Seinna birtist Jesús þeim ellefu þegar þeir sátu til borðs og ávítaði þá fyrir vantrú þeirra og þverúð hjartans, að þeir hefðu ekki trúað þeim er sáu hann upp risinn. Jesús sagði við þá: „Farið út um allan heim og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni. Sá sem trúir og skírist mun hólpinn verða en sá sem trúir ekki mun dæmdur verða. En þessi tákn munu fylgja þeim er trúa: Í mínu nafni munu þeir reka út illa anda, tala nýjum tungum, taka upp höggorma og þó að þeir drekki eitthvað banvænt mun þeim ekki verða meint af. Yfir sjúka munu þeir leggja hendur og þeir verða heilir.“Þegar nú Drottinn Jesús hafði talað við þá var hann upp numinn til himins og settist til hægri handar Guði. Þeir fóru og prédikuðu hvarvetna og Drottinn var í verki með þeim og staðfesti boðun þeirra með táknum sem henni fylgdu.Mark. 16. 14-20
Gleðilega hátíð. Ég þakka elskulegar móttökur hér í Árbæjarkirkju. Ég hef verið hér á vísitasíu, sem er reyndar ljúfasta og ánægjulegasta verkefni mitt í embætti biskups. Það er eftirlitsheimsókn, - svona að „innra eftirlitið“ er komið á svæðið að sjá til þess að kirkjan sé að sinna skyldu sinni. Það er svo margt að gleðjast yfir í söfnuðunum þar sem gott fólk leggur sig fram í þjónustunni við Guð og menn. Ég þakka það að fá að taka þátt í þessari hátíð, og þakka það sem gert er til að prýða stundina á allar lundir, söng Lögreglukórsins – það er auðvitað alveg einstök öryggistilfinning tengd því! Guð blessi ykkur í vandasömum störfum ykkar. Og Sóroptimistaklúbbi Árbæjar þakka ég hans hlut hér í dag og alla þjónustu við kirkjuna. Ég óska prestum og djákna, sóknarnefnd og öllu starfsliði og unnendum Árbæjarkirkju til hamingju með gott safnaðarlíf og starf. Ég þakka það allt sem lagt er að mörkum hins góða samfélags í hverfinu ykkar, að styrkja hin góðu tengsl og þær styrku grunnstoðir sem helst og best stuðlar að góðu mannlífi. Ég þakka þá virðingu og traust sem Árbæjarkirkja nýtur hér í hverfinu. Ég veit að það hvílir á góðu fólki sem leggur sig fram í þjónustunni, Guði sé lof fyrir það! Og það hvílir á gömlum merg, allt frá því er safnaðarstarf hófst hér fyrir meir en 40 árum og séra Guðmundur Þorsteinsson kom hér til þjónustu. Hann var -og er- hinn trausti og ötuli hirðir og leiðtogi, sómi stéttar sinnar og samfélags, hann og þau hjónin bæði nutu þeirrar gæfu að laða aðra til samstarfs og stuðla að samheldni og samhug hinna mörgu. Guð blessi það sáðmannsstarf og þá ávexti sem við njótum svo ríkulega. Og Guð blessi þau sem nú halda uppi þjónustunni hér.
* * *
Það er gott að fagna með ykkur hér á uppstigningardegi. Uppstigningardagur beinir sjónum okkar til himinsins, sem Kristur hvarf til, eins og lýst er í guðspjalli dagsins. Uppstigningardagur er líka dagur aldraðra í kirkjunni, eins konar uppskeruhátíð starfs aldraðra í söfnuðunum. Það er einkar vel til fundið.
Oft er vitnað til danska skáldprestsins og píslarvottsins, Kaj Munk, sem sagði börnin og gamalmennin geta sagt okkur mest um himininn. „Börnin af því að þau eru ný komin þaðan, gamalmennin af því að þau eru rétt ókomin þangað.“
Frásögn uppstigningardags eru vanmegna tilraunir til að tjá mannlegum orðum það að Kristur er alls staðar nálægur. Himinninn er á máli Biblíunnar ekki staður á landakortinu heldur samheiti við Guð. Himinninn er það sem er efst og innst, og umlykur allt, yfir og allt um kring, eins og lífsloftið sjálft.
