Að hafa ekki tíma

Að hafa ekki tíma

Þarna var ekki safnað í hlöður og hlaðið undir sig heldur vann fólk saman að því að gera það besta úr því sem það hafði hverju sinni. Það átti ekki nema hvert annað að og verðmætin þau mestu, fólgin í hverri manneskju sem komst af og til manns og hélt áfram brauðstritinu í sveita síns andlits.

Einn af mínum uppáhalds rithöfundum skilgreinir ástina á þennan hátt að hún er vilji þinn til að útvíkka sjálfan þig í þeim tilgangi önnur persóna vaxi eða þá þú sjálf/sjálfur. Þannig er sönn ást alltaf gagnkvæm og leitar út fyrir sig að einhverju stærra og meira markmiði en því einu að einungis þú hagnist á aðstæðunum hverju sinni.

Ég tók þá ákvörðun í apríl síðastliðnum að taka að mér hlutastarf á Sambýli aldraðra á Grenilundi á Grenivík. Þetta var hugdetta sem ég fékk og ákvað að fylgja henni eftir og hef verið að taka þar kvöldvaktir öðru hvoru og líkar vel.

Það bjó í mér forvitni að kynnast starfi á öldrunarheimili, þar sem ég hef ekki áður unnið slíkt störf að auki sem ég held að það sé okkur öllum holt sem störfum sem prestar vera í þessum veruleika sem tengist ævikvöldinu og lífslokum og þá er ég að tala um allt sem tengist daglegu amstri og umönnun, en ekki bara kaffispjall eða uppistand.

Ég nýt þessara stunda og það hefur komið mér skemmtilega á óvart hvað ég hlakka alltaf til að fara af stað og spjalla við heimilisfólkið og vera því samferða í dagsins önn. Ég vinn á kvöldin og bæði hef ég komið sjálfri mér á óvart ásamt því að hverju verki er tekið með hjartans þakklæti og gleði. Hógværð og auðmýkt er normið, kröfur og tilætlunarsemi eru oftar en ekki víðsfjarri.

Eitt staldra ég þó við og situr í mér, en það er það hve margt af því eldra fólki sem ég hef rætt við talar um hvað við sem yngri erum séum tímabundin. Því fer fjarri að þetta sé sagt af gremju eða særindum heldur hefur mér fundist það vera afsakandi eins og verið sé að taka upp hanskann fyrir okkur tímabundna fólkið sem gefum okkur ekki tíma til að líta upp úr eigin lífi, verkefnum og afþreyingu til að staldra við, hlusta og eiga nærveru með hvort öðru. Þetta er orðið einhvers konar samþykkt staðreynd að við sem erum í annarri – þriðju kynslóð frá þessu fólki, höfum engan tíma.

Tíminn er afstæður eins og við vitum, það hvernig við verjum tímanum okkar er val. Nú ætla ég síst að gera lítið úr því að sum okkar þurfum að vinna mikið til að ná endum saman og svo tekur amstrið við, börnin, uppeldið, lífið og oft og tíðum er lítið eftir þegar þessar dýrmætu auka mínútur fást. Og þetta er ekki sagt til að framkalla samviskubit í hugum fólks.

En það er samt dapurlegur veruleiki að staðan sé þessi, að við séum komin svona fjarri því þegar kynslóðir deildu raunverulega kjörum, líðan, reynslu, nærveru, sorgum og gleði.

Það er einhvern veginn ekki afsakanlegt það, hvernig við höfum ýtt þessum veruleika sem ævikvöldið og lífslokaveruleikinn er inn á stofnanir, út úr almannarýminu, í hendur fagaðila og gefum okkur ekki tíma til að hlusta lengur eftir samansafnaðri reynslu sem býr innan veggja öldrunarheimila landsins.

Ef þú gefur gaum og leggur við hlustir, heyrir þú af börnum sem gengu frá Akureyri ein með skíðin sín upp í Hlíðarfjall og renndu sér svo niður heim að kvöldi, skíðuðu jafnvel yfir mjóan rafmagnsstokk á Gleránni, sem var einmitt glerháll, klofvega á skíðunum, þannig nútímamóðirin hefði misst úr slag hefði hún orðið vitni að slíku. Hvernig fjöldi barna kom saman og skautaði eða sigldi á litlum bátum yfir fjörðinn til að komast á skátafund.

