Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim, sem sendi mig, hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms, heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sú stund kemur og er þegar komin, að hinir dauðu munu heyra raust Guðs sonarins, og þeir, sem heyra, munu lifa. Eins og faðirinn hefur líf í sjálfum sér, þannig hefur hann og veitt syninum að hafa líf í sjálfum sér. Og hann hefur veitt honum vald til að halda dóm, því að hann er Mannssonur. Jóh. 5:24-27Biðjum: Þitt orð hefur skapað það allt, sem er fætt í aldanna grunnlausa hyl. Allt líf, Guð, vor faðir, er þegið af þér, sem þekkir hvert fræ, sem er til. -------- Já, lát oss í náð fá að líta þitt tákn og leið oss í hlýðni og trú og kenn oss að meta og elska það allt í auðmýkt, sem skapaðir þú. Amen Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen
Ég er að lesa spennusögu þessa dagana. Söguþráðurinn er nokkuð flókinn og ég býð spenntur eftir því hvernig höfundurinn ætlar að raða þessum sögubrotum saman þannig að endirinn komi á óvart og verði trúverðugur. Það er mikilvægt í hverju ritverki að endirinn sé í samræmi við framvindu sögunnar og helst þarf hann að koma á óvart, jafnvel vekja spurningar, skilja lesandann eftir með eigin hugleiðingar í brjósti. Ég heyrði einhvern tíma bókmenntafræðing segja eitthvað í þá veru að spennusögur væru tvenns konar. Í fyrsta lagi þær sem spinna áfram söguþráð alla bókina og í lokin er glæpurinn framinn og sökudólgurinn afhjúpaður. Hins vegar eru til sögur sem hefjast á glæpnum en bókin fjallar síðan um þann söguþráð, tilfinningar hugsun og atferli sem leiddi til þessa verks sem framið var í upphafi sögunnar. Hvoru tveggja, sé þetta satt, er nauðsynlegt til að grípa hug og hugsun lesandans. Og sjálfsagt á þetta við um aðrar bókmenntagreinar en spennusögur. Í dag heyrum við um viss sögulok í trúarlegum skilningi. Sú saga er svo sem hvorki spennusaga, rómantísk skáldsaga né æviminningar, heldur saga með kannski sögulegum skírskotunum. En umfram allt sönn saga um tilveru manns og heims í umsjón Guðs. Hún er saga tilvistar minnar og þinnar, saga Guðs um tilgang lífs og tilveru, saga lífs og heims í kristnum, trúarlegum skilningi. Og hún er saga um hinstu örlög manneskjunnar, manneskju sem af konu er fædd, lifir stutta stund hér á jörð og hverfur svo til höfundar síns og skapara. Og kristin kirkja býr þessari sögu trúar sinnar stað í sunnudögum og öðrum helgidögum kirkjuársins svo við hans börn og eignarlýður getum minnst þess og rifjað upp hvers við erum og til hvers við erum, til hvers við lifum og til hvers er ætlast af okkur. Í dag er síðasti sunnudagur kirkjuársins, að viku liðinni hefst nýtt kirkjuár, nýtt upphaf, nýr tími. Í dag eru því viss sögulok þeirrar sögu sem hófst á aðventu fyrir ári síðan.
Já, það eru tímamót í kirkjunni og á tímamótum er hverri manneskju bæði ljúft og skylt að þakka, þakka í auðmýkt og af lítillæti allt það sem við höfum þegið og notið úr hendi Guðs föður. Vissulega dynja á okkur flestum áföllin líka, sorgin sækir að, missir og vonbrigði. En við megum ekki heldur gleyma því nokkra stund að Guð er með okkur í blíðu og stríðu. Hann er ekki bara þar sem allt leikur í lyndi, hann er ekki síður þar sem við sitjum í sorg og söknuði til að blása nýrri von í brostin og vonlítinn hug.
Þetta kirkjuár sem nú er senn á enda runnið hófum við með von í brjósti, í þrá og bæn um að komandi tímar myndu veita okkur blessun. Við hófum gönguna með þann förunaut við hlið sem kirkjan tilbiður, góðan Guð. Við vorum jafnframt næsta viss um það að þessi förunautur okkar myndi hafa á okkur gætur, gleðjast yfir því sem við myndum vel sinna en hryggjast yfir þeim vanhugsuðu gjörðum og orðum sem okkur yrði á að fremja og segja. Við máttum vita að við erum undir smásjá hans hvert og eitt, yfir okkur er vökult auga hans yfir því hvernig okkur tekst að rækja hlutverk okkar sem kristnar manneskjur. Við höfum þennan tíma verið að skrifa okkar eigin sögu og við sögulokin eigum við í vændum dóm hans um það hvernig okkur tókst til.
Um það fjallar í raun guðspjall þessa síðasta sunnudags kirkjuársins, um dóminn, um þann vitnisburð sem við fáum sem manneskjur, um það með hvaða augum Guð lítur atferli okkar. Höfum við lifað í vitneskju þess að Jesús er okkur nálægur? Það er sú spurning sem hver hlýtur að spyrja sjálfan sig. En von og gleði þess guðspjalls sem tilheyrir þessum degi eru einmitt orð Jesú er hann segir:
„Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim sem sendi mig, hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms, heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins“.Þannig er boðskapur þessarar trúarsögu. Sá sem heyrir, hlýðir og trúir kemur ekki til dóms þ.e. geldur ekki þess dóms sem felldur kann að verða. Þótt hér sé fjallað um dóminn þá megum við treysta því að dómarinn er réttlátur og réttlátur dómari fellur réttlátan dóm. Í því er vonin okkar fólgin að við erum falin náð hins réttláta dómara og megum treysta því að hann er ekki einasta réttlátur heldur góður, nærgætinn og fyrirgefur þeim sem iðrast.