Þegar Gagarín fór út í geim, fyrsti geimfarinn, þá sagði hann heimkominn að hann hefði ekki séð neinn Guð þarna uppi. Þessu var slegið upp í pressunni í Sovét. Gamall prestur sagði þá: „Sá sem hefur ekki fundið Guð á jörðu mun ekki heldur sjá hann út í geimnum.“
* * *
Landið okkar fagnar vori með fegurstu fyrirheitum um gleði og grósku. Mikið er himininn fagur á vorin, þegar lífið vaknar og litbrigði jarðar og birta himins vekja undrun og gleði í hverri ljósleitinni sál! En það eru því miður fá vormerkin í þjóðlífinu. Öskumökkurinn frá Eyjafjallajökli er eins og mynd af líðan þjóðar sem skelfist hamfarir - af mannavöldum. Umræða dagsins ber vott um vonbrigði, reiði, með ekki alllitlum skammti af hefnigirni, skemmdarfýsn og þórðargleði. Vissulega á að rannsaka allt sem þarf af þeim sem kunna til slíks, og finna það sem saknæmt er og dæma eftir lögum. En „dómstóll götunnar“ er skaðræðisfyrirbæri og nú er hann afkastameiri en nokkru sinni, sem og Gróurnar á hverju leiti. Fátt verður þar til að varpa ljósi yfir flóknar og torskildar aðstæður. Ástæða er til að hafa áhyggjur af fólki, hag og líðan fjölskyldna sem glíma við atvinnuleysi, fátækt, vonleysi og kvíða. Ástæða er til að hafa áhyggjur af heimilum landsins og heilsu þeirra og burðarvirkjum og innviðum samfélagsins. Það er ástæða til að efast um hvort hið „nýja“ Ísland eins og það birtist í blogginu og slúðrinu og fasbókar- fleiprinu sé gott og heilbrigt fyrir börn að alast upp í, þau góðu börn sem okkur ber að reyna að kenna sannar dyggðir og beina hugum þeirra og sálum til birtunnar, til Guðs, að þau gleymi ekki fegurð himinsins og hve Guð er góður og lífið dásamlegt, þrátt fyrir allt.
* * *
Er hægt að sjá Guð?
Lítil stúlka spurði stóra bróður sinn spurningar sem hún hafði lengi brotið heilann um: Nonni, er hægt að sjá Guð?
Nonni hafði ekki mikinn áhuga á heilabrotum systur sinnar, og svaraði henni afundinn: „Nei, heimskingi, Guð er svo langt uppi í himnum að það er engin leið að sjá hann.“
En sú litla var ekki ánægð með svarið. Og skömmu síðar spurði hún mömmu sína: „Mamma, er hægt að sjá Guð? Mamma svaraði eins heiðarlega og hún gat: Nei, elskan mín, Guð er kærleikurinn sem býr í hjarta þínu, þess vegna geturðu ekki séð hann.
Nokkru síðar fékk stúlkan að fara með afa sínum í veiðiferð. Þegar kvöldið kom og sólin settist sátu þau hljóð saman og horfðu á sólarlagið. Stúlkan horfði á afa sinn sem andlit hans var rist hrukkum eftir langt og strangt líf, en lýsti af kyrrð og öryggi. Hún vogaði að spyrja hann: Afi, er hægt að sjá Guð?
Gamli maðurinn sat hljóður um stund. Svo sneri hann sér að litlu stúlkunni og svaraði brosandi: „Veistu, það er nú svo komið að hvert sem ég horfi þá sé ég ekkert nema Guð.“
Svona er það nú þegar fólk venur sig við að horfa í átt til birtunnar og fegurðarinnar í lífinu, venur sig við að líta eftir lífsmörkum frá ósýnilegum Guði. Þá sér það að himinninn er opinn og englar Guðs eru í nánd, og Guð er yfir og allt um kring með eilífri blessun sinni.
Þekktur raunvísindamaður flutti einu sinni ræðu þar sem hann ræddi trú og vísindi. Sagðist ekki vera trúmaður, en eina sönnun hefði hann fyrir tilvist Guðs. Hún er sú að konur fara almennt úr barneign upp úr fimmtugu, og þar urðu til ömmur!
