Og Jesús sneri sér að lærisveinum sínum og sagði einslega við þá: „Sæl eru þau augu sem sjá það sem þér sjáið. Því að ég segi yður: Margir spámenn og konungar vildu sjá það sem þér sjáið en sáu það ekki og heyra það sem þér heyrið en heyrðu það ekki.“Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista Jesú og mælti: „Meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“ Jesús sagði við hann: „Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?“ Hann svaraði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Jesús sagði við hann: „Þú svaraðir rétt. Ger þú þetta og þú munt lifa.“ En lögvitringurinn vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: „Hver er þá náungi minn?“ Því svaraði Jesús svo: „Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. Svo vildi til að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn en sveigði fram hjá. Eins kom og Levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá. En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum og er hann sá hann kenndi hann í brjósti um hann, gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meira til skal ég borga þér þegar ég kem aftur. Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni sem féll í hendur ræningjum?“ Hann mælti: „Sá sem miskunnarverkið gerði á honum.“ Jesús sagði þá við hann: „Far þú og ger hið sama.“Lúk 10.23-37
Lofið Drottin, allar þjóðir, vegsamið hann, allir lýðir, því að miskunn hans er voldug yfir oss og trúfesti Drottins varir að eilífu. Hallelúja
Gleðilega hátíð, góðir gestir á Hólahátíð.
Eins og ykkur öllum er kunnugt átti faðir minn Sigurbjörn Einarsson að prédika hér í dag en vegna veikinda varð hann að hætta við það og því var ég beðinn um að koma í hans stað. Ég þakka að mér skuli sýndur sá heiður. Ég flyt ykkur kveðju föður míns og við sendum honum hugheilar óskir um bata og biðjum honum líknar og blessunar héðan úr þessum helgidómi um leið og við þökkum Guði fyrir þjónustu hans í þágu kirkju og þjóðar.
Áður en faðir minn veiktist hafði hann byrjað samningu prédikunar og gaf mér leyfi sitt til að lesa ykkur upphaf hennar sem er á þessa leið:
Ég votta vígslubiskupi, herra Jóni Aðalsteini þakkir fyrir að sýna mér þá tiltrú að láta mig fá þennan ræðustól til umráða á þessum hátíðisdegi. Ég hef vissulega notið þess heiðurs og gleði margoft og þegið mikla blessun í þessum helgidómi. Síðast var ég hér í boði herra Bolla. Nú er hann horfinn héðan úr heimi. Hann er einn hinn minnisstæðasti þeirra samferðamanna, sem ég hef kynnst og notið að á langri lífsleið. Hafi hjartahlýr og brosmildur hæfileikamaður, einlægur og heill í þjónustu sinni, verið biskup hér á Hólum, þá var það hann. Ég blessa minningu hans og sendi héðan frú Matthildi og fjölskyldu þeirra hjóna hlýjar, þakklátar hugsanir með bæn um blessun Drottins. Ég veit að þið öll, kæru hátíðargestir, takið undir þetta með mér.
Og áfram heldur Sigurbjörn og rifjar upp þegar hann kom fyrst hingað heim að Hólum:
Ég hafði ekki búist við því að takast framar á hendur vandaverk í þessum helgidómi. Og mér var um og ó að ráðast í það. En svo vill til, að á þessum ágústsdögum eru nákvæmlega 70 ár síðan ég kom fyrst heim að Hólum. Minning mín um þann dag er fersk og sterk eftir öll þessi ár. Það var mikil reynsla að fá að stíga fæti á marghelgaðar moldir þessa staðar og fá að beygja kné við altari þessa einstæða helgidóms.
Í framhaldi þessara orða ræddi Sigurbjörn um gildi minninga og segir í lokin:
Bjartasta minning, sem íslenska þjóðin á er Jesús Kristur. En Jesús Kristur er meira en minning. Hann lifir. Hann er sjálfur hér í dag og þráir að snerta okkur öll með lifandi, græðandi, heilögum áhrifum sínum. Hann var enn á ný að segja okkur sögu, draga upp lifandi mynd af mönnum, og við gætum öll lent í sömu sporum og þeir. Og hann spyr mig og hann spyr þig: Í sporum hvers af þeim, sem þarna koma við sögu, vildir þú vera? Eða: Hver er sú mynd, sem brugðið er upp í þessari sögu, sem þú myndir kjósa að væri af þér?
