Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist. Jóh 14.27
Þegar múslimir tala um Guð er ætíð um fjarlægan Guð að ræða, drottinn örlaganna, hátt yfir okkur hafinn og heilagur. Þar sem Allah er langt í burtu eiga þeir erfitt með að skilja jólin okkar. Hvernig má það vera að Guð verður maður? Hvernig getur Guð lítillækkað sig og komið svo nærri okkur, að hann deilir með okkur mennsku okkar?
Fyrir sumt fólk, sem játar trú á Krist er Guð líka fjarlægur. Guð er utan við daglegt amstur, situr á himnum eða flýtur í geimnum, er e.t.v. allstaðar annarsstaðar en akkúrat hjá þeim, í lífi og leik. Hafa jól og áramót ennþá einhverja merkingu eða eru þau eingöngu tími til að eyða fjármunum í gjafir og gleði?
Kannski höfum við heyrt boðskap jólanna of oft til þess að dást að trú okkar, sem gengur út á það að Guð er samferða okkur í gegnum lífið, “nær en blærinn, blómið, barn á mínum armi, ást í eigin barmi, ertu hjá mér, Guð.”, eins og segir í sálmi Sigurbjörns Einarssonar. Kristin trú er trú nálægðar, jól eru um Guð í lífinu, Guð í framrás sögunnar. Guð sem deilir með okkur erfiðleikum og gleði þess að vera maður. Þessi atburður sýnir okkur ótrúlega ást Guðs til okkar. Guð kemur sjálfur til að búa með okkur. Hann var fæddur í Bethlehem og bjó með okkur. “Þú varst í mér en ég var fyrir utan. Þú hefur alltaf verið með mér en ég var aldrei með þér”. Þessi merkilega uppgötvun Ágústínusar kirkjuföður gefur okkur mynd af því hvað það er að hafa Guð í okkur, þótt við séum víðsfjarri Guði. Guð getur ekki verið í okkur gegn vilja okkar og án þess að við endurgjöldum ást hans.
Á jólunum, þegar Guð verður maður, er ómögulegt að mæta Guði án þess að mæta manni. Leiðir Guðs og mannsins mætast. Ef ég afskræmi mann, afskræmi ég Guð. Ef ég sýni manni lítilsvirðingu, sýni ég Guði lítilsvirðingu. “Það sem þú gerir einum minna minnstu bræðra, hefur þú gert mér”, sagði Jesús (Mt. 25).
Þessa dagana getum við ekki horft á fæðingarstað Krists og ekki séð hann sem vígvöll, smáðan af vopnum og hatri. Við höfum líka séð helgileiki barnanna, á jólunum, þar sem við fengum að og upplifa fæðingarfrásöguna, jólaguðspjallið með augum þeirra. Þar voru hirðar og englar og vitringar sem hylltu og tilbáðu Krist án þess að þeir þyrftu að afneita uppruna sínum. Kannski við bætum við vitringana í helgileik næsta árs, höfum þá Palestínumenn og -konur sem þjást vegna stríðs, útlenska verkamenn sem hingað koma í leit að vinnu, já og hælisleitendur sem er snúið við af því að þeir uppfylla ekki formleg skilyrði til þess að mega koma hér í öruggt skjól. Ekki megum við gleyma þeim sem eru fangar og veikir og atvinnulausir.
“Frið læt ég eftir hjá yður, minn frið gef ég yður, ekki gef ég eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.” segir í guðspjalli gamlárskvölds. Það er Jesús sem talar, ekki sem jólabarnið heldur sem sá, sem er við það að yfirgefa lærisveina sína til þess að verða tekinn höndum og líflátinn, lagður í gröf og rísa upp. Gjöf friðar á tímamótum. Friður sem veganesti og áskorun: Ekki skelfast, ekki hræðast. Ég er jafnnærri þér nú og ég hef alltaf verið. Þú sérð mig ekki í mynd barnsins, þú sérð mig ekki í mynd fullorðins manns, þú sérð mig ekki í mynd dæmds og krossfests glæpamanns, þú sérð mig ekki sem upprisinn Guðs sonur. Þú átt mig í friðnum sem ég gef þér.
Veganesti jólanna og áramótanna er þetta: Þar sem við, mannfólkið höldum friðinn, þar býr Guð. Þar sem við elskum hvert annað, virðum og gætum hvers annars, þar er Guð að verki. Áskorunin er þessi: Verið vakandi í voninni og gefist ekki upp þótt móti blási, því eins og Kristur mætti mótlæti, já og dauða, munum við mæta mótlæti. Það er eðlilegt og því heyrir hvert fermingarbarn þessi orð, sem ég vil gefa þér nú: Vertu trúr allt til dauða, og þá mun Kristur veita þér lífsins kórónu.
Carlos Ferrer er sóknarprestur í Tjarnaprestakalli. Þessi prédikun var flutt við aftansöng í Kálfatjarnarkirkju á gamlársdegi, 31/12/2002.