Predikun á 1. sunnudegi eftir trinitatis. Flutt við göngumessu safnaðanna í Breiðholtii þann 18. júní, 2017, í Fella -og Hólakirkju.
Guðspjall: (B) Lúkas 12.13-21
Einn úr mannfjöldanum sagði við Jesú: „Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.“ Hann svaraði honum: „Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?“ Og hann sagði við þá: „Gætið ykkar og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“ Þá sagði Jesús þeim dæmisögu þessa: „Maður nokkur ríkur átti land er hafði borið mikinn ávöxt. Hann hugsaði með sér: Hvað á ég að gera? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum. Og hann sagði: Þetta geri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð. En Guð sagði við hann: Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð og hver fær þá það sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé en er ekki ríkur í augum Guðs.“
Náð sé með yður og friður frá Guði föður og syni og heilögum anda. Amen.
Það gengur vel á Íslandi þessa dagana, hér er uppgangur þó vissulega séu blikur á lofti. Hagvöxturinn er jákvæður, krónan er sterk og verðbólgan lág sem sagt: allir hagvísar vísa í rétta átt. Og við sjáum þess víða merki - alls staðar í kringum okkur spretta upp byggingarkranarnir, ferðamenn streyma en til landsins og meira að segja fiskurinn í sjónum skilar sér betur inn í landhelgina. Já, kæru vinir það er svo sannarlega ánægjulegt að vel gangi og fyrir það skulum við þakka.
Í guðspjalli dagsins varar Jesús þau sem njóta velgengni við: „Gætið ykkar og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“ segir hann. Þetta eru góð og skynsöm ráð, í orðum Jesú er ekki falin fordæming á velgengni og auði, því auður eða ríkidæmi eru ekki vandamálið, heldur neikvæðir ávextir þeirra. Ríki bóndinn er sagður heimskur, ekki vegna þess að naut velgengni, ekki vegna þess að akrar hans höfðu gefið vel af sér og ekki vegna þess að hann byggði stærri hlöðu. Hann var heimskur því hann taldi sig vera sjálfum sér nægur, hann taldi sig geta þegið líf af eigum sínum, hann er algjörlega sjálfhverfur. Hann segir:
Hvað á ég að gera? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum Þetta geri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri og ég safna öllu korni mínu og auðæfum. Og ég segi við sálu mína…
Hann hugsar bara um sig, hann er algjörlega einn í dæmisögunni – auðævi hans hafa snúið honum inn í sjálfan sig, hann veit ekki lengra en nef sitt og hann hugsar aðeins um sig og virðist ekkert hirða um náunga sinn. Jesús lýkur dæmisögunni með þessum orðum um ríka og sjálfhverfa bóndann: „Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð og hver fær þá það sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé en er ekki ríkur í augum Guðs.“
Jesús Kristur er í heiminn kominn til þess að við, efnuð og fátæk mættum eignast líf í fyllstu gnægð, hann er kominn í heiminn til þess að opna augu okkar og sýna okkur hvar uppsprettu lífsins er að finna – hana er að finna hjá Guði, ekki hjá sjálfum okkur, auðæfum okkar eða eignum. Jesús Kristur er uppspretta lífsins, hann leysir okkur undan byrði verkanna og sjálfsréttlætingunni sem henni fylgir, hann gefur okkur líf af sínu lífi. Þá opnast augu okkar og við sjáum lengra en nef okkar nær. Við höldum kannski áfram að byggja hlöður, eða hús með stærri geymslur, en við ímyndum okkur ekki lengur að við séum sjálfum okkur nóg við opnum augu okkar fyrir náunga okkar og neyð hans og við þiggjum líf okkar af Kristi sem gefur okkur líf af lífi sínu.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.