Svo mörg voru orð Sigurbjörns Einarssonar, úr upphafi þeirrar prédikunar er hann hugðist flytja hér í dag og erfitt mér að bæta nokkru við þau.
Hann rifjaði upp að um þessar mundir eru rétt 70 ár frá því að hann kom fyrst heim að Hólum.
Og hann hefur áreiðanlega viljað rifja það upp líka að einmitt þennan Drottins dag, 13. sunnudag eftir þrenningarhátíð, eru liðin 70 ár frá því Sigurbjörn Einarsson var vígður prestur. Það ár, 1938, bar 13. sunnudag upp á 11. september. Hefði honum auðnast að koma hingað í dag hefði hann haldið upp á 70 ára prestsvígsluafmæli sitt hér heima á Hólum miðað við sunnudag í kirkjuárinu.
Guðspjall dagsins er enn sem fyrr dæmisagan um miskunnsama Samverjann.
Sú saga var einnig guðspjall 13. sunnudags eftir trinitatis fyrir 70 árum.
Hún hefur verið guðspjall þessa Drottins dags frá öndverðu kristinnar sögu á Íslandi.
Prestar þeir er hér hafa setið og prýtt þennan stað jafnt á upphefðardögum hans sem tímum niðurlægingar hafa útlagt þessa sögu á þessum degi ár eftir ár og öld fram af öld.
Og ástæða þeirrar árlegu upprifjunar, já, tilgangur þess að koma saman í kirkju yfirleitt er að koma til fundar við Jesú Krist, hlýða á hann tala, heyra hann dæma okkur en líka hvetja, uppörva, leysa.
Í lok þeirra orða sem las eftir föður minn hér áðan vitnaði hann í guðspjall dagsins og bar fram eftirfarandi spurningar út frá efni dæmisögunnar: „Í sporum hvers af þeim, sem þarna koma við sögu, vildir þú vera? Eða: Hver er sú mynd, sem brugðið er upp í þessari sögu, sem þú myndir kjósa að væri af þér?“
Það eru ágengar spurningar.
Liggjum við særð við veg mannlífsins, hædd og barin?
Erum við prestur eða levíti sem ganga framhjá þeim sem er í neyð?
Eða erum við Samverjinn sem nemur staðar og hjálpar?
Okkur hefur víst áreiðanlega oft fundist að gengið sé framhjá okkur þar sem við liggjum og enginn sjái neyð okkar.
Eins er víst að oft höfum við gengið framhjá þeim sem lá við veginn særður og nauðstaddur.
Sennilega höfum við ósjaldan verið í líkum sporum og Kain sem við heyrðum lesið um í ritningarlestrinum áðan, lítið upplitsdjörf vegna mistaka okkar og vanrækslu, hugleysis okkar og ótta.
Og við höfum fundið fyrir því að með því að bregðast náunga okkar í neyð hans, brugðumst við Kristi sjálfum sem samsamaði sig neyð mannkyns er hann sagði: Hvað sem þér gerið einum þessara minna minnstu, það hafið þér gert mér.
Krafan háleita um elsku auglýsir veikleika okkar og breyskleika.
Það fann Guðbrandur Þorláksson þegar hann lét klappa á legstein sinn orðin: Jesu Christi peccator! . . .
Syndari Jesú Krists!
Þannig játaði hann um sjálfan sig að hann væri syndugur, breyskur maður, en þrátt fyrir það eign Jesú Krists og þjónn. Verk sín lagði hann í hendur hans sem hann vissi að réttvíslega dæmir. Í trausti til náðar hans lifði hann og dó.
Kappinn Kolbeinn Tumason fann fyrir því sama á banadægri hér í Víðinesi fyrir 800 árum.
Þá lagði hann allt sitt ráð í hendur himnasmiðnum, Jesú Kristi með bæninni: „Komi mjúk til mín, miskunnin þín! . . . Guð, heit eg á þig, að græðir mig . . . Öll er hjálp af þér í hjarta mér.“
Í bæn sinni nefndi Kolbeinn sjálfan sig þræl Jesú Krists: „Eg er þrællinn þinn ...“
En hann nefnir sig líka höld: „Ryð þú, röðlagramur, ... hölds hverri sorg úr hjartaborg.“
Þræll Jesú Krists er höldur, frjáls maður.
Þannig er samsvörun milli orða hans og Guðbrands. Syndari Jesú Krists er leysingi hans, knúinn kærleika hans til að þjóna honum.
