Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim sem sendimig hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sú stund kemur og er þegar komin að hinir dauðu munu heyra raust Guðs sonarins og þeir sem heyra munu lifa. Eins og faðirinn hefur líf í sjálfum sér þannig hefur hann og veitt syninum að hafa líf í sjálfum sér. Og hann hefur veitt honum vald til að halda dóm því að hann er Mannssonur. Jóh. 5.24-27
Kæri söfnuður, í dag er síðasti sunnudagur kirkjuársins, stundum kallaður dóms-sunnudagurinn, enda fjalla textar dagsins um hinn hinsta dóm. Í dag erum við rækilega minnt á grein postulegu trúarjátningarinnar okkar þar sem segir um hinn upprisna, sem situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs að hann muni þaðan koma að dæma lifendur og dauða.
Heimsslitakenningar eru margar og margvíslegar og hafa verið til á öllum öldum. Um daginn sá ég í blöðunum umfjöllun um eina slíka, en hún á að verða að veruleika 2012. Ég man þegar ég var 10 ára, þá átti að koma heimsendir samkvæmt kokkabókum Votta Jehova ef ég man rétt, og ég man hvað mikið var talað um þetta, sem kveikti ugg og ótta í brjósti barnsins, - enda varar Jesús við þessum vangaveltum og segir mjög skýrt, að um þann dag eða stund viti enginn –
En Jesús undirstrikar samt mjög ákveðið í ræðum sínum, að himin og jörð muni líða undir lok < ,="" og="" bætir="" við="" í="" því="" sambandi,="">en orð mín munu alls ekki undir lok líða.
Í þessu sambandi er gott að gera sér grein fyrir því tímahugtaki sem kristnin hefur ávallt gengið út frá, en það er línan, línan hefst á ákveðnum púnkti og endar á ákveðnum púnkti. Í upphafi skapaði Guð og lífið á jörðinni tók að þróast. Sumt skiljum við annað skiljum við takmarkað eða jafnvel alls ekki neitt.
En við höfum yfirlit yfir söguna eins langt og unnt er, en saga þessa tíma alls er mjög margslungin, hún er í senn falleg, yndisleg en einnig dapurleg og oft ljót. Það gengur mikið á í náttúrunni, náttúruhamfarir hér á jörð og úti í himingeymnum, stjörnur splundrast, rekast á, það verða einskonar heimsslit aftur og aftur í veröldinni, eða þannig getum við upplifað það. Já jafnvel í lífi einstaklinga og þjóða geta orðið slíkar hamfarir í styrjöldum, vegna ofbeldis á heimilum eða annars, að viðkomandi líti svo á að nú sé allt búið, grundvöllur tilverunnar brostinn fyrir fullt og allt. Svo þung geta áföll lífsins orðið, líka í dag. Já, þannig getur einstaklingum og fjölskyldum liðið við ákveðnar aðstæður allt í kring um okkur, kannski þekkjum við þessa tilfinningu sjálf.
Allt gerist þetta á þessari tímalínu, sem ég var að tala um, við erum á leið eftir þessari vegferð, - Hún getur verið, eins og ég sagði í senn mjög ljúf, hamingjusöm, en einnig hlaðin þjáningu og sorg. Fæðing, líf og dauði. Kynslóðir koma og kynslóðir fara. Inn á þessa tímalínu koma síðan hjálpræðisaðgerðir Guðs, um það vitna hinar helgu ritningar. Guð kallar spámenn til að boða mannkyni fagnaðarboðskap, sem vissulega fékk að heyrast í aldanna rás, og í fylling tímans varð Guðs orðið hold í Jesú Kristi og bjó með oss fullur náðar og sannleika, eins og segir í Jólaguðspjalli Jóhannesar, - sannur maður um leið og hann var sannur Guð. Þetta inngrip í sögu aldanna var svo afgerandi að tímatal okkar er miðað við það, fyrir og eftir Krist.
