Einu sinni var ég að undirbúa brúðhjón fyrir daginn stóra. Við slíkar æfingar er auðvitað hlaupið yfir alla texta og tónlist, parið og svaramenn eru í sífellu að setjst og standa á fætur eftir forminu.
Umbera allt?
Þetta skiptið óskaði brúðurin eftir því að ég gerði hlé á þessari yfirferð og flytti nú fyrir þeim þennan texta sem er lesinn við athafnir – Óðinn til kærleikans. Já, það er ljóðið sem við hlýddum á hér áðan úr bréfum postulans. Það var auðsótt mál og ekki fór á milli mála að þeim líkaði það sem þau heyrðu, allt þangað til í blálokin. Þá kom svipur á brúðina – hún leit á mig tortryggin á svip og spurði: „Bíddu hvað á nú þetta að þýða?„Umber allt”?”
já, er þetta hluti af þeirra fyrirheita sem brúðhjón veita hvort öðru – og snúast um trúnað, ást og virðingu hvort í annars garð? Ætti makinn og nærstaddir að hlýða á þessa yfirlýsingu um að hún myndi „umbera allt“ sem kynni að henda á komandi árum og áratugum? Á þessi texti eitthvert erindi inn í þann sáttmála sem ástfangið fólk vill helga frammi fyrir altari Guðs þar sem ríkja á gagnkvæmur trúnaður, ást og virðing?
Þarna komum við jú inn á svið sem margur brýtur heilann um þegar lesið er í hinni helgu bók. Þar finnum við ýmsar vísanir og texta sem eru, getum við sagt, róttækari en við myndum setja fram í daglegu lífi, hvað þá ef loforð eru gefin. Við getum kallað slíka framsetningu – ,,ýkjustíl“ – þar sem gengið er lengra en vænta mætti í daglegu lífi þar sem við þurfum jú að hafa allan varann á okkur.
Þetta sjáum við jafnvel enn sterkar í guðspjallinu þar sem vitnað er í orð Jesú. Þau hafa verið mörgum hugstæð: „Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður“. Hvað merkir þetta? Í hernumdu landi gat það falið í sér að sýna hrottum og illmennum sem kúguðu varnarlaust fólk – ást og umhyggju. Aftur er eins og textarnir ögri okkur og því sem okkur kann að finnast rétt og eðlilegt. Þetta hefur verið mörgum hugðarefni í gegnum tíðina.
Hér á eftir leikur hún Margrét Lára aftur fyrir okkur, og í þetta skiptið er það eftir Johan Sebastian Bach. Hann hefur verið kallaður fimmti guðspjallamaðurinn – þessir fyrstu fjórir, Mattheus, Markús, Lúkas og Jóhannes segja okkur sögu Jesú í Nýja testamentinu. Bach rammaði inn frásagnir þeirra og eins og einhver komst að orði þá tókst honum að gera hið jarðneska himneskt og hið himneska jarðneskt.
Svo er annar merkur hugsuður sem einhverjir hafa bætt við þennan hóp. Sá rússneski Fjodr Dostojevskí sigldi á slíku dýpi trúar og tilvistar í skáldsögum sínum að hann hefur verið kallaður sá sjötti af þessum guðspjallamönnum.
Honum var tíðrætt um kærleikann í þessu samhengi og sagði sögur af fólki sem braut heilann um það hvað felst í því að trúa og að elska. Í bók sinni Karamazov bræðrunum segir hann frá samtali konu nokkurrar við öldung. Konan kveðst hafa glatað trú sinni og spyr hvernig hún geti endurheimt hana. Svarið var einfaldara en hana hafði grunað: Með því að elska og ekki bara þau sem eru okkur hliðholl í lífinu heldur mannkyn allt og sköpunarverkið. Með því gæti hún öðlast trú á Guð og sálina sem aldrei deyr.
Þetta var leiðarljós annars hugsuðar, Martin Luther King en 28. ágúst voru 60 ár liðin frá því að hann flutti eina merkustu predikun sögunnar þá sem hefst á orðunum „Ég á mér draum“. Þar horfir hann til framtíðar þar sem fólk getur lifað í sátt og samlyndi – óháð hörundslit og stétt. Öldum saman hafði gjá verið á milli þessara hópa, sem rekja má til þrælahalds og kúgunar. Hvað átti að brúa þetta mikla gap? Jú það var kærleikurinn.