Þar með er þó ekki sagt að við getum gengið að því sem vísu að hljóta alltaf réttlátan dóm. Við eigum ekki réttláta heimtingu á neinu. Því aðeins að við lifum lífi okkar af ábyrgð og heiðarleik, af trúarþeli og í lífandi vitund þess að við erum þjónar Guðs þá eigum við von um mildan dóm, náð Guðs og umhyggju hans. En í okkur býr svo oft þessi miskunnarlausi hroki, dómharka gagnvart öðrum og öðru. Við sjálf erum oft harðir dómarar um aðra, sérstaklega þegar okkur finnst á okkur hallað. Og þá er fátt heilagt. Skoðanaskipti milli fólks mótast oft af óbilgirni og því að virða ekki skoðanir annarra. Hörð orðræða getur sært og bakað öðrum hugarangur. Við erum dómhörð kynslóð og finnst það nokkuð góður kostur ef við getum svínbeygt andstæðing okkar í orðræðu og jafnvel lítillækkað. Það kann að vekja hrifningu um stund en það er ekki stórmannlegt. Því ættum við að gæta vel að því sem við segjum, að við völdum ekki öðrum óþarfa angri því við erum sjálf dæmd með þeirri mælistiku sem við dæmum sjálf.
Aðmýkt og iðrun þykja kannski ekki neitt sérstaklega fín orð nú til dags. En ef við viljum standa undir miskunnsömum dómi Guðs þá þurfum við að temja okkur það að ganga fram í auðmýkt gagnvart Guði og lögmáli hans, ekki í blindri þjónkun, heldur í ljúfri auðmýkt því það sýnir styrkleika manneskjunnar en ekki veikleika. Og við þurfum líka að læra að iðrast, temja okkur að viðurkenna þau mistök sem við kunnum að gera. Við þurfum að muna að taka tillit til viðhorfa, skoðana og lífskjara annars fólks.
Lífi okkar er stundum líkt við veislu og veisluföngin í okkar heimshluta eru ekki af skornum skammti. Í auðmýktinni felst að við gerum okkur grein fyrir þeim harða veruleika að víða í veröld okkar eru veisluföngin ónóg og baráttan um brauðið er hörð. Sem ráðsmenn Guð í þessari veröld ber okkur skylda til að miðla þeim sem við skortinn búa af ofgnótt okkar. Margir gera slíkt af miklum rausnarskap, af trú og hugsjón og telja það sem betur fer hluta af lífssýn sinni og trúarvitund. Hófsemi og nægjusemi eru dyggðir í veröld sem hefur takmörkuð gæði.
Það líður að kaflaskilum. Senn er kirkjuár að baki og við kveðjum það í þökk og kannski með söknuði. Þar með verða kaflaskipti í þeirri eilífu sögu sem ævin okkar og tilveran öll er. En innan skamms rennur nýtt kirkjuár upp. Það ár er enn óskrifuð saga að mestu. Við göngum til þess með samblandi af kvíða og tilhlökkun. En umfram allt með von í hjarta um að Guð muni áfram fylgja okkur til að veita okkur aðstoð og hjálp við að ráða gátur lífsins. Sú saga sem hefst að viku liðinni er eins og þessi sem senn lýkur. Við þekkjum endinn, sögulokin í árslok, en við þekkjum ekki þá atburði sem leiða að þeim endi. Sögulokin verða þá sem nú að Guð fyrir dauða og upprisu Jesú Krists leyfir okkur að stíga frá dauðanum og dauðans dökku myndum yfir til lífsins, að sú manneskja sem hlustar á vitnisburð Guðs um soninn sem á jólum fæðist og hlýðir honum kemur ekki til dóms heldur hafi eilíft líf. Það er fagnaðarerindi trúar okkar þegar sögu lýkur og önnur hefst.
Er ekki andsvar okkar við því að hlýða og þakka? Er það ekki góð byrjun nýrrar sögu að temja sér auðmýkt og lítillæti, einsetja sér að þakka gjafir Guðs, kenna börnum okkar að temja sér þakklátan hug? Framundan er góður tími, aðventa og svo hátíð jólanna. Þetta er tími til að gleðjast saman, dýrmæt stund til að sinna trúarlega uppbyggilegum verkefnum sem gera umhverfi okkar og líf örlítið ánægjulegra. Við skulum minnast verkefna Hjálparstarfs kirkjunnar og með börnum okkar og fjölskyldum sýna það í verki að við metum og þökkum auðlegð okkar með því að miðla þeim sem minna eiga. Við skulum skrifa sögu okkar með þeim hætti að við getum með stolti og gleði litið til baka og glaðst yfir því að hafa reynst góðar manneskjur í þeirri veröld sem góður Guð gefur okkur að verustað. Guði séu þakkir fyrir liðnar stundir og honum felum við nýtt kirkjuár og biðjum hann að blessa sáningarstarf kirkju hans og ávöxt iðinna handa.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen