Kristniboðsdagurinn

Kristniboðsdagurinn

Kristniboðar hafa verið þátttakendur í öflugu starfi sem hefur borið ríkulegan ávöxt. Nálægt 6 milljónir manna eru nú í lútersku kirkjunni, Mekane Yesus. Heilu byggðarlögin hafa umbreyst við að heyra og taka við fagnaðarerindinu um kærleika Guðs í Jesú Kristi.

Í tilefni dagsins langar mig að segja ykkur í stuttu máli frá sögu íslenska kristniboðsins. Það hófst árið 1904. Þá var fyrsta kristniboðsfélagið stofnað. Samband íslenskra kristniboðsfélaga var svo stofnað árið 1929 af þeim sex félögum sem þá höfðu verið stofnuð. Fyrstu áratugina var horft til Kína. Þar voru íslenskir kristniboðar að störfum fyrri hluta aldarinnar eða þar til Kína lokaðist eftir byltinguna árið 1949.

Það eru meira en 60 ár síðan ákveðið var að senda kristniboða til starfa í Eþíópíu og hafa þeir verið þar að störfum meira og minna alveg síðan, í Konsó, Voító og Ómó Rate og víðar um land. Læknar, hjúkrunarfólk, kennarar og guðfræðimenntaðir kristniboðar hafa sinnt margvíslegu starfi og það oft við ótrúlega erfiðar aðstæður. Þeir hafa verið þátttakendur í öflugu starfi sem hefur borið ríkulegan ávöxt. Nálægt 6 milljónir manna eru nú í lútersku kirkjunni, Mekane Yesus. Heilu byggðarlögin hafa umbreyst við að heyra og taka við fagnaðarerindinu um kærleika Guðs í Jesú Kristi.

Árið 1978 fóru fyrstu kristniboðarnir til Kenýu til starfa meðal Pókotmanna. Þar hefur SIK verið með fólk í næstum þrjá og hálfan áratug. Fagnaðarerindið hefur hljómað þar einnig og gefið von um eilíft líf. Tugir grunnskóla og nokkrir framhaldsskólar hafa verið byggðir upp. Æska landsins á sér von þrátt fyrir margvíslega erfiðleika. Þar fengum við Fjölnir að þjóna í 3 ár.

Fyrir tveimur árum var samþykkt að hefja kristniboð í Japan. Hjónin Katsuko og Leifur Sigurðsson starfa í bænum Fukuyama í Vestur-Japan og eru hluti af starfsmannahópi lútersku kirkjunnar þar. Erfitt er að ná til Japana en þeir þurfa einnig á Jesú Kristi að halda.

Kristniboðsaambandið styrkir útsendingu kristilegs efnis á stuttbylgju til Kína og er samstarfsaðili Sat 7 sem sendir kristilega dagskrá til Norður-Afríku, Mið-Austurlanda þar sem boðskapurinn um Jesú hljómar m.a. á arabísku, tyrknesku og farsi. Kristið fólk í þessum löndum sinnir dagskrárgerð og gætir þess að miða dagskrána við menningarhefð svæðisins. Milljónir áheyrenda fylgjast með og ávöxturinn á eflaust eftir að koma enn betur í ljós á komandi öldum.

Hér heima vill Kristniboðssambandið „efla Guðs ríki og kristniboðsáhuga meðal þjóðarinnar.“ Fréttabréfið Kristniboðsfréttir og heimasíðan sik.is eru meðal þeirra verkfæra sem notuð eru í því skyni. Starfið er kynnt meðal barna, unglinga og fullorðinna í kirkjum landsins. Hlutverk SÍK er að benda á frelsarann Jesú Krist og köllun kirkjunnar til að gefa öllum tækifæri til að kynnast honum. Bakvarðasveit kristniboðsins hér heima er stundum kölluð kristniboðsvinir, þau sem biðja og gefa til starfsins, fylgjast með því og tala máli þess. Án þessa hóps hefði árangurinn eða ávöxturinn orðið lítill.

Sr. María las Guðspjall dagsins hér áðan svo nú langar mig að deila með ykkur því sem ég hef undiðbúið útfrá því.

Texti dagsins:

En lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins, sem Jesús hafði stefnt þeim til. Þar sáu þeir hann og veittu honum lotningu. En sumir voru í vafa. Og Jesús gekk til þeirra, talaði við þá og sagði: Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.

