Hólahátíð er í dag og hugur leitar norður. Minnistæða sögu las ég fyrir löngu í Kirkjuritinu, riti Prestafélags Íslands. Raunar kom sagan fyrir á tveimur stöðum í því góða riti. Að gefnu tilefni dagsins segi ég þessa sögu og hún er eins og allar góðar sögur með bónus, inntaksefni til íhugunar.
Gamall biskup var að deyja. Í frásögur var fært að hann var í Laukagarðinum á Hólum í Hjaltadal. Að hann var þar en ekki í húsi tjáir okkur að dauðinn hafi komið að óvörum. Hinn aldni kirkjuhöfðingi leið útaf þar í matjurta- og nytjajurtagarðinum. Innan stundar var hann örendur. Áður en hann var allur, bærðust varir hans og þeir, er næstir stóðu og lutu niður, heyrðu andvarp hans. Það sem hann sagði greinilega var: „Kirkjan mín, Drottinn minn, kirkjan mín, Drottinn minn.“ Þessum orðum var ekki slengt fram í hálfkæringi. Þau blönduðust eins og kveinstafir saman í einu augnabliki og brutust út sem hróp á þeirri stund sem skildi milli lífs og dauða, heims og himins. Orðin hafa borist yfir margra alda haf - víst einu orðin sem lifðu af vörum biskupsins fyrir norðan: „Kirkjan mín Drottinn minn, kirkjan mín, Drottinn minn.“ Var þetta lofsöngur eða orð vonbrigða, fyrirbæn eða sjálfsásökun? Þeir áttu einir niðurstöðuna, biskupinn og Guð.
Kannski verður ekki frekar en þá ráðið í hver merkingin var og hver örlög eða skikkan bíður kirkjunnar. Allir þjónar hennar hafa einhvern tíma andvarpað, yfir eigin þjónustu, yfir aðstæðum, yfir vonbrigðum. Hver er kirkjan, hvað verður hún, hvernig er varið málefnum fólks og velferð, er réttlætinu þjónað, friðnum og gleðinni? Er kirkjan í bullandi afneitun, blind og heyrnarlaus? Eða er kirkjan á ferð um lífið með sigursöng gæsku og góðsemi, á leið til himins í fullvaxta trú?
Kirkjan og sr. Heimir Sá merki skáldprestur Heimir Steinsson þekkti söguna um biskupinn í laukagarðinum enda afar sögufróður. Mér er minnisstætt þegar hann fór til starfa í Ríkisútvarpinu. Eitt haustkvöld árið 1991 kom hann austur að Þingvöllum til að ná í gögn og dót, sem hann átti eftir í Þingvallabæ. Dimmt var úti og útiljós böðuðu Þingvallakirkju. Heimir var á leið út í bíl til að fara þegar hann sá kirkjuna baðaða flóðljósum, lýsandi djásn í hraglanda næturinnar. Þá kom frá honum þessi aldna yrðing Hólabiskupsins: Kirkjan mín, Drottinn minn.” Og hann stundi aftur: “Kirkjan mín Drottinn minn.” Svo horfði hann til mín, fór í bílinn og hélt sína leið. Aldrei höfðum við talað um söguna eða þessa setningu og aldrei skýrði hann fyrir mér hvað hann átti við. En ég hafði á tilfinningunni að hann hefði verið á leið niður til Jeríkó í sínu lífi. Enda kom hann aftur og dó í þjónustu helgidómsins á Þingvöllum og í kirkjulegri þjónustu við fólk.
Í dag, á Hólahátíð er spurt um kirkjuna. Á þessum sunnudegi, þeim þrettánda eftir þrenningarhátíð er spurt um mennskuna og tengsl fólks. Þar er merkileg tvenna, sem kristin maður hlýtur alltaf að tengja.
Jerúsalem – Jeríkó Vegurinn frá Jerúsalem var rykugur, gulur, eins og yfirlýst mynd. Hann var fáfarinn og beinlínis hættulegur. Það voru hugaðir menn sem fóru leiðina einir, því ræningjar áttu griðland í eyðimörkinni. Þeir komu og fóru með skyndingu. Þetta vissi fólk vel. En ferðalangurinn í dæmisögu Jesú var samt einn á ferð niður gil og skorninga í átt til Jeríkó, niður í dalinn við ána Jórdan. Skyndilega voru ræningjarnir komnir og umkringdu hann, slitu af honum klæði og fjármuni, börðu, stungu og skildu eftir við vegarkantinn. Hrægammarnir hnituðu hringa hátt í lofti og hlökkuðu yfir bráð sinni. Það var þó bið á að þeir steyptu sér.
Prestur musterisins í Jerúsalem var á ferð á annexíuna í Jeríkó. En hann fór hratt hjá hinum særða manni og sinnti ekki kalli til miskunnarverks. Skóhljóð að nýju og vonir kviknuðu. Það var levítinn, sem einnig var kunnur fyrir guðsþjónustuhald sitt. En einnig hann var á hraðferð. Síðast kom Samverji, sem var annars flokks borgari í löndum Gyðinga, eiginlega útlendingur. Það var hann, sem stöðvaði asnann sinn og vann líknarverkið, batt um sárin, gaf manninum að drekka og reiddi hann til læknandi manna. Hinum slasaða var borgið frá fullkominni niðurlægingu, fyrst fyrir glæpamönnum, síðan fulltrúum hins opinbera átrúnaðar, og síðast ránsskepnum næturinnar.
Elskan - en hvernig? Þetta er mögnuð saga, sem Jesús sagði til að kenna guðfræðingi list trúarinnar. Spyrjandinn frómi vildi kanna skoðanir Jesú og spurði hinnar sístæðu spurningar: „Hvað á ég að gera til að öðlast eilíft líf?“ Jesús þekkti bæði spurninguna og svör fræðinganna. Hann vissi vel að hornsteinn í trúarhugsun Gyðinga var hið fornkveðna: Elska til Guðs og elskan til náungans. En hvað merkir að elska Guð og elska náungann? Svörin voru mörg og lagabálkar fræðinganna skýrir. Jesús vildi benda á aðalatriðið og sagði þessa snilldarsögu í þeim tilgangi.
Allir vissu, að vegurinn til Jeríkó var óhappavegur. Ræningjar tóku sína tolla og engum lögum varð komið yfir þessi börn eyðimerkurinnar. En prestarnir, þjónar musteranna, urðu að fara til Jeríkó. Þeir bjuggu við vaktkerfi og urðu að fara til musterisins þar neðra til þjónustu. Jesús þekkti líka reglurnar, sem prestarnir urðu að lúta. Þeir máttu t.a.m. ekki snerta lík né heldur dauðvona menn til að saurgast ekki. Og hann setur saman söguna í skyndi og sem fullkomið svar einnig.
Guðfræðingurinn spyr: Hvað á ég að gera til að öðlast eilíft líf?“ Hann þekkti hvernig átti að svara spurningunni. En Jesúsagan opinberaði honum veikleika kenningarinnar. Auðvitað hafði hann sjálfur farið Jeríkóleiðina. Hann þekkti óttann við ræningjana og skildi því sneiðina. Áherslan á hreinlæti var lofleg og skiljanlegt, að menn ættu að forðast smit og að útbreiða það. En reglurnar um helgihald og um afskipti – eða kannski fremur um afskiptaleysi presta gagnvart sjúkum voru til að hefta ferðalanga við að liðsinna manni í lífsháska. Regludýrkun getur orðið þjónn dauðans. Guðsdýrkun samtíðarinnar var gömmunum hin besta hjálp. Og prestarnir héldu áfram að stika niður til Jeríkó með spurn í hug. „Hvernig á ég að lifa til að öðlast eilíft líf?“ En maðurinn lá við vegarbrún. Svar var innan seilingar en hægt er að týna sjálfum sér í formlegu helgihaldi og heyra ekki lengur kall Guðs.
Trú sem heyrir vein Spurningar um eilíft líf eru frómar og góðar, en svör verða að vera þannig, að sjúkir líði ekki fyrir heldur hljóti hjálp og líkn. Það, sem Jesús stingur á, er hneigð okkar að reyna að bjarga okkur á kostnað samferðarmanna. Það er eigingjörn afstaða, sem eflir menn á himinferðinni en heyrir engin hróp við veginn. Trúarlíf, kirkjulíf, guðsdýrkun er ekki til, ef náunginn gleymist, fagrir helgisiðir eru flótti, ef menn deyja við heimreiðar kirkna. Guðsdýrkun kemur fram í hvernig þjónustan við sjúklinga og smælingja þessarar jarðar er. Allir munu geta samþykkt þetta. Guðfræðingurinn skildi sögu Jesú. En boð Jesú er skýrt. „Far þú og gjör slíkt hið sama…. bjarga öllum þeim sem gammarnir hlakka yfir. …“
Þar eru vatnaskilin. Það er hægt að skilja þessa táknsögu, og það er hægt að dást að snilld Jesú og hittni. En heyrum við, heyrir kirkjan í hinum smáu og hrjáðu við veginn, heyrir hún köllin en fer ekki til að líkna? Erum við nægilega vakandi þegar þjáning manna blasir við okkur?
Eigum við annríkt og drífum okkur til hlutverka okkar, sem meina okkur að líkna? Er kirkjan í framvarðarsveit í réttlætismálum þessa heims? Þurrkar hún tárin af hvörmum hinna hungruðu og hrelldu? Skellir hún um koll þeim sem eru blóðsugur samfélagsins? Sinnir hún sínu eina starfi að efla vegsemd Guðs? Veitir hún lífi inn í fúkkaskot þar sem ekkert líf hefur lengi komist að? Eru allir kórmeðlimir, sóknarnefndarmenn, djáknar, kirkjuverðir og prestar gneistandi af áhuga og starfsgleði?
Við erum kirkja, fjölskylda Guðs. Okkur er falið mikið mál í þessum heimi. Okkur er falið að bera fréttir til manna um að þessi heimur er ekki leiksoppur grimmra örlaga, heldur í góðum höndum. Okkur er falið að fara vel með þennan dýrgrip sem heitir kirkja. Okkur er falið að feta í fótspor hans, sem var hinn eini miskunnsami Samverji, sem kom í heim manna til að líkna og lækna algerlega. Menn, sem eiga slíkan skilning vita, að kirkjulíf er ekki hálfvelgja, heldur er um líf og dauða að tefla.
Kirkjan sem vakir Kirkjan mín, Drottinn minn. Kristnin hefur lifað í heiminum í tvö þúsund ár. Íslensk kirkja hefur lifað meira en þúsund. Kirkjan hefur aldrei í sögunni haft meira fé og fólk, möguleika og aðstæður til góðs og guðsþjónustu. Við þurfum að gaumgæfa hlutverk kirkjunnar og þjónustu hvers einstaklings. Til okkar er gerð sú krafa, að við spyrjum líka hinna óþægilegu spurninga, því aðeins þannig getur kirkjan lifað til að þjóna.
Saga Jesú sem spegill þinn Hvernig get ég öðlast eilíft líf? Guðspjall dagsins á erindi við þig, sem tekur þátt í þessari messu, hvaða hlutverki sem þú þjónar. Þig, sem syngur, sem þjónar við altari, sem átt heima hér í Vesturbænum eða einhvers staðar annars staðar í veröldinni. Jesús segir þér sögu til að gefa þér spegil að spegla og skoða þig í. Er líf þitt hraðferð til einhvers áfangastaðar Jeríkó, til að ljúka verkunum þar, áfangastaðar sem hét Jeríkó í sögu Jesú en getur verið eitthvað íslenskt nafn, eða London eða Rio? Heyrir þú veinin, sérðu sárin, veistu af ræningjunum og flýtir þú þér? Er þín ferð inn í eilífðina svo hröð, að þú hefur ekki tíma til að hlúa að lífinu? Það er þetta, sem Jesús vill fá okkur til að hugsa um.
„Kirkjan mín, Drottinn minn, Kirkjan mín, Drottinn minn“ stundi biskupinn á Hólum. Við mættum gjarnan sammælast biskupnum og spyrja okkur um þennan söfnuð, þennan kór, þessa þjónustu, kirkjuna, þjóðkirkjuna og þig. Jesús vill, að kirkjan hans sé á lífi og án afneitunar, starfandi og iðandi af trúmönnum á vegum heimsbyggðar, líknandi og læknandi, ein mikil hreyfing manna, sem lært hafa, að guðstrú er þjónusta við menn. Í lok guðspjallsins segir Jesús: Far þú…. og gjör slíkt hið sama…. Þjónusta við Guð og þjónusta við menn, það er sameiginlegt hlutverk þitt og mitt - okkar allra.
Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda. Amen.
Prédikun í Neskirkju 13. eftir þrenningarhátíð, 17. ágúst 2008. Lexía: 1Mós 4.3-16a Einhverju sinni færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar. Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og feiti þeirra. Drottinn gaf gaum að Abel og fórn hans en leit ekki við Kain og fórn hans. Þá reiddist Kain mjög og varð þungur á brún. Drottinn sagði við Kain: „Hví reiðist þú og ert þungur á brún? Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt, en gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar? Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni.“
Einhverju sinni færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar. Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og feiti þeirra. Drottinn gaf gaum að Abel og fórn hans en leit ekki við Kain og fórn hans. Þá reiddist Kain mjög og varð þungur á brún. Drottinn sagði við Kain: „Hví reiðist þú og ert þungur á brún? Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt, en gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar? Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni.“Þá sagði Kain við Abel, bróður sinn: „Göngum út á akurinn.“ Og er þeir voru á akrinum réðst Kain á Abel, bróður sinn, og drap hann. Þá sagði Drottinn við Kain: „Hvar er Abel, bróðir þinn?“ Kain svaraði: „Það veit ég ekki. Á ég að gæta bróður míns?“ Drottinn sagði: „Hvað hefurðu gert? Blóð Abels, bróður þíns, hrópar til mín af jörðinni. Þess vegna skaltu vera bölvaður og burtrekinn af jörðinni sem opnað hefur munn sinn og tekið á móti blóði bróður þíns er þú úthelltir. Þegar þú yrkir jörðina skal hún ekki framar gefa þér uppskeru sína. Landflótta og flakkandi skaltu vera á jörðinni.“
Kain sagði við Drottin: „Sekt mín er meiri en svo að ég fái borið hana. Nú hefur þú rekið mig burt af landinu. Ég verð að fela mig fyrir augliti þínu, landflótta og flakkandi um jörðina. Þá getur hver sem finnur mig drepið mig.“ Drottinn sagði við Kain: „Svo skal ekki verða. Hver sem drepur Kain skal sæta sjöfaldri hefnd.“ Og Drottinn setti merki á Kain til þess að enginn sem rækist á hann dræpi hann. Og Kain gekk burt frá augliti Drottins.
Pistill: 1Jóh 4.7-11 Þið elskuðu, elskum hvert annað því að kærleikurinn er frá Guði kominn og hver sem elskar er barn Guðs og þekkir Guð. Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð því að Guð er kærleikur. Í því birtist kærleikur Guðs til okkar að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að hann skyldi veita okkur nýtt líf. Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar. Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað.
Guðspjall: Lúk 10.23-37 Og Jesús sneri sér að lærisveinum sínum og sagði einslega við þá: „Sæl eru þau augu sem sjá það sem þér sjáið. Því að ég segi yður: Margir spámenn og konungar vildu sjá það sem þér sjáið en sáu það ekki og heyra það sem þér heyrið en heyrðu það ekki.“
Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista Jesú og mælti: „Meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“ Jesús sagði við hann: „Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?“ Hann svaraði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Jesús sagði við hann: „Þú svaraðir rétt. Ger þú þetta og þú munt lifa.“ En lögvitringurinn vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: „Hver er þá náungi minn?“
Því svaraði Jesús svo: „Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. Svo vildi til að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn en sveigði fram hjá. Eins kom og Levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá. En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum og er hann sá hann kenndi hann í brjósti um hann, gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meira til skal ég borga þér þegar ég kem aftur. Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni sem féll í hendur ræningjum?“ Hann mælti: „Sá sem miskunnarverkið gerði á honum.“ Jesús sagði þá við hann: „Far þú og ger hið sama.“