Gordjöss

Gordjöss

“Það geta' ekki allir verið gordjöss. Það geta' ekki allir verið töff. Það geta' ekki allir orðið fabjúlöss eins og ég.” Hvernig ríma ljóð Jóhannesar og ljóð Diskóeyjunnar – gordjöss og orðið sem var í upphafi?

Já, jólin eru komin, enn einu sinni. Árlega kemur þessi vinur, staldrar við, hrífur okkur, breytir lífinu – alla vega um stund - minnir okkur á ljósið á myrkasta tíma, gleðina þrátt fyrir dimmuna og undrið sem lyftir okkur upp úr gráma flatneskjunnar. Við þörfnumst jólanna, ekki vegna umbúðanna heldur vegna þess sem jólin boða. Þá verða gjafir, matur, samfélag og fjölskyldur í góðu og réttu samhengi.

Orðið sem kemur til manna Orð guðspjallsins ramma inn það stórkostlega sem gerðist.

“Í upphafi var orðið og orðið var hjá Guði og orðið var Guð. ... Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því."

Þetta eru himnesk orð. Ekki ónytjuorð, engin lygi, ekkert vont, heldur góð orð og til blessunar. Þau eru ekki orð, sem slengt er fram í blekkingarskyni, heldur orð til gæða. Hver er andstæða þessa? Orðleysa, lygi, hið aflagaða og vonda. Jóhannes guðspjallamaður átti í sér skáldataug og setti saman þetta seiðandi ljóð um stórmál lífsins. Það miðlar okkur galdri lífsins, undri veraldar, að þrátt fyrir vitleysur, rugl okkar mannanna skapar Guð lífinu samhengi og tilgang. Merking lífsins fær inntak sitt af því að Guð er merkilegur og gefandi. Maðurinn getur upplifað birtu og tilgang af því að Guð er ljósuppsprettan sjálf. Jóhannesarorðin eru söngur sálarinnar, söngurinn um hvað er til góðs og það samhengi sem orð lífsins kemur.

Fönkóperan Diskóeyjan Þessa aðventu hafa hefðbundnir söngvar hljómað á heimilum, stofnunum og líka í kirkjunni, um kofa í skógi, um héra sem treysti jólasveini, söngvar um Grýlusyni eða Adam sem átti syni sjö. Við, sem erum komin á fullorðinsár, þekkjum flesta söngvana því við sungum þá líka í okkar æsku. En nýir söngvar eru stöðugt að bætast við og breyttir söngvar hljóma líka. Í viðbót við “Adam átti syni sjö” er farið að syngja um að Eva átti dætur sjö. Það er ekki bara sveittur karlahópur Adams sem puðar við sáninguna, heldur birtist kunnáttsamur kvennahópur líka. Svona hefur nú jafnréttisáherslan góð áhrif!

Fátt fer fram hjá eyrum og augum barnanna. Þau læra stöðugt eitthvað nýtt. Á mínu heimili hafa fimm ára drengir mínir lært allt jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum og syngja bálkinn hástöfum. Svo hafa þeir verið að puða við að læra Diskóeyjuna, sérstaklega lag nr. 13 (á plötunni en 7. í textaskránni). Bragi Valdimar Skúlason, sá ljóðlipri baggalútur, setti saman kostulega og vel unna plötu, sem hefur hrifið marga undanfarnar vikur. Páll Óskar syngur eitt lagið, þetta nr. 13 og með miklum bravúr. Þar kemur m.a. þetta: “Ég flottur, ég er frægur, ég er kandís kandífloss.” Textinn heldur áfram í fullkomlega sjálfumglöðum gír: “Og söngröddin er silkimjúk - sjáið bara þennan búk, instant klassík - hér er allt á réttum stað. Ég er fagur, ég er fríður, ég er glamúr gúmmelað.”

Einhver ykkar hafið heyrt þennan köflótta texta. Börnin syngja hátt og með innlifun, unglingarnir dilla sér og þeir eldri hrífast með og syngja:

“Það geta' ekki allir verið gordjöss. Það geta' ekki allir verið töff. Það geta' ekki allir orðið fabjúlöss eins og ég. Það geta' ekki allir verið gordjöss. Það geta' ekki allir meikað' það eins og ég.”

Já, gordjöss, hvað er það? Flott, fallegt, frábært. Textinn rífur í. Söngurinn er slíkur að ekki er annað hægt en að taka eftir. Og kannski er þetta texti, sem er eins og plástur eða samfélagsterapía fyrir þjóð, sem hefur lent í hruni og krassað. Flott þrátt fyrir fárið, fabulöss þrátt fyrir fjármálaóreiðuna, instant klassík, já alla vega í hagfræðibókum heimsins!

Söngurinn hljómar með krafti: “Það geta ekki allir verið gordjöss eins og ég... Það geta ekki allir meikað það eins og ég.” Ég fór að hlusta og greina. Þá kemur í ljós, að textinn tjáir sjálfhverfu. Hann er tjáning þess, sem bara er upptekinn af sjálfum sér – boðskapur sem rímar við sjálfhyggju sem leiddi til hruns - enda er þetta texti sem er fluttur af “vonda kallinum” í fönkóperíu Diskóeyjunnar.

Hvers konar mannsýn? Þessi texti hefur elt mig sem skuggi alla aðventuna. Í meitluðum setningum er dregin upp mynd persónu, sem er full sjálfselsku, mannveru sem er haldin yfirborðslegri lífsafstöðu og setur frægð og eigin hag í forsæti. Þetta er mannsýn sýndarhyggju og efnisdýrkunar, sem er fullkomin andstæða þess sem aðventa og jól boða.