Margir mundu kannski segja að maður eigi ekki endilega að taka Biblíuna alveg trúarlega, meira að segja sumir kristnir menn halda því fram. Ég hef heyrt að það að vera bókstafstrúar sé ekki gott og jafnvel hættulegt.

En ég hef fengið að upplifa hvað Biblían er trú og að einmitt það að trúa hverju orði getur verið haldreipi manns í lífinu.

Við fjölskyldan fórum á vegum Sambands Íslenskra Kristniboðsfélaga (SIK) til Kenýu að starfa þar sem kristniboðar. Fyrst fórum við til Norges á Kristniboðsskóla, til að leggja góðann grunn í Biblíunámi. Svo fórum við haustið 2009 til Kenýu og áttum að starfa í Pokot. Okkar hlutverk var að styðja við lúthersku kirkjuna í norð vestur biskupsumdæminu.

Verkefnin voru misjöfn, allt frá matarútdeilingu í hungursneyðinni árið 2009 til kennslu og boðunar á mjög afskeftum svæðum í Pokot, Turkana og Marakwet. Ég var líka kennari eins drengja okkar. Það var sennilega erfiðasta verkefnið mitt.

Eins heimsótti ég fangelsið í Kapenguria. Þar voru að jafnaði um 300 fangar. Konur í miklum minnihluta eða um 10 og restin karlmenn. Þegar ég byrjaði að fara í fangelsisheimsóknirnar var það vegna þess að Guð hafði lagt það mér á hjarta í langann tíma. Án Hans köllunar hefði ég ekki þorað að fara í þessa þjónustu. En ég treysti Guði líka í þessu og upplifði að Hann var með mér og fann hvernig Heilagur Andi starfaði.

Neyðin er mikil í Kenýu en á sama tíma er gleðin mikil í Kenýumönnum. Meira að segja í fangelsinu og fátækrahverfum var fólkið glatt. Það var margt sem þau hefðu haft ástæðu til að gráta yfir eða vera reið vegna. En einhvern veginn virðist þetta fólk ekki vera reitt út í Guð vegna aðstæðna sinna. Þvert á móti þá þakkar það sífelt og leggur allt sitt í Guðs hendur. Þegar barn deyr snúa foreldrarnir ekki baki sínu til Guðs eða ásaka. Þvert á móti, þau sækja styrk til Guðs og þakka Honum fyrir það sem Hann hefur gefið þeim.

Vorum við viðbúin öllum verkefnunum? Við spurðum okkur að því áður en við fórum. Við lásum í Biblíunni að Guð mundi úthluta okkur með þeim gjöfum sem við mundum þurfa og gefa okkur orða að mæla sbr Efesusbréfið 4:11-16

Og frá honum er sú gjöf komin, að sumir eru postular, sumir spámenn, sumir trúboðar, sumir hirðar og kennarar. Þeir eiga að fullkomna hina heilögu og láta þeim þjónustu í té, líkama Krists til uppbyggingar, þangað til vér verðum allir einhuga í trúnni og þekkingunni á syni Guðs, verðum fullþroska og náum vaxtartakmarki Krists fyllingar. Vér eigum ekki að halda áfram að vera börn, sem hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi, tæld af slægum mönnum með vélabrögðum villunnar. Vér eigum heldur að ástunda sannleikann í kærleika og vaxa í öllu upp til hans, sem er höfuðið, Kristur. Hann tengir líkamann saman og heldur honum saman með því að láta sérhverja taug inna sína þjónustu af hendi, allt eftir þeim krafti, sem hann úthlutar hverri þeirra. Þannig lætur hann líkamann vaxa og byggjast upp í kærleika.

Verkefnin voru oft mikil áskorun en við fengum að reyna að Biblían er fjársjóður. Orðið er lifandi og Guð getur leiðbeint manni og kennir með Orði sínu. Oft þegar á reyndi leituðum við enn meir í Orð Guðs og oftar en ekki fengum við Orð sem urðu að holdi. Orð sem leiðbeindu okkur, voru ljós á vegi okkar, inn í okkar aðstæður.

Við komum tilbaka til Íslands einu ári áður en planlagt. Mest vegna þess að skólamál drengjanna okkar voru orðin erfið. Við búum nú á Egilsstöðum og erum að reyna að fóta okkur þar sem fjölskylda. Það var mjög erfitt að koma tilbaka. Skrýtið eiginlega, miðað við að við erum að koma tilbaka til heimalands okkar. En ég sé að það eru líka mörg verkefni hér heima. Og ég trúi því að orð Jesú í texta dagsins eigi við hér heima líka. Og þess vegna er mikilvægt fyrir mig að leyfa orði Guðs að leiða mig hér heima líka.