Orð hans voru enn ein útleggingin á þeim orðum sem brúðurin hafði notið um, einmitt það hvort kærleikurinn felist í því að „umbera allt“. En þá ekki í merkingunni að við eigum að sætta okkur við misrétti og ógnarstjórn, heldur með því að launa illt með góðu og þannig getum við snúið ógæfu á friðarveg.
Já, orðin merkja ekki að við sættum okkur við hvað sem er.
Brúðurin gat andað rólegar (þótt ég sé ekki frá því nema að það hafi komið svolítill vonbrigðasvipur á gumann). Með þessari athugasemd sinni varpaði hún um leið ljósi á sjálft inntak Óðsins til kærleikans, og ef því er að skipta því hvernig Biblían talar til okkar.
Hið sama á við um þessi ögrandi tilmæli Jesú að umvefja óvinina ást okkar. Hér er verið að skora á hólm hugmyndir okkar og rétt og rangt og þá mögulega hugmyndir okkar sjálfra um eigið ágæti.
Biblíuna lesum við ekki sem lögbók. Við tölum um hana sem fagnaðarerindi. Erindið er að lýsa hinu æðsta og háleitasta, og tengja það inn í vitund okkar sem lifum í heimi sem er takmarkaður á allan hátt, bæði í tíma og rúmi.
Hvert er þá inntak Óðsins til kærleikans? Hann er túlkun postulans á lífi Jesú frá Nazaret sem er inntak þessa fagnaðarerindis. Jesús launaði illt með góðu, boðaði hin háleitustu markmið og lifði eftir þeim. Ritningin lýsir því hvernig hann lagði líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Það er hann sem umbar allt og það er hann sem bað fyrir óvinum sínum þar sem hann þjáðist á krossinum. Textar dagsins skína eins og bjartur stjörnuhiminn. Þeir veita okkur bæði fegurð, leiðsögn um leið og þeir tróna svo hátt yfir höfðum okkar að við munum aldrei ná að fanga þá frekar en himinfestinguna. Við getum litið á þá sem eins konar Pólstjörnu sem gefur okkur leiðsögn að hinu æðsta og háleitasta án þess að þó að við getum náð þeim áfanga.
Já, hvernig væri að elska þá sem ofsækja yður? Aftur er markið sett svo hátt að við þurfum að hugsa vandlega okkar gang er við speglum hegðun okkar í þeirri leiðsögn sem hér er gefin. Allt ber þar að sama brunni. Við verðum aldrei réttlát gagnvart Guði ef við nýtum til þess verk okkar og athafnir. Ef við þykjumst bera af í manngæsku um ágæti þá er alltaf hægt að benda á eitthvað meira, merkilegra og göfugra sem við getum gert að fundið fyrir.
Jesús varar okkur við því að fyllast hroka og dómhörku í krafti eigin ágætis. Og þá er það hitt sem svo margir tengja ranglega við kristna trú að fólk vinni góðverk í þeirri von að fá umbun á himnum, eða jafnvel í formi lífsgæða í þessu lífi. Hveru marklaust verða þá hin góðu verk ef þau eru aðeins unnin í þeirri von að kaupa sér inn slíka velvild?
,,Þótt ég gæfi allar eigur mínar og framseldi sjálfan mig, en hefði engan kærleika - væri ég engu bættari." Þetta stendur einmitt í Óðnum til kærleikans. Þessi texti er leiðarljós, pólstjarna sem við getum tekið mið af, en um leið verður það hlutskipti okkar að rísa upp gefn ranglæti og kúgun. Ekkert slíkt má umbera enda verður lögmálið að vera til staðar svo að allt haldist í föstum skorðum.
Kærleiksverkin eru ávextirnir sem vaxa á því tré sem býr að góðu upplagi. Og þessi dagur er einmitt helgaður þeim ávöxtum í kirkjunni, dagur kærleiksþjónustunnar þegar við erum minnt á að þjóna í skilyrðislausum kærleika, rétt eins og náð Guðs veitist okkur fyrir trúna eina.