Erindi Guðs í heim Sá sem segir sjálfan sig svo flottan, dúndur, diskó og mikið í sig lagt – er eiginlega andstæða jólabarnsins. Jesús Kristur kom í heim sem var fjarri því að vera dúndur diskó. En það var vissulega mikið í hann lagt, en húð hans var ekki drekkt í Díor eða dress hans óaðfinnanlegt (hvernig svo sem við túlkum vitringana góðu). Gjöfulir textar vekja hugsun – Diskóeyjan opnaði mínar gáttir og vakti spurningar um eðli jólanna, barnið og manninn Jesú. Þar með vaknaði vitund um hvað við erum. Guðspjall jólanna minnir á, að hvað svo sem mönnum þótti um eigið ágæti, ríkti samt blekking í mannheimi, sem var svo römm að allt mannkyn var á rangri för og í röngum erindagerðum. Hvernig svo sem menn upphófu sjálfa sig ríkti þó andleg óreiða. Í hinni gyðing-kristnu hefð er skýrt og klárlega boðað, í allri Biblíunni er sagt og síðan hafa allar kirkjudeildir tjáð, að menn og mannkyn lifa ekki af sjálfum sér og í krafti eigin gloríu. Erkirof varð í sögu mannkyns þegar menn iðkuðu ekki félagslegt og andlegt jafnvægi, eyðilögðu réttinn, sið, mannsýn, fegurð og samfélag. Þess vegna kom Guð í heim, varð maður. Í jólaguðspjalli Jóhannesar er þessi heimstúlkun tjáð með orðunum. “Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því.... ...Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki.” Myrkur er í þessu jólaljóði trúarlíking, guðfræðileg tjáning á mannarugli, villu og feigðarflani. Ljósið er hins vegar táknorð um það, sem Guð gerir, að Guð kemur, lýsir upp myrkradalinn til hags og blessunar byggð heims. Það er Guð sem gefur og menn og sköpun njóta.

Jesús gordjöss Hver er lífsafstaða okkar og hvernig tengjumst við sjálfum okkur, öðru fólki og lífinu? Hin kristna saga er túlkunarsaga um inntak en ekki um atburði. Hún er ekki aðeins um liðna atburði og verður ekki aðeins rannsökuð sagnfræðilega. Hún varðar nú, framtíð, merkingu og gildi. Kristin saga er um þig. Hún er þín saga. Líf Jesú, boðskapur hans, veruleiki hans er saga um hvernig lífinu verður best lifað og til hamingju þessa heims og annars. Mannsýn Jesú, veruleiki Jesú er leiðsögn um lífið, sýnikennsla um lífið sjálft. Við þurfum ekki handbók, manúal, til að lifa heldur persónu, sem er vinur okkar og fylgdarmaður, leiðtogi og þjónn – persónu sem útdeilir lífi og eflir aðra.

Lag nr. 13 á Diskóeyjunni er túlkun á andstæðu jólanna - mannsýn sem einkennist af sókn í yfirborð, frægð og með því að hreykja sér á annarra kostnað. Það er sama hve menn hlaða á sjálfa sig lofsyrðunum. Það er enginn fallegur og stórkostlegur bara af sjálfum sér, heldur þiggjum við gildi. Það er Guð sem gordjöss, það er Jesúbarnið sem er gordjöss. Því getum við hafnað mannsýn hinna sjálfhverfu. Við þiggjum líf af inntaki, lífi, persónu en ekki ásýnd. Við megum gjarnan muna að þó Guð sjái vel hversu áfátt okkur mönnum er þegar við þykjumst eins og börn geta allt þá elskar Guð okkur samt. Guð sér að við erum gordjöss af því Guð elskar menn, elskar sköpun sína þrátt fyrir flekkun. Vegna ástar gerðist Guð maður, þess vegna kom Guð í heiminn - kom til að bæta og fegra, styrkja og lækna - gera allt gordjöss.

Og við getum líka notað annan baggalút til að draga saman afstöðuna: Ég kemst í jólafílíng með þér. Guðspjall dagsins orðar þetta svo: “Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna.”

Amen

Prédikun í Neskirkju, jóladag, 25. desember 2010.

Textaröð: B

Lexía: Jes 62.10-12 Gangið út, já, gangið út um hliðin, greiðið götu þjóðarinnar. Leggið, leggið braut, ryðjið grjótinu burt, reisið merki fyrir þjóðirnar. Sjá, Drottinn hefur kunngjört allt til endimarka jarðar: „Segið dótturinni Síon, sjá, hjálpræði þitt kemur. Sjá, sigurlaun hans fylgja honum og fengur hans fer fyrir honum.“ Þeir verða nefndir heilagur lýður, hinir endurleystu Drottins, og þú kölluð Hin eftirsótta, Borgin sem aldrei verður yfirgefin.

Pistill: Tít 3.4-7 En er gæska Guðs, frelsara vors, birtist og elska hans til mannanna, þá frelsaði hann okkur, ekki vegna réttlætisverkanna, sem við höfðum unnið, heldur frelsaði hann okkur af miskunn sinni. Það gerði hann í þeirri laug endurfæðingar og endurnýjunar heilags anda sem hann lét ríkulega yfir okkur streyma sakir Jesú Krists, frelsara vors. Þannig erum við réttlætt fyrir náð hans og urðum í voninni erfingjar eilífs lífs.

Guðspjall: Jóh 1.1-14 Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því. Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. Hann kom til vitnisburðar, að vitna um ljósið og vekja alla til trúar á það. Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið. Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd. Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.