Í dag er Kristniboðsdagurinn og sem kristniboði trúi ég því að hver dagur sé tækifæri til að boða Krist með einum eða öðrum hætti. Ég tel að besta boðunin séu verk okkar, líf okkar. Hvernig við komum fram við annað fólk, hvernig við bregðumst við erfiðum aðstæðum, erfiðu fólki. Biblían kennir okkur einmitt að hægt sé að þekkja kristna menn á kærleikanum sem þeir bera til hvors annars. Ég veit að það er ekki alltaf það sem við sjáum í dag, en svoleiðis átti það nú samt að vera.

Í kristniboðsskipuninni segir Jesús við lærisveina sína að Honum sé gefið allt vald á himni og á jörðu. Að þeir eigi að fara um alla jörðina og boða sig, sannleikann. Að þeir eigi að skíra menn og uppfræða, kenna. Hann veit að við getum þetta ekki í eigin krafti og þess vegna lofar Hann okkur að Hann sé með okkur, alla daga og jafnvel allt til endimarka veraldar.

Þetta loforð tókum við með okkur þegar við yfirgáfum land okkar og þjóð. Við fengum að upplifa að Jesú er treystandi. Hann var með okkur með öllu sínu valdi og með sínum kærleika.

Og hvað er það svo sem við eigum að kenna, þótt það sé tilhneiging mín að segja frá því sem Jesús hefur gert fyrir mig og breytinguna á lífi mínu eftir að ég tók á móti Jesú í hjarta mitt, tel ég það vera enn mikilvægara að boða fagnaðarerindið. Og hvað er fagnaðarerindið?

Fagnaðarerindið er sá boðskapur sem við eigum um Jesú. Hvernig hann lifði lífinu sínu á að vera okkur fyrirmynd. Það að hann skyldi velja að deyja, fyrir okkur, á krossinum, á að sýna okkur kærleika Hans til okkar. Þín og mín. Þar greiddi hann okkar skuld, sætti okkur við Guð, föður okkar, greiddi okkur leið að Honum. Fagnaðarerindið eru gleðifréttir um að Jesús reis upp frá dauðum og þannig sannaðist að Hann er sonur Guðs. Fagnaðarerindið boðar komu Hans og Guðs ríki hér á jörðu.

En snýst þetta þá bara um það sem bíður okkar þegar við kveðjum þennan heim? Nei, það er nefnilega það góða við fagnaðarerindið. Það er fyrir okkur hér og nú. Það kennir okkur hvað Jesús vill gera fyrir okkur í þessu lífi líka. Jesús er Orðið, Hann er Sannleikurinn, Hann er Vegurinn og Hann er Lífið. Hann er heimsins ljós. Hann er fagnaðarerindið. Hann er allt! Við eigum boða að “Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss.” Postulasagan 4:12

Það fyrsta sem Jesús kenndi eftir hann var skírður af Jóhannesi og hann hafði dvalið í 40 daga og nætur í óbyggðum var að við þurfum að iðrast því Guðs ríki er í nánd Matt 4:17 Þetta á alveg við í dag líka. Þegar við kennum og uppfræðum þarf iðrun að boðast með.

Iðrunin er gefin frá Guði. Það er eðlilegt að við það að viðurkenna fyrir sjálfum sér að Guð sé Guð og taka á móti Jesú Kristi sem frelsara sínum ætti iðrun að gerast. Spurningin er kannski hvort maður sé tilbúinn að iðrast. Allar þær syndir sem maður hefur drýgt getur maður nú fengið fyrirgefið en ég þarf að vilja það, ég þarf að vera tilbúin að fara í gegnum sársaukann. Vera tilbúin að biðja Guð um að fyrirgefa mér það sem ég gerði rangt. Vera tilbúin að biðja þann sem ég gerði rangt um að fyrirgefa mér. Vera tilbúin að bæta fyrir gjörðir mínar eins og ég get. Og svo að vera tilbúin að taka á móti fyrirgefningunni. Fyrirgefa sjálfri mér. Það er ekki alltaf það auðveldasta!