Já, Guði sé lof fyrir ömmurnar! Ég er hræddur um að þjóðfélagslegt gildi þeirra sé hvergi skráð inn í vísitölur og ekki vegur það þungt í tölum um þjóðarframleiðslu. Og er það enn eitt dæmið um það hversu gjörsamlega ónýtir þeir mælikvarðar þeir í raun eru. Það sem ömmurnar láta í té, - já, og afarnir líka, ekki má gleyma þeim - ! það er ómetanlegt. Vegna þess að iðulega eiga þau það dýrmætasta alls, tímann og sálarró, tímann fyrir aðra, gæðastundir fyrir ástvini, börnin, og sálarró sem lætur ekki ys og ærustu dagsins rýma burt því sem máli skiptir.
* * *
Manneskjan er söm við sig, og í innsta grunni sálar og hjarta er þrá, löngun, von, sem Guð einn fær fyllt og fullnægt. Manneskjan er að leita að fótfestu, hún er að þreifa út í þessa þoku og myrkur sem við erum öll umvafin. Mannsins sál er að leita fullnægju á þeirri þörf, sem er dýpst í okkur öllum, að fá þeirri lífsnauðsyn fullnægt að eiga grunntraust, að eiga tiltrú til lífsins, tilverunnar. Grunntraustið er frumlægasta þörf hver mannsbarns. Hvert barn er fætt með þessu trausti, þessari tiltrú, þeirri vitund, að í þessari óskiljanlegu veröld, sem það er komið í, bíður móðurfaðmur og móðurbrjóst, kærleikur. Er það ekki þetta sem Jesús er að tala um þegar hann segir: „Nema þér verðið eins og börnin komist þér alls ekki í himnaríki“ ?
Hvert barn opinberar til lífsins algert traust til tilverunnar, tilveran er eitt bros og við brosum á móti, hún er ekkert nema hlý heiðríkja og við heilsum henni með sömu fölskvalausu heiðríkju. En svo erum við innan skamms farin að efast. Syndafallssagan í Biblíunni er einmitt að segja þetta, þegar traustið víkur og efinn sest að: Það er ekki allt óhult og öruggt, allt í einu er maður farinn að heimta, og við fáum ekki það sem við viljum, - allt í einu farin að vantreysta heiminum, lífinu og jafnfram að krefjast fullnægju af veraldlegum hlutum og jarðnesku lífi, sem það er aldrei fært um að veita. Þessi krafa er í nútímanum vaxin út yfir öll takmörk og það veldur ómældum áföllum og böli.
* * *
Í landinu helga er sagt að sjá megi staðinn þar sem Kristur steig upp til himna. Í kirkju einni þar má líta klett og í hann markað fótspor. Helgisögnin segir það vera spor Krists. Þegar hann hvarf sjónum lærisveina sinna hafi hann skilið eftir spor sitt á jörðunni. Það er víst áreiðanlegt, hann hefur skilið eftir fótspor. En ekki markað í stein. Fótspor hans má víða sjá um heim allan. Þau eru djúpt mörkuð í vitund og sögu og menningu og reynslu mannkynsins. Bænin og trúin, samfélag við skírnina og altarið, og mildin og miskunnsemin á vettvangi dagsins, það eru fótspor Krists okkar á meðal. það eru staðir sem ætlað er að spegla himininn. Og viðmót manns, orð og verk í heiminum, í hversdeginum, á með einhverju móti að bera birtu af ljósi himnanna. Guði sé lof fyrir slíkar manneskur, staði og stundir.
Hvar er annars Guð? Hvar býr Guð? Til er gömul saga um öldung einn sem kom þar að sem fræðimenn voru að ræða eilífðarmálin. Og hann spurði upp úr eins manns hljóði: „Hvar býr Guð?“ Og þeir hlógu að honum og sögðu:„Nú, hvað meinarðu maður, Guð er alls staðar, er ekki öll jörðin full af hans dýrð?“ En gamli maðurinn svaraði sjálfum sér: „Guð býr þar sem honum er boðið inn.“
Bæn er að bjóða Guði inn, inn til sín. Árbæjarkirkja er viðleitni til að bjóða Guði inn, inn í líf þessa samfélags, bæn, boðun og þjónusta kirkjunnar er að bjóða Guði inn, bæn um blessun hans inn í þetta samfélag, sérhvert hús og hjarta hér. Sérhver bæn, þó hún sé beðin í hljóði, er að bjóða Guði inn til sín. Guð blessi það allt og helgi himni sínum hverja bæn, hverja von, barnsins trú.