Prédikun flutt í Háteigskirkju síðasta sunnudag kirkjuársins, 21. nóvember 2021.
Lexía: Sl 63.2-9; pistill: 2Kor 5.10; guðspjall: Matt 22.23-33.
Í dag er síðasti sunnudagur yfirstandandi kirkjuárs og lexía dagsins, úr Davíðssálmi 63, er sérlega viðeigandi á þeim tímamótum. Það er ekki laust við að mér finnist að lokalínan sé eins og samantekt á eðli þess sambands Guðs og manns sem öll tilvera kirkjunnar hvílir á og snýst um: „Sál mín heldur sér fast við þig, hægri hönd þín styður mig.“
Ljóðræn uppbygging sálmsins er sérlega falleg og úthugsuð. Í upphafi lýsir höfundurinn ástandi sínu við ástand manns sem ráfar um í vatnslausri eyðimörk. Eyðimörkin verður þannig táknmynd fyrir þrengingar lífsins, þá tíma þegar manneskjan upplifir sig eina og yfirgefna og vanmáttuga gagnvart aðstæðum sínum, gagntekna af þrá eftir lífgefandi sambandi við Guð sinn, þrá sem sálmurinn lýsir sem kveljandi þorsta hins örmagna manns sem er við það að þorna upp í steikjandi sólarhitanum og leitar því Guðs eins væri hann að leita að vin í eyðimörkinni.
Og þessa vin og sambandið við Guð finnur höfundurinn í helgidóminum. Þegar hann segir „Þannig hef ég litast um eftir þér í helgidóminum“ þá finnst okkur eins og hann búist við því að sjá Guð á vappi í musterinu en það er ekki raunin. Þetta orðalag er hér notað um trúarlega skynjun sem fæst í gegnum trúarlega upplifun og atferli og hefur í för með sér skilning á dásemdarverkum Guðs eða mætti hans og dýrð eins og sálmaskáldið orðar það.
En af hverju þessi þrá eftir sambandi við Guð? Hvað er það sem rekur höfundinn í þrenginum sínum til þess að leita svölunar hjá Guði en ekki í e-u öðru? Því svarar hann sjálfur með svohljóðandi orðum: „Því miskunn þín er mætari en lífið.“ Og eðlilegt andsvar hans við þessari játningu er að lofa Guð: „Varir mínar skulu vegsama þig.“
Margir hinkra eflaust við þegar þeir heyra þessa játningu: „Miskunn þín er mætari en lífið?“ Hvað á höfundurinn eiginlega við? Hvernig rímar þetta við þá trú að Guð sé skapari lífsins og að hann hafi skapað allt til þess að það lifði, eins og segir í Sálmum Salómons? Það má alls ekki skilja þessa setningu sem svo, að hún setji fram lífsfjandsamlega afstöðu eða þrá eftir því að leggja að baki mæðu þessa heims í því skyni að öðlast betri vist í faðmi Guðs. Ekkert gæti verið fjær hebreskri hugsun.
Staðreyndin er sú að túlkun hebreska textans er ansi vandasöm og „líf“ getur allt eins merkt farsælt líf, velgengni og góða heilsu, rétt eins og lífsneistann sem skilur á milli þess að vera lífs eða liðinn. Og miskunn, eða öllu heldur gæska, Guðs vísar í Gamla testamentinu ávallt til einhvers áþreifanlegs: dásemdarverka sköpunarinnar eða gæfuríkra atvika í sögu einstaklings og þjóðar.
Skáldið er hér að nota ofhvörf, eða m.ö.o. skáldlega, dramatíska leið, til þess að leggja áherslu á þá trú sína að jafnvel þótt fólk njóti velgengni og góðrar heilsu, þá sé það lítils virði ef þakklætið fyrir sköpunarverkið og allt hið góða sem hendir okkur í lífinu, er ekki til staðar.
Í huga skáldsins ætti þakklæti og lofgjörð að vera hið eðlislæga svar mannsins við dásemdarverkum Guðs, enda segir hann:
Varir
mínar skulu vegsama þig.
Þannig mun ég lofa þig á meðan ég lifi.
