Ég hef verið eitthvað um tólf ára gamall þar sem ég sat sem oftar á spjalli við Sigurð afa minn. Hann fæddist árið 1910 á Hofsósi, sonur Tómasar Jónassonar kaupfélagsstjóra.
Iðandi af lús
Við langfeðgarnir nýttum gjarnan tækifærið í boðum, yfirgáfum skvaldrið og settumst að tafli inni á skrifstofunni hans. Og þarna fór hann að segja mér frá uppvaxtarárum sínum í Skagafirðinum. Hann lýsti puðinu sem fór næstum því með heilsu hans, þegar hann á barnsaldri þurfti að rogast með níðþungar byrðar neðan úr fjörunni og upp í kaupfélagshúsið.
„Og eitt vorið sagði pabbi mér að ég ætti að vera í Drangey um sumarið.“ Bætti hann svo við. „Þá var ég á þínum aldri og hlutverk okkar var að veiða svartfugl á pramma.“ Hann lýsti fyrir mér veiðiaðferðinni og háskanum í snarbröttum klettum eyjarinnar. Svo bætti því við að þegar hann hafi séð fletið sem hann átti að gista í þetta sumarið þá hafi það verið iðandi af lús. Hann hefði því brugðið á það ráð að hella yfir það steinolíu svo hann fengi frið fyrir óværunni.
Ég sat hinum megin við skákborðið, gapandi yfir þessu hlutskipti hans og ímyndaði mér hvernig mér sjálfum myndi reiða af við þessar aðstæður. Miðað við hann, þá var ég alinn upp í sófa. Já, og í því hverfi sem ber sennilega meinlausast heiti allra slíkra á Íslandi: Smáíbúðahverfi.
Sumrin voru í mesta lagi dvöl í sumarbúðum við þokkalegt atlæti, fótbolti fram á kvöld og stundum fór fjölskyldan í sólarlandaferð. Sú hugsun læddist að mér, hvort mér myndi einhvern tímann auðnast að skapa viðlíka óttablandna lotningu hjá afkomendum mínum ef ég tæki þá á svipað eintal eins og þetta honum afa.
Ástæða þess að ég rifja þetta upp eru tíðindi af okkur sem erum alin upp í sófum víðsvegar í hinum þróuðu ríkjum. Fregnir herma að hugur okkar nái ekki alveg utan um þau lífsgæði að njóta öryggis og velsældar. Það eru jú engin dæmi um slíkt í samanlagðri sögu þessarar lífveru sem við erum. Kóngarnir sem við stundum nefnum í ritningarlestrum hér í kirkjunni, Davíð, Salómon og Ágústus svo einhverjir séu nefndir, nutu vissulega forréttinda miðað við alla hina sem þurftu að strita myrkranna á milli fyrir fábrotnustu lífsgæðum.
En, maður minn, flest okkar lifum í vellystingum jafnvel samanborið við þá. Þeir gætu aldrei notið nema brotabrots þeirrar tónlistar sem við sækjum í snjalltækin okkar, hvað þá að stefna til sín leikurum og listamönnum sem við getum svo auðveldlega látið gleðja okkur. Ferðalögin sem við höldum í fyrirhafnarlítið leiða okkur á slóðir sem þeir gátu aldrei vitjað. Kryddskúffan í eldhúsinu okkar er margfalt fjölbreyttari en bragðtegundirnar sem þeim stóðu til boða. Svo ekki sé nú talað um sætindin. Og talandi um þau. Aldrei verð ég eins þakklátur fyrir að lifa á tímum hátækni en þegar ég sest í stólinn hjá tannlækninum. Kynslóð afa míns fékk falskar tennur í fermingargjöf.
Samt berast fregnir úr heimi þessara sömu vísinda að við séum óróleg í allri sældinni. Kvíði sækir að okkur, þunglyndi vex og nýverið las ég pistil þar sem fram kom að hér á Íslandi stefnir í að 80 manns undir fimmtugu farist á þesu ári vegna fíknisjúkdóma.
Hér bregður dimmum skugga yfir þessa menningu okkar sem hefur þó áorkað svo miklu. Hvað skyldi það vera sem okkur vanhagar um? Því til viðbótar segja fróðar konur og karlar að innra með okkur mörgum blundi ólga sem rænir okkur svefni og hugarró.
Dómarinn í djúpinu
Þessir textar sem við hlýddum hér á fjalla um líf og það sem við köllum svo hátíðlega lífs-gæði. Davíðssálmurinn er söngtexti sem prósessían hefur kyrjað á pílagrímsgöngu sinni, sennilega á leið inn fyrir borgarhlið Jerúsalem.
Við getum ímyndað okkur hægan taktinn í upphafi: „Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn“. Þetta djúp er einhvers konar óreiða – kaos – sem ógnar lífi og tilvist fólks. Vel má vera að það sé einhvers konar andlegt myrkur – öll sund virðast lokuð, óvinir nálgast í einhverri mynd. Og þeir kunna að dvelja innra með manneskjunni eins og framhaldið bendir til.
