. Krísan í Kristssamhengi merkir þá, að það sem var vont verði snúið til góðs. Að vera í krísu hjá Kristi er að mega fara “yfir um” - til lífsins! Við þurfum að læra að lifa í þeim anda, að framtíðin hefur brotist inn í nútíðina, á hverju augnabliki er Guð kominn. Við lifum í skurðpunkti tíma og eilífðar.
Skiladagur eilífðar En hvað þá um hinsta tíma? Gerir presturinn lítið úr honum og dómsdegi? Nei, allir verða að standa skil á lífi sínu, verkum, hugsunum og gjörðum. Við eigum, að lifa svo að við mætum uppgjöri. Það er hin vídd þess að lifa í faðmlagi tíma og eilífðar. Öllum ber að lifa þannig á hverjum tíma að hann eða hún geti mætt þessum „dómi“ með hreinni samvisku. Í postullegu trúarjátningunni játum við, að Jesús muni dæma lifendur og dauða.
En hvernig það verði er í lagi að hafa skiptar skoðanir og mikilvægt að muna að hugmyndir okkar um dómsdag eru mjög tengdar fordómum. Við getum verið að mestu laus við fordóma gagnvart öðrum en jafnan bullandi fordómafull gagnvart sjálfum okkur. Sögulegt efni litar líka hvernig við skiljum eða hvort við tökum dómsdag alvarlegan. Margir afskrifa þetta sem skemmtilegt en gamaldags rugl. Áhugamenn um tónlist þekkja dómsdagssálminn Dies Irae, dies illa... sem sr. Matthías þýddi með Dagur reiði, dagur bræði... Lýsingar dómsdags eru rosalegar og Mozart notaði dramað í hinni kunnu Sálumessu sinni.
Listamenn aldanna hafa málað stórkostlegar dómsdagsmyndir, um hvernig hinir óguðlegu eru dæmdir til hryllingsvistar og hinir hólpnu leiddir inn í dýrð ljóssins. Þessu eiga menn ekki að trúa bókstaflega. Áherslan er á ábyrgð en ekki skelfilega viðburði. Áherslan er á, að Guð er Guð og að maðurinn hafi ráðsmennskuhlutverki að gegna.
Svo eru auðvitað allar heimsslitakvikmyndir Hollywood ein útgáfa af dómsdagsstefinu. Þó við höfum gaman af drama, litagleði og hugarflugi þessara kvikmynda, listaverka og tónverka megum við efast um að dómsdagur Guðs verði með því móti sem þar er lýst. Þetta eru tjáningar á ákveðnum tilfinningum, en ekki vísindalegar lýsingar á raunveruleika. Textar Opinberunarbókar Jóhannesar eru eins og litríkar skyggnur, tilfinningaþrungin túlkun dómsdags og framtíðar. Við þurfum að læra að taka þessar tjáningar alvarlega, en ekki bókstaflega, greina merkingu að baki táknmáli.
Dómsdagur núna Lærðu að sjá krísurnar í lífinu sem aðstæður sem þarf að taka á og leyfa að verða til góðs. Guð sendir þér ekki áföll til að reyna þig, en Guð stendur með þér í krísunum og þær geta orðið til vaxtar og þroska. Þegar þú lærir, að sjá að Jesús er nærri þér með því móti, að Guðshjálpin er raunverulegur kraftur til að breyta ógn í tækifæri, krísu í vaxtarmöguleika þá verður dómsdagurinn dagur möguleika en ekki lengur dagur reiði og bræði. Valdimar Tómasson benti okkur í messuhópnum á, að það felist í kristinni dómshugsun, að við eigum að dæma okkur sjálf en ekki aðra. Það er rétt og dómsdagur merkir, að Guð er með þér og hjálpar þér að stíga frá dauðanum til lífsins – núna og líka um alla eilífð. Dómsdagur er nú og er til góðs. Svo endar gamla árið, gamla kirkjuárið á þeim nótum, svo byrjar aðventan, tími eftirvæntingar og vona.
Amen Síðasti sunnudagur kirkjuársins 2007 B-textaröð Prédikun í Neskirkju, 25. nóvember 2007
Lexían Maður, af konu fæddur, lifir fáa ævidaga, fulla af eirðarleysi. Hann vex eins og blóm og visnar, hverfur sem hvikull skuggi. Samt hefurðu á honum vakandi auga og kallar hann fyrir dóm þinn. Hver getur leitt hreint af óhreinu? Ekki nokkur maður. Hafi ævidagar hans verið ákvarðaðir og tala mánaða hans ákveðin af þér, hafirðu sett honum mörk sem hann kemst ekki yfir, líttu þá af honum svo að hann fái hvíld og geti glaðst yfir degi sínum eins og daglaunamaður. Jobsbók 14.1-6Pistillinn En þetta eitt má ykkur ekki gleymast, þið elskuðu, að einn dagur er hjá Drottni sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur. Ekki er Drottinn seinn á sér með fyrirheitið þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við ykkur þar eð hann vill ekki að neinn glatist heldur að allir komist til iðrunar. En dagur Drottins mun koma sem þjófur og þá munu himnarnir líða undir lok með miklum gný, frumefnin sundurleysast í brennandi hita og jörðin og þau verk, sem á henni eru, upp brenna. Þar eð allt þetta ferst, þannig ber ykkur að lifa heilögu og guðrækilegu lífi og bíða eftir degi Guðs og flýta fyrir að hann komi. Þá munu himnarnir leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita. En eftir fyrirheiti hans væntum við nýs himins og nýrrar jarðar þar sem réttlæti býr. 2. Pétursbréfi 3.8-13
Guðspjall Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim sem sendi mig hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sú stund kemur og er þegar komin að hinir dauðu munu heyra raust Guðs sonarins og þeir sem heyra munu lifa. Eins og faðirinn hefur líf í sjálfum sér þannig hefur hann og veitt syninum að hafa líf í sjálfum sér. Og hann hefur veitt honum vald til að halda dóm því að hann er Mannssonur. Jóhannes 5.24-27