Sumir eru hógværir og auðmjúkir að eðlisfari og finna auðveldlega til þakklætis fyrir allt hið góða sem lífið hefur gefið þeim, þrátt fyrir andstreymið sem þeir kunna að hafa mætt á lífsleiðinni. Öðrum finnst þeir ekki hafa neitt að þakka, jafnvel þótt þeir njóti velgengni, og telja sig sjálfa að öllu leyti sinnar eigin gæfu smiði og ekki skulda neinum neitt, hvað þá Guði sem þeir jafnvel trúa ekki einu sinni á. Gagnvart slíkum viðhorfum verður mér hugsað til sálms Helga Hálfdánarsonar, sem er númer 34 í sálmabókinni og við sungum fyrir prédikun, þar sem segir:
Þótt kóngar fylgdust allir að
með auð og veldi háu,
þeir megnuðu' ei hið minnsta blað
að mynda' á blómi smáu.
Og heldur síðan áfram:
Hvað get ég sagt? Ó, málið mitt
ei megnar, Guð, að lýsa,
hve margt er ástarundur þitt,
hve öflug stjórnin vísa.
Þessi sálmur er hreinn og klár lofgjörðarsálmur, mjög svo í stíl lofgjörðarsálma Saltarans og lokaversið tekur af allan vafa um að Helgi yrkir undir áhrifum slíkra sálma:
Ó, miklið Guð, þér menn á jörð,
á málum óteljandi,
ó, mikla Guð, þú hólpin hjörð,
á himna dýrðarlandi.
Hér hvetur skáldið alla menn, hvort sem er á jörðu eða himni, til þess að mikla – til þess lofa Guð og þakka honum fyrir undur sköpunar hans, sem er undirstaða alls lífs, já, í raun fyrir lífið sjálft.
Og lofgjörðin getur tekið á sig ýmsar myndir. Í raun er lofgjörð endurgjald fyrir hið góða sem maður hefur fengið að reyna og þannig er hún nátengd þakklætinu enda er t.d. í hebresku hægt að þýða sama orðið ýmist sem þakklæti eða lofgjörð og oft erfitt að greina þar á milli. Lofgjörðin getur birst í bæn og sálmasöng í helgihaldinu en hún getur líka birst í daglegu lífi með því að fólk sýni þakklæti sitt í verki með því gera öðrum gott og vera samfélagi sínu til gagns; vera náunga sínum náungi eins og Jesús myndi orða það sbr. dæmisöguna um miskunnsama Samverjann. Lofgjörðin getur einnig birst í listsköpun, ekki síst í tónlist. Margar stórkostlegustu perlur tónlistarsögunnar eru samdar Guði til dýrðar, ekki síst á barokktímanum, en tónlist sem lofgjörðarform virðist blessunarlega standa svo djúpum rótum í menningunni að allt fram á þennan dag eru fremstu tónskáld að semja tónverk Guði til dýrðar og alls ekki endilega í kirkjulegu samhengi. Gott dæmi er auðvitað Arvo Pärt, sem er okkur Íslendingum að góðu kunnur, en annað nafn langar mig að nefna, og það er Thomas Adès, eitt fremsta tónskáld og stjórnandi Breta í dag. Sl. fimmtudagskvöld varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að heyra flutning Íslensku Sinfóníunnar og Víkings Heiðars á verki Adès, In Seven Days, í Hörpu, undir stjórn tónskáldsins sjálfs. Eins og nafn verksins gefur til kynna, „Á sjö dögum“, er viðfangsefnið sköpunarsagan í fyrsta kafla Biblíunnar. Kannski hafa einhverjir kirkjugestir verið í Hörpu eða hlustað á tónleikana í beinni útsendingu í Ríkisútvarpinu en ég mæli sannarlega með því að hlusta á þetta verk. Þar lýsir tónskáldið sköpun heimsins í sjö köflum í samræmi við hina sjö daga sköpunarsögunnar þar sem Guð hvílir sig á hinum sjöunda degi, ánægður með vel heppnað verk. Rétt eins og sköpunarsagan sjálf, þá er tónverkið ekkert annað en lofgjörð, þakkargjörð sem beint er að Guði í lotningarfullri forundran yfir öllum undrum sköpunarinnar – og um leið í auðmýkt þess sem veit sig svo óendanlega smáan í heildargangverki heimsins og játar að engin mannleg vísindi fá að fullu skilið eða upp lokið leyndardómum Guðs.
Helgi Hálfdánarson orðar þessa undrun og þessa auðmýkt gagnvart mikilfengleik sköpunarverksins svo vel þegar hann spyr: „Hvað get ég sagt?“ Hann veit að tungumálið, og þar með mannleg hugsun, megnar ekki að lýsa máttarverkum Guðs því að skilningur mannsins og tjáning takmarkast alltaf við hans eigin reynsluheim. Þess vegna hefur jafnvel guðleg opinberun engin önnur ráð en að nota myndlíkingar fengnar úr mannlegri reynslu til þess að tjá manninum það sem engin orð fá í raun lýst – eins og Helgi gerir þegar hann yrkir: „ó, mikla Guð, þú hólpin hjörð, á himna dýrðarlandi“ og notar þar orðfæri fornrar heimsmyndar sem ímyndaði sér að hið guðlega ætti sér bústað á himinhvelfingunni sem umvafði og gnæfði yfir veröld mannsins.