Og við þjónum honum með því að reynast náunga okkar Kristur því að Kristur birtist okkur í þeim sem eru með okkur á veginum. Í þeim kallar á okkur til að þjóna sér.
En Kristur er ekki krafan einber heldur er hann líka sá sem stendur okkur við hlið í neyð okkar, bindur um sárin og smyr þau, græðir og líknar.
Jesús er ekki aðeins sá sem kvelst og liggur sjúkur við veginn.
Hann er líka sá náungi sem stendur okkur við hlið, uppörvar okkur og eflir með styrk sínum og náð til að þjóna sér.
Guðspjall dagsins lýsir þannig Jesú Kristi, lífi hans og dauða.
Eins og Samverjinn gekk hann um kring og gerði gott, græddi og líknaði.
Eins og særði maðurinn var hann hæddur, barinn og deyddur og samsamaði sig þannig neyð allra þeirra sem þjást.
Hann mætti smán og lítilsvirðingu meðbræðra sinna sem að lokum deyddu hann á krossi. Róðan hér á norðurgafli dómkirkjunnar tjáir kvöl hans og neyð. Og þegar hann hékk á krossinum píndur og kvalinn gekk fjöldinn framhjá skeytingarlaus, var jafnvel með hæðnishróp.
Hann andmælti ekki.
En neyð þeirra sem hjá honum voru leitaðist hann við að lina. Móður sinni fékk hann forsjá postula síns Jóhannesar og ræningjann huggaði hann er hann hrópaði til hans í sinni nauð.
Þannig sýndi hann með lífi sínu og dauða að grundvallarlögmál allrar tilveru er kærleikurinn, elskan, ástin af því að höfundur allrar tilveru, skaparinn Guð, er kærleikur.
Með upprisu sinni auglýsti hann að þetta lögmál stenst og sigrar allt.
Hvaða mynd viljum við að varðveitist af okkur? var spurt.
Svarið við þeirri spurningu er: Jesús.
Hann er sú mynd sem Guð birti af sjálfum sér.
Hann er sú mynd af manninum sem Guð birti og vill horfa á.
Þegar við vorum skírð, íklæddi Jesús okkur sinni mynd.
Hann kallar okkur sífellt í orði sínu til að vaxa upp til þeirrar myndar.
Þannig mótast og myndast kristið samfélag að við látum anda Jesú Krists ummynda okkur til að líkjast honum. Köllun okkar barna hans er að treysta þeim kærleika og framganga í þeim kærleika fullviss um að kærleikurinn muni sigra: Nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, og þeirra er kærleikurinn mestur, segir postulinn.
En við skynjum það svo skýrt að bæði hugur okkar sjálfra og ásýnd heimsins umhverfis er í mótsögn við þetta grundvallarlögmál kærleikans.
Þá talar Kristur og segir: Ég elska þennan heim og ég elska þig og ég vil vera náungi þinn, reiðubúinn að styrkja þig, líkna þér og blessa.
Framfarir í trúnni felast í því að biðja stöðugt föðurinn um að horfa ekki á smæð okkar heldur á mynd sonar síns: Miskunna þú, Drottinn, miskunna þú oss, hjálpa þú, Drottinn, hjálpa þú, líkna þú, Drottinn, líkna þú. Hólasveinninn Hallgrímur Pétursson bað út frá íhugun sinn á dæmisögunni af miskunnsama Samverjanum á þessa leið:
Allt hvað ég orka má öðrum góðvild að tjá, Guð, veit mér gáfu þá. (Andl. keðja)
Og þá bæn heyrir Jesús og ber hana fram með okkur og fyrir okkur því að „hvar sem ein bæn er beðin í hljóði beygir þú kné við mannsins hlið.“ (Sbj. E. Sálmab. 22)
Í fylgd hans og samfélagi við hann viljum við ganga veginn fram hughraust, frjáls, leysingjar Jesú Krists. Lokabænarorðin eru bæn Sigurbjörns:
Minn Jesús, þinn frið vil ég finna, þinn fögnuð og líf, sem ei dvín, með þér vil ég vaka og vinna og vitna um stórmerki þín. En trú mín er blaktandi blossi, þín brást ei, hún sigraði á krossi. Ó, trú þú og vak vegna mín.
Sigurbjörn Einarsson, Sálmabók 360
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.