Á þriðja degi var brúðkaup í Kana í Galíleu. Móðir Jesú var þar. Jesú var og boðið til brúðkaupsins og lærisveinum hans. En er vín þraut segir móðir Jesú við hann: Þeir hafa ekki vín.Jesús svarar: Hvað varðar það mig og þig, kona? Minn tími er ekki enn kominn.
Móðir hans sagði þá við þjónana: Gjörið það, sem hann kann að segja yður. Nú voru þar sex vatnsker úr steini samkvæmt reglum Gyðinga um hreinsun, og tók hvert þeirra tvo mæla eða þrjá.
Jesús segir við þá: Fyllið kerin vatni. Þeir fylltu þau á barma. Síðan segir hann: Ausið nú af og færið veislustjóra. Þeir gjörðu svo. Veislustjóri bragðaði vatnið, sem var orðið vín, og vissi ekki, hvaðan það var, en þjónarnir, sem vatnið höfðu ausið, vissu það. Þá kallaði veislustjóri á brúðgumann og sagði: Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara, er menn gjörast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú.
Þetta fyrsta tákn sitt gjörði Jesús í Kana í Galíleu og opinberaði dýrð sína, og lærisveinar hans trúðu á hann. Jóh. 2. 1-11
Þjóðfélagið skókst rækilega í liðinni viku af hinu svo kallaða DV-máli. Flestir eru sammála um að blaðið hefur rekið mjög óvægna blaðamennsku þar sem gróði skiptir meira máli en æra einstaklinga. Fólk sem gat ekki borið hönd fyrir höfuð sér hefur nánast verið tekið af lífi á forsíðu blaðsins. Mikil umræða hefur verið um málið á meðal presta undanfarna daga sem margir hafa lengi verið afar ósáttir við aðfarir blaðsins, enda hafa þeir fengið mörg fórnarlömb þess í sálusorgun. Þeir segja að oft hafi það gerst að bataferli fólks í sorg hafi gengið til baka við skrif blaðsins, að blaðamenn hafi jafnvel gengið svo langt að grafa upp farsímanúmer barna, allt niður í 9-10 ára aldur, til að fá upplýsingar um mál sem þeir vildu fjalla um og hafa jafnvel komið að sumum málum aftur og aftur þannig að fólk hefur ekki getað um frjálst höfuð strokið og sumt jafnvel flúið land. Sumir prestar hafa lýst þessum aðförum sem níðingsskap. DV hefur valdið mikilli sorg, reiði og hneykslan. Það þarf mikið til að öll þjóðin rísi upp á afturfæturna eins og gerst hefur síðustu daga. En auðvelt er að kasta grjóti þegar með öðrum. Það eru við sem höfum keypt og lesið blaðið. Endurspeglar efni þess kannski okkar eigin sálarrann? Er hugsanlegt að kvæðið Rógberinn eftir ónefndan höfund lýsi okkur sjálfum?
Ég þekki þig þrællynda þý, sem þefar úr náungans kaunum, húkir með hýenusvip, hlakkar við hrædýrsins launum. Þann sem féll veikur á veg vantaði stuðning og þrótt, þú klóraðir níðingsins klóm, koldimma ógæfunótt.Ég þekki hinn eitraða orm alinn við tungurót þína. Nagandi nárakkans tönn náungann sáran að pína. Þú skríðandi í skugganum dregst, skelfur við dagsólar bjarma. Hvar sem á ferli þú ferð flyturðu ólán og harma.
Ég þekki þig sauruga sál, sem sora að hjartanu hleður, hyllt af þeim hræsnara hóp sem helvegi manndyggða treður. Ég smái þitt vesæla vald, vald undir skuggunum þungu, seinna þú greiða munt gjald gjald þinnar banvænu tungu.
Frásögn guðspjallsins í dag af brúðkaupinu í Kana sem okkur er ætlað að íhuga er í mikilli andstöðu við hina alvarlegu atburði vikunnar. Mörgum trúuðum bindindismönnum finnst óþægilegt að þessi saga skuli hafa ratað inn í Nýja testamentið og eiga erfitt með að lifa við þá staðreynd að frelsarinn hafi haft jákvæða afstöðu til víns, en þeim sem þykir sopinn góður líkar það vel og telja sig hafa fengið góð rök fyrir því að kneyfa guðaveigar í óhófi. En drykkja eða bindindi er ekki það sem skiptir aðalmáli í þessari frásögu. Hún hefur annan boðskap en virðist við fyrstu sýn.
* * *
Það er gott að setja frásöguna í samhengi. Á aðventunni og jólunum íhuguðum við komu, fæðingu og endurkomu Jesú. Þá var undirstrikað í öllum textunum að með Jesú verður Guð nálægur okkur. Hann kemur og er einn af okkur og ekki nóg með það. Allur kraftur hans og vald er á meðal okkar. Með honum hefst nýtt tímabil í sögunni, ný sköpun þar sem mannkynið færist nær hinni upphaflegu sköpun Guðs þar sem allt var fullkomið og mun ná því takmarki við endurkomu Jesú á efsta degi. Þessa trú eigum við að næra og styrkja. Á nýjársdag fjallaði guðspjallið um umskurn Jesú, er hann var tekinn sem barn inn í trúarsamfélag þjóðar sinnar, og síðasta sunnudag var íhugunarefnið frásagan af því er Jesús var 12 ára í musterinu. Í dag lesum við um upphaf þjónustu Jesú. Hann er á meðal okkar.
Brúðkaup er einn mesti gleðidagur í lífi hvers manns, hvort sem sú gleði verður varanleg eða ekki. Ég gifti dóttur mína síðast liðið sumar. Það var mjög ánægjulegur dagur. Ungu brúðhjónin voru svo ástfangin að þau gátu ekki látið af að horfa hvort á annað og brostu út í eitt í athöfninni í kirkjunni. Ég varð að passa mig að horfa ekki of mikið á þau til að missa ekki einbeitinguna í athöfninni. Undirbúningurinn fyrir daginn hófst mörgum mánuðum áður. Brúðarkjólar voru skoðaðir og mátaðir. Fengnar voru bragðprufur af brúartertum, ýmsum réttum sem til greina komu o.s.frv. Kort voru send út, vinir og ættingjar voru fengnir til að undirbúa tónlist og ýmsar uppákomur í brúðkaupsveislunni. Það skipti öllu máli að dagurinn yrði fullkominn, eins og brúðhjónin vildu hafa hann, og allir lögðust á eitt til að svo mætti verða. Sem gestgjafi skipti það mig máli að gestirnir og brúðhjónin yrðu ánægð með veitingarnar sem á boðstólum voru og veisluna í heild. Það hefði orðið saga til næsta bæjar ef aðeins helmingur brúðkaupsgesta hafði fengið að borða. Ég hefði skammast mín alla ævi!
Aðstæðurnar í brúðkaupinu í Kana voru ekki ósvipaðar. Þar og á meðal Araba samtímans er gestrisni heilög skylda. Vín var mjög mikilvægur hluti veitinganna og var tákn gleði. Gömlu rabbíarnir sögðu að án víns væri engin gleði. En það þótti hneysa að drekka frá sér vitið. Það var mikil skömm ef veitingar þraut í miðri veislu. Slík staða var í uppsiglingu í þessu brúðkaupi. María, móðir Jesú, fór með vandann til sonar síns. Hún var sannfærð um að hann hefði einhver ráð án þess að vita hver og sagði þjónunum að hlýða fyrirmælum hans hver sem þau yrðu. Í stuttu máli þá breytti hann 480-640 lítrum af vatni í eðalvín og afstýrði þannig að brúðkaupsdagurinn snerist upp í martröð og sýndi fátæku almúgafólki þannig kærleika sinn og umhyggju. Það voru sex steinker þar sem brúðkaupið fór fram sem tóku 80-120 lítra hvert. Þau voru notuð undir vatn til að þvo fætur fólks, en það gekk berfætt í sandölum á rykumgum stígum. Vatnið var einnig notað til að þvo sér um hendurnar fyrir máltíðir en einnig á undan hverjum rétti sem borinn var fram. Þetta var gert til að uppfylla hreinsunarlögmál Gyðinga.
Talan sex er tala ófullkomnunar, hana vantar einn upp á töluna sjö sem er tákn fullkomnunar. Sex vatnsker benda á ófullkomleika hreinsunarlögmáls Gyðinga sem krafðist síendurtekinna hreinsana og þvotta. Vín kemur í stað vatns, Jesús kemur í stað þessara reglna, Náð Guðs kemur í staðinn fyrir ófullkomin fyrirmæli.
Díonísos var vínguð Grikkja. Til er saga af því hvernig vatn breyttist í vín einu sinni á ári í tengslum við hátíð sem haldin var honum til heiðurs 6. janúar. Þá sprautaðist vín úr gosbrunninum við musteri hans í stað vatns eins og venjulega. Margir hafa séð tengsl á milli frásögunnar af brúðkaupinu í Kana og þessa átrúnaðar því að þessi frásaga var íhuguð á sama tíma í fornkirkjunni. Jesús toppar Díonísus. Það er ekki aðeins að fólk hafi getað virt fyrir sér vín koma úr gosbrunninum, Jesús bjó til svo mikið af því að fólk í venjulegu brúkaupi gat ekki drukkið það allt. Ofgnótt af víni er mynd sem dregin er upp á ýmsum stöðum í Gt. um hina síðustu tíma er Guð mun snúa við högum síns lýðs og úthella blessun sinni. Þetta er lýsing á nærveru guðsríkisins. Með Jesú kemur Guð og allt vald hans og kraftur. Því er lýst með ofgnótt. Þetta er allt á meðal okkar í heilögum anda Guðs sem er nálægur í kirkjunni, hinu kristna samfélagi.
Í kaflanum á undan þessari sögu um brúðkaupið í Kana er sagt frá því er Jesús hóf þjónustu sína og kallaði fyrstu lærisveinana. Í lok þessarar frásögu segir: „Þetta fyrsta tákn sitt gjörði Jesús í Kana í Galíleu og opinberaði dýrð sína, og lærisveinar hans trúðu á hann.“ Þetta var aðaltilgangur kraftaverksins, að opinbera hver Jesús var, að með honum var Guð orðinn nálægur okkur. Hann var Guð sjálfur kominn og ríki hans einnig og öllum mönnum er boðin þátttaka í því. Jesús miðlar okkur hugsunum Guðs og afstöðu hans til okkar og var því kallaður Orðið. Lærisveinarnir sannfærðust um að Jesús væri Guð á meðal okkar og áváðu að nota líf sitt til að útbreiða þetta ríki.
* * *
Jóhannesarguðspjall segir ekki bara frá atburðum sem tengdust Jesú og gerðust fyrir löngu í Palestínu, heldur einnig því sem hann gerir enn þann dag í dag. Þetta er það sem gerir kirkjuna að lifandi samfélagi. Við trúum því að Guð sé nálægur okkur í heilögum anda hér og nú í hinu kristna samfélagi í kirkjunni og að hann sé hinn sami í gær og í dag og um aldir, máttugur til að vinna máttarverk í lífi okkar.
Ýmsir fræðimenn hafa séð tengsl við altarissakramentið annars vegar í frásögunni af því er Jesús mettaði 5.000 manns með fimm brauðum og tveimur smáfiskum og hins vegar þessari sögu er Jesús breytti vatni í vín. Í sakramentinu mætum við hinum upprisna í brauði og víni. Hin áþreifanlegu efni eru sýnileg tákn um nærveru hans. Þess vegna styrkir og nærir altarissakramentið trú okkar.
Hvaða lærdóm getum við dregið af þessari sögu sem getur nýst okkur í daglegu lífi?
Við getum öll lent í sömu aðstæðum og gestgjafarnir í Kana á einhvern hátt, erfiðleikum af ýmsu tagi. Við getum þá gert eins og María og farið með þá til Jesú. María hafði þau áhrif á Jesú að hann hafðist handa og leysti vandann í brúkaupinu. Jesús heyrir líka bænir okkar og getur leyst úr vanda okkar eða gefið okkur styrk til að lifa við hann. Náð hans stendur okkur öllum til boða. Hann getur breytt sorg í gleði og létt af okkur áhyggjum.
Vínið er tákn gleðinnar og nærveru guðsríkisins. Það varð ofgnótt af því í brúðkaupinu. Guðsríkið er stærra en við höldum. Jesús vill leyfa okkur að reyna ýmislegt í samfélaginu við hann sem við höfum ekki reynt áður ef við viljum og leggjum okkur eftir því. Hann er nær okkur og máttugri en við höldum. Hann er uppspretta gleðinnar og við þurfum að taka hana til okkar, ekki aðeins að snúa okkur til hans þegar á bjátar.
Atburðir undanfarinna daga sýna að við höfum möguleika á að gagna í lið með myrkrinu og láta sálu okkar nærast á ógæfu annarra. Jesús, býður okkur annan valkost: Veg ljóssins, sannleikans, virðingarinnar og kærleikans. Jesú er annt um gæfu okkar. Hann vill afstýra því að eitthvað fari á verri veg í lífi okkar. Öll leitum við raunverulegs og dýpri tilgangs með líf okkar. Hann er aðeins að finna í samfélagi við höfund lífsins. Lærisveinarnir trúðu á hann er þeir urðu vitni að undrinu sem hann kom til leiðar. Gerum við það?