Vissulega sýnist sitt hverjum, eins og sagan ber með sér. Það verða til kenningar, fræði sem menn takast á um, það verða til kirkjudeildir, hreyfingar sem leggja áherslu á eitt og annað í trúarefnum, - en mér hefur alltaf þótt góð athugasemd Páls postula þegar hann segir um flokkadrættina: Það er sama hvernig Kristur er boðaður, bara að hann sé boðaður. Þá á hann við, að það sem Kristur segir og gerir, það stendur og er lífgefandi í orðsins fyllstu merkingu. Hvað segir ekki í guðspjalli dagsins:
Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim sem sendi mig (þ.e.a.s. GUÐI) hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms, heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins
- Hvorki meira né minna! Þetta er það fagnaðarerindi sem við megum halda dauðahaldi í á hverju sem gengur í þessu lífi. Eins og faðirinn hefur líf í sjálfum sér, þannig hefur hann og veitt syninum að hafa líf í sjálfum sér. Hann hefur veitt honum vald til að halda dóm, því að hann er Mannssonur. Á þessum grundvelli segir Jesús sjálfur við lærisveina sína eftir upprisuna:
Allt vald er mér gefið á himni og jörðu, farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá og kennið þeim að halda allt það sem ég hefi boðið yður og sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar. Matt.28:19
Veröldin endar, tímalínan endar í ákveðnum punkti, þegar Dagur Drottins rennur upp, en það gerist ekki án vitundar hins upprisna, nálæga frelsara, sem hefur hlotið hið æðsta dómsvald. Einmitt þessi trú og von kristinna manna frá fyrstu dögum kirkjunnar hefur gert þennan hinsta dóm gleðilegan. Jafnvel þótt þessi dagur verði ógnvænlegur, þá fylgir honum fyrirheiti, eins og Pétur lýsir í bréfi sínu Þá munu himnarnir leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita. En eftir fyrirheiti hans væntum við nýs himins og nýrrar jarðara þar sem réttlæti býr. Þannig leit frumkirkjan á þessa hluti.
Þó margt hafi gerst síðan og þótt hægt sé að velta þessu fyrir sér á alla lund, þá er svo öruggt og gott að treysta orðum Jesú Krists og hvíla í þeim. Eins og þessum orðum hans: Verið í mér, þá verð ég einnig í yður! Manni endist vart lífið til að íhuga þessa einu setningu, - svo djúp er hún. Að vera í Kristi er að taka á móti öllu því sem hann vill gefa okkur, fyrirgefningu, sátt, kærleika, réttlæti, sannleika, gleði. Að vera í Kristi er að ganga í lið með Lífinu með stórum staf. Þetta útlistar Páll postuli svo vel í Kólossubréfinu:
Látið frið Krists ríkja í hjörtum ykkar því að Guð kallaði ykkur til að lifa saman í friði sem limi í einum líkama. Kól 3:15Við höfum frjálsan vilja, við getum valið hvað fer inn og út úr hjarta okkar, - við erum hvött til þess að hafna hinu illa en velja hið góða í öllu lífi og starfi, - velja frið Krists, friðinn sem er æðri öllum skilningi, en sem gefur okkur jafanvægi, sem leiðir okkur hinn rétta veg og hjálpar okkur að lifa saman í líkama Krists hér á jörð, sem er líkingamál um kirkjuna. Kirkjan er líkami Krists og okkur er treyst til að iðka kærleiksþjónustu hans í þessum heimi, ekki í eigin krafti, heldur fyrir kraft Guðs heilaga anda. Stundum er sagt: Guð á engar aðrar hendur en hendurnar okkar, engar aðrar fætur, enga aðra tungu.... Ábyrgðin er mikil.
Líkami Krists hér á jörðu er samt oft illa útlítandi, hrjáður, sleginn og sár. Þekktur þýskur guðfræðingur hefur sagt:
Ein mynd af kirkju Krists í heiminum er myndin af Golgatahæð, Jesú á krossinum ásamt tveimur ræningjum. Mynd þjáningar, en vissulega einning mynd sigurs, þegar Kristur segir: Það er fullkomnað! Hann var að fullna skeiðið, hann var að opna himin Guðs - Hvað sagði hann ekki við ræningjann, sem bað um fyrirgefningu og náð, - Í dag skaltu vera með mér í himnaríkiVið kunnum ekki alltaf að láta okkur koma saman, við hrösum, okkur mistekst, missum marks, föllum, - við erum langt því frá að vera fullkomin. En þá megum við koma saman, eins og við gerum hér í dag, í samfélagi kirkjunnar, til að uppörfast í Guðs heilaga orði, biðja saman, leyfa hinum upprisna að snerta okkur í orðinu í sakramentinu í bæninni, þiggja fyrirgefninguna, lausnaroðin, og biðja hann um náð til þess að við lærum betur og betur að lifa saman sem kirkja, sem líkami hans hér á jörð. Við þurfum uppörfun, uppörfun í orðinu og samfélaginu, já með því að uppörfa hvert annað, styrkja hvert annað og vera salt og ljós í þessum heimi allt til enda. Dómur Guðs er vissulega dauðans alvara, en Guðssorðið í dag bendir á leið lífsins með Kristi, en í honum og með honum þá höfum við stigið yfir frá dauðanum til lífsins hér og nú. Og þótt líf okkar fjari út hér á jörð, eða beri skyndilega að, þá megum við lifa með og í Kristi bæði hér og eftir okkar líkamlega dauða. Í því felst trúin, vonin, friðurinn og gleðin. Vissulega er þetta leyndardómur, en við megum hvíla í þessum leyndardómi með kynslóðunum á öllum öldum fyrir og eftir Krist. Til þess hjálpi okkur góður Guð.
Dýrð sé Guði föður syni og heil. anda svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.