Hvernig vistin í gömlum torfbæ austur í Fnjóskadal gat verið hörð þar sem einfalt gler var í gluggum og fjósið undir baðstofuloftinu yljaði heimilisfólki á köldum vetrarnóttum.

Hvernig ljósið á fífukveiknum lýsti upp takmarkað rými og upp spruttu drauga- og tröllasögur sem lifa með þjóðinni í gegnum þjóðsagnaarfinn.

Hvernig skammdegismyrkrið var samþykkt og enginn þekkti annað og kvartaði ekki yfir því – né löngum köldum vetrum, fólk vissi að þetta kom og þetta fór í eilífri hringrás náttúrunnar.

Hvernig ung stúlka sem átti ekki nema eina brók, læddist út að læk eftir slys til að þrífa sjálf eftir sig, því ekki voru til föt til skiptanna og til að gera mömmu ekki leiða. Hvernig maginn varð aldrei almennilega saddur en þó samt ekki svangur.

Hvernig skólaganga var foréttindi og hugur margra til náms draumur einn en aldrei veruleiki.

Hvernig börn fæddust í þennan heim en einhver dóu og harmur var borinn í hljóði því halda varð áfram lífsbaráttunni og fæða og klæða þau sem lífs voru.

Hvernig skortur nútímans eru alsnægtir fortíðar.

Þarna var ekki safnað í hlöður og hlaðið undir sig heldur vann fólk saman að því að gera það besta úr því sem það hafði hverju sinni. Það átti ekki nema hvert annað að og verðmætin þau mestu, fólgin í hverri manneskju sem komst af og til manns og hélt áfram brauðstritinu í sveita síns andlits.

Þegar ég sit og hlusta á þessa sögur og þessa reynslu finn ég hvernig auðmýktin og þakklætið sprettur fram í hjartanu mínu og ég finn löngun til að gera betur í dag en í gær. Ég finn að sá tími sem ég tek frá til að hlusta og skilja, skilar sé til baka og hlustandi og sögumaður græða báðir.

Ég finn fyrir þakklæti fyrir þetta líf sem þetta aldraða fólk hefur lifað, rutt brautina á undan okkur, oft við erfiðar aðstæður og hörð lífskjör og um leið krefst einskis og sýnir einlægt þakklæti við hvert viðvik sem unnið er.

Í þessum aðstæðum er eins og tíminn verði eilífur og ég fæ litið inn í Guðsríkið, í augu Guðs sem hvíslar að mér að gefa aðeins meira af tímanum mínum, staldra örlítið við, því það er þar sem töfrarnir gerast og verðmætustu gjafirnar verða til. Á þessum stað verður til hinn raunverulegi kærleikur sem leitar út fyrir sig að stærra samhengi lífsins og í þeim aðstæðum vöxum við öll sem manneskjur og hver veit nema við lærum eitt og annað í leiðinni.

Ég ætla að enda þetta á bæn sem ég fékk í hendur í húsvitjun til gamallar konu í Eyjafjarðarsveit um daginn. En hún hefur gefið út ljóðabók sem heitir “Það sem Imba sagði” Ljóð eftir Ingibjörgu Bjarnadóttur. En bænin er lokaljóðið í þessari bók ort af konu sem sýndi mér einnig með nærveru sinni inn í Guðsríkið.

Góður Guð gefi að ég muni alltaf eftir gæðunum sem skapast við það að staldra við, gefa mér tíma og hlusta á reynslu kynslóðanna, því ég veit að þar eru raunverulegar gjafir og sannan kærleik að finna.

Þú einn ert Guð sem átt og þekkir Allt sem er best í mannsins sál. Þitt auglit, Kristur, enginn blekkir. Allra því heyrir bænamál. Ó láttu kærleikslyndir streyma. Ljósið og friðinn okkur geyma.

Amen