Ég bið ekki einungis fyrir þessum, heldur og fyrir þeim, sem á mig trúa fyrir orð þeirra, að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur, til þess að heimurinn trúi, að þú hefur sent mig. Og ég hef gefið þeim þá dýrð, sem þú gafst mér, svo að þeir séu eitt, eins og við erum eitt, ég í þeim og þú í mér, svo að þeir verði fullkomlega eitt, til þess að heimurinn viti, að þú hefur sent mig og að þú hefur elskað þá, eins og þú hefur elskað mig. Faðir, ég vil að þeir, sem þú gafst mér, séu hjá mér, þar sem ég er, svo að þeir sjái dýrð mína, sem þú hefur gefið mér, af því að þú elskaðir mig fyrir grundvöllun heims. Réttláti faðir, heimurinn þekkir þig ekki, en ég þekki þig, og þessir vita, að þú sendir mig. Ég hef kunngjört þeim nafn þitt og mun kunngjöra, svo að kærleikur þinn, sem þú hefur auðsýnt mér, sé í þeim og ég sé í þeim. Jóh. 17.20-26Þessi orð eru úr bæn Jesú nóttina sem hann svikinn var. Hann biður fyrir lærisveinum sínum og vinum. Og þar erum við á meðal, við vorum í huga hans þegar hann bað. Köld nóttin lagðist yfir og umlukti hann, nótt svikanna, nótt neyðar og skelfingar. En hann bað fyrir okkur. Þegar sorgin leggst yfir, þegar angistin hellist yfir mann, þá drögum við okkur gjarna bak við múra allrahanda varnarhátta, einsemdin læsir greipum sínum um mann, tilfinningin að vera yfirgefinn, einmana, og er ekki sjálfsfyrirlitningin þá yfirleitt nærri og minnimáttarkenndin? Angist. Bak við það biblíulega orð er tilfinningin, veruleikinn, að vera aðþrengdur, fjötraður, lamaður.
En Jesús leggur allt þetta fram í bæninni fyrir vinum sínum, fyrir mér og þér: Faðir að kærleikur þinn veri yfir þeim og í þeim.
“Bæn er ekki orð heldur manneskja,” var einhvern tíma sagt. Ungbarnið sem skimar upp í ljósið er bæn. "Ég get ekki lifað án þess að þú annist mig,” segir öll þess vera. Og móðirin skilur. Enginn hefur sagt henni það, það er lagt í eðli hennar að svara þessu orðlausa ákalli. Móðurástin er andsvar. Manneskjan er bæn. Þegar mannssál er í neyð og megnar ekki meir, þá brýst bænin fram í allri veru, sál og huga og hjarta. Manneskjan er bæn, bæn um skilning, um viðurkenningu, um kærleika annars fólks, bæn um andsvar þeirrar ástar og náðar sem veikum vægir og fallinn reisir.
Í vetur sá ég aftur mynd sem ég sá fyrir mörgum árum og orkaði sterkt á mig. Það er kvikmynd Begmanns, Fanny og Alexander. Þar er einkar áhrifaríkt atriði þegar Alexander litli verður fyrir skelfilegri meðferð stjúpföður síns, biskupsins sem síðan lokar hann uppi á dimmu og köldu háaloftinu. Þar liggur hann skjálfandi í ótta og einsemd. Hann liggur þarna innan um skran og dót, dót sem hefur verið hent, úr augsýn, engum að gagni. Svona leið honum. En þá sér maður í bakgrunni myndarinnar róðukross, sem líka hefur verið hent inn á þetta geymsluloft, kross með mynd hins líðandi Krists. Þarna er hann, nálægt þeim sem er útkastað og engist í einsemd angistarinnar. Kristur, ástvinur vor, harmkvælamaðurinn, kunnugur þjáningum. Ekkert getur skilið oss frá kærleika hans. Hann megnar að taka frá þér sorg þína og angist, en ef hann gerir það ekki, þá er hann þó hjá þér, þar sem þú ert. Ef til vill án orða sem þú skynjar. En bæn þín er andsvar við ákalli hans til þín.
Jesús biður að kærleikur sinn sé í þeim, í okkur, sem hann hefur kallað til fylgdar, útvalið, og sent með kærleika sinn til þess að heimurinn viti að Guð sendi Jesú og að Guð elskar skilyrðislausum kærleika. Berum við raunverulega vitni um þann kærleika, þá elsku? Erum við vitnisburður gagnvart heimi sem er upptekinn af framapoti, hefðarstreitu, samtíð sem er upptekin af sjálfsdekri og kröfuhörku á hendur náunganum og umhverfinu? Erum við vitnisburður um hugarfar þess sem kom til að þjóna og gefa? Hljótum við ekki öll að andvarpa: Drottinn, miskunna þú! Drottinn, fyrirgef þú!
Í bæn sinni á skírdagskvöld biður Jesús þess að lærisveinar hans megi allir verða eitt. Ekki eins, heldur eitt. Einslitt líf í einni vídd, það er heimur dauðans. Guð er Guð litadýrðar og fjölhljóma.Við þurfum ekki að óttast litauðgi og fjölbreytni innan kirkjunnar, meiningamun og átök jafnvel. Þjóðkirkjan þarf að rúma ólíkar skoðanir og þarf ekki að tala einni röddu. Minnumst þess að það á svo víða við í mannlífinu og kirkjunni, það sem franski heimspekingurinn sagði: “Sá einn er sterkur sem hugur hans einkennist af sterkum andstæðum.” - Jú, eins þurfa kirkjunnar þjónar að gæta, og það er að temja sér hógværð og hollustu, og auðmýkt. Og að leitast við að færast Kristi nær, elska hann heitar, líkjast honum meir.
Á þingum og fundum er tekist á og skipst á skoðunum. En kirkjan er ein, lærisveinarnir eru eitt, eins og Kristur bað, við borðið hans, þar sem hin sýnilega kirkja mætir hinni ósýnilegu, þar birtist kirkjan. Við krjúpum við gráðurnar við annan borðsendann, hinn endinn er í himninum. Og hver sá sem þar krýpur er manneskja með bresti sína og mein, ófullkomleika allan sinn – en manneskja sem er helguð, signd, höndluð af Kristi. Þú, presturinn, sem berð fram hinar helgu gjafir við altarið, þú sérð þessar manneskjur, þú sérð aðallega hendur þeirra sem krjúpa og spenna greipar eða leggja hendur á bríkina. Og sú sjón er í sjálfu sér prédikun: blessað sambland af ólíkra einstaklinga, mörg er sagan sem býr að baki þessum lúnum höndum, knýttum höndum öldungsins, og sigggrónum höndum erfiðismannsins, þrútnum höndum eftir skrúbb og skúringar, og ungum, velsnyrtum höndum hins óreynda, þar eru tóbaksgulir fingur, lakkaðar neglur, gervineglur, nagaðar neglur, það eru hvítar hendur og svartar – og þetta er samfélag einingarinnar, þar sem allir eru eitt. Hver fyrir sig endurspeglar ljósbrot einingar sem við höfum ekki komið á eða áorkað, en sem við erum sköpuð til. Og svo er það höndin þín, sem berð fram hinn dýrmæta leyndardóm í brauði og vínu – sem er naglstungin höndin hans, lausnarans, sem tók á sig synd heimsins.
Tökum undir bæn lausnarans nóttina sem hann svikinn var. Biðjum þess að “allir séu þeir eitt.” sem nafn Krists játa. Svo að heimurinn trúi. Biðjum þess að andi Krists lækni sár sundrungarinnar og veki sátt og skilning, vinarþel og virðingar. “Að allir séu þeir eitt” til að heimurinn trúi að Guð hefur sent Jesú Krist, frelsara heimsins, og öðlist lífið í hans nafni.