Skömmu síðar bar svo við, að Jesús hélt til borgar, sem heitir Nain, og lærisveinar hans fóru með honum og mikill mannfjöldi. Þegar hann nálgaðist borgarhliðið, þá var verið að bera út látinn mann, einkason móður sinnar, sem var ekkja, og mikill fjöldi úr borginni var með henni. Og er Drottinn sá hana, kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: "Grát þú eigi!" Og hann gekk að og snart líkbörurnar, en þeir, sem báru, námu staðar. Þá sagði hann: "Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!" Hinn látni settist þá upp og tók að mæla, og Jesús gaf hann móður hans.En ótti greip alla, og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: "Spámaður mikill er risinn upp meðal vor," og "Guð hefur vitjað lýðs síns."
Og þessi fregn um hann barst út um alla Júdeu og allt nágrennið. Lúk. 7.11-17
Haugur og hafsýn
Vestur í Arnarfirði, í Hringsdal, stendur opin gröf. Haugur landnámsmanns hefur verið rofinn og kumlið sýnt almenningi í fjölmiðlum. Hann Hilmar vinur minn, sem á sveitasetur í Hringsdal, sagði mér frá upplifun sinni þegar hann fór Vestur og stóð yfir kumlinu, sem hafði verið lokað í meir en þúsund ár en var nú opið. Þetta var að kvöldlagi og sólin var að setjast í mynni fjarðarins. Þeirri einstöku stund gleymir hann aldrei. Beinagrindin liggur þannig að fætur vísar út fjörðinn. Hinn látni horfir til sólseturs. Hver var trú þessa manns? Hvernig skildi hann tilveruna?
Ef til vill hafði Hringur áþekkan skilning á hinu stóra samhengi tilverunnar og Þorkell máni sem var sonur Þorsteins sonar Ingólfs Arnarsonar. Í 9. kafla Landnámabókar segir m.a. um hann:
„Hann lét sig bera í sólargeisla í banasótt sinni og fal sig á hendi þeim guði, er sólina hafði skapað; hafði hann og lifað svo hreinliga sem þeir kristnir menn, er best eru siðaðir.“
En athygli vekur að Hringur snýr þver öfugt við kristna menn sem grafnir eru þannig að fætur vísa til austurs og ásjónan horfir til upprisu sólar og þar með upprisu Krists í von um eigin upprisu á efsta degi. Landnámsmaðurinn í Hringsdal og kristnir menn eiga það þó líklega sameiginlegt að líta svo á að að baki tilverunni sé hugsandi máttur, skapandi hugur, að veröldin sé ekki tilgangslaus, köld og dimm, heldur eigi hún sér mark og mið.
Líkfylgd
Líkfylgd er á ferð í Nain. Borinn er til grafar einkasonur móður sinnar. Í sjálfu sér var það og er hversdagslegur viðburður. Líkfylgdir fara um götur Reykjavíkur alla virka daga vikunnar. Fólk á ferð, syrgjandi fólk sem er að kveðja látinn ástvin. En það óvenjulega gerist í Nain að maður gengur í veg fyrir líkfylgdina, kemur úr annarri átt og stefnir dauðanum og þar með öllu lífi til fundar við sig og um leið stefnir hann öllu til nýrrar áttar, til austurs upprisunnar. Jesús Kristur gengur í veg fyrir hóp syrgjandi fólks.
Frásögnin er ósköp hógvær og látlaus í framsetningu sinni og óvenju knöpp en þegar betur er að gáð er þetta mjög sérstök uppákoma. Hvað segðum við ef einhver gengi í veg fyrir líkfylgd, eða ef einhver æki hreinlega framúr líkfylgdinni á Miklubrautinni, stöðvaði umferðina og sneri sér að móður látins manns, vottaði henni samúð sína og gengi síðan að kistunni og reisti hinn látna upp frá dauðum? Ég er hræddur um að fjölmiðlarnir gerðu sér mat úr slíku. Lögreglan væri án efa kölluð á vettvang og jafnvel læknar líka til að sprauta manninn niður og taka hann úr umferð, loka hann jafnvel inni á geðdeild. Ekkert slíkt gerðist forðum. En fólkið varð hins vegar óttaslegið, segir í textanum, undrandi og glatt í senn, lofaði Guð og fór um allt og sagði frá því fagnandi að Guð hefði vitjað þeirra.
Er útför okkar hafin?
Ótrúleg frásögn! Er hægt að trúa svona nokkru? Hvað gerum við við þennan einstaka atburð úr lífi og starfi Jesú sem guðspjöllin geyma og færa okkur til að íhuga? Hvað segir hann okkur? Jesús gengur ekki í veg fyrir líkfylgdir í Reykjavík til að slást í för með syrgjandi fólki eins og forðum daga í borginni Nain. En honum er hins vegar boðið að slást í för með hverri líkfylgd. Næstum allar útfarir á Íslandi í þúsund ár hafa með einum eða öðrum hætti tekið mið af útförinni í Nain. Sagan um ekkjuna í Nain hefur um aldir vakið með fólki nýja von og trú um að hann sem reisti son ekkjunnar upp frá dauðum og var sjálfur reistur upp af gröf, sé með leyndardómsfullum hætti við hverja útför, sé með í för um lífsins veg, hann sem sagðist vera vegurinn, sannleikurinn og lífið.
Útför okkar hófst í raun við fæðingu og Jesús gekk inn í líkfylgdina þegar við vorum skírð. Þá kom hann með eilífa lífgjöf sína. Hann er hér og hann er með okkur allt til enda. Foreldrar sem bera barn sitt til skírnar eru að fela barnið upprisukrafti hans sem gekk í veg fyrir líkfylgdina í Nain forðum daga og sagði: Rís þú upp!
Guð á síðasta orðið
Jobsbók sem vísað er til í lexíu dagsins (sjá bakhlið messublaðsins) er magnað rit og telst til merkustu rita heimsbókmenntanna. Hún fjallar um þjáninguna og færir rök fyrir því að réttlátt og gott fólk verði fyrir þjáningu og böli eins og annað fólk. Guð leggur ekki á okkur böl og þjáningu en hann er með okkur í þjáningunni í þessum fallna og synduga heimi. Hinn þjáði maður, Job, sá fyrir sér að Guð mundi eiga síðasta orðið. Hann átti óbilandi trú á sigur Guðs yfir öllum kringumstæðum sem hann hafði lent í, öllum hörmungum:
Og eftir að þessi húð mín er sundurtætt - og allt hold er af mér, mun ég líta Guð. - Ég mun líta hann mér til góðs, - já, augu mín sjá hann, og það eigi sem andstæðing, - hjartað brennur af þrá í brjósti mér!
Og svo þessi mögnuðu orð Jobs, þessi ótrúlega trúarjátning:
Ég veit, að lausnari minn lifir, og hann mun síðastur ganga fram á foldu.
Er til meiri huggun en sú að allt sé í hendi Guðs? Hann mun gera alla hluti upp. Gott er að mega treysta því þegar lífið verður manni mótdrægt, þegar óréttur bitnar á manni. Þá er gott að mega treysta því að í tilverunni sé til hinsta réttlæti. Áföll eru með ýmsum hætti. Á hverju andartaki er fólk að missa ástvin. Á hverju augnabliki verður fólk fyrir órétti í heiminum.
Uppgjör
Margir menn vaða áfram og valta yfir náungann með frekju og yfirgangi, ofríki og valdníðslu. Slíkt verður gjörendum aldrei til hamingjuauka eða gleði. Þau sem taka ófrjálsri hendi réttindi annarra, fjármuni fjöldans eða hugsa um það eitt að skara eld að eigin köku, munu aldrei geta notið þeirra gæða í friðsömu hjarta sem tekin voru með órétti. Svo er hinu hinsta réttlæti Guðs að þakka. Veröldin er ekki óskapnaður. Hún er sköpun Guðs. Innsti kjarni tilverunnar er elska, réttlæti og miskunn. Guð mun eiga síðasta orðið. Við erum í hendi hans. Hann er með okkur í för, hann sem er upprisan og lífið, Guð elsku og réttlætis.
Hringur um allt sem er
Landnámsmaðurinn í Hringsdal vildi horfa til þess staðar þar sem sólin sest. Hann vissi að sólin skiptir öllu máli, ljós heimsins. Hún hlaut að stefna til mikilvægs staðar og lúta stjórn hins æðsta máttar. Hann þekkti líklega ekki Krist og vissi ekki að hann, sem markað spor í sandinn í Palestínu tæpum þúsund árum áður en hann sjálfur var lagður í gröf í Arnarfirði, var Guð á jörðu, skaparinn sjálfur á meðal manna, ljós heimsins í dimmum dal með syndugu mannkyni. En Hringur átti sér von. Sama má segja um Job. Hann vonaði á Guð og hinsta réttlæti hans. Hann trúði því að Guð mundi eiga síðasta orðið, ganga síðastur fram á foldu. Hann vissi að hann mundi loka hringnum, hann sem sjálfur er hið stóra samhengi alls sem er, hinn eilífi hringur, sem umfaðmar allt líf, allar aldir, allar kynslóðir, hvern einstakling sem hefur lifað.
Líkfyld á leið vonar
Við erum öll í líkfylgd eins og fólkið í Nain og verðum dag einn lögð í gröf með ásjónuna til austurs, til upprisu sólar, í þeim dal sem Guð hefur slegið hring sínum um, hann sem sólina skóp og umfaðmar allt með eilífri elsku sinni og segja mun hin máttugu orð: Rís þú upp!
Og þá munum við sjá lífið í sinni réttu mynd í nýjum dal, sem er eins og hringur án upphafs og endis, eilíf tilvera þar sem „Elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast.“ (Sl 85.11)