Biðjið

Biðjið

[Jesús sagði:] Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita yður. Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið og þér munuð öðlast svo að fögnuður yðar verði fullkominn.

Þetta hef ég sagt yður í líkingum. Sú stund kemur að ég tala ekki framar við yður í líkingum heldur mun ég berum orðum segja yður frá föðurnum. Á þeim degi munuð þér biðja í mínu nafni. Ég segi yður ekki að ég muni biðja föðurinn fyrir yður því sjálfur elskar faðirinn yður þar eð þér hafið elskað mig og trúað að ég sé frá Guði kominn. Ég er kominn í heiminn frá föðurnum. Ég yfirgef heiminn aftur og fer til föðurins.“ Lærisveinar hans sögðu: „Nú talar þú berum orðum og mælir enga líking. Nú vitum við að þú veist allt og þarft eigi að nokkur spyrji þig. Þess vegna trúum við að þú sért frá Guði kominn.“ Jóh. 16.23b-30

Á sama hátt og bænin skipar ríkan og virðulegan sess í trúarlífinu, þá skipar Bænadagur þjóðkirkjunnar mikilvægan sess í kirkjuárinu.

Bænin er afar mikilvægt tæki, ekki síst til að halda eðlilegu og góðu sambandi við Guð. Eins og nýleg dæmi sanna, þá er til fólk sem telur að mótmæli geti skipt sköpum í þjóðfélaginu. Ég er þeirrar skoðunar að bænin sé mun skilvirkara afl og líklegra til að skila árangri heldur en allar mótmælaaðgerðir.

Að öllu jöfnu eru aðilar bænarinnar aðeins tveir: Þú og Guð. Í þessu merkilega sambandi ykkar, þín og Guðs, ert það í raun og veru þú sem ræður hvernig sambandið verður. Guð er þannig að hann hlustar alltaf. Ekkert er of léttvægt eða ómerkilegt til að leggja fram fyrir hann. Hann er til staðar fyrir þig hvar sem er, hvenær sem er og í tengslum við hvað sem er. – Ef þér finnst að þú þurfir að mótmæla Guði, þá er bænin réttur vettvangur fyrir þau mótmæli. – Það kann að vera að þú þurfir að bíða eftir svari við bænum þínum og eins að þú verðir óánægð/óánægður með það svar sem fæst. – Oftar en ekki er því samt þannig varið að Guð svarar á þann hátt að við getum verið glöð – eða að minnsta kosti sátt við svarið. Ég fullyrði að bænin eykur lífsgæði, því að það er óendanlega mikilvægt að geta lagt alla gleði sína og sorg, allar áhyggjur sínar, byrðar lífsins og almenna líðan fram fyrir Guð. Bænarvers sr. Hallgríms, “Bænin má aldrei bresta þig…” sem ég fór með í upphafi prédikunarinnar, hvíslar því samt að mér að sumum fatist í bænalífinu á þann veg að grípa ekki til bænarinnar, fyrr en allt er komið í óefni, eða aðeins þegar stóráföll verða í lífinu, en þá er það oftar en ekki að bænin verður n.k. þrautalykill Guðs að hjarta mannsins. Í dag höfum við tekið okkur sæti í einskonar hring hér í Vídalínskirkju. Reyndar er þessi hringur ekki nema hálfhringur hér í kringum borð Drottins, altarið í kirkjunni, en eitt af verkefnum okkar í dag er að biðja. Við biðjum hvert fyrir öðru, vegna þess að öll erum við bræður og systur í Kristi, sem er í raun og veru mjög merkilegt hlutskipti, því að þetta systkinasamband okkar gerir okkur um leið að kirkju.

Borð Drottins er miðlægt í kirkjunni. Hálfhringurinn þar sem söfnuðurinn situr og er öllum sýnilegur myndar heilan hring ef við hugsum okkur annan hálfhring handan þessa. Í þeim hálfhring sitja Jesús og lærisveinar hans. Brauðið sem við brjótum og sá bikar blessunarinnar sem fram er borinn er framhald af starfi Jesú og lærisveinanna. Þeir eiga sæti gegnt okkur í hinum litúrgíska hring sem ekki er sýnilegur, en við erum samt hluti af.