Það gerist svo margt innra með mér þegar ég iðrast, ég þroskast, sé mistök mín skýrara, þeir sem umgangast mig verða varir við iðrunina vegna breyttrar hegðunnar. Ég kemst út úr afneituninni og upplifi mig sannari, hreinni, betri manneskju. Iðrunin gefur nýtt líf, nýja byrjun. Þegar ég iðrast upplifi ég að ég þrái fyrirgefningu og það frábæra við sanna iðrun er að fyrirgefningin er áþreifanleg. Sérstaklega finn ég þetta þegar ég fer til altaris í hinni heilögu kvöldmáltíð.

Ég upplifi að þegar ég iðrast fer ég á réttan stað gagnhvart Guði og það var einmitt sú leið sem Jesús greiddi.

En lífið okkar þarf að lifast með Jesú til að Jesús geti haft áhrif í gegnum okkur. Allt sem Jesús kenndi á sínum dögum sem við getum lesið um í Biblíunni eru dæmi um hvernig við getum brugðist við í okkar lífi. Hann gefur okkur myndir sem við getum séð í okkar eigin lífi.

Í vor áttaði ég mig á að þegar ég les dæmisögurnar get ég séð mig í báðum hlutverkunum. Áður setti ég mig oftast í stað þess sem var verri. En núna sé ég að ég hef bæði Mörtu og Maríu í mér. Ég þarf ekki að dæma sjálfa mig fyrir að alltaf upplifa mig sem verra hlutverkið. Ég hef gott og vont í mér. Það góða er andi Guðs í mér og það vonda er syndin í mér. Það hefur alltaf verið baráttan og mun vera það áfram. Ég get séð sjálfa mig sem báðir drengirnir í dæmisögunni um týnda soninn. Ég get séð sjálfa mig sem ríka manninn og Lasarus. Baráttan snýst um að velja hið góða fagra og fullkomna í stað þess að velja stolt, peninga og það sem heimurinn hefur uppá að bjóða. En þetta er barátta og ég þarf að velja sjálf hvernig ég ætla að bregðast við og þegar ég bregst við með stolti, eigingirni, leti, reiði og þess háttar þarf ég oftar en ekki að iðrast og biðjast fyrirgefningar, vegna þess að valið mitt hafði neikvæð áhrif á sjálfa mig og þá sem ég umgengst. Hin leiðin hefði verið auðmýkt, einhverskonar fórn, tímaleg eða annarskonar gjöf og útkoman hefði verið betri fyrir mig og þá sem eru í kringum mig.

Í Rómverjabréfinu kafla 7 lýsir Páll Postuli þessari baráttu vel: “Ég veit, að ekki býr neitt gott í mér, það er, í holdi mínu. Að vilja veitist mér auðvelt, en ekki að framkvæma hið góða. Hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég. En ef ég gjöri það, sem ég vil ekki, þá er það ekki lengur ég sjálfur, sem framkvæmi það, heldur syndin, sem í mér býr. Þannig reynist mér það þá regla fyrir mig, sem vil gjöra hið góða, að hið illa er mér tamast. Innra með mér hef ég mætur á lögmáli Guðs, en ég sé annað lögmál í limum mínum, sem berst á móti lögmáli hugar míns og hertekur mig undir lögmál syndarinnar í limum mínum. Ég aumur maður! Hver mun frelsa mig frá þessum dauðans líkama? Ég þakka Guði fyrir Jesú Krist, Drottin vorn. Svo þjóna ég þá sjálfur lögmáli Guðs með huga mínum, en lögmáli syndarinnar með holdinu.”

Lífið sem kristniboði upplifi ég ekki sem snautt, fátækt eða fullt af reglum sem erfitt er að hlíða. Þvert á móti hefur líf mitt eftir að ég tók á móti Jesú Kristi sem frelsara mínum og vini í þessu lífi, orðið ríkara. Ekki endilega auðveldara en svo miklu innihaldsríkara. Ég reyni að lifa lifinu mínu núna, það er erfitt því mér hættir svo til að flýta mér og stressast. Ég geri endalaust mistök og finnst ég ekki strekkja til fyrir mannin minn og börn en ég held áfram að reyna. Og þar sem ég hef loforð Jesú um að hann muni vera með mér alla daga, allt til enda veraldar veit ég að lífið mitt er í hans höndum, hvar sem ég er stödd.

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður okkar og Drottni Jesú Kristi. Amen.