Í þessum takmörkuðu orðum felst fyrst og fremst játning þeirrar trúar kristinna manna að líf okkar hér á jörð sé ekki alfa og ómega, ekki upphaf og endir alls þess sem vitað verður um lífið, heldur feli sá veruleiki, sem hinn guðlegi sköpunarkraftur hefur skapað, í sér leyndardóma sem flestu fólki er fyrirmunað að skynja með líkamlegum skynfærum sínum.
Orð Helga tala inn í þá trúarlegu heimsmynd sem birtist okkur í guðspjalli dagsins. Þar er Jesús að rökræða við menn af flokki saddúkea sem afneituðu „upprisunni“, þ.e.a.s. öðru tilvistarstigi en því jarðneska. Það gefur auga leið að slíkt er ekki hægt að sanna með óyggjandi hætti en Jesús grípur til þess ráðs að vísa í mikilvægan ritningarstað til þess að færa rök fyrir upprisunni; þar með greip hann jafnframt til beittasta vopnsins sem mögulega var hægt að beita í rökræðum við saddúkea, því eitt af því fáa sem um kenningu þeirra er vitað – fyrir utan vantrú þeirra á upprisuna – er að í þeirra huga var hin ritaða ritning, Gamla testamentið, eini gildi vitnisburðurinn um Guð og hið guðlega. Þess vegna velur Jesús að vitna í söguna í 2. Mósebók þar sem segir af því er Guð birtist Móse sem logi í þyrnirunna og kallar hann til þess verkefnis að leiða hebreana úr þrælavistinni í Egyptalandi og segir: „Ég er Guð föður þíns, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.“ Þessi orð Guðs skv. 2. Mósebók notar Jesús á afar snjallan hátt til að reka saddúkeana á gat – í ljósi áherslu þeirra sjálfra á gildi ritningarinnar. Í röksemdarfærslu sinni gefur Jesús sér þá grundvallarguðsmynd að Drottinn sé Guð lifenda en ekki dauðra og fyrst hann segist sjálfur vera Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs þrátt fyrir að þeir séu löngu dánir á þeim tímapunkti, þá hljóti þeir að vera lifandi – af því að hann er jú Guð lifenda en ekki dauðra. Þar af leiðandi hljóta Abraham, Ísak og Jakob að vera „lifandi“ í einhverjum öðrum skilningi en hversdagslegum og skv. Jesú er „upprisan“ nærtækasta skýringin á því. Þessari sannfæringu deildu Jesú og fylgjendur hans með faríseunum t.a.m. og líklega þorra gyðinga á þeim tíma og þessi röksemdafærsla hans sýnir að hugmyndin um upprisu var alls ekki bundin við hinstu tíma, eins og er svo algengt í máli Páls postula. Þvert á móti má draga þá ályktun af orðum Jesú að upprisan eigi sér stað við lok jarðnesks lífs hvers og eins. Þannig má segja að guðspjall dagsins styðji þá almennu hugmynd kristindómsins að við lok hins jarðneska lífs eigi sál mannsins sér vísan samastað hjá Guði.
Frá upphafi hefur sjálfsmynd kirkju Krists verið skýr: Hún hefur litið á það sem köllun sína og hlutverk að vera birtingarmynd guðsríkisins á jörðu – jafnvel þótt ekki væri nema sem skugga væri varpað af hinu sanna „dýrðarlandi“. Í þessari köllun felst mikil ábyrgð en um leið er hún stórkostleg gjöf því hvað er stórkostlegra en að vera trúað fyrir að gefa hina stærstu gjöf áfram, gjöfina sem er fagnaðarerindi Krists og trúin á kærleika Guðs? þess vegna komum við til kirkju ár eftir ár, til þess að upplifa og auðsýna þakklæti fyrir öll dásemdarverk Guðs, minnast þeirra með lestri ritningarinnar og lofa skapara alls í bænum og söng.
Guði sé þökk fyrir umliðið kirkjuár og megi hann gefa að kirkjan geti gert játningu sálmaskáldsins að sinni á nýju kirkjuári: „Sál mín heldur sér fast við þig, hægri hönd þín styður mig.“
Dýrð sé Guði: Föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.