Því svo getum við skynjað að takturinn verði örari: „Ef þú, Drottinn gæfir gaum að misgjörðum, Drottinn hver fengi þá staðist?“ Já, er einhver fullkominn? Hérna sjáum við þá hugsun sem gengur sem rauður þráður í gegnum hina gyðing-kristnu menningu. Enginn er hnökralaus og við skulum hvorki fella of harða dóma yfir öðrum, né okkur sjálfum. Þar býr jú stór hluti af angri okkar og niðurrifi – við erum stundum óvægin í eigin garð og blásum upp veikleika okkar.
Og krafturinn í slagverkinu eykst enn: „Ég vona á Drottin“. Vonin er andstæða vonleysisins. Þótt djúpið virðist hella sér yfir okkur skín ljósið í myrkrinu. Fyrirgefning yfirgnæfir alla sekt: „hann mun leysa Ísrael frá öllum misgjörðum hans.“ Gangan sem hófst í þungu sorgarstefi endar í glaðlegum dansi.
Að lifa eða tóra?
Já, og svo heyrum við frásögnina af einni nafntogaðustu persónu Biblíunnar – sjálfum Lasarusi. Nefnum við hann ekki stundum þegar við tölum um einhvern sem er veiklulegur: „Óttalegur Lasarus“? Guðspjallið fjallar sannarlega um lífið í margbreytileika sínum. En þar talar Jesús í hálfgerðri mótsögn: „Hver sem trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja.“ Og svo í framhaldinu, „mun lifa þótt hann deyi“.
Hér er orðið líf notað í ólíkri merkingu, ekki satt? Íslenskan á reyndar mörg orð yfir það að deyja – en er furðu fátæk þegar kemur að samheitum yfir sjálft lífið. Mér detta helst í hug sagnirnar að „tóra“ og „þreyja“. En það er ekki þetta sem vakir fyrir Jesú. Þvert á móti. Hér er talað um líf sem er ríkt að tilgangi og merkingu. Lasarus í gröf sinni kann í þessu sambandi að vera táknmynd fyrir þau sem hafa misst alla von, sjá ekki ljós, eru í djúpinu eins og hið forna sálmaskáld orti.
Hér er því ekki talað um líffræðilegan dauða, og þaðan af síður það að þreyja af dagana – eins dugleg og við erum við þá iðju á tímum afþreyingar. Nei, líf þess sem hefur trú í hjartanu er ríkt að innihaldi, þar mætir manneskjan Guði sem gefur styrk í mótlæti og kallar fram auðmýkt og þakklæti þegar vel gengur.
Þetta er nokkuð sem ég held að kynslóð afa míns hafi búið við mitt í öllu sínu líkamlega streði og mótlæti. Þau lifðu grimmari tíma en við njótum. Líkaminn var knúinn áfram af hörku og öll þau gæði sem fólk gat safnað að sér voru afrakstur erfiðisvinnu. Tilgáta fræðimanna sem rýna í huga okkar er einmitt sú að óþreyjan sem sækir að okkur eigi sér rætur í langtímaminni líkama okkar – sem fyllist óró og friðleysi þegar við höfum ekki hreyft okkur og enn síður ef við höfum ekki verið dugleg að rækta samfélagið hvert við annað. Þetta eru skilaboð um að einhverju sé ábótavant.
Og þar sækir að okkur hinn smámunasami dómari sem býr í huga okkar sjálfra. Hann tekur við sér og ertir sálina, dregur fram ýmis smáatriði og sitthvað sem gæti sannarlega verið betra í fari okkar. Þótt þau sem tóku þátt í prósessíunni í hinu forna Ísrael hafi vissulega búið við strangari kjör en við gerum, þá bjó þessi hugsun í hjörtum þeirra einnig. Gegn henni talar orðið: „því að hjá Drottni er miskunn og hjá honum er gnægð lausnar.“
Það er þessi lausn sem geymir lykilinn að innihaldsríku lífi. Trúin er ekki olía á eld dómhörku og niðurbrots – þvert á móti, hún slekkur hann. Hún hvílir hug okkar og gefur okkur næði. Það er svo einmitt í þeirri hugarró sem við skynjum innihald tilverunnar og getum með gleði miðlað öðrum af þeim gæðum sem við höfum sjálf fengið að njóta.
,,En voru geitungar?"
Já, lífsgæðin – hvernig skyldi mér nú hafa gengið að fylla afkomendur mína sömu ónotakenndum og fóru um mig þegar Afi rifjaði upp æskuárin í Skagafirðinum? Ég prófaði þetta á Óla mínum þegar hann var tólf ára. Sagði frá sjónvarpslausum fimmtudagskvöldum og að stillimyndin hafi svo drottnað ein yfir skjánum allan júlímánuð. Greindi frá lífinu fyrir daga internets og farsíma. Þegar maður var staddur í efra Breiðholti eftir fótboltaleik og þurfti bara sjálfur að koma sér heim. Svona gat ég haldið áfram og fannst þetta nú bara ganga ágætlega hjá mér.
Þangað til Óli spurði: „Ertu búinn?“
,,já", svaraði ég og hann hélt áfram:
„En voru geitungar?“
„já, þú meinar? Nei þeir komu ekki til landsins fyrr en löngu síðar.“
„Jæja, eitt – eitt“.