Það er mikil náð að mega taka sér sæti í þessum hring með systrum og bræðrum á mótsstað hins himneska og hins jarðneska í kirkjunni. Það er einnig mikilvægt hlutverk sem okkur er ætlað. Við eigum að vera farvegur fyrir orð Guðs og breiða héðan út blessunina, því að “guðsþjónustan” fer ekki einungis fram hér í kirkjunni, heldur miklu frekar úti í lífinu, á þeim sviðum sem bænirnar okkar snerta, hvort sem þær varða líf og heilsu, velferð barna og unglinga eða samskipti, - samskiptin í fjölskyldunni, samskiptin í skólanum eða samskiptin á vinnustaðnum.

Það fólk sem að jafnaði biður er líklegt til að biðja ekki einungis í kirkjunni, á meðan á guðsþjónustu stendur, heldur er það líklegt til að eiga sér daglega bænastund og halda góðri reglu á bænalífi sínu, sem væntanlega snertir alla fleti mannlífsins.

Ef ég held áfram með líkinguna af bæninni og mótmælunum, þá kann það að gerast einstöku sinnum að mótmæli opni einhverjar dyr, að þau skili tilteknum árangri, sem þá gjarnan er tímabundinn. Bænin, aftur á móti, er ætíð líkleg til að opna dyr, því að orð Guðs er þeirrar náttúru að snúa ekki aftur fyrr en það hefur komið því til leiðar sem því er ætlað. Jafnframt því sem bænin opnar ótal dyr í lífinu, þá eflist sá sem biður í trú sinni og fyllist von, von sem vakir í hug og hjarta og kveikir í leiðinni elsku til Guðs og náungans. Elskan til Guðs og náungans skapar aftur á móti jafnvægi í lífinu og kallar miklu frekar á þakkargjörð heldur en mótmæli.

Í dag höfum við sem oftar tekið okkur sæti í hinum litúrgíska hring.

Með okkur eru langt að komnir gestir sem við fögnum, en í dag ætlar Rakel María Brynjólfsdóttir, sem búsett er í Namibíu og Hjörtur Páll Hjartar, sem býr í Kaupmannahöfn að játa trú sína og lýsa því yfir að þau ætla að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs síns.

Ég býð ykkur, kæru fermingarbörn, Rakel María og Hjörtur Páll, velkomin hingað til okkar í Vídalínskirkju ásamt fjölskyldum ykkar.

Það er gleðiefni að hafa ykkur með okkur hér í kirkjunni í dag og sú ákvörðun sem þið hafið tekið um að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífs ykkar vekur okkur öllum mikla gleði. Sú ákvörðun undirstrikar að bænin og Guðs orð eru ekki staðbundin fyrirbæri.

Hvar sem við búum og hvert sem við leggjum leið okkar, þá er Drottinn Jesús Kristur með í för og hvort sem við erum stödd í Afríku, Danmörku, á Íslandi eða einhversstaðar annarsstaðar, þá heyrir Jesús Kristur bænirnar okkar, enda er bænin sá samskiptamáti við Guð sem allsstaðar gildir.

Ég vildi að þið hefðuð getað verið með okkur hér í fermingarstarfinu í vetur, en ekki er á allt kosið. Ferming ykkar hér í dag gefur fjölskyldum ykkar og vinum hér heima tækifæri til að gleðjast með ykkur.

Fermingin er stór stund í lífinu. Þið eruð búin að undirbúa þessa stund í allan vetur og vonandi finnið þið og skiljið hversu mikilvæg sú yfirlýsing er sem þið gefið hér í dag. Ég vona að þið tileinkið ykkur orð guðspjallsins sem lesið var hér áðan: “Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita yður. Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið og þér munuð öðlast svo að fögnuður yðar verði fullkominn.” Jóh. 16: 23n. Þessi orð guðspjallsins undirstrika bænarefni bænadagsins um að Guð opni okkur dyr fyrir orð sitt, að trúin eflist, vonin vaki og elskan til Guðs og manna dafni.

Mætti þetta gerast í lífi ykkar, kæru fermingarbörn, sem og í lífi okkar allra.

Mig langar að óska ykkur, Rakel María og Hjörtur Páll og fjölskyldum ykkar innilega til hamingju með þennan mikilvæga áfanga í lífi ykkar. Það er von mín og bæn að þessi dagur eigi eftir að lifa í minningu ykkar sem mikill gleðidagur.

Ég minni aftur á orð Jesú úr guðspjallinu. Það verða lokaorð mín í dag: “Biðjið og þér munuð öðlast svo að fögnuður yðar